Færsluflokkur: Bloggar

Skóflustungur og ráðdeild

Pistill í Mbl. 33. mars 
Um allt höfuðborgarsvæðið eru auðar íbúðir í fullbyggðum fjölbýlishúsum. Víða eru líka hálfkláruð hús, sem ætti að vera hægt að ljúka við og breyta þá í samræmi við fyrirhugaða notkun. Mikið offramboð er á húsnæði í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.
Þess vegna koma fréttir um skóflustungur stúdentaíbúða og þjónustuíbúða fyrir aldraða spánskt fyrir sjónir.
Í janúarbyrjun var tekin fyrsta skóflustunga að nýjum Stúdentagörðum við Skógarveg í Fossvogi. Þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, tók skóflustunguna. Þarna munu rísa þrjú fjögurra hæða hús, með 80 tveggja og þriggja herbergja fjölskylduíbúðum. Og þessi fjölbýlishús eiga að vera tilbúin í desember á þessu ári. Ákaflega mikilvægt fyrir stúdenta sem berjast nú í bökkum eins og aðrir landsmenn, var haft eftir framkvæmdastjóra Stúdentaráðs. Ætli fyrrverandi félags- og tryggingamálaráðherra, sem nú situr í stóli forsætisráðherra, sé sammála um mikilvægi þessarar framkvæmdar?
Í síðustu viku tóku bæjarstjórinn í Kópavogi og formaður Sjómannadagsráðs fyrstu skóflustungur að nýjum leiguíbúðum fyrir aldraða við Boðaþing í Kópavogi. Þarna verða 95 þjónustu- og öryggisíbúðir.
Á þessum síðustu og verstu tímum er áreiðanlega mikilvægt að einhverjar byggingaframkvæmdir séu í gangi. En er virkilega ástæða til að reisa ný fjölbýlishús? Væri ekki hægt að ljúka við einhver þeirra fjölmörgu, sem standa hálfkláruð um allar trissur, eða breyta lítillega þeim sem þegar eru risin? Vissulega verða þjónustuíbúðir aldraðra tengdar sérstakri þjónustumiðstöð, en af hverju í ósköpunum þurfa stúdentar að byggja frá grunni? Er eitthvert vit í því?
Við þurfum að fara að temja okkur ráðdeild. Sú hugsun er ekki langt komin. Ég þurfti að leysa út lyf fyrir dóttur mína í gær, lyf sem hún á að taka til reynslu í einn mánuð. En í apótekinu var mér tjáð að lyfið væri nú einungis hægt að fá í 96 stk. pakkningum, en ekki 28 stk. eins og læknirinn hafði skrifað upp á.
Ég átti ekki annarra kosta völ en að taka við stóru pakkningunni, sem kostar Tryggingastofnun ríkisins hátt í 30 þúsund krónur. Mér skilst á lækninum að lyfið virki alls ekki fyrir öll börn. Það reynist sumum vel, en aðeins sumum. Það gæti því farið svo að eftir mánuðinn komi í ljós að það gagnist dóttur minni ekkert. Þá sitjum við uppi með 68 rándýrar töflur, sem hugsanlega gætu nýst einhverju öðru barni.
Svona getum við ekki haldið áfram að haga okkur. Við eigum að nýta þau hús sem til eru fyrir stúdenta sem þurfa nýja Stúdentagarða og fyrir eldri borgara, sem þurfa þjónustuíbúðir. Og við verðum að gera meira en að tala um að lækka lyfjakostnað. Við eigum ekki að halda áfram að hegða okkur eins og enn sé 2007.

Halogen

Ég skrifaði örfrétt um verð á Halogen-perum í Moggann um helgina.

Hún var svona:

Halógen-perur teljast seint ódýrar. En svo miklu getur munað á verði þeirra á milli verslana að aukaferð í verslun margborgar sig.

Á dögunum vantaði tvær slíkar perur á heimilið. Það var freistandi að grípa þær í Krónunni, en sá grunur læddist þó að kaupanda að hver GU10 35w pera væri ekki 1.125 króna virði, eins og verslunin setti upp.

Í Húsasmiðjunni fengust slíkar perur á 695 krónur. Vissulega er þar ekki um sömu tegund að ræða, en reynslan af þeim er alveg ágæt.

Í húsi, þar sem 10 perur af þessari tegund eru á neðri hæð, skiptir 430 króna munur á hverri peru miklu máli.

Svo fékk ég póst í morgun frá Auði Bjarnadóttur, aðstoðarsölustjóra í smávörudeild IKEA.

Hann er svona:

Ég las grein í Morgunblaðinu um helgina sem undirritað var með þessu e-maili og fjallaði um GU10 35w halogenperur og verðmun á þeim.

 

Langaði mig í kjölfarið að benda þér á þessar perur eru seldar hjá okkur í IKEA 4stk saman í pakka á 1.190,- kr þannig að stykkjaverðið er 297,5 kr.

 

Ætti það að vera töluverður sparnaður fyrir þig ef þú notar 10 slíkar á heimilinu.

Mér finnst ástæða til að koma þessum upplýsingum Auðar á framfæri. Og mikið er ég ánægð með fólk sem er svona vakandi í vinnunni sinni ;)

 


Augnablik

Systur sváfu í Víkingheimilinu í nótt, ásamt 17 öðrum stelpum í fótboltanum.

Þetta var mikið fjör. Við drösluðum svefnpokum og dýnum í Víkina klukkan sjö í gærkvöldi og kvöddum systur. Nokkrir foreldrar voru á kvöldvakt, aðrir tóku svo við næturvaktinni og við Kata vorum í hópi þeirra sem áttu morgunvakt og smurðu brauð og sneiddu ávexti ofan í glorhungraðar íþróttahetjurnar klukkan 8 í morgun.

Systur eru þreyttar eftir ósköpin, en samt eru þær í sundi í þessum rituðum orðum, með Kötu. Þær fóru með mér til ömmu Deddu og afa Ís í sína venjulegu súkkulaðikökuheimsókn. Þar voru þær mjög uppteknar af því að búa til krassandi draugasögur. Á leiðinni heim sagði Elísabet mjöööööög langa og afskaplega flókna sögu. Þegar við vorum að renna í hlað hérna heima bað hún mig að hinkra, hún væri nefnilega alls ekki búin með söguna.

Ég benti henni á að sagan hennar væri ansi löng og töluvert flókin.

"Það skiptir engu máli," sagði hún. "Þið þurfið ekkert að læra hana. Ég er bara að segja ykkur hana í augnablikinu."

Ég drap á bílnum og við Margrét nutum augnabliksins enn um stund.


Inn þetta og inn hitt

Systur fengu afskaplegar margar og góðar gjafir frá fjölskyldu og vinum í gær. Þær voru örmagna eftir daginn og steinsofnuðu.

Þegar ég náði í þær í skólann um þrjúleytið voru báðar mjög uppteknar af nýju gemsunum, sem biðu heima frá því um morguninn. Eitthvað hafði skolast til hjá Símanum, svo inneign Elísabetar reyndist nær engin. Hún hafði af þessu töluverðar áhyggjur, enda ekkert fjör að eiga gemsa og geta ekki hringt.

Fyrsta spurningin, sem ég fékk þegar ég mætti á frístundaheimilið að sækja þær var því frá Elísabetu: "Ertu búin að kaupa innyfli?"

Það tók mig dálitla stund að átta mig á við hvað hún ætti, en svo sagði ég henni að þetta héti inneign, en ekki innyfli.

Þá sagði systir hennar undrandi: "Ég hélt að þetta héti innegg!"

Þær átta sig smám saman á gemsaheiminum, krúttin.


Afmæli

Systur vöknuðu brosandi á afmælisdaginn. Þær kúrðu áfram á meðan við Kata höfðum til "morgunmatinn" sem þær höfðu beðið um að fá í rúmið á þessum hátíðardegi.

Morgunmaturinn var eintóm hollusta, að sjálfsögðu. Súkkulaðimúffur og köld mjólk. Reyndar skipti stemmningin þær systur meira máli en maturinn, þeim fannst frábært að fá múffu með afmæliskerti og afmælissönginn með. "Þetta er alveg fullkomið!" hrópaði Margrét, blés á kertið og hafði svo nánast engan áhuga á múffunni. Sem var í fínu lagi, hún bætti sér það upp með eðlilegri morgunverð síðar.

Þær biðu spenntar eftir pökkum. Elísabet færði Margréti stóran kassa. Í honum voru aðallega krumpuð Morgunblöð til uppfyllingar, en á botninum var tölvuleikur sem Margrét hafði óskað sér.

Elísabet fékk "síamstvíburapakka" frá Margréti, tvo pakka fasta saman. Í öðrum var bolur, sem systir hennar hafði valið sérstaklega, vitandi að Elísabet hefur gaman af fallegum förum. Í hinum var lítið tuskudýr, en því fylgir lykilorð til að komast inn á sérstaka tölvuleikjasíðu. Þær systur eru báðar búnar að uppgötva tölvur og hverfa stundum inn í herbergi til að leika sér.

Við mömmurnar vorum búnar að eiga í töluverðu hugarangri vegna afmælisgjafanna. Systur vildu helst af öllu fá gemsa, en við vorum búnar að skýra út fyrir þeim að þær væru nú í yngri kantinum fyrir slík tæki, sem þar að auki kostuðu mjög mikið. Við Kata höfðum samt rætt um að næsta haust yrðu þær að hafa gemsa, enda munu þær tæpast komast á frístundaheimili þá og eru hvort eð er orðnar leiðar á því fyrirkomulagi. Það stefnir því allt í að þær muni oft rölta heim eftir skóla, áður en við skilum okkur heim. Þá er nú eins gott að þær geti alltaf náð í okkur og við í þær.

Við játuðum okkur sigraðar, ákváðum að það væri fínt að þær hefðu næsta hálfa árið til að læra vel á gemsa og væru þá til í slaginn næsta haust.

Þær voru himinsælar.

Svo fengu þær enn einn pakkann í morgun, frá Maríu Hrund frænku og fjölskyldu í Kaupmannahöfn (Kristján bróðir og co.) Það voru fallegir bómullarkjólar, sem þær fóru strax í, Elísabet yfir gallabuxur og Margrét yfir leggings.

Tara kom óvenju snemma yfir til að verða samferða í skólann og Marta María birtist rétt á eftir. Logalandsgengið knúsaðist í bak og fyrir og svo röltum við í skólann. Systur fengu að hafa gemsana á leiðinni, þótt Margrét hefði töluverðar áhyggjur af að inneignin á "Frelsinu" eyddist við það bauk. Hún er hins vegar glöð að vita að hægt sé að fara í Sudoku í símanum án þess að ganga á inneignina.

Litlu dekurrófurnar okkar halda kaffiboð fyrir fjölskylduna í dag, en bekkjarsysturnar koma á laugardag.


Spenna

Systur eru að bræða úr sér af spenningi, enda 8 ára afmælið á fimmtudag.

Í dag vorum við Elísabet áreiðanlega hálftíma að pakka inn gjöfinni sem hún ætlar að gefa Margréti. Það voru miklar tilfæringar, sem ekki verður sagt frá fyrirfram.

Svo þurfti Margrét að pakka inn til Elísabetar og endaði með "síamstvíburapakka". Mikið fjör.

Kata var ekki heima, ég nennti ekki að elda og þær göbbuðu mig í lúguna á McDonalds. Þegar heim kom fóru þær að borða. Margrét fékk bita af hamborgara hjá systur sinni, sem á móti fékk einn nagga hjá Margréti og svona hélt þetta áfram þar til hvor hafði borðað mat hinnar. En Margrét vildi auðvitað alls ekki borgara, ekki frekar en Elísabet vildi nagga. Hún borðar alls ekki nagga.

Einmitt.

Þær fengu leikföng með barnaboxinu og eins og oft gerist gátu þær ekki alveg ákveðið hvort var flottara.

Margrét spurði systur sína hvort þær ættu ekki bara að eiga dótið saman. "Nema ég á pínulítið meira í þessu sem ég fékk og þú átt pínulíitið meira í því sem þú fékkst."

"Já, en þá má ég alltaf fá þitt lánað og þú mitt," sagði Elísabet.

"Já, en við verðum samt alltaf að spyrja," svaraði Margrét.

"Jájá, en þá verður líka alltaf að segja já," sagði Elísabet.

"Auðvitað," sagði Margrét.

Svona fór um sameign þá, sem er þó skýr séreign, en með ótakmörkuðum afnotarétti hinnar.

Tvíburar! Halo


Buxurnar

Elísabet varð uppnumin um daginn, þegar Alma stóra frænka, 13 ára, kom í heimsókn. Hún var í strets-buxum, svörtum með bandi undir il.

Elísabet verður að eignast svona. Ég sagði henni að svona buxur hefðu verið í tísku af og til. Bryndís stóra systir mín hefði verið svona klædd á sínum unglingsárum og svo hefðu strets-buxurnar gengið aftur seinna. Kata tók undir þetta og sagðist hafa gengið í slíkum buxum á sínum unglingsárum og ég sagðist líka hafa átt svoleiðis. Svartar, alveg eins og Alma.

"Vá, áttir ÞÚ strets-buxur?" spurði Elísabet dolfallin.

Ég staðfesti það.

"Rosalega hafa þær verið MIKIÐ í tísku," sagði þá stýrið, sem er löngu búin að átta sig á að ég hleyp ekki mikið eftir tískustraumum.

En þegar eitthvað er rosalega mikið í tísku er mér stundum engrar undankomu auðið LoL


Hvað er þetta fólk að hugsa??

Glæsilegt nefnd!
Þarna er þess bæði gætt að hafa konur til jafns við karla og að meðalaldurinn sé ekki of hár!
Vel gert, Alþingi Nýja Íslands! 
Innlent | mbl.is | 12.3.2009 | 14:21

Sérnefnd um stjórnarskrármál kosin

Níu þingmenn voru í dag kjörnir í sérnefnd um stjórnarskrármál en sú nefnd mun fjalla um frumvarp til stjórnskipunarlaga, sem er til meðferðar á Alþingi.

Af hálfu Samfylkingar, VG, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins voru kjörin Lúðvík Bergvinsson, Ellert B. Schram, Atli Gíslason, Valgerður Sverrisdóttir og Guðjón A. Kristjánsson. Af hálfu Sjálfstæðisflokksins voru kjörnir Björn Bjarnason, Sturla Böðvarsson, Birgir Ármannsson og Jón Magnússon.  


Hvernig á að tala niður launin sín

Pistill í Mbl. 5. mars 
Þjóðin er yfir sig hneyksluð á ýmsu og þar er svo sannarlega af nógu að taka. En það er vont að hneykslast yfir sig, þá lendir maður fljótt í öngstræti og sér enga leið út; gerir sjálfum sér ógreiða og neyðist til að fara sjálfur eftir þeim reglum, sem maður ætlaði sér að setja öðru og verra fólki með upphrópunum sínum og fullyrðingum.
Ofurlaun eru núna eitt uppáhalds hneykslunarefnið. Allir eru sammála um að í bönkunum hegðuðu menn sér eins og vitfirrtir. Laun stjórnendanna, með alls konar kaupréttarsamningum og árangursgreiðslum, sem höfðu að sjálfsögðu ekkert með raunverulegan árangur að gera, voru margar milljónir á mánuði, jafnvel tugir milljóna. Þetta var ekkert annað en græðgi. Bjarni Ármannsson hefur meira að segja viðurkennt að þetta hafi verið fullmikið af því góða og restin af þjóðinni getur auðvitað kvittað upp á það.
Bankarnir hrundu og hin stórskuldugu fyrirtækin hrundu. Enn eru fjölmörg fyrirtæki sem ramba á barmi gjaldþrots. Mörg þúsund manns hafa misst vinnuna, aðrir þurft að sætta sig við launalækkun og enn óttast menn að staðan eigi eftir að versna. Og eitt eru menn sammála um: Ekki er verjandi að greiða nokkrum manni ofurlaun.
En þar láta menn ekki staðar numið. Þeir endurskilgreina hugtakið „ofurlaun“ eins og ekkert sé. Ef fréttist af einhverjum, sem fer yfir milljón krónur á mánuði í launum, hvað þá að hann nálgist tvær, þá verður allt vitlaust. Ofurlaun! Ofurlaun! er hrópað og þess krafist að strax verði látið af þeim vonda sið að borga stjórnendum fyrirtækja þessar svimandi fjárhæðir.
Fyrirtæki skera af launum starfsmanna og taka þá mörg þann kostinn að miða launalækkunina við alla sem hafa yfir 300 þúsund krónur í laun. Þar er eitthvert heimatilbúið viðmið og enginn hrópar um ofurlaun.
Málið vandast þegar ofar dregur. 400-600 þúsund krónur á mánuði eru fín laun, þau eru vissulega ofar en heilagi 300 þúsund kallinn, en samt hrópa fæstir um ofurlaun. Um leið og komið er í 700 þúsund fer málið að vandast. Milljónin og allt þar yfir kallar á flestar bloggfærslurnar og upphrópanirnar.
Þannig tekur almenningur, líklega óafvitandi, fullan þátt í að lækka launin sín, í nafni þess að barist sé gegn ofurlaunum. Því ef sá sem núna fær 1,7 á mánuði lækkar í 1,2 þá lækkar milljón króna fólkið í 7-800 þúsund og fólkið með þau laun þarf að fara enn neðar og áður en við vitum af er 300 þúsund kallinn ekki heilagur lengur.
Hvað gerum við þá? Verðum við gjaldþrota og alsæl með jöfnuðinn sem við höfum náð fram? Eða horfum við öfundaraugum til þeirra sem nálgast milljónina og höldum áfram að hrópa og kalla um ofurlaun? Ímyndum við okkur kannski að á Nýja Íslandi verði enginn launamunur, allir fái sín 400 þúsund, óháð starfi?
Gleðilega launalækkun.

 


Öskudagur

Systur vöknuðu spenntar, öskudagurinn framundan og búið að plana grímubúninga.

Elísabet vildi vera hippi. Tara ætlaði líka að vera hippi.

Elísabet var ekki alveg með hugmyndafræði hippanna á hreinu, var t.d. fremur agressív þegar hún stökk fram með peace-merki á lofti. Við fórum aðeins í gegnum þetta, ástina, frið og blóm.

Margrét vildi vera norn. Og Marta María ætlaði líka að vera norn.

Margrét hefur fyrir löngu náð fullkomnun sem norn, enda leikið slíka kerlingu oftar en einu sinni. Hún hefur t.d. komið sér upp nístandi nornahlátri, sem vekur manni ugg.

Þær klæddu sig og borðuðu morgunmat og skoppuðu svo yfir til Töru. Þar tók Thelma Törumamma við, setti á þær tattú og sprautaði bleiku og fjólubláu í hárið á þeim.

Þær fóru á frístundaheimilið í múnderíngunum. Kata náði svo í þær snemma og fór með í leiðangur eitthvert þar sem leynist nammi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband