Loforð

Systur kvörtuðu dálítið þegar ég kom að sækja þær á frístundaheimilið. Klukkan var orðin fimm og þessar dekurdúkkur höfðu aldrei upplifað að vera allan daginn. Þær voru nú ekki beint miður sín út af því, enda er alltaf gaman í Neðstalandi, heldur höfðu þær töluverðar áhyggjur af að þetta þýddi að við kæmumst ekki í sund.

Ég stend við stóru orðin. Sund, pylsur og kók.

Ég þarf bara aðeins að safna kröftum FootinMouth


Á kafi

Systur rumskuðu í morgun þegar mamma þeirra hafði sig til fyrir sólarhringsferð til útlanda. Þær knúsuðu hana og kysstu, en voru svo syfjaðar að þær mundu það eins og draum.

Í einhverri augnabliks viðkvæmni lofaði ég þeim að fara með þær í sund í kvöld. Það hefur sína kosti, því þær heimta pulsu og kók á eftir svo ég slepp við að elda.

Systur geta auðvitað ekki farið bara tvær með mér. Tara bættist við í gær og Marta María í morgun.

Logalandsgengið komst allt inn, en umsóknarfrestur er liðinn.


P

Enn eitt stafablaðið leit dagsins ljós í dag. Stafur vikunnar er P.

Margrét teiknaði fyrst ósköp sætan bangsa. Svartan og hvítan. Pandabjörn.

Næsta mynd var sú einfaldasta sem hún hefur teiknað á nokkru stafablaði. Hún dró bara lítill hring með blýantinum sínum og þetta litla, hvíta, kringlótta var auðvitað piparmynta.

Þriðja myndin var af blaði með stöfum á. Pappír.

Á síðustu myndinni er grænt og brúnt kvikindi með þreifara. Padda.

Elísabet notaði grænan, gulan, bláan, bleikan og brúnan lit í fyrstu myndina. Pils.

Á næstu mynd er búttuð stelpa, brún að lit, með þrjár tölur á maganum. Piparkaka.

Þriðja myndin er fagur vitnisburður um sjö ára húmor. Á henni sést veggfast klósett. Enginn stendur við þetta klósett, en niður í það streymir einangraður foss. Piss.

Fjórðu myndina hefur hún gert með því að láta krónu undir blaðið og lita yfir með blýant. Peningur.

Þær hafa ekki sést hér heima nema í mýflugmynd í dag. Thelma Törumamma sótti þær í frístundaheimilið og þegar ég kom heim úr vinnunni var púkastóð í götunni. Þær systur, Tara, Marta María, Unnur, Halldóra, Stefán, Jens tengdasonur birtist fljótlega og slatti af öðrum krökkum sem ég kann ekki að nefna.

Ég var búin að elda þegar systur tilkynntu að þær væru boðnar í mat hjá Töru.

En núna heyrast óskaplegir skruðningar á efri hæðinni. Ég reikna ekki með að það sé Kata.


Nýgift!

Systur sváfu fast í nótt og við urðum að ýta við þeim í morgun.

Ég spurði Margréti hvernig henni þætti að vera nýgift og hún sagði það vera "alveg ágætt". En hún hefur ákveðið að dvelja aðeins lengur í foreldrahúsum, þrátt fyrir hjúskapinn.

Séra Elísabet var hálf ringluð, hún hafði greinilega gefið sig alla í athöfnina í gær. Taugaspennan gerði þær systur úrvinda.

Enginn tími gefst að sinni til brúðkaupsferðar. Þær skoppuðu af stað í skólann með Töru og Mörtu. Í dag verður útikennsla og þær eiga að læra að þekkja í sundur birki, ösp, reyni og hvað þetta nú heitir. Ég er mjög sátt við það, þær geta þá kannski frætt mig aðeins. Samkvæmt mínum kokkabókum eru tvö tré fyrir framan hús og eitt mjög stórt tré í garðinum, svo eru minni tré eða runnar með austurhlið hússins og svipuð fyrirbæri við lóðamörk. Það væri áreiðanlega áhugavert að þekkja þetta í sundur með nafni. Ég gæti þá ávarpað gróðurinn. Góðan dag, Reynir minn. Hvað segirðu gott, Víðir? Mikið ertu fín í dag, Ösp! Margir möguleikar í þessu.

Röfla? Ég?

Það er þá eitthvað nýtt!

 


Gifting í fjölskyldunni

Þegar ég kom heim úr vinnunni voru systur enn í fimleikum. Thelma Törumamma hringdi í mig og sagði mér stóru fréttirnar: Að Margrét ætlaði að gifta sig í kvöld.

Forsagan var sú, að Stefán bekkjarbróðir þeirra sagði Margréti í dag að annar bekkjarbróðir, Jens, væri hrifinn af henni. Hvort hún væri kannski til í að byrja með honum? Margrét samþykkti það strax, enda hefur hún haft augastað á pilti um hríð.

Þetta er siðprútt fólk og ákvað að gifta sig med det samme. Thelma sagði að systurnar, Tara og Marta hefðu undirbúið allt saman vel og von væri á fjölda gesta heim til Jens í brúðkaupið, sem ætti að fara fram "strax eftir kvöldmat" Og Thelma tók að sér að hafa samband við foreldra Jens, til að kanna hvort þau væru með á nótunum.

Systur og vinkonur bjuggu til boðskort fyrr í dag. Þau voru einföld: "Þér er boðið í brúðkaup okkar. Kveðja. Hjónin."

Fyrirhugað brúðkaup hafði spurst út um allt. Hingað streymdu prúðbúnar stelpur og um hálf átta leytið mætti brúðguminn sjálfur að sækja Margréti. Öll hersingin gekk af stað í brúðkaupið, en brúðguminn hjólaði á undan og ætlaði að sækja Stefán vin sinn og svaramann í leiðinni.

Ég rölti með stelpuhópnum niður í dal. Þar gengum við fram og til baka á gangstéttinni, en ekkert bólaði á brúðgumanum. Eftir drykklanga stund fór mér að leiðast þófið og hringdi heim til Stefáns. Þar voru þeir félagarnir, Jens brúðgumi og Stefán svaramaður, að leika sér. Mamma Stefáns hafði ekki frétt af brúðkaupinu, svo undirbúningurinn rann dálítið út í þúfur þar. Hún kom hlaupandi með guttana og þá var loks hægt að halda heim til Jens.

Mamma Jens var heima og með þetta allt á hreinu, bauð öllum inn og lokaundirbúningur hófst. Jens  brúðgumi fór í svartan jakka og var orðinn glerfínn. Stefán svaramaður rauk þá til dyra og tilkynnti að hann þyrfti að fara heim að skipta um föt. Jens bjargaði málunum og lánaði honum skyrtu af sér.

Á meðan drengirnir hlupu um og höfðu fataskipti rýndi séra Elísabet í Biblíuna og reyndi að finna viðeigandi ritningargrein. Svo stillti Jens sér upp hjá henni, ásamt Stefáni. Stelpurnar hópuðust inn og sungu brúðarmarsinn "du-du-du-duuu, du-dudu-ruuu". Unnur gekk fremst og kastaði greinabútum á gólfið (hey, það er ekkert hlaupið að því að finna rósablöð á leiðinni frá Logalandi niður í Láland!), Tara gekk næst með plastarmband á bleikum, hjartalaga púða (hringurinn brotnaði á leiðinni niður í Láland), Margrét gekk þar á eftir og Lára var "kirkjugestir"

Elísabet gafst upp á Biblíunni og spurði einfaldega hvort þau vildu giftast. Þau vildu það og tókust í hendur.

Margrét gaf lítið út á það þegar tengdamóðir hennar spurði hvort þetta þýddi að hún ætlaði núna ða flytja inn til þeirra.


Hjól

Ég játa.

Ég hjólaði ekki í vinnuna í morgun.

En ég veit alveg hvar hjólið er. Og hjálmurinn. Og regnbuxurnar sem ég verð að setja í bakpokann, svona til vonar og vara. Ég veit líka hvar bakpokinn er.

Það er þó ágætis byrjun.


Krabbastaða

Hér er ekkert bloggað þessa dagana. Bloggarinn tók upp á þeim óskunda að ráða sig í fasta vinnu utan heimilis. Sem tekur vægast sagt mikinn tíma frá heimili, börnum og bloggi.

Systur taka þessu með brosi á vör, þótt þær hafi ekki komist í fótboltann sinn á þriðjudag, enda eru þær æfingar ekki tímasettar fyrir útivinnandi fólk. Þær ætla að reyna að komast á fimmtudag og auðvitað á sunnudaginn líka.

Núna hafa þær mikinn áhuga á fimleikunum, enda er árangur æfinga vetrarins að koma í ljós. Elísabet getur staðið á höndum upp við vegg, hún er líka farin að halda góðu jafnvægi í krabbastöðu og í kvöld æfði hún sig í að rétta úr sér í þeirri stöðu og standa á haus.

Margrét hefur verið nokkuð miður sín undanfarið. Systir hennar farin að standa á höndum og haus og Tara gaf ekkert eftir í æfingum inni á gólfi hjá þeim um kvöldmatarleytið.

Kata sá að við svo búið mátti ekki standa og hún og Margrét stunduðu krabbaæfingar af miklum móð fram eftir kvöldi. Margrét einbeitti sér og allt í einu small þetta. Hvílík hamingja! Hún knúsaði mömmu sína í bak og fyrir og kom svo skoppandi glöð inn á bað að tannbursta sig fyrir háttinn. Hún vildi ekki skilja mig útundan í gleðinni og þakkaði mér margsinnis líka, þótt ég hefði hvergi nærri komið. Krabbastaðan er ekki alveg "my thing", skulum við segja.

Margrét vildi ekkert af hógværð minni vita og hélt áfram að þakka mér fyrir þann frábæra árangur sem hún náði undir handleiðslu Kötu. Ég sagði henni að hún ætti að beina öllum sínum fimleikadraumum að mömmu sinni, hún gæti áreiðanlega bjargað þessu öllu saman, rétt eins og hún kenndi Elísabetu að kafa á dögunum. "Ég er viss um að þú ert líka mjöööög góð í krabbastöðunni, ef þú bara vilt," sagði hún hvetjandi.

Jamm.


Hinar ótrúlegu

Þrátt fyrir að mæður hafi verið í rífandi stuðpartýi fram til klukkan þrjú í nótt vorum við sprottnar á fætur upp úr níu til að ná í systur til ömmu Möggu og afa Torbens. Gítartíminn byrjaði klukkan 10. Ég velti því fyrir mér, frá klukkan 9 og fram til hádegis, af hverju í ósköpunum við gerðum þetta - og það sjálfviljugar. Og þá meina ég, að rífa okkur út úr húsi vegna gítartíma. Ég er ekkert að kvarta undan partýinu, sem byrjaði sem virðulegt matarboð og endaði í keiluspili í tölvu. Löööööng saga, en skemmtileg. En auðvitað gerði þetta útstáelsi morguninn erfiðari en ella, því er ekki hægt að neita. Sumir þurfa sinn svefn!

Systur spiluðu á gítar á meðan ég skrapp í bakarí. Svo dunduðu þær sér hérna heima, en upp úr hádegi ákváðum við að fara í ísbíltúr. Þá voru þær orðnar afskaplega óþreyjufullar, Marta María ekki heima og Tara ekki heldur.

Eftir ísbíltúrinn kom Stebbi bekkjarbróðir í heimsókn og svo fóru þau þrjú í heimsókn til Halldóru bekkjarsystur. Þegar Tara kom heim flýtti hún sér þangað. Skömmu síðar bönkuðu tveir töffarar upp á hér, en ég held að þeir hafi ekki elt systur og vini til Halldóru. Nóg var nú samt. Þetta er ótrúlega krúttlegt, þessir krakkar hópast alltaf saman og ég veit að í sumar verður krakkastóð í garðinum hjá okkur alla daga. Eða hjá Mörtu Maríu, Töru, Halldóru, Stebba. . . .

Ég rölti eftir þeim rétt fyrir klukkan sjö, á meðan Kata sótti pizzu. Svo tókum við kósýkvöld, horfðum á Incredibles og tróðumst allar undir teppi.

Systur kíktu á bloggið og lásu athugasemdir við eigin færslur. Ó MÆ GODD, sagði Margrét og þóttist fara ægilega hjá sér. Elísabet var svalari að þessu sinni.


Mont II

Elísabet vildi óð og uppvæg skrifa, eins og systir hennar. Hún sat jafnvel enn lengur við og var aldeilis ekki spör á ljúfu orðin, fremur en systir hennar:

TIL BESTU MOMMU Í HEIMI   EG  ELSKA ÞIG ÞU´ERT BESTA BESTA BESTA BESTA  MAMMA I OLUM HEIMI OG EG VONA AÐ
  
     ÞJER       GANGI VEL BESTA MAMMA BÆ BÆ :)

 

Já, ég veit, ég veit InLove


Mont

Margrét bað um að fá að skrifa "á bloggina". Sat svo lengi, lengi og þetta var niðurstaðan:


ELSKU MAMMA EG ELSKA ÞIG EINS OG ÞU ERT ÞU ERT SVO FLOTT AD EG ER AD SPRINGA UR MONTNI KÆR HVEDJA MARGRET:)

Yndislegust InLove 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband