Færsluflokkur: Bloggar

Læknirinn með vatnið

Við morgunverðarborðið voru systur að tala um hjátrú. Svartir kettir, stigar, bakpokar í húsi óléttrar konu, skörðóttur bolli í húsi óléttrar konu og fleira og fleira. Þær vildu sífellt fá fleiri dæmi um hjátrú, þar til við Kata vorum gjörsamlega þurrausnar.

Svo sneru þær sér að málsháttum og orðatiltækjum.

Margrét átti málshátt dagsins, sem hún viðurkenndi að hún ætti erfitt með að skilja: "Maður þarf ekki alltaf að fara til læknis til að ná í vatn."

Ég veit ekki hvernig við Kata komumst hjá því að springa úr hlátri. Ofurmannlegar, svei mér þá.

Elísabet áttaði sig á að eitthvað var undarlegt við þetta. "Ég held að maður eigi að segja læksins, Margrét," sagði hún og systir hennar viðurkenndi villuna.

Svo ræddum við aðeins um réttu útgáfuna og hvað það þýddi að fara yfir lækinn að sækja vatn.

Elísabet sagðist líka kunna málshátt. Hún þurfti að hugsa sig um lengi, lengi, en loksins kom þetta: "Ekki er allt gult sem glóir."

Við fórum aðeins í gegnum þetta og þegar hún var búin að átta sig á að verið væri að tala um gull en ekki eitthvað gult, þá var eftirleikurinn auðveldur.

Einu sinni voru þættir um Bibbu á Brávallagötunni, sem sneri öllum orðatiltækjum og málsháttum á hvolf. Handritshöfundarnir hafa líklega verið 7 ára.


Gleymska?

Elísabet mokaði í sig hafragrautnum í morgun. Alsæl. Sem hún stakk upp í sig fjórðu skeið leit hún  allt í einu upp og spurði: "Gleymdirðu að setja eitthvað út í grautinn núna?"

Ég varð undrandi, af því að hún hafði ekkert fúlsað við grautnum. Hvað átti barnið við?

"Hann er bara svo góður núna!"

Jájá, og af því að hann var svo góður þá hlaut ég að hafa gleymt einhverju??

Svei mér þá!


B.G. & Dekur

Systur, sem oftast nær eru á yfirsnúningi, tóku það fremur rólega í dag. En það þurfti nánast að beita þær hörðu til þess.

Þær fóru að vísu á fótboltaæfingu, en þegar þær komu heim fóru þær í mestu rólegheitum í heitt freyðibað, fyrst Margrét og svo Elísabet. Sú þeirra, sem ekki var í baðinu, sat við tölvuna og prófaði Ástarmælinn.

Þegar báðar voru búnar í baði fannst þeim alveg frábær hugmynd að fara til Töru eða Mörtu. Ég sagði þeim bara blessuðum að vera rólegar heima í þetta eina skipti, fara í kósýföt og horfa á barnatímann. "Það er mjöööög langt síðan við höfum horft á barnatímann um daginn," sagði Margrét og var frekar skeptísk. Ég sagði að það væri rétt hjá henni, þær horfðu yfirleitt bara á barnatímann á morgnana um helgar, en ekki virka daga. Vegna þess að þær væru hreinlega aldrei heima hjá sér í rólegheitum!

Svo kom í ljós að uppáhaldið þeirra, Geirharður bojng bojng, var að byrja. Þá skelltu þær sér í sófann, hvor með sitt teppið.

Þær slöppuðu af fram að kvöldmat, mokuðu honum í sig, lásu í skólabókunum og fóru svo aftur að kósast. Í dag kom nefnilega nýtt Andrés blað og ég las það allt saman. Þær hefðu alveg sætt sig við eina sögu, en færðu fram alls konar rök fyrir nauðsyn þess að lesa allt blaðið. Sterkasta röksemdin var að mamma þeirra væri enn föst í vinnunni. Þá telja þær sig -réttilega- eiga að fá extra dekur.

Sigga frænka hringdi og Elísabet spjallaði við hana lengi, um allt milli heima og geima. Hunda, fótbolta, bíó og annað áhugavert. Svo tók Margrét við og spjallaði við Siggu um allt milli heima og geima, hunda, fótbolta, bíó og annað áhugavert. Fólk verður einfaldlega að sýna þolinmæði með þessum tvíburapakka. Siggu leiddist þetta ekkert sérstaklega, held ég. Og systur kríuðu út loforð að fá að fara til hennar fljótlega, fá popp og horfa á risastóra skjáinn í bíóherberginu hennar.

Þær eru umkringdar fólki sem er til í að dekra þær.

Þegar þær skriðu upp í settist ég við tölvuna í næsta herbergi. Og ákvað að dekra þær endanlega: Núna hljómar "Þín innsta þrá" með B.G. & Ingibjörgu í áttunda skipti. Það hljómar óneitanlega betur en þegar ég syng það fyrir þær, þótt mér finnist óborganlegt þegar þær taka undir með mér.


Í heiminum búa bara karlmenn

Pistill í 24 stundum í dag:

„Misjafnt hafast mennirnir að eins og sést á myndum frá viðburðum liðinnar viku.“

Svona hófst klausa í Viðskiptablaðinu á föstudag. Með henni fylgdu myndir af níu atburðum, sem þóttu greinilega sérstaklega frásagnarverðir.

Á fyrstu myndinni veifaði páfi til mannfjöldans eftir samkomu í New York. Önnur myndin sýndi atvik úr fótboltaleik Chelsea og Liverpool og á þeirri þriðju var heldur þreytulegur Bandaríkjaforseti. Fjórða myndin var af vöðvabúnti í vaxtarræktarkeppni, fimmta af rallýkeppni í Ungverjalandi, sjötta af keppendum í reiðmennsku í Perú, sjöunda af lögreglumanni með falsaða DVD-diska í Kína, áttunda sýndi annan kínverskan lögreglumann handsama brotamann með netbyssu og níunda var af spænskum nautabana.

Þetta voru þeir viðburðir liðinnar viku sem ástæða þótti til að tíunda.

Þótt lengi sé rýnt í myndirnar er erfitt að koma auga á eina einustu konu á þeim. Hugsanlega er hægt að greina eina konu í hópi áhorfenda á rallinu og með góðum vilja má ímynda sér að einn hárprúði knapinn í Perú sé kvenkyns.

Gerðu konur ekkert í síðustu viku? Og kom enginn undir þrítugu við sögu heimsatburða þessa daga?

Fjölmiðlar bera ábyrgð, eins og þeir fullyrða sjálfir æ ofan í æ. Þeir eiga að endurspegla heiminn og þá sem í honum búa, ekki bara sýna okkur að misjafnt hafist karlmennirnir að.  Mætti ég biðja um fréttir af kvenmönnum þessa heims, í bland við allar fréttirnar af afrekum karlmanna?

 


Ástarmælingar

Stebbi stórsjarmör, bekkjarbróðir systranna, kom í heimsókn í dag. Með þrjá sleikjóa, einn á mann. Hann kann sig, sá drengur Wink

Hann sýndi þeim líka hvernig hægt er að ganga úr skugga um hver er skotinn í hverjum. Bara slá inn nöfnin á Ástarkannanum og þá kemur prósentutala ástarinnar út.

Núna sitja systur við tölvuna, slá inn nöfn allra sem þær muna eftir úr skólanum og para við sjálfar sig. Skrækirnir úr næsta herbergi eru óborganlegir. Þær eru búnar að taka af mér hátíðlegt loforð um að blogga alls, alls ekki um neinar niðurstöður.

Og ég sem hélt að þær yrðu ekki unglingar fyrr en eftir nokkur ár Blush


Dagþreyta

Systur voru mjög syfjaðar þegar við ókum út á flugvöll í gærkvöldi. Þær hresstust í flugstöðinni, enda fóru þær í hjólaskónum sínum og í Leifsstöð er nóg pláss til að renna sér fram og til baka.  

Nágrannarnir á númer tvö komu yfir í hádeginu í dag og við nutum góðs af ostum og öðru gúmmelaði sem Kata kom með heim í gærkvöldi. Svo fóru systur í heita pottinn með Mörtu Maríu og Stefáni litla bróður hennar og auðvitað skellti Tara sér með. Þórunn skólasystir þeirra birtist líka, en hún lét sér nægja að fara í fótabað í pottinum. Halldóra bekkjarsystir bættist í hópinn eftir baðið og þá var nú orðið þokkalega fjörugt hérna Wink

Afi Torben hélt upp á afmælið sitt í dag, viku eftir afmælisdaginn og við sátum úti á palli þar og úðuðum í okkur pönnsum og tertu. Þegar við snerum heim fórum við Kata í vorverkin í garðinum (úff, þau eru ansi mörg!), að þessu sinni þurfti að sprauta hreinsiefni á pallinn og háþrýstiþvo á eftir, svo hann verði klár fyrir viðarvörn (við vorum ekki búnar að sjá veðurspána um vorhret næstu daga Frown)

Systur voru hjá Töru á meðan við baukuðum þetta. Við kvöldmatarborðið voru þær ansi lúnar. En auðvitað játa þær ekki þreytu á sig fyrr en í fulla hnefana. Þegar Margrét geispaði spurði Kata hana hvort hún væri orðin mjög þreytt. "Nei, ég er ekki þreytt. Eða kannski smá. En bara svona dagþreytt."

"Dagþreyta" er auðvitað frábrugðin "kvöldþreytu" vegna þess að hún kallar ekki á að maður fari beint í háttinn.

En það gerðu þær nú samt, eftir nokkrar blaðsíður í Hundaeyjunni.

 

 


Engar flækjur

Hvílíkur sumardagur!

Systur tóku þetta með trompi. Þær eyddu drjúgum tíma í pottinum með Töru, Brynju Törufrænku og Halldóru bekkjarsystur, sem gekk hingað alla leið úr Vogalandi og var að vonum stolt. Hún segist vera einn klukkutíma að ganga í skólann á morgnana. Eins gott að stóri bróðir fer með henni Wink

Á meðan systur og vinkonur voru í pottinum fyllti ég þrjá ruslapoka af garðúrgangi og spúlaði gangveginn niður með húsinu austan megin. Ég var farin að skammast mín verulega fyrir draslaraganginn þar. Í fyrra klippti ég aldrei limgerðið þar og hrökk við í hvert sinn sem ég keyrði skræki í einhverju barni sem hjólaði á grein eða hnaut um rótarflækjur. Keðjusögin góða vann á þessu öllu saman og háþrýstidælan skolaði rest út í hafsauga. OK, kannski ekki út í hafsauga, en alla vega í hrúgu og svo í poka. Ég er búin að ganga stíginn 20 sinnum fram og til baka, bara til að njóta þess að komast um hann án nokkurra hindrana.

Við þrjár fórum til Ásthildar systur seinnipartinn og þar er engum í kot vísað. Tumi hundakríli tók systrum fagnandi og þær fengu að fara með hann í dálítinn göngutúr. Marta Bryndís miðjubarn á afmæli á mánudag, svo við tókum forskot á afmælisknús.

Um leið og við komum heim stukku þær til Töru. Engin furða, þær hafa bara verið saman í 5-6 tíma í dag. Þær fá að vaka frameftir í kvöld. Svo kemur mamma þeirra heim, áreiðanlega eins og jólasveinn eftir heimsókn í H&M í Köben.


Hugrekki

Systur fengu kósýkvöldið sitt.

Margréti leist að vísu ekkert allt of vel á þegar ég sagði henni að ég hefði leigt prinsessumynd. "O, ég vona að hún sé alla vega hugrökk. Annars er ég farin!" Hún er búin að fá alveg nóg af einhverjum prinsessupappírsbúkum, sem þurfa alltaf að láta bjarga sér.

Prinsessan í myndinni var reyndar ósköp umkomulaus, en Margréti fannst myndin samt skemmtileg.

Þær fengu svo báðar að sofna í stóra rúmi.

Ég er að herða mig upp í að fara að "sofa" á milli þeirra. En ég get alltaf sofið seinna.


T er geimvera

Þá er sumarið komið.

Systur vöknuðu auðvitað klukkan 7 í gærmorgun, þótt þær ættu frí. Elísabet var löngu komin upp í stóra rúm, henni finnst alveg ótækt að láta allt þetta pláss fara til spillis þegar mamma hennar er ekki heima. Margrét kom skokkandi yfir og svo biðu þær spenntar eftir sumargjöf.

Þær voru alsælar með risa mikadó prikin og í ljós kom að þær hafa oft leikið með svoleiðis í frístundaheimilinu. Þetta dót var nú hugsað fyrst og fremst á pallinn úti í sumar, en þær dunduðu sér með það hérna inni á gólfi.

Þar sem mig grunaði að systur myndu vakna fyrir allar aldir á þessum frídegi fengu þær aðra sumargjöf, dvd með teiknimynd um býflugur. Bee Movie, hvað sem hún nú heitir á íslensku. Ég hafði ímyndað mér að þær myndu sitja rólegar og horfa á myndina og ég gæti kúrt aðeins lengur. Ég gleymdi alveg að taka með í reikninginn hvað ég er sjálf veik fyrir teiknimyndum, svo ég var sest í sófann hjá þeim fyrir klukkan 8 og horfði á alla myndina.

Við fengum okkur vænan morgunmat eftir bíóið og eftir hádegi fórum við í Húsdýragarðinn. Þar var sumarhátíð krakkanna í hverfinu og mjög fjölmennt. Tara slóst í för með okkur og þær þrjár voru rígmontnar að sjá verkefni, sem þær hafa unnið með hinum krökkunum í frístundaheimilinu, til sýnis í tjaldinu stóra. Þar voru líka ljósmyndir af þeim uppi á vegg.

Vinkonurnar þrjár hoppuðu svo og skoppuðu á uppblásnu dýnunni lengi dags, klifruðu svo í stóra víkingaskipinu og ráku loks augun í leiktæki sem var í gangi. Krakkafoss, held ég að skipið heiti. Það þeytist fram og til baka og kallar fram viðeigandi skræki hjá börnunum.

Ég ákvað að leyfa þeim að fara í tækið. Stúlkan sem stýrði því sagði að ég yrði að kaupa miða og þeir fengjust í veitingatjaldinu eða við innganginn. Við vorum sem sagt allra austast í fjölskyldugarðinum, en þurftum að fara til baka í húsdýragarðinn til að nálgast miða. Ég hef lent í þessu áður og mér er gjörsamlega fyrirmunað að skilja af hverju ekki er hægt að selja miðana víðar. Er eitthvað að því að selja þá í veitingasölunni í fjölskyldugarðinum, til dæmis? Eða í litlum skúr á svæðinu? Eða jafnvel láta vel merkta starfsmenn ganga með miðana á sér á svæðinu? Þetta þarf að laga.

Þegar við komum að veitingatjaldinu var biðröð langt út á stétt. Það ægði saman fólki sem ætlaði að kaupa veitingar og fólki eins og mér, sem ætlaði bara að kaupa miða í tæki. Þetta virtist hálf vonlaust. Ég ákvað að hlaupa frekar að innganginum, en þar er hægt að kaupa miða í tækin í litla kofanum, sem selur líka alls konar dót.

Systur og Tara urðu eftir við hestagirðinguna og ég flýtti mér að innganginum. Kofinn var lokaður. Miðarnir voru hins vegar til sölu við innganginn, þar sem fólk beið í röð eftir að borga sig inn. Til allrar hamingju komst ég fljótt að, keypti miðana, flýtti mér til stelpnanna og við tók gangur alla leið yfir í ysta enda fjölskyldugarðsins.

Þegar við komum þangað var búið að slökkva á leiktækinu og enginn starfsmaður nálægt. Við biðum drjúga stund og á meðan reyndi ég ítrekað að hringja í aðalnúmer skemmtigarðsins. Þar var aldrei svarað.

Núna var farið að rigna og ég sannfærði stelpukrúttin um að við yrðum að gefa þetta upp á bátinn. Tækið yrði greinilega ekki sett í gang í bráð.

Svo gengum við alla leið til baka, í gegnum fjölskyldugarðinn og húsdýragarðinn og að útganginum. Þar stóð maður og fór fram á að fá 10 miða, sem hann hafði keypt skömmu áður, endurgreidda. Enda væru tækin í garðinum alls ekki í gangi!  Ég sagðist líka ætla að fá mína endurgreidda. Stúlkan í afgreiðslunni hafði greinilega aldrei heyrt aðra eins vitleysu. Hún sagði við manninn að tækin hefðu verið opin, að minnsta kosti sum þeirra. Og hló. Manninum fannst þetta ekkert fyndið. Við mig sagði stúlkan að skipið, sem ég ætlaði að leyfa stelpunum að sitja í, hefði bilað. Og yppti svo bara öxlum. Hún hafði nú samt vit á að endurgreiða okkur fyrir rest.

Við vorum allar holdvotar og ég dreif stelpur heim, setti allar þeirra spjarir í þurrkara og svo fengu þær að horfa aftur á býflugnamyndina. Það var auðvitað bráðnauðsynleg endursýning, því Tara hafði aldrei séð myndina.

Á meðan þær horfðu á myndina kom Torben tengdó í heimsókn, sveiflaði keðjusöginni sem ég fékk hjá Byko og snyrti runnana með austurhlið hússins. Það var nú aldeilis tímabært og núna er bæði hægt að ganga niður með húsinu og eftir göngustígnum handan við runnana. Ég var komin með töluverðan móral yfir að loka nánast göngustígnum síðasta sumar.

Eftir vorverkin þurftu systur að læra. Þær gerðu stafablað. Stafur vikunnar er T.

Margrét gerði einfalda mynd af einhverju kubbuðu og hvítu. Tönn.

Á næstu mynd sjást margir litlir og hvítir kubbar. Ofan á þeim eru tveir agnarsmáir náungar með haka og höggva ofan í hvítu kubbana. Þetta eru auðvitað Karíus og Baktus. Tannpína.

Á þriðju mynd er kona og í bólu út úr henni stendur "bla, bla, bla, bla, bla". Hún er að tala.

Á fjórðu myndinni sést handleggur. Á handleggnum er rautt hjarta með ör í gegn. Tattú.

Elísabet hefur beðið eftir T-blaðinu í margar, margar vikur. Hún var nefnilega ákveðin í að teikna geimveruna E.T., sem hún sá á vídeói hjá guðmæðrunum. Það var ekkert einfalt mál, en hún leysti það snilldarlega. Fyrst bað hún mig að finna mynd af E.T. í tölvunni. Sem ég gerði og prentaði hana út. Svo dró hún myndina í gegn á smjörpappír og færði hana yfir á stafablaðið. Hún dró líka upp hægri hönd geimverunnar, með logandi rauðum vísifingri. E.T.

Næst teiknaði hún mynd af konu og mikið blómskrúð í kring. Tína blóm.

Þriðja myndin hennar var af stóru tré. Frá trénu lá löng grein eða viðartág og neðan úr henni dinglaði lítil mannvera. Tarzan.

Afi Torben og amma Magga buðu okkur þremur í frábæran fisk í gærkvöldi og systur mokuðu í sig hollustunni.

Í dag er umhverfisdagur og systur lögðu upp í langferð með skólanum sínum klukkan 9 í morgun. Með heitt kakó og nesti í bakpoka héldu þær af stað gangandi alla leið í Laugardalinn og ætla líka að ganga til baka. Þær verða áreiðanlega örmagna eftir slíkt ferðalag, þótt þrekmiklar séu.

Ég lofaði þeim kósýkvöldi í kvöld, barnabíó, popp og svo mega þær sofna í stóra rúmi.


Ritstjórar

Ég er alsæl með nýjan ritstjóra Moggans, hinn sanngjarna vin minn og últra-jafnréttissinna Ólaf Þ. Stephensen. Ekkert hissa, en alveg alsæl.

Ég er líka lukkuleg með Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur sem ritstjóra 24 stunda. Ég þekki konuna ekkert, en þykir gott að þar hafi verið ráðin 32 ára kona í starf ritstjóra. Það gerist ekki á hverjum degi.

Fínt mál.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband