7.10.2008 | 10:15
Nestið
Margrét sat við eldhúsborðið og fékk sér hressingu í morgunsárið á meðan ég smurði nesti.
Svo spurði hún: "Þýðir kreppan að við fáum minna nesti?"
Ég fullvissaði hana um að svo yrði ekki. Og ítrekaði að hún þyrfti alls ekkert að hafa áhyggjur af þessu, við mamma myndum sjá um að allt yrði í góðu lagi, eins og hingað til.
Hún varð eiginlega móðguð: "Ég bara verð að spyrja. Ef ég fengi allt í einu lítið nesti, þá verð ég að vita hvort það er út af kreppunni!"
Mikið rétt og fullt nestisboxið fór í skólatöskuna.
- - - - - -
Mamma skólabróður þeirra gekk með okkur Kötu heim þegar við höfðum fylgt systrum í skólann. Hún sagði okkur að strákurinn sinn hefði talað um að þær systur ættu tvær mömmur.
Og svo bætti stúfurinn við: "Og þær eiga líka trampólín!"
Rétt hjá honum. Tvær mömmur og trampólín eru klárlega auðævi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.10.2008 | 22:02
Hamingjan er ekki nammi
Dóra Mörtumamma sótti Logalandsgengið í fótbolta og fór með þær heim. Þegar ég skrölti heim úr vinnunni bauð hún mér yfir. Kata kom stuttu síðar og Thelma Törumamma bættist í hópinn í kjölfarið.
Það var gott að vera í góðra vina hópi eftir þennan hörmungardag. Hérna tengjast vinafjölskyldur Glitni og Landsbanka, svo gott pizzakvöld með stelpunum okkar -og Stebba litla ofurkrútti- var akkúrat það sem við þurftum.
Þegar við komum heim tóku við umræður um kreppu, hvaða fyrirbæri þetta væri og hvernig ætti að taka á því. Við útskýrðum mál, en ekki í neinum smáatriðum, enda eru systur bara 7 ára og á þeim aldri eiga börn ekki, mega börn ekki, velta fyrir sér fjármálum, hvort sem er á familíuskala eða þjóðarbús. Þær voru líka pollrólegar, systurnar.
Eitthvað hefur dramatík dagsins þó síast inn, því Margrét spurði fyrir svefninn hvort kreppa þýddi að þær mættu ekki fá nammi í margar vikur. "Það er sko allt í lagi, ég þarf ekkert að fá nammi," sagði krúttið og þá hófust aftur umræður um að fólk ætti ekki að mikla fyrir sér vandann. Við hefðum allt sem við þyrftum til að vera hamingjusamar.
Systur voru sammála því og sofa svefni hinna réttlátu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.10.2008 | 11:48
Grátandi lóðbeint til helvítis
Pistill í Mbl. 6. okt.
Taugaveiklunarlegar yfirlýsingar í kreppunni eru sumar nánast fyndnar. Eða öllu heldur tragikómískar. Ég er alla vega svo illa innrætt að glotta út í annað þegar fullorðnir menn, sem ættu að vita betur, gráta og veina á sjónvarpsskjánum af því að allt er að fara til fjandans hjá þeim og þjóðin öll hlýtur að fylgja þeim lóðbeint til helvítis.
Ég glotti auðvitað af því að ég er sannfærð um að þeir meina þetta ekki allt í raun og veru. Þeir eru bara að framfylgja dagskipuninni, að væla sem mest þeir mega til að hafa áhrif á atburðarásina. Auka söluna tímabundið eða beina athyglinni frá eigin verðhækkunum. Og ýta á stjórnvöld að gera það sem þeim sjálfum kemur best.
Þannig hlýtur því að minnsta kosti að hafa verið farið með yfirmann Bónusverslana, sem spáði miklum vöruskorti hér á landi innan skamms. Og beinlínis hvatti fólk til að hamstra eins og hér væri að skella á hungursneyð. Svo var eins og hann fengi bakþanka og þá ítrekaði hann að íslenskar vörur væru þrátt fyrir allt bestar og fólk ætti endilega að kaupa þær! Þetta virkaði svo vel að verslanir hans fylltust af fólki með skelfingu í hverjum andlitsdrætti.
Forstjóri olíufyrirtækisins N1 bætti um betur og lýsti því að nú væru birgðir af olíu í landinu nánast á þrotum. Í framhaldinu tóku alls konar minni spámenn af honum ómakið, bættu við og ýktu enn og þegar hysterían hafði grafið rækilega um sig var öllum ljóst að nú voru ekki bara bílar landsmanna að stöðvast, heldur líka allur fiskiskipaflotinn!
Verða landsmenn allir á fá sér dálitla bátskel til að ná einhverju trosi í pottinn?
Lítið finnst mér leggjast fyrir þessa kappa á þessum síðustu og verstu tímum þar sem vissulega er við erfiðleika að etja. Þeir ættu að taka sig saman í andlitinu og sinna vinnunni sinni, í stað þess að kvarta og kveina í sjónvarpinu. Og ef þeir gera það ekki upp á eigin spýtur ættu yfirmenn þeirra að taka í lurginn á þeim. Hvað finnst til dæmis alþingismanninum, sem situr sem stjórnarformaður N1, um framgöngu forstjóra síns? Er hann sáttur við að fyrirtæki hans fái á sig stimpil taugaveiklunar og múgæsings? Að forstjóri hans hræði úr landsmönnum líftóruna, á meðan þeir sem ráða fyrir flokki hans leggja nótt við dag að finna lausn á vandanum?
Þegar ein kýrin mígur verður annarri mál. Í útvarpinu var skýrt frá óvenjumiklum áhuga hobbýbænda á líflömbum þetta haustið og strax farið að fabúlera um að nú ætluðu menn að tryggja sér mat í kreppunni með því að stækka við frístundabústofninn. Allir geta ímyndað sér framhaldið: Nokkrar skjátur við hvert hús svo blessuð börnin fái stundum ferskt kjöt í þeim harðindum sem eru um það bil að skella á þjóðinni!
Erum við alveg að missa tökin á raunveruleikanum?
Er ekki betra að bíta á jaxlinn en gera sig að fífli með svona upphlaupum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.10.2008 | 23:58
Laugardagsdjamm Logalandsins
Systur fóru í afmæli bekkjarsystur í morgun. Hún er örverpið í fjölskyldunni og á hvorki fleiri né færri en þrjár stórar systur. Ein þeirra er að læra förðun, svo systur komu óskaplega fínar og skveraðar úr afmælinu.
Við kíktum aðeins við á gamla leikskólanum þeirra, sem fagnar 40 ára afmæli um þessar mundir. Þær spígsporuðu um, rígfullorðnar, og þóttust nú aldeilis muna eftir sér á skiptiborðinu á kríladeildinni. Og voru alveg með bláu deild á hreinu, þar sem þær voru þar til fyrir rúmu ári.
Addý og Bára buðu okkur í mat í kvöld og systur pökkuðu eins og þær væru að fara í næturgistingu. Dálítið af leikföngum, inniskór og uppáhalds tuskudýrin voru með í för. Svo syfjaði þær óskaplega þegar leið á kvöldið, en þegar guðmæðurnar stungu upp á að þær færu bara að sofa í herberginu sem þær "eiga" þar (í þeirri von að við fullorðnu gætum spjallað saman aðeins lengur) tóku þær það ekki í mál. Næturgisting krefst lengri aðdraganda og þá eigum við Kata ekki að vera nærri. Þá eiga þær guddurnar sínar með húð og hári, fá að ráða matseðli og hafa sína hentisemi með alla hluti. Þær fengu þess vegna loforð um næturgistingu fljótlega og við hypjuðum okkur heim með örmagna unga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.10.2008 | 19:00
Flýtum okkur!
Magga systir sótti systur eftir skólann í dag og fór með þær heim til sín. Þar tróðu þær sig út af brauði og fínu bakkelsi.
Svo ákváðu þær þrjár að kíkja til afa og ömmu. Elísabet rak mjög á eftir Möggu frænku sinni þegar þær komu út í bíl: "Við verðum að flýta okkur, afi Ís er alltaf svo stundvís"!
Hún er löngu búin að læra að það er hægt að stilla klukkuna eftir afa Sverri. Og að hann hefur litla þolinmæði með fólki sem segist ætla að kíkja í heimsókn klukkan þrjú og kemur svo kannski heilum tíu mínútum síðar.
Hjá afa Ís og ömmu Deddu var svo rólegt að værð sveif á þær systur. Þær skriðu upp í stofusófa og steinsofnuðu báðar tvær í hálftíma. Magga sagði að það hefði verið dálítið erfitt að fá þær til að opna augun og klæða sig í fimleikabúningana.
Þegar ég sótti þær í fimleikana var öll syfja runnin af þeim. Þær fóru heim til Töru til að bíða eftir Kötu, en ég fór aftur í vinnuna. Kata ætlar með þær í "náttfatasund" sem er mikill lúxus. Þá fá þær að fara beint í náttkjólana eftir góðan sundsprett, fá svo pylsu og ís og skríða örmagna heim í rúm.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.10.2008 | 12:43
Snjór
Systur voru á leið í háttinn þegar við sáum að farið var að snjóa úti.
Þær ærðust af fögnuði og við Kata vorum líka mjög kátar (og vonuðum að systur heyrðu engan falskan tón í fagnaðarlátunum )
Þær gátu auðvitað ekki farið strax að sofa, heldur fóru í úlpu og stígvél og út í garð. Þar hnoðuðu þær snjóbolta og grýttu í mig. Sem var allt í lagi, því ég var inni og boltarnir sem skullu á rúðunni sköðuðu mig lítið.
Ég lýsti áhyggjum mínum af Litla kúluskít (sem heitir formlega Ford Ka), sagði að ég væri í vondum málum ef hann fennti í kaf. Og þyrfti nú ekki mikið til þess.
Þær ruku fram fyrir hús, til að skoða bílinn á bólakafi í snjó, en auðvitað var ástandið ekki svo slæmt.
Í morgun voru þær fljótar með morgunmatinn og drifu sig svo út að bursta af bílnum. Þeim fannst það alveg tilvalið, svona áður en þær færu í skólann. Og fegin var ég.
Snjórinn er víst góður!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.10.2008 | 11:55
Hlýja
Þessa síðustu og verstu daga er best að láta hugann reika til sumarsins.
Við áttum ljúfar stundir hjá Möggu systur og Pétri á Kirkjubæ við Ísafjörð. Þar var endalaus blíða og engar áhyggjur. Systur borðuðu ís út í eitt og nutu alveg sérstaklega samvista við Sverri frænda. Þeim finnst reyndar óbærilegt að hugsa til þess að einhvern tímann komi að því að hann verði ekki á staðnum, blessaður unglingurinn. Hann hefur alltaf verið á Kirkjubæ um leið og þær, alveg frá því að þær komu þangað fyrst, 4 mánaða! Spurning hvort hægt verði að semja við hann um að koma þar við eina viku á ári, þótt hann fullorðnist svona hratt?
Bryndís systir sendi mér þessa mynd áðan og hún yljar í kuldanum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.10.2008 | 20:46
Björgun
Systur, Tara og Marta lentu í stórkostlegu ævintýri hérna fyrir framan húsið í morgun, á leiðinni í skólann.
Ég hef sérstakt leyfi Margrétar til að birta færslu úr dagbókinni hennar:
Saga.
Klukkan 8.03.
Í dag björguðum við fugli. Vængbrotnum fugli. Hann var á götunni. Við stoppuðum bíla og færðum hann á gangstéttina.
Hetjur.
Elísabet, Margrét, Marta og Tara.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.10.2008 | 23:50
Þeytingur og þema-kvöld
Sjaldan hef ég verið slappari að blogga.
Það er nú samt af nógu að taka. En ég veit ekki hvort ég myndi nokkru sinni hætta ef ég byrjaði á Glitni, forsetanum og öllu því öðru sem fer með skap almennilegs fólks.
Best ég haldi mig bara við systur.
Þær eru í fantaformi, spurðu að vísu um daginn hvað kreppa væri og ég fór eitthvað að þvælast fram og til baka með skilgreiningu. Kolla samstarfskona mín greip fram í og sagði þeim að kreppa væri að eiga ekki peninga. Það er áreiðanlega besta og einfaldasta skýringin.
Frístundaheimilisbömmerinn heldur áfram. Tara klíkufélagi er komin inn þrjá daga í viku, en við Kata erum orðnar vonlitlar. Þetta reddast nú allt saman. Í gær reddaðist það þannig að ég náði í þær klukkan 2 í skólann og þær sátu hjá mér í vinnunni að klára heimaverkefni, fengu mjólk og kleinuhringi og fóru svo í fimleika, en þangað sótti Dóra Mörtumamma þær og restina af Logalandsgenginu. Svona er þetta þessa dagana, alla daga. Systrum finnst þetta jafn frábært og mér finnst það glatað!
Þær eru alsælar að vera byrjaðar aftur í gítartímum. Þá hitta þær líka Evu Berglindi af gamla leikskólanum aftur. Hún kom í heimsókn á sunnudaginn. Sem þýddi að ég var skikkuð í kanelsnúðabakstur. Tara bættist i hópinn. Og Marta María. Og Stefán.... Þetta urðu ansi margir kanelsnúðar fyrir rest
Stefán bekkjarbróðir þeirra er nú meira krúttið. Hann er svakalegur orkubolti og svoleiðis gaurum fylgja alltaf einhverjar hrakfallasögur. Fyrir nokkrum vikum var hann allur krambúleraður eftir að hafa hjólað á fullri ferð á ljósastaur. Systur rifjuðu þetta upp síðast þegar þau hittust og spurðu hvort þetta hefði ekki verið sárt. "Jú, þetta var sko miklu verra en að handleggsbrotna!" svaraði litli töffarinn, ýmsu vanur Yndislegastur.
Systur fara til afa og ömmu á morgun eftir skóla, sem er alltaf jafn ljúft, því þar er svo rólegt og gott að þær koma afslappaðar og undurglaðar heim. Á föstudaginn ætlar Magga systir að sækja þær í skólann og dekra við þær frameftir degi. Heppnar þessar stelpur - og við - að eiga svona marga góða að.
Sjálf er ég heldur tætt suma dagana. Í gær ætlaði ég á fund með krílaforeldrum í Víkingi. Nú eða Kata, við vorum ekki búnar að ákveða hvor fengi þann heiður. Og mundum svo næst eftir fundinum rétt fyrir svefninn! Arg!!
Frú Urr hin upplýsta kom reyndar í heimsókn í gærkvöldi, svo okkur leiddist ekkert. Hún var að bera í okkur potta og skálar eftir Georgíu-matarklúbbinn mikla á dögunum. Matarklúbburinn sá var semsagt fyrir allt bankaævintýrið. Ástandið í Georgíu var klúbbfélögum þess vegna efst í huga, svo frú Urr gúglaði georgískar uppskriftir og klúbbfélagar steiktu, mölluðu og bökuðu allan laugardaginn. Svo borðuðum við tímunum saman, bölvuðum Saakashvili Georgíuforseta í sand og ösku og sungum tregafulla söngva frá Suður-Ossetíu.
OK, OK, við vorum kannski ekki aaaaalveg svona meðvituð. En elduðum alla vega mat frá Georgíu. Og frú Urr á ótrúlegt samsafn af stórundarlegri músík frá austurhluta Evrópu eftir áralangar tilraunir sínar til að tryggja öryggi þess heimshluta.
Þetta var góður matarklúbbur. Við höfum yfirleitt svona þema. Einu sinni var ítalskt kvöld, sem varð nánast að sólarhring af því að við vorum svo lengi að gera pastað frá grunni og allt sem við átti að eta. Svo var indverskt. Og þetta rússneska var þrekraun, það byrjaði svosem nógu sakleysislega með blini og kavíar, en við erum hreinlega ekki nógu hraust til að þola rússneska drykkjusiði. Þess vegna höfum við bara haft rússneskt í þetta eina skipti.
Hvað næst? spyr maður sig. Og þorir varla að leiða hugann að svarinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.9.2008 | 21:43
Allt samkvæmt formúlunni
Systur og Tara hafa lokið þátttöku sinni í Söngvaborg með sóma.
Þær voru frá 13-18 í gær og svo heilan vinnudag í dag, frá 9-17. Og alsælar allan tímann, að syngja og dansa með Siggu og Maríu, Masa, Lóu óþekku og öllu hinu genginu.
Margrét lýsti í smáatriðum fyrir okkur litla skjánum þar sem stóð það sem átti að segja og í kvöld sagði hún að kvikmyndavélarnar væru kallaðar formúlur. "Horfðu í formúlu 3, sagði maðurinn við Siggu," sagði hún.
En svo rifjaðist upp fyrir henni að þetta væru "kamerur" en ekki "formúlur".
Skiptir engu.
Steinsofnaðar og örmagna.
Hversdagurinn tekur aftur við á morgun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Logalandið
Bloggvinir
- margretsverris
- begga
- annapala
- stebbifr
- andreaolafs
- sms
- seth
- salvor
- hrafnaspark
- svartfugl
- vitinn
- ingibjorgelsa
- konukind
- eddaagn
- konur
- thorbjorghelga
- elvabjork
- steinunnolina
- jullibrjans
- toshiki
- adhdblogg
- malacai
- arndisthor
- asarich
- baldvinjonsson
- berglindnanna
- beggita
- birna-dis
- birtab
- bjb
- blomid
- dabbaa
- doggpals
- madamhex
- saxi
- ellasprella
- garun
- gislihjalmar
- neytendatalsmadur
- gudni-is
- lucas
- gylfig
- iador
- helgamagg
- skjolid
- hildigunnurr
- hildurhelgas
- himmalingur
- hlekkur
- danjensen
- innipuki
- jakobk
- jenfo
- joninaros
- prakkarinn
- nonniblogg
- julianamagg
- kari-hardarson
- kiddijoi
- kollak
- hjolaferd
- kristinm
- lenapena
- liljabolla
- lillagud
- lindalinnet
- 101isafjordur
- mal214
- mongoqueen
- olinathorv
- fjola
- amman
- siggiholmar
- sij
- sigthora
- zsapper
- svala-svala
- possi
- saemi7
- saethorhelgi
- steinibriem
- thorasig
- thorhildurhelga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar