Færsluflokkur: Bloggar
21.5.2008 | 00:23
Tara og augun
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
20.5.2008 | 22:15
Með hundshaus
Fjölskyldan brunaði í Ikea síðdegis. Við þurftum að kaupa grímur fyrir stelpurnar, því þær eru að fara að sýna á fimleikasýningu á föstudag og eiga að vera dýr. Elísabet ætlar að vera hundur og Tara líka. Margrét ætlar að vera kanína, eins og Marta María. Loglandsgengið á áreiðanlega eftir að slá í gegn á sýningunni.
Grímurnar eru mjúkar og góðar, með götum fyrir augu. Þegar við komum heim setti Elísabet hundagrímuna sína upp. Og systir hennar féll í stafi af hrifningu: "Vá, Elísabet, hvað þú ert með falleg augu! Þú gætir alveg verið hundur!"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.5.2008 | 00:35
I love Paris in the springtime
Mikil dásemdarbók er Minnisbók Sigurðar Pálssonar! Ég keypti hana í Leifsstöð á föstudag, á leið til Parísar og verð Hermanni Stefánssyni ævarandi þakklát fyrir ábendinguna. Ég kann enga skýringu á því af hverju ég var ekki búin að lesa þessa bók fyrir löngu, en svona var það nú samt. Bókin hefði auðvitað verið dásamleg hérna heima, en að vera með hana í farteskinu á söguslóðum bætti upplifunina margfalt.
Við Kata skruppum sem sagt til Parísar um helgina, með Þórdísi og Kristjáni. Við gengum allan liðlangan daginn, settumst af og til inn á kaffihús og borðuðum vel á kvöldin. Yndislegt frí! Við fórum í eina einustu verslun og keyptum þar smotterí fyrir systurnar. Annars héldum við okkur langt frá öllum búðum. Sátum bara og nutum andrúmsloftsins á Cafe de Flore, fórum á La Coupole (og hinum megin við Montparnasse var auðvitað kaffihúsið hans Sigurðar, Le Select), hálfur sunnudagurinn fór í kirkjugarðinn Pere Lachaise þar sem við sáum að sjálfsögðu leiði Morrisons og líka Piaf, Wilde, Balzac og fleiri. Við gengum framhjá Chopin og nenntum ekki til baka þótt við Kata hefðum nú þurft að vitja þess leiðis sérstaklega. Fyrir réttum tveimur árum mændum við inn í kirkju í Varsjá í Póllandi þar sem hjarta hans er grafið og auðvitað hefði nú verið viðkunnanlegra að vitja hans alls.
Svona eiga helgarfrí að vera. Fallegasta borgin og besta kompaníið. Eða var það besta borgin og fallegasta kompaníið? Skiptir ekki öllu . . .
Systur gistu hjá Töru klíkufélaga aðfaranótt föstudagsins, af því að við þurftum að fara óguðlega snemma af stað um morguninn. Svo voru þær hjá Ásthildi systur aðfaranótt laugardags og sunnudags og loks hjá afa Torben og ömmu Möggu aðfaranótt mánudags. Óttalegur þeytingur á þeim, en þær nutu þess auðvitað í botn af því að allir dekruðu við þær út í eitt.
Á ég ekki að vera löngu sofnuð?
Jú. Löngu, löngu sofnuð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
15.5.2008 | 00:34
Lýsi er með boltann
Eftir fimleikaæfingu hjá Ármanni í Laugardalnum fóru systur í Valsbúning og hlupu yfir á Laugardalsvöll. Marta María og Tara fylgdu auðvitað með. Þær höfðu að vísu verið í myndatöku hjá Víkingi fyrr um daginn og voru í Víkingsbúningi, en það skipti auðvitað engu máli.
Við vorum mættar á völlinn hálftíma áður en leikur Vals og Grindavíkur hófst. Smám saman fjölgaði í Valsstelpuhópnum og rétt áður en liðin hlupu inn á völlinn gerðu Valsstelpurnar sig klárar. Systur og liðsfélagar þeirra voru ekki lítið roggnar þar sem þær skokkuðu inn á völlinn við hlið meistaraflokkskarlanna ;)
Við settumst upp í stúku á eftir og fylgdumst með byrjuninni á leiknum. Systur, Tara og Marta María hvöttu Valsara áfram með hrópum, köllum og klappi.
Margrét varð um tíma uppteknari af hrópum en að fylgjast með leiknum. Svo leit hún út á völlinn: "Hvar er boltinn núna? Ó, Lýsi er með boltann! Ú á Lýsi! Ú á Lýsi!"
Mamma hennar benti henni á að liðið héti í raun "Grindavík" þótt það stæði Lýsi á treyjunum þeirra. Margrét var ekkert á því að skipta um nafn og býsnaðist yfir þessu Lýsi þar til við fórum.
Fyrir utan pylsuvagninn við Laugardalslaug snerum við skottinu á jeppanum upp í sólina og þar sátu þær fyrir innan opnar dyrnar, Logalandsskytturnar fjórar, borðuðu pylsur og drukku kók. Þær völdu sér íspinna á eftir, en sú veisla dró nú lítið úr blaðrinu aftur í á leiðinni heim.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.5.2008 | 17:53
Valsarar á vellinum
Það rættist úr veðrinu! Systur fóru heldur súrar í frístundaheimilið í morgun, í stígvélum og regnstökkum, en höfðu búist við stuttbuxnaveðri. Þegar þær komu af fótboltaæfingu síðdegis var komin blíða, við brunuðum heim og þær fóru beint í pottinn með Töru.
Á morgun ætla þær í fimleika og svo beint á Laugardalsvöllinn í fullum Vals-skrúða. Þær ætla að hlaupa inn á völlinn með meistaraflokki Vals fyrir leik karlanna við Grindavík. En tóku skýrt fram, að þær ætluðu næst að hlaupa inn á völlinn með konunum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.5.2008 | 11:46
Sull
Systur sátu yfir þrautabókum í gærmorgun, eftir að mamma þeirra fór í vinnu. Ég tók þessu fegins hendi, enda komin í skít og skömm með ákveðið verkefni og settist því sjálf við tölvuna.
Systur voru að byrja að ókyrrast þegar Stefán bekkjarfélagi þeirra hringdi. Ég stakk upp á að þær byðu honum í heita pottinn. Stefán lét ekki segja sér það tvisvar og birtist von bráðar. Um leið kom Marta María og hún var ekki sein að stökkva eftir baðfötum.
Þau fjögur voru hin kátustu í pottinum þegar Einar Dagur hringdi. Ég sagði honum blessuðum að koma í pottinn. Hann birtist hálfri mínútu síðar, enda á hann heima í næsta húsi fyrir neðan okkur. Hann fylgdist með fjörinu í pottinum í örfáar mínútur og stökk svo heim að ná í sundskýlu. Svo hoppuðu þau og skoppuðu, köfuðu og frussuðu, tóku örstutt hlé til að borða frostpinna og endurtóku svo leikinn.
Stuðið í pottinum var svo svakalegt að hann var hálftómur þegar þau loks komu upp úr.
Við fórum í súkkulaðikökugjöreyðingarferð á Einimel um kaffileytið og stóðum okkur vel. Systur fengu ömmu sína til að spila undir á meðan þær kyrjuðu alls konar gamla slagara, en þá fengum við Kata líka dálitla pásu til að ræða pólitík við Afa ís.
Frá Einimel rúlluðum við til frú Urr, sem er að koma sér fyrir í nýju íbúðinni sinni. Aldeilis dægileg hola. En hún er auðvitað strax búin að taka að sér flækingskött úr Kattholti, hana Þvælu, svo mér er ólíft vegna ofnæmis. Er það kannski þess vegna sem frú Urr er svona kattgóð? Hmmm, spyr hana næst.
Restin af deginum var eins og fyrri hlutinn, ljúf, átakalaus, letileg, góð. Með Töruheimsókn, Mörtuheimsókn, fimleikaæfingum á gólfinu (nei, ekki ég!) og Elsku Míó. Og svo fengum við meira að segja dálítinn fullorðinstíma með Þórdísi og Kristjáni um kvöldið.
Sweeeet
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.5.2008 | 22:53
Hveðja, hvítasunna
Systur voru lítið heima við í dag. Þær skoppuðu héðan út um hádegisbil og enduðu heima hjá ömmu hennar Töru í næstu götu. Það fengu þær pönnukökur og ís. Alsælar, eins og gefur að skilja.
Stelpurnar okkar eru að verða krakkaormar, sem hverfa heilu og hálfu dagana. Við Kata vorum heima, lásum hvor sína bókina og dormuðum svo með bækurnar á maganum í klukkutíma, svei mér þá! Ég man ekki hvenær við fengum síðast svo langt næði til að lesa og leggja okkur á miðjum degi.
Síðdegis var friðurinn rofinn. Þá komu systur, Marta María, Tara og Brynja frænka hennar. Þær þurftu bráðnauðsynlega að horfa á myndina um Kalla Blómkvist. Gott að þær systur horfðu ekki á hana í morgun, sama mynd tvisvar á dag er nú fullmikið af því góða. Finnst okkur, ekki þeim.
Þegar þær komu heim voru þær með heimatilbúin kort í farteskinu. Í tilefni mæðradagsins.
Við Kata fengum samtals þrjú kort.
Fyrsta kortið var frá Margréti til okkar. Þar stendur: "Gleðilegan mæðradag elsku mamma ég vona að þér líði vel hveðja Margrét! Mamma! "
Kortið var skreytt nákvæmlega svona, með hjörtum.
Annað kortið var líka frá Margréti. Tvö horn á blaðinu voru brotin niður og á öðru þeirra stóð "hver er verst" og á hinu stóð "hver er best!"
Undir horninu "hver er verst" stóð "meiðsli". Undir horninu "hver er best!" stóð "mamma!"
Elísabet rétti okkur loks sitt framlag. Það var A4 blað, rétt eins og systir hennar hafði unnið sín kort á, en Elísabet var búin að margbrjóta blaðið saman og margvefja límbandi utan um. Það tók því drjúga stund að ná því í sundur og lesa þetta: "Til elsku bestu mömmu ég elska þig mjög migið. því það er mægradagur fil ég að þú verði glöð þín stelpa Elísabet."
Hundraðkallinn, sem hún pakkaði inn í bréfið, var líklega hugsaður sem gjöfin til að gleðja á "mægradag".
Þær voru lúnar eftir fjörugan dag þótt þær hefðu kúrt frameftir í morgun. Ég var rétt byrjuð að lesa um elsku Míó þegar Elísabet renndi sér fram úr sófanum, fór til Kötu og bað hana að koma með sér að kúra. Það gerist nú afar sjaldan, að hún biðji beinlínis um að fá að fara að sofa þótt hún sé alltaf ósköp góð þegar kemur að því, rétt eins og systir hennar.
Nú sofa þær af mikilli innlifun. Elísabet hafði sjálf orð á því í kvöld að þetta hefði verið frábær dagur af því að hún hefði verið allan tímann í hverfinu sínu.
Ég held að sumarið verði notalegt, hérna í hverfinu þeirra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.5.2008 | 00:31
Þrautir
Eftir kvöldmatinn í kvöld dró Kata fram þrautabækur fyrir krakka. Við keyptum þessar bækur líklega í fyrrasumar, en þá voru systur ekki orðnar læsar og skildu margar þrautanna illa.
Núna leystu þær hverja krossgátuna eftir aðra. Þetta eru vissulega einfaldar krossgátur, þar sem t.d. er tilgreint eitt 7 staða orð, tvö 5 stafa, þrjú 4 stafa o.s.frv.
Þarna kom í ljós hvað systur nálgast hluti ólíkt. Margrét leit á krossgátuna og virtist eiga erfitt með að finna 7 stafa reitinn, þótt hann væri bara einn og manni þætti hann áberandi lengstur. Hún skrifaði orðin hins vegar fullkomlega rétt í reitina þegar hún hafði áttað sig.
Elísabet leit einu sinni á síðuna og var þá búin að kortleggja 7 stafa, 5 stafa og 4 stafa reitina. En stafsetningin var upp og ofan, þótt hún hefði orðin fyrir framan sig.
Kata þeyttist á milli systra á meðan þær voru að leysa þrautirnar og hafði mjög gaman af ólíkri nálguninni. Svo gaman, að háttatíminn dróst von úr viti
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.5.2008 | 00:24
On the spot in the hot pot
Jens ræsti okkur mæðgur hér í morgun. Ég stökk á fætur þegar síminn hringdi, en Jens vildi ekkert við mig tala. Ég lét svefndrukkna Margréti fá símann. Jens bauð þeim systrum í heita pottinn heima hjá sér og þær voru fljótar á fætur. Þær borðuðu morgunmat og hjóluðu svo tvær heim til hans með sundfötin í poka á bakinu.
Ég sá lítið af þeim næstu fjóra tímana. Elísabet kom tvisvar heim, til að ná í vettlinga og bauka eitthvað. Hún hjólaði alein á milli og var að vonum stolt. Í fyrra skiptið sem hún skrapp heim var hún næstum komin alla leið hingað þegar hún áttaði sig á að hún hafði gleymt hjólahjálminum hjá Jens. Henni brá óskaplega, sneri við á punktinum, hjólaði alla leið til baka og kom svo hingað móð og másandi. Með hjálminn á kollinum
Þær komu heim um tvöleytið og voru þá nokkuð lúnar. Ég naut lífsins með bók undir teppi í sófanum og Elísabet kom í hlýja holu. Margrét fylgdi fast á eftir. Þær ætluðu að fá sér síðdegisblund, en auðvitað fóru þær að ókyrrast og vildu að ég læsi. Þeim fannst stórfín hugmynd að ég læsi upp úr bókinni minni fyrir þær. Svo ég las upphátt tvær blaðsíður um fjöldamorðingja. Bókin er á ensku, svo það kom ekki að sök.
Það sveif á þær værð undir lestrinum, en þeim fannst þetta nú ekki alveg nógu gaman. Þá lét ég loks undan bænarsvipnum í hvolpaaugunum og las Elsku Míó minn. Marga kafla og þær voru alsælar.
Mamma þeirra birtist frá útlandinu um fjögurleytið og fékk sinn knússkammt. Svo dró ég systur með mér í Bónus. Sem var frábær hugmynd af því að hér var ekki til matarbiti. Og ömurleg hugmynd af því að klukkan fimm á laugardegi fyrir Hvítasunnu er Bónus helvíti á jörð. Skapið batnaði pínulítið þegar ég sá að íspinnakassinn kostaði 358 krónur þar, en sami kassi kostaði 1.100 krónur í bílasjoppu. Örlítill munur bara.
Á heimleiðinni ætluðum við að leigja myndina um Kalla Blómkvist og vin hans Rasmus. Sú mynd fannst ekki á leigunni. Sem var stórfínt, því í staðinn uppgötvuðum við aðra Kalla Blómkvist mynd, sem systur höfðu aldrei séð. Mikil hamingja.
Þegar við komum heim aftur fóru systur út á pall með þremur bekkjarbræðrum og stóra bróður eins þeirra. Þær börðust af hörku í fótbolta með guttunum. Komu svo inn og horfðu á Kalla og borðuðu pizzu á meðan við Kata borðuðum í ró og næði fullorðins uppi.
Ég veit ekki af hverju ég hangi enn uppi við tölvuna. Ég þarf að vakna snemma. Búin að lofa að horfa með þeim á Kalla í fyrramálið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2008 | 22:46
Íkornar í sundi
Eftir að systur komu heim úr skólanum kom Tara skoppandi og Margrét fór og náði í Mörtu Maríu skömmu síðar. Og svo léku þær íkorna næsta hálftímann. Þær sáu nýlega mynd um íkornana syngjandi, Alvin og vini hans, og núna kemst ekkert annað að. Þær sungu einkennislag íkornanna, sem er víst á ensku en í þeirra meðförum ríma orð á borð við "fulifre" á móti "skiriskre".
Þær verða alltaf að klæða sig eftir tilefni. Alvin íkorni er í rauðri hettupeysu með stóru "A"-i á maganum. Margrét mundi eftir rauðri hettupeysu í minni eigu. Hún fór í hana og ég bretti sex sinnum upp á ermar. Systur eiga eins konar risapúsluspil, eða stafaspil, með stórum mjúkum ferningum sem hægt er að krækja saman á gólfi svo úr verði stafamotta. Hver staf er hægt að losa úr rammanum. Svo Margrét stórt A, batt það framan á sig með böndunum í hettunni á peysunni og var alsæl með útkomuna.
Marta María var næsti íkorni, sem hefur víst dálæti á grænum peysum. Ég fann græna æfingatreyju af Kötu. Og bretti sex sinnum upp á ermar.
Tara átti að vera bláklæddi íkorninn. Hún fann bláa peysu af Margréti, en ósköp litla. Eiginlega bara svona axlastykki. Það var frekar fyndið að horfa á íkornana þrjá, þar sem sá rauði og græni drösluðust áfram í risastórum peysum og sá blái hoppaði á eftir með bláan renning um axlirnar.
Elísabet stjórnaði.
Klukkan sex fórum við í sund. Ég, Elísabet, Margrét, Marta María og Tara. Ég var alveg að fá nóg af íkornalaginu þegar hér var komið sögu og samdi við þær að hlusta á Latabæ í stað þess að syngja.
Þessar stelpur eru orðnar svo veraldarvanar eftir skólasundið að ég þurfti ekkert að hafa fyrir þeim. Þær klæddu sig úr, fóru í sturtu, í sundfötin og voru farnar að góla á mig að koma út í laug áður en ég hafði svo mikið sem sagt "hvernig á að ná heitu vatni úr þessari helv.... sturtu?
Við fórum í útilaugina í Árbæ og þá loks áttaði ég mig á að ég hafði lofað þessari sundlaugarferð í gær. Í blíðunni. Örskömmu síðar vorum við komnar í innilaugina. Þar var hlýtt. Og það sem betra var, þar blasti rennibrautin ekki við þeim svo þær fengu engar undarlegar hugmyndir um að sniðugt væri að kanna hversu hratt er hægt að senda eina kellingu, þrjá íkorna og einn íkornastjórnanda niður vatnsrennibraut.
Þær ólmuðust í klukkutíma á meðan ég horfði á. Þær köfuðu eftir skáplyklinum mínum, tróðust allar upp á uppblásna slöngu, veltu hver annarri af kork-krókódílnum, fóru upp á bakka, hoppuðu út í, fóru upp á bakka, hoppuðu út í, fóru upp á bakka, hoppuðu út í, fóru upp á bakka, hoppuðu út í, fóru upp á bakka, hoppuðu út í, fóru upp á bakka . . . .
Og sungu íkornalagið með heimatilbúna textanum allan tímann.
Þegar ég var orðin gjörsamlega örmagna af að horfa á þær fórum við upp úr. Og svo beint í sjoppuna Skalla í Hraunbæ. Ein með remúlaði og tómatósu, ein bara með tómatsósu, tvær berar í brauði...
Þær fengu eftirrétt. Margrét kreisti brauðformið sitt svo fast að það hrökk í sundur og ísinn á gólfið. Góða konan í ísbúðinni gaf henni annan.
Marta María ákvað að fara að fordæmi Margrétar og kreisti krap-bikarinn sinn svo fast að krapið fór að mestu upp úr. Hún reyndi að koma í veg fyrir það með því að styðja við það með bringunni.
Tara hélt á ísnum sínum allt til enda. Það var hins vegar dálítið snúið að borða hann, svo ísinn náði frá nefrótum og niður á höku. "Þurrkaðu þér um munninn, Tara mín," sagði ég í hugsunaleysi áður en ég rétti henni servíettuna. Úff, ég ætti nú að vera búin að læra að svoleiðis gerir maður ekki. Hægri ermin á jakkanum hennar á leið í þvott, ef ekki allur jakkinn.
Elísabet virtist afskaplega snyrtileg, stóð með bikarinn sinn og potaði varfærnislega í ísinn. Hún hafði fengið sér nammi út í og það var víst ekki allt jafn gott. Þess vegna þurfti hún að halla bikarnum mikið, svo hún kæmist framhjá vonda namminu og í það góða, sem var auðvitað á botninum. Ísinn leitaði út og hún fór að fordæmi Mörtu Maríu og studdi við hann með bringunni. Af því að sú aðferð hafði reynst svo óskaplega happadrjúg hjá MM.
Loks voru þær hættar í ísnum og ég búin að skúra ísbúðina. Þá fórum við heim og nú brá svo við að enginn íkornasöngur hljómaði.
Getur verið að þær hafi verið orðnar þreyttar?
Eftir þessi rólegheit?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Logalandið
Bloggvinir
- margretsverris
- begga
- annapala
- stebbifr
- andreaolafs
- sms
- seth
- salvor
- hrafnaspark
- svartfugl
- vitinn
- ingibjorgelsa
- konukind
- eddaagn
- konur
- thorbjorghelga
- elvabjork
- steinunnolina
- jullibrjans
- toshiki
- adhdblogg
- malacai
- arndisthor
- asarich
- baldvinjonsson
- berglindnanna
- beggita
- birna-dis
- birtab
- bjb
- blomid
- dabbaa
- doggpals
- madamhex
- saxi
- ellasprella
- garun
- gislihjalmar
- neytendatalsmadur
- gudni-is
- lucas
- gylfig
- iador
- helgamagg
- skjolid
- hildigunnurr
- hildurhelgas
- himmalingur
- hlekkur
- danjensen
- innipuki
- jakobk
- jenfo
- joninaros
- prakkarinn
- nonniblogg
- julianamagg
- kari-hardarson
- kiddijoi
- kollak
- hjolaferd
- kristinm
- lenapena
- liljabolla
- lillagud
- lindalinnet
- 101isafjordur
- mal214
- mongoqueen
- olinathorv
- fjola
- amman
- siggiholmar
- sij
- sigthora
- zsapper
- svala-svala
- possi
- saemi7
- saethorhelgi
- steinibriem
- thorasig
- thorhildurhelga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar