Ferðalagið

Í gærmorgun kom ég heim frá London, eftir heldur óskemmtilegt ferðalag. Ég er búin að jafna mig að mestu, en á áreiðanlega töluvert í land að endurheimta mannorðið!

Ég fór út á fimmtudag. Heimferðartími var framan af dálítið óljós, ég vildi gjarnan losna við London-Glasgow-Akureyri-rúta til Reykjavíkur og freista þess að komast beint til Keflavíkur, en að morgni sunnudagsins sá ég að sú bið gat orðið löng og eins gott að drífa sig í bókað flug þann daginn.

Vélin átti að fara kl. 13 og ég var búin að tékka mig inn á Heathrow kl. 11. Allt í sóma til að byrja með. Að vísu varð fljótlega ljóst að áætlun stæðist ekki. En ég átti fínan boðsmiða í betri stofuna á Heathrow og sat þar yfir bresku blöðunum í rólegheitum.

Eitthvað var nú samt öðruvísi en átti að vera. Þarna buðust mér alls konar kökur og kruðerí og drykkjarföng eins og ég gat í mig látið. En ég kom bara alls engu niður. Það er afskaplega ólíkt mér, en ég píndi þó í mig dálítið saltkex og kóksopa, þótt ég væri undarleg í maganum.

Vélin fór ekki frá Heathrow fyrr en 16.30. Þá var ég farin að titra og skjálfa, með beinverki og áfram þessi undarlegheit í maganum, sem voru nú bara mikil ónot að svo komnu máli. Ég fór í apótek, keypti verkjalyf og hitastillandi, tróð mig út af þessu og hálfmókti  í þessu klukkutíma flugi til Glasgow. Skömmu fyrir lendingu hrökk ég upp við að eldingu laust niður í vélina. Það var auðvitað fyrirboði áframhaldandi sælu.

Við lentum í Glasgow kl. 17.30. Vélin átti samkvæmt áætlun að fara þaðan kl. 18 og alveg ljóst að það tækist ekki. Farþegar tosuðu töskunum sínum út, yfir í næsta terminal og biðu innskráningar. Þarna stóð ég og var bara nokkuð brött, miðað við allt. En svo kom yfir mig þessi svimi og ég fór að síga saman, hékk á töskunni minni, góðviljaðar konur í röðinni hálf gripu mig og næst þegar ég vissi af mér lá ég endilöng á gólfinu. Í fyrsta skipti á ævinni sem ég lognast svona út af. Konurnar tóku á mér púls, karl var sendur á hlaupum eftir vatni, hann gaf mér líka brjóstsykur og kona bauð mér af súkkulaðinu sínu. Ég staulaðist á fætur og hafsjór fólks opnaðist til að hleypa mér að innritunarborði. Úff! Allt saman var þetta fólk afskaplega elskulegt og ekki því að kenna hversu lítt ánægjuleg þessi uppákoma var.

Ég staulaðist á kaffihús í brottfararsal og reyndi að koma ofan í mig kaffi og einhverju afspyrnu vondu orkustykki. Gekk það heldur illa. Þarna var klukkan að verða 19 og ljóst að vélin færi ekki strax í loftið. Ég ákvað því að fara á betri stofuna á þessum velli, þar væri alla vega náðugt og gott að bíða fram að flugi.

Ég var lengi að rölta og finna þessa blessuðu betri stofu. Inn eftir gangi, til vinstri hjá apóteki, hægri hjá viskíi, beint áfram framhjá nammi, karlmannafötum og leikföngum, svo í lyftu upp á aðra hæð og stóð þá loks við dyrnar. Klukkan var 19.00. Betri stofunni var lokað kl. 19.00.

Niður og í plaststóla nálægt brottfararhliði.  Seturnar voru nokkurn veginn sléttar og því hægt að leggjast út af. Og þar lá ég og skalf í drjúga stund.

Við fórum loks um borð í vélina til Akureyrar kl. 22. Svo biðum við um borð, eftir að lokið væri við að hlaða  vélina. Klukkan 23 sagði flugstjórinn að því væri að ljúka. Skömmu síðar var hleðslu lokið. En þá kom í ljós að vélin var ofhlaðin. Hlaðmenn í Glasgow voru 20 mínútur að plokka eitt tonn út úr vélinni. Ég hugsaði með mér að taskan mín væri pottþétt ein þeirra sem yrði eftir. Þarna var ég nefnilega farin að missa trúna á eigin heppni.

Við fórum í loftið um kl. 23.30. Framundan var tveggja tíma flug til Akureyrar. Og alltaf varð ég ómögulegri. Þar dugði ekki einu sinni þótt ég fengi fyrsta klassa umönnun hjá Björgu yfirflugfreyju, sem er vinkona Ásthildar systur. Hún gaf mér meira að segja blómadropa, til að reyna að hjálpa mér til heilsu. Líklega hefur hún áttað sig á því hvað ég er viðkvæmt lítið blóm, sem fellur í yfirlið af minnsta tilefni!

Ég sýndi fullkomið vanþakklæti, rauk inn á salerni og skilaði dropunum frá mér. Ásamt öllu öðru sem ég hafði –og hafði ekki - getað borðað þann daginn. Frábær tilfinning að vera með uppköst á flugvélarsalerni.

Ég fór nú að hjarna við. Björg yfirflugfreyja hélt áfram að stjana við mig. Mér tókst að sofna dálítið, en um hálftíma fyrir lendingu færði Björg mér heitt og vel sætt te. Heilt glas og hvatti mig til að reyna að koma því niður, því einhverja orku yrði ég að fá. Ég var sammála þessu og saup af og til á, örlitla sopa. En ég var bara svo úrvinda að ég var alltaf að detta útaf. Og í eitt skiptið hrökk ég upp þegar vélin tók dýfur yfir Eyjafirði, kippti að mér hendinni og hellti nær fullu glasi af volgu tei yfir mig. Beint í klofið.

Kerlingin hafði sem sagt fyrst steinlegið í Glasgow, svo kastað upp hálfa leiðina til Akureyrar og nú var hún með stóran blett framan á buxunum sínum. Þetta leit satt best að segja afleitlega út. Gat eitthvað fleira farið úrskeiðis?

Við lentum á Akureyri . Þar var önnur þota nýlent. 400 farþegar úr báðum þotunum reyndu að nálgast farangurinn sinn og komast í gegnum fríhöfn og tollafgreiðslu. Áhugavert.

Um borð í vélinni hafði ég verið ákveðin í að hringja í félaga minn, sem á gistiheimili á Akureyri, og fá að sofa þar til morguns. En núna vildi ég bara komast sem fyrst heim. Taskan mín hafði skilað sér, merkilegt nokk. Ég fór út í rútu, kom mér vel fyrir og svo var lagt af stað til Reykjavíkur.

Núna var allt í lukkunnar velstandi. Ég svaf eins og ungabarn (á lyfjum, vissulega!) og rumskaði bara þegar einhverjir fóru frá borði á Blönduósi. Svo var stoppað í Staðarskála og þá vaknaði ég aftur. Klukkan orðin 5 á mánudagsmorgni og ég fann að loksins, loksins gæti ég borðað eitthvað. Ég fór inn og pantaði pylsu og kók.

Kortinu mínu var hafnað.

Ef fólk heldur að ég hafi haft einhvern húmor fyrir þessu, klukkan 5 að morgni, þegar ég var að reyna að nálgast fyrstu máltíð sem ég hafði haft lyst á frá laugardagskvöldi, þá er það misskilningur.

Ég varð gjörsamlega kjaftstopp. Var reyndar með fullt veski af pundum. Og hefði getað haft rænu á að ná í debet-kortið, sem leyndist í veskinu. En áður en ég hafði náð áttum sagði kona við hliðina á mér, að þar sem hún vissi til þess að við værum skyldar, þá ætlaði hún að bjóða mér upp á þessa pylsu. Ég átti greinilega afar miskunnsama og góða samferðamenn, sem vildu mér allt hið besta, þar á meðal Ketilbjarnar-leggurinn. Takk fyrir það.

Áfram svaf ég og vaknaði á Umferðarmiðstöðinni rétt fyrir 7. Tók leigubíl heim og ræsti Kötu, sem borgaði fyrir hann, af því að ég var ekki enn búin að átta mig á möguleikanum á að borga með debet. Ég hugsaði ekki alveg skýrt. Getur einhver álasað mér fyrir það?

Ég ætla ekki út fyrir landsteinana á næstunni, ef ég mögulega kemst hjá því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eru þettað nokkuð Björgólfskenna heilkenni.?

Númi (IP-tala skráð) 27.4.2010 kl. 13:30

2 identicon

Suma daga á maður bara einfaldlega ekkert að fara á fætur. Einu sinni lá ég veik heima og spúsi minn hringdi og sagði mér að hann þyrfti að senda mann heim til að sækja svolítið. Maðurinn hét Kristinn Sigmundsson og þegar hann hringdi dyrabjöllunni horfði ég í naflann á honum, og leið næstum í öngvit þegar hann opnaði munninn og röddin fyllti forstofuna mína. Skömmu síðar var dyrabjöllunni hringt aftur. Úti stóð mótorhjólalögga í fullum hertygjum, ekki minni um sig en Kristinn blessaður og aftur horfði ég í naflann á gestinum, enda er ég ekki nema rétt rúmlega málband á lengd. Bíllinn okkar var þá ólöglegur á gangstéttinni. Ekki nóg með það, hann var rafmagnslaus og ég ekki keyrandi á þessum árum svo það var ekki einu sinni hægt að færa helvítið. Við sluppum samt með sekt. Seinna um kvöldið kom eiginmannsnefnan heim og gladdi mig með því að það hefði verið keyrt utan í bílinn og hann væri að fara í tveggja vikna vinnuferð út á land. Leiðrétting við fyrstu setningu þessarar færslu: suma daga á maður bara ekki einu sinni að vakna. Tveggja vikna vinnuferðin teygðist upp í 3 vikur og minnstu munaði að fá þyrfti staðgengil í brúðkaupið okkar, því hann kom heim á fimmtudagskvöldi og við giftum okkur á laugardegi. Suma daga á maður bara ekki að vakna.

Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 27.4.2010 kl. 13:55

3 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Suma daga á maður alla vega ekki að fara til dyra, Nanna ;)

Og Númi: Ég hafði hreint ekki hugmyndaflug í að kenna Björgólfi Thor um þetta! En miðað við allt sem sá maður á að hafa gert af sér fer hann örugglega létt með að axla þetta líka.

Ragnhildur Sverrisdóttir, 27.4.2010 kl. 15:27

4 identicon

Alveg frábær ferðasaga En hvað ég vorkendi þér með helv kortið Ég sá þig í anda í yfirliði og skrölta í betristofuna

Gangi þér og þínum allt í haginn

JFriðrik Kárason (IP-tala skráð) 27.4.2010 kl. 21:02

5 identicon

Ekki finn ég til með þessum hrappi Björgólfi Thor.

Númi (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 20:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband