Hver les nú svoleiðis bók?

Þegar systur voru að fara að sofa rak Elísabet augun í bók á náttborðinu mínu, bókina um Vigdísi forseta. Hún fór að hlæja: "Vigdís? Ertu að lesa bók sem heitir Vigdís?"

Ég úrskýrði fyrir henni að þetta væri ævisaga Vigdísar Finnbogadóttur. En blessað barnið hélt bara áfram að hlæja og sagði svo: "Hver les nú eiginlega svoleiðis bók?"

Ég var ósátt við þetta óskiljanlega virðingarleysi, þar til hún hélt áfram: "Er skrifuð heil bók um hvað gerðist fyndið þegar hún var þriggja ára? Og hverjir voru vinir hennar í leikskóla?!"

Líklega hefur þetta blogg í gegnum árin aðeins ruglað hana í ríminu.


Sá sem þorir

Við mæðgur sátum við sjónvarpið í vikunni, flettum á milli stöðva og leituðum að einhverju sem systur mættu horfa á fyrir svefninn. Á einhverri rásinni var fyrirsætukeppni og þegar einn dómaranna sást á skjánum lýsti Margrét því yfir að henni þætti hann svo skemmtilegur. Þetta er einhver tískugaur og hattagerðarmaður, skilst mér. Elísabet tók undir að hann væri skemmtilegur og þær töluðu um hvað hann væri óvenjulega klæddur.

Þegar ég nefndi að hann væri hommi, þá rann upp ljós fyrir Elísabetu: "Jájá, ég sé að hann er svona maður sem þorir alveg að vera eins og hann vill vera."

Svo hélt hún áfram og lýsti vini sínum, sem gæti alveg eins verið hommi að hennar mati, af því að hann heilsar stelpum alveg jafn vinalega og strákum og er alveg sama af hvoru kyninu leikfélagarnir eru. Hinum strákunum finnst asnalegt að leika við stelpurnar, en hann gerir nákvæmlega það sem hann sjálfur vill og lætur viðhorf þeirra ekki hafa áhrif á sig.

Skemmtilegar pælingar og mun áhugaverðari en þessi fyrirsætukeppni.


Bleikt er úti

Systur og Tara eru inni í herbergi, búnar að tengja iPod við míkrófóninn hennar Elísabetar, syngja með, spila á gítar og slá taktinn á eitthvað. Eitthvað sem veldur ógurlegum hávaða um allt hús.

Þær eru að fara á skemmtun í Víkingsheimilinu. Skemmtunin er haldin af eldri fótboltastelpum, sem finnst fín hugmynd að hvetja allar til að mæta í bleiku. Systur og Tara ætla sko EKKI í bleiku. Þær eru nýbúnar að hrista af sér bleika tímabilið og það þykir greinilega barnalegt. Þess vegna eru þær ofursvalar, í svörtu og gráu. Ekki svörtu og hvítu, það væri líklega of KR-legt.


Popp og skrúfur

Tæplega fjögurra mánaða bloggpása er nú aðeins of mikið af því góða! Er það ekki, Garún?

Ekki er tíðindalaust hér á Logalandsvígstöðvunum. Aldeilis ekki. Og samt sleppti ég öllu bloggi um jól og um skíðaferð til Akureyrar og nú er að líða að 9 ára afmælinu og enn gerist fátt hér á síðum. Ég bæti úr þvi.

Talandi um afmæli: Systur eru afskaplega uppteknar af því hvað þær ætla að gefa hvor annarri. Ég get auðvitað ekki upplýst neitt slíkt, enda eru krílin fyrir löngu orðin læs og vafra um á tölvunni. Um jólin var hið sama uppi á teningnum; þær veltu báðar fyrir sér hvað þær ættu að gefa systur.

Af því að þær eru afskaplega ólíkar voru vangavelturnar í norður og suður. Pabbi gaf þeim dálítinn pening fyrir jólagjöfum og það kom aldrei annað til greina en að eyða því öllu í systur. Svo ákváðu þær sig loksins. Kata fylgdi Margréti í Toys'R'Us þar sem hún keypti flottan míkrófón á standi. Þegar Elísabet æfir poppstjörnutakta glymur um allt hús og hún getur líka tengst iPod við græjuna og sungið með. Á græjunni er meira að segja takki, sem framkallar dúnrandi lófatak eftir góða frammistöðu. Elísabet táraðist af hamingju þegar hún fékk gjöfina og ætlaði aldrei að hætta að knúsa systur.

Ég fór með Elísabetu í búðir að kaupa gjöfina fyrir Margréti. Í Ikea fundum við hina fullkomnu gjöf: Verkfærakassa og lítið rafmagnsskrúfjárn. Margrét ætlaði að ærast úr gleði þegar hún sá hamarinn, sögina, skiptilykilinn og skrúfjárnið og hafði aldrei fyrr fengið aðra eins gjöf. Nú má ekki losna um skrúfu án þess að hún komi hlaupandi og nagli er ekki settur í vegg án hennar aðstoðar.

Ólíkar, það má nú með sanni segja.

Ég er komin fram að jólum. Nú tek ég aftur pásu. En bara örstutta.


Margrét Elísabet Ingiríður Elísabet Margrét

Margrét Elísabet Ingiríður Elísabet Margrét er komin í hús!

Mikil var hamingjan í Logalandinu þegar Prinsessan á Bessastöðum barst inn á heimilið. Við eigum bókina um Ballið á Bessastöðum og skemmtun okkur konunglega við lesturinn. Gerður Kristný er auðvitað guðdómlega fyndin og þær systur, Margrét og Elísabet, voru yfir sig hrifnar af forsetanum sem vildi helst vera ýtustjóri. Þegar ég sagði þeim að Gerður Kristný væri að skrifa nýja bók um forsetann og að í henni væri prinsessan og nafna þeirra, Margrét Elísabet Ingíríður Elísabet Margrét, þá gátu þær varla beðið.

Nú eru þær systur löngu orðnar fluglæsar. Í gærkvöldi skriðu þær upp í rúm og lásu fyrir svefinn. Margrét las um Doktor Proktor og prumpuduftið, en Elísabet er í sveitarómantíkinni með söguna um Öddu eftir Jennu og Hreiðar.

Kannski vilja þær lesa Prinsessuna á Bessastöðum sjálfar. Það kemur hins vegar ekki til greina! Ég ætla sko að lesa hana fyrir þær, svo ég missi áreiðanlega ekki af neinu. Svo verð ég bara að stilla mig um að klára hana þegar þær eru sofnaðar LoL


Er Y í háskóla?

Kata var að gera stafsetningaræfingar með stelpunum sínum.

Hún las upp nokkur orð, fyrst fyrir Margréti og síðan Elísabetu, sem þær skrifuðu samviskusamlega upp.

Elísabet fékk óvart öllu þyngri orð, öll með y sem er ansi erfitt fyrir 8 ára krakka.

Kata fékk að vonum samviskubit yfir því hvað hún lagði erfiða þraut fyrir Elísabetu og útskýrði málið með því að hún hefði ruglast, hún væri svo vön að kenna í háskóla þar sem hún legði þungar spurningar fyrir nemendur.

Margrét fylgdist með útskýringunum, melti þetta með sér í smástund og spurði svo: Er y í öllum orðum í háskóla?


Hvatning

Obama fékk friðarverðlaunin.

Það var og.

Ég er að hugsa um að leggja fyrir mig skáldskap. Vill ekki einhver vera svo vænn að láta akademíuna vita, svo ég fái bókmenntaverðlaun Nóbels á næsta ári? Það væri svo góð hvatning . . .


Út í veður og vind

Frá því að ég hætti á Mogga, sem var nú bara fyrir rúmri viku, hef ég verið óskaplega dugleg hér heima við. Bílskúrinn hefur aðallega notið góðs af. Hann er nú til mikillar fyrirmyndar, allt í röð og reglu. Og allt það dót, sem þarf að vera þar yfir veturinn, var komið í skjól áður en snjóaði. Öll garðhúsgögn, stólar, borð og bekkir og líka grillið, gashitarinn og trampólínið.

Þrátt fyrir óveðursspá svaf ég hin rólegasta í nótt. Ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af nokkrum sköpuðum hlut við húsið, þetta var allt saman lokað inni í  bílskúr.

Þegar ég leit út um gluggann í morgun sá ég að opnanlegi glugginn á litla kofa systranna hafði fokið upp, rifnað af hjörum og lá í grasinu. Ég benti systrum á þetta, fumandi af óveðursótta. Þær spurðu bara hvort ég ætlaði ekki að laga þetta.

Ég er búin að koma glugganum aftur fyrir, bölvandi og ragnandi í roki og rigningu með skrúfjárn, tangir, borvél og hamar að vopni. Flestir eru handlagnari en ég, en hann hangir samt nokkuð eðlilega á sínum stað og til að tryggja hann enn betur er kominn öflugur krókur að innanverðu.

Þessi óvænta uppákoma mun áreiðanlega ræna mig svefni næstu nótt. Það þarf nú ekki meira til.


Passar vel

Margrét horfði á Kötu og velti vöngum.

Kom svo með lýsinguna á móður sinni: Hávaxin. Alltaf í fötum sem passa saman. Passar vel upp á heilsuna. Alltaf góð og stundum ströng.

Kata var þokkalega sátt við lýsinguna.


Kortaframleiðsla

Systur eiga frí í skólanum í dag. Þær tóku daginn snemma og Tara kom yfir. Svo bættist Marta María í hópinn og loks Halldóra. Allt herbergið þeirra var undirlagt. Þær hafa verið að undirbúa tombólu, þar sem aðallega verða til sölu ýmis heillaóskakort, sem þær gerðu sjálfar. Hjörtum skreytt ástarkort, "til hamingju með ferminguna", "Gleðileg jól", "Til hamingju með afmælið" o.s.frv. Allt skrifað með ægilega fínu glimmer-letri og hlýtur að seljast eins og heitar lummur.

Margrét kom einu sinni fram og spurði hvort "hamingju" væri skrifað með j-i. Ég sagði henni að svo væri. Þá sagðist hún oft ruglast og það væri áreiðanlega vegna þess að við mömmurnar værum svo óöruggar á þessu, við hefðum stundum sagt henni að það væri ekkert J í þessu orði! En ef þetta væri rétt hjá mér - í þetta sinn - þá ætlaði hún að muna það framvegis.

Þær voru að vonum orðnar glorsoltnar af vinnunni þegar ég var búin að gera klatta. Ég gerði heilan haug og gerði mér vonir um að einhver afgangur yrði fyrir mig. En hann var ósköp rýr; þessum stelpum finnst gott að fá klatta.

Núna er Logalandsgengið farið í danstíma, en Halldóra fór í tónlistartíma. Ég reikna með áframhaldandi fjöri síðar í dag.

Svona er þá lífið utan Mogga ;)

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 785893

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband