22.4.2008 | 19:47
Á bloggina
Systur fóru á Valsæfingu í dag og höfðu legghlífarnar innan undir sokkunum, í fyrsta skipti. Legghlífarnar eru mjög flottar, svartar og silfraðar, en nú voru þær í splunkunýjum sokkum og féllust á að hafa þá yfir.
Af æfingu brunuðum við beint til Afa Ís og Ömmu Deddu, enda vissum við að þau voru með stóra, ósnerta súkkulaðiköku. Systur borðuðu hana hálfa, svei mér þá.
Næst var það Kringlan, að kaupa afmælisgjafir fyrir tvöfalt afmæli sem þær fara í á morgun. Svo brustu allir varnargarðar hjá mér og þrátt fyrir kokhreystina hér á blogginu fóru systur á McDonald's. Já, já, ég veit....
Þegar við komum heim ákváðu þær að skrifa kveðju til mömmu sinnar "á bloggina". Það tók laaaangan tíma. Margrét var sneggri og gerði fáar og ofurkrúttlegar villur. Hún fann víst ekkert vaff nema það tvöfalda og fannst það líka miklu flottara. Elísabet var miklu lengur, en hún sýndi og sannaði hvað hún getur skrifað rétt þegar hún vandar sig mikið.
Hérna eru kveðjurnar til þín, Kata ;)
ELSKU MAMMA. ÉG WONA AÐ ÞÉR LÍÐI WEL Í LONDON KNÚS OG KOSSAR FRÁ MARGRÉTI J
ELSKU MAMMA ÉG HLAKKA TIL ÞEGAR ÞÚ KEMUR HEIM. GVEÐJA ELÍSABET J
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
22.4.2008 | 09:37
Víkingar
Litlu Valsararnir mínir fögnuðu 100 ára afmæli Víkings með stæl í gær.
Felix Bergsson og fleiri fulltrúar Víkinga komu í Fossvogsskóla og gáfu öllum krökkunum Víkingsfána. Ég nappaði þessari mynd af heimasíðu skólans. Þarna eru bekkjarsysturnar Unnur, Margrét, Marta María, Elísabet og Tara í góðu Víkingsstuði.
Þegar ég fór með systur, Mörtu og Töru á fimleikaæfingu síðdegis í gær sungu þær einhvern heimatilbúinn hvatningarsöng, þar sem þær skiptust á að mæra Víking og Val. Systur reyndu að breyta textanum, vildu að hann fjallaði um að Víkingar væru góðir, en Valsarar bestir, en Marta og Tara mótmæltu því harðlega. Svo bæði liðin voru "best" í söngnum þeirra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.4.2008 | 17:15
Nei gegn auglýsingum
Ég er sammála þeim sem pirra sig yfir endalausum skyndibitaauglýsingum í barnatímum sjónvarpsins. En mér finnst fólk ganga fulllangt þegar það talar eins og skyndibitafíknin verði bara alls ekki hamin vegna þessara auglýsinga.
Systur spyrja stundum, þegar þær sjá auglýsingu t.d. frá Mc´Donalds um einhvern hroðann, hvort þær megi ekki fara þangað.
Þá segjum við Kata bara "nei"
Það er alveg þjóðráð.
Systur eru alsælar þá sjaldan þær fá að fara á þennan stað, en ég fullyrði að það er ekki nema kannski á tveggja mánaða fresti.
Áðan fóru þær að suða um eitthvað í gogginn. Ég bauð þeim gulrætur. Þær mögluðu, vildu það sko "alls ekki!". En núna er gulrótarpokinn nær tómur og þær suða sífellt um meira.
Ætti ég kannski að láta þær ráða þessu? Stynja bara, kenna auglýsendum um og gefa þeim franskar þegar hungrið sverfur að? Er það ekki alveg fullkomin uppgjöf?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.4.2008 | 15:16
Tímanna tákn
Ég gerði mér ferð í Ikea í dag og keypti þar hrúgu af mátulega stórum og hæfilega þunnum handklæðum til að dekka endalausa púkahúguna sem verður ofan í heita pottinum hérna í allt sumar, ef fer sem horfir. Fínt að eiga nóg af billegum handklæðum fyrir púkana, svo þau stóru og silkimjúku séu ávallt til taks fyrir þá stóru og silkimjúku ...
Ég fann líka klukkuna sem ég var að leita að. Systur eru nefnilega að rembast við að læra á klukku, en við gerum þeim afskaplega erfitt fyrir á þessu heimili.
Í svefnherberginu er digital klukka og systur ná auðvitað engum skilningi á nokkrum sköpuðum hlut með því að mæna á 07:23 eða 20:33 eða einhverjar aðrar óskiljanlegar runur.
Í stofunni er afskaplega fansý og í-tætlur-hönnuð veggklukka, svo últra smart að fólk þarf að vita að þetta er klukka, þá getur það farið að leita að vísunum og giskað svo cirka á hvað klukkan er. Þar skeikar léttilega 5-10 mínútum til eða frá. Klukkan er svakalega flott, en systur eru alltaf jafn bit þegar við segjum þeim að þetta sé í raun og veru tæki til að mæla tímann.
Í sjónvarpsholinu á neðri hæðinni er Morgunblaðs-veggklukka, til minningar um öll árin mín á Mogga. Og árin hennar Kötu líka. Þessi klukka er ekki með neinum tölustöfum. Í stað þeirra standa tólf bókstafir: M-o-r-g-u-n-b-l-a-ð-i-ð. Systurnar getið "lesið" á þá klukku, en eru engu nær um tímann. Margrét reynir stundum: "Klukkan er núna alveg að verða A" tilkynnti hún um daginn og hló eins og vitleysingur.
Í Ikea fann ég ofurvenjulega klukku. Stóra og kringlótta og á henni stendur einfaldlega 1-2-3-4-5-6-7-8-9-10-11 og 12. Og á milli tölustafanna eru meira að segja punktar sem sýna mínúturnar. Þessi herlegheit kostuðu heilar 195 krónur.
Ég verð ekki étin af okurpúkanum í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.4.2008 | 13:04
Moll í sama dúr
Sem ég ók heim úr bænum áðan ákvað ég að koma við í Bónus í Holtagörðum. Ég vissi að þar væri komin ný verslun. En hafði ekki minnstu hugmynd um að þar væri líka Hagkaup, Eymundsson, Max, Habitat o.fl. o.fl. Og bílastæði á tveimur hæðum!!?
Hvernig gat þetta farið framhjá mér?
Þetta hlýtur að hafa verið auglýst í bak og fyrir og ég man sosum eftir einhverri opnunarauglýsingu um helgina. En að þetta væri svona stórt og bílastæði á tveimur hæðum (!!?) það hafði gjörsamlega farið framhjá mér.
Fólk er misnæmt á umhverfi sitt. Þetta moll er í svipuðum dúr og önnur.
Systur voru kátar í morgun, vöknuðu við hringingu frá mömmu sinni í London og spjölluðu við hana drjúga stund. Svo stukku þær á fætur, klæddu sig í svart og rautt í tilefni af 100 ára afmæli Víkings, en fóru svo í flíspeysur og vesti yfir, því ekki ætluðu þær að storka örlögunum í Fossvogsskóla með því að fara í Vals-regnjökkunum. Þeir vöktu að vísu eintóma aðdáun á föstudag, Elísabetu til mikils léttis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.4.2008 | 23:15
Sumar?
Systur fóru í langan hjólatúr með Töru og pabba hennar í dag. Þær komu til baka rétt fyrir kl. 7, mokuðu þá í sig matnum og hentust aftur út. Að þessu sinni með Mörtu Maríu. Þær máttu vera úti til kl. hálf átta, en Elísabet kom inn 5 mínútum síðar og spurði hvort hún mætti ekki bara fara í heitt bað. Ég benti henni á að hún hefði farið í heita pottinn og sturtu í dag, en hún ranghvolfdi augunum og sagði að það hefði nú verið fyrir tveimur eða þremur eða átta tímum!
Auðvitað fékk barnið að fara í heitt og notalegt freyðibað, nema hvað. Á meðan heyrðust hamingjuópin í systur hennar inn um opinn gluggann.
Þegar báðar voru komnar í hús sýndi ég þeim Eurovision-myndbandið (við Kata erum alltaf að reyna að muna eftir slíkum hlutum, svo þær séu með á nótunum, blessaðar. Þar liggur uppeldislega gildið, en ekki í menningarlegu verðmæti þess sem á er horft!). Systur horfðu tíu sinnum á myndbandið á meðan ég horfði á Hildi Helgu hjá Evu Maríu. Góð skipti það.
Á morgun heldur Víkingur upp á 100 ára afmælið með einhverri uppákomu í Fossvogsskóla. Krakkarnir fá t.d. fána og þeim er uppálagt að koma í einhverju svörtu og rauðu í tilefni dagsins. Systur ætla í nýju, svörtu æfingabuxunum sínum, en við vorum sammála um að best væri að láta rauða Valsbolinn eiga sig á þessum degi. Þær fara í einlitum, rauðum bol við buxurnar.
Fyrir svefninn spurðu þær hvenær trampólínið kæmi í garðinn og hvort sumarið kæmi ekki eftir nokkra daga. Ég sagði þeim að þótt sumardagurinn fyrsti væri á fimmtudag, þá þýddi það ekki að þann dag brysti á með endalausri blíðu. Og sagði það aftur. Og aftur. Allur er varinn góður: Ég man enn hvað það fauk heiftarlega í Elísabetu fyrir ári, þegar hún vaknaði glöð og kát á sumardaginn fyrsta og vildi endilega fara í stuttbuxur og hlírabol. Við höfðum ekki varað okkur á hversu bókstaflega hún tók heiti dagsins. Henni fannst hún afskaplega illa svikin í skítakuldanum þann daginn.
Þær sofnuðu fljótt og vel. Og ákváðu að skrifa sjálfar á "bloggina" á morgun, svo fjarstödd mamma þeirra geti lesið það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.4.2008 | 17:55
Peningaplokk
Okursíðan hans dr. Gunna er þörf lesning. Veldur að vísu töluverðu þunglyndi, en er samt þörf lesning.
Þarna eru alls konar dæmi um svívirðilegar hækkanir á alls konar vörum.
Mér fannst þetta dæmi þó slá öll met:
"Fór í plokkun á augabrúnum í Dekurhorninu Faxafeni í síðustu viku, á heimasíðunni stóð að plokkun kostaði 1.300 kr en ég var rukkuð um 1.650 kr (þrátt fyrir að þá væri ekki búið að breyta verðinu á síðunni hjá þeim). Ástæðan: Allt að hækka útaf gengi krónunnar! Það er ENGINN efniskostnaður við að plokka augabrúnir! og ef maður velur að láta vaxa þær þá er MJÖG lítið vax sem fer í það."
Ætlum við að láta bjóða okkur gegndarlausar hækkanir á vöru og þjónustu, með vísan í gengi krónunnar? Augabrúnaplokkun??? Er ekki allt í lagi????
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.4.2008 | 16:53
Vinir
Systur voru að lesa og skrifa í sögubækurnar sínar. Að þessu sinni áttu þær að skrifa undir fyrirsögninni "Hvernig er góður vinur?"
Margrét fór inn í herbergi og skrifaði alveg hjálparlaust:
"Góður vinur er þanig að hann er góður hjálpsamur og vinur. Ef að maður er búin að þekka þá mjög leingi þá er óhædd að seiga þeim lindarmál. Svo getur maður líka leikið við hann í fótbalta ef að maður vill. Svona er góður vinur."
Svo teiknaði hún mynd af fjórum góðum vinum: Margrét, Elísabet, Marta og Tara. Logalandsgengið ljúfa.
Elísabet fékk dálitla aðstoð að þessu sinni. Hún samdi auðvitað textann sjálf, en skrifaði hann fyrst niður á blað og bað svo um leiðréttingu. Síðast skrifaði hún beint inn í bókina, án þess að leita sér nokkurrar aðstoðar og textinn varð þá afar skrautlegur. Hún var búin að átta sig á hversu morandi í villum hann var og vildi því prófarkalestur núna. Páskasagan hennar var að vísu óborganlega krúttleg (Hún byrjaði svona: "ég var up í sumapúsdaþ meþ gvuþmæþum mínum...") en ef gullið vill leiðbeiningar um stafsetningu þá er það ekki nema velkomið.
Að grófum prófarkalestri loknum var textinn, sem hún færði inn í sögubókina, svona:
"Góður vinur er skemmtilegur og góður. Han getur til dæmis fariþ með mani í bíó og leikið við mann. Bestu vinir mínir heita Margrét, Marta María og Tara. Þeta eru bestu vinir mínir."
Og auðvitað teiknaðí hún mynd af nákvæmlega sama gengi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2008 | 13:39
Leiðindaendurgreiðsla
Systur eru alveg vitlausar í sund þessa dagana. Þeim nægir ekki að fara tvisvar í viku í skólasund, heldur reyna að draga okkur við hvert tækifæri.
Í gær tók ég heita pottinn rækilega í gegn, þreif og skrúbbaði hann allan, þreif síur og svo rann ferskt og nýtt vatnið í hann. Hitinn á vatninu var nú bara rétt að slefa í 12 gráður um kvöldmatarleytið í gær, en við lofuðum stelpunum að þær mættu fara í pottinn í dag. Við nenntum nefnilega ekki í sund á sunnudagsmorgni og Kata þarf að bregða sér af bæ síðar í dag og þurfti að undirbúa það.
Við fórum allar saman í pottinn á afar ókristilegum tíma, þótt mér. Löngu, löngu fyrir hádegi á sunnudegi. En það var ósköp notalegt. Systur köfuðu aftur og aftur og alveg stórmerkilegt að þær hafi ekki fengið nóg af að skoða það sem fyrir augu bar í kafi. Þetta er nú ekkert stór pottur, bara svona venjulegur.
Þegar þær höfðu ólmast töluvert lengi róuðum við þær aðeins niður. Margrét dormaði í Kötufangi og Elísabet í mínu. Hún tilkynnti að hún hefði pantað mig, því Margrét hafði kúrt hjá mér skömmu áður. Og systur verða alltaf að skiptast á.
Margrét kann þá list að slaka á og gera alls ekki neitt. Elísabet getur verið kyrr, en hún getur bara alls ekki þagnað. Ég bað hana, aftur og aftur. Hún hætti kannski að tala augnablik, en hummaði þá bara á meðan. Loks féllst hún á að þagna og stóð við það í ....tja, líklega í heilar 20 sekúndur.
Svo settist hún upp, leit á mig og sagði: "Þetta er ekkert gaman. Ég vil fá peningana mína til baka."
Barnið fór fram á "endurgreiðslu" af því að kúr í fangi var leiðinlegra en hún reiknaði með þegar hún pantaði fangið!!
Það sem á mann er lagt.
Núna eru systur úti á palli í fótbolta. Stebbi bekkjarbróðir bankaði upp á áðan og svo bættust tveir strákar í hópinn. Annar þeirra "eldri", örugglega 9 ára eða eitthvað. Sem systrum finnst afskaplega spennandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.4.2008 | 14:09
Fullt hús
Systur fóru syngjandi sælar til afa og ömmu í gærkvöldi. Og fengu kakósúpu. Amma og afi höfðu vaðið fyrir neðan sig og voru líka með kjötbollur, en mér skilst að þau hafi nú að mestu setið ein að þeim.
Við Kata fórum í mat til Addýar og Báru, hittum Siggu og Siggu þar og fengum stórgóðan mat að venju. Það var auðvitað ljúft.
Systur urðu ekkert kátar að sjá mig fyrir klukkan 10 í morgun. Þær vildu miklu frekar láta dekra við sig áfram hjá afa og ömmu en að fara í gítartíma. En komu nú samt með og tóku fljótt gleði sína á ný.
Þær heimtuðu almennilegan morgunmat og áður en ég gat spælt eitt egg höfðu þær boðið Töru vinkonu og Brynju frænku hennar að borða með okkur. Ég sé alveg hver þróunin er. Í sumar verðum við örugglega að leita af okkur allan grun áður en við yfirgefum húsið, að ekki leynist einhvers staðar einhver gesturinn. Þær vilja helst hafa fullt hús af vinum alla daga.
Núna fengu þær að hlaupa út í sjoppu, enda nammidagur. Svo ætla þær í bíó með Töru á eftir. Við Kata ætlum hins vegar að skella okkur í vorverk í garðinum. Það bólar að vísu ekkert á nýrri keðjusög, en við finnum okkur eitthvað annað til dundurs.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Logalandið
Bloggvinir
- margretsverris
- begga
- annapala
- stebbifr
- andreaolafs
- sms
- seth
- salvor
- hrafnaspark
- svartfugl
- vitinn
- ingibjorgelsa
- konukind
- eddaagn
- konur
- thorbjorghelga
- elvabjork
- steinunnolina
- jullibrjans
- toshiki
- adhdblogg
- malacai
- arndisthor
- asarich
- baldvinjonsson
- berglindnanna
- beggita
- birna-dis
- birtab
- bjb
- blomid
- dabbaa
- doggpals
- madamhex
- saxi
- ellasprella
- garun
- gislihjalmar
- neytendatalsmadur
- gudni-is
- lucas
- gylfig
- iador
- helgamagg
- skjolid
- hildigunnurr
- hildurhelgas
- himmalingur
- hlekkur
- danjensen
- innipuki
- jakobk
- jenfo
- joninaros
- prakkarinn
- nonniblogg
- julianamagg
- kari-hardarson
- kiddijoi
- kollak
- hjolaferd
- kristinm
- lenapena
- liljabolla
- lillagud
- lindalinnet
- 101isafjordur
- mal214
- mongoqueen
- olinathorv
- fjola
- amman
- siggiholmar
- sij
- sigthora
- zsapper
- svala-svala
- possi
- saemi7
- saethorhelgi
- steinibriem
- thorasig
- thorhildurhelga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar