Færsluflokkur: Bloggar
17.11.2008 | 00:15
Litlar
Einu sinni voru þær svona mikil kríli. Urður minnti okkur á það með myndasendingu.
Elísabet lúin og komin í hálsakot, Margrét enn í bullandi stuði !
Við vorum í sviðamessu hjá mömmu og pabba í kvöld. Þær systur voru óðar í sviðin og ég hélt þær ætluðu aldrei að hætta að moka í sig, afa sínum til mikillar ánægju.
Annars allt gott. Fyrir utan bloggletina.
Núna skilst mér að allir séu á FaceBook. Bloggið eitthvað svo 2007.
En ég hef hvort sem er aldrei verið hip og kúl.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.10.2008 | 22:04
Stuð
Systur voru á frístundaheimilinu í dag. Alsælar að vera komnar þar inn, þótt þær hafi að vísu mótmælt pínulítið að eiga að vera þar allan daginn, enda foreldradagur í dag. Á morgun tekur svo við vetrarfríið.
Þær voru reyndar ekkert óskaplega lengi á frístundaheimilinu. Kata sótti þær snemma og puntaði og svo brunuðum við allar á áttræðisafmæli Bettýar frænku síðdegis. Þar voru glæsilegar veitingar og Bettý í besta formi. Það er ekki á henni að sjá að hún sé orðin áttræð! Margir áratugum yngri gætu prísað sig sæla yfir frískleikanum og fjörinu.
Eftir afmælið brunuðum við heim til Siggu frænku að fá eintak af nýja Söngvaborgardisknum. Og beint heim að horfa. Tara bættist í hópinn og Thelma mamma hennar líka. Svo sátum við allar og horfðum á stelpuskottin þrjú syngja og dansa á skjánum. Við Thelma sáum að vísu ekki allt, því stundum misstu þær litlu alveg stjórn á sér, stukku á fætur og sungu og dönsuðu fyrir framan sjónvarpið.
Eftir stuðið gat Tara auðvitað ekki farið heim, enda súperskemmtikraftatríóið enn í fullu fjöri. Hún ætlar að gista, en auðvitað er málið ekki svo einfalt að henda bara einni dýnu á gólfið inni hjá systrum. Nei, þær þurfa allar að sofa á dýnum á gólfinu.
Best að vinda sér í framkvæmdir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.10.2008 | 16:20
Nóg komið af víkingum!
Pistill í Mbl. 21. okt
Nú ríkir tími samstöðu. Um það eru allir sammála og geta nefnt um það fjölmörg dæmi. Við eigum að bíta á jaxlinn og þá erum við enga stund að sigla upp úr öldudalnum. Bíta á jaxlinn og vona að við þurfum ekki að leita til tannlæknis á næstunni, því heimilisbókhaldið gerir ekki ráð fyrir slíku.
Gott og vel. Það er satt best að segja ekki hægt að greina annað en Íslendingar ætli að harka af sér og taka því sem að höndum ber með eins miklu jafnaðargeði og okkur er frekast unnt. Það gerum við af illri nauðsyn, en ekki vegna þess að við séum öðrum þjóðum fremri í æðruleysi og dugnaði.
Við megum nefnilega ekki missa okkur strax aftur í fjálglegar yfirlýsingar um hversu mjög við berum af öðrum þjóðum. Aðrar þjóðir hafa gengið í gegnum hörmungartíma og svo miklu, miklu skelfilegri en efnahagslegar þrengingar. Í okkar eigin heimsálfu hafa geisað styrjaldir, sem sumar hafa vissulega snert okkur, einhverjar lítillega en aðrar ekki neitt.
Við skulum hætta að vísa til forfeðra okkar, sem lifðu við sult og seyru og láta eins og þaðan sé komin einstök seigla, sem öðrum þjóðum er ekki gefin. Eða höfum við ekki öll fengið nóg af samlíkingunum við hugprúða víkinga, sem vega mann og annan, standa ósárir eftir og berjast áfram fram í rauðan dauðann?
Það fer um mig hrollur þegar fólk ætlar að vera svo ofurjákvætt að það heldur því jafnvel fram að við Íslendingar getum kennt öðrum þjóðum hvernig takast eigi á við erfiðleika í lífinu. Sannleikurinn er sá, að þjóðin hefur verið vandlega vafin í bómull á undanförnum árum og fjölmargar aðrar þjóðir eru betur undir það búnar að takast á við erfiðleika. Væri ekki ráð að leita í smiðju þeirra? Hætta að láta eins og við getum enn eina ferðina fundið upp hjólið, viðurkenna vanmátt okkar og leita aðstoðar okkur fróðari og reyndari? Frændur okkar Norðmenn og Svíar lentu í miklum fjárhagskröggum fyrir ekki svo ýkja löngu og náðu að rétta úr kútnum, svo við gætum byrjað á að leita til þeirra. Það þætti mér styrkleikamerki fremur en hitt. Það er enginn kostur að þumbast við og berja höfðinu við steininn.
Nú er það ekki svo að ég efist um að þjóðin komist upp úr þessum margumrædda öldudal. Ég er sannfærð um það. Skólakerfið okkar er ekkert að hrynja, félagslega stoðkerfið er á sínum stað og heilbrigðiskerfið líka, náttúruauðlindirnar og menningin. Grunnurinn er traustur, enda var hann fastur hér á landi og ekki hægt að selja hann í vafningum og afleiðum til útlanda.
Ég er sannfærð um að við náum aftur vopnum okkar af því að við erum vel menntuð og bjargálna þjóð, þrátt fyrir allt. Það hefur ekkert með þá staðreynd að gera að í eina tíð bjuggu hér vígreifir víkingar og langsoltnir langalangafar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.10.2008 | 21:03
Með kössótta hausinn
"Á borgarstjórinn börn?" spurði Margrét mig í kvöld.
"Já, hún á börn," svaraði ég.
Margrét varð ráðvillt á svip. "Nei, ég meina borgarstjórann. Manninn. Á hann börn?"
"Borgarstjórinn er kona. Hanna Birna. Og hún á börn," sagði ég.
"Æ, ég meina kallinn með kössótta hausinn og brúna hárið og gleraugun. Sem er alltaf með rautt bindi."
"Hann heitir Geir Haarde og er forsætisráðherra."
"Já, hann. Á hann börn?"
"Já, Margrét, hann á börn."
"Eru þau ekki montin af honum?"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.10.2008 | 21:39
Dorrit
Ég er ánægð með Sunnudagsmoggann.
Núna byrja fréttaskýringar (Vikuspegill) strax á bls. 4 og þar fyrir aftan fréttaúttekt og þéttur pakki, feature efnið þar fyrir aftan. Mér finnst þessi samsetning hafa tekist vel hjá okkur.
Viðtalið við Dorrit hefur vakið mikla athygli, eins og sést í bloggheimum. Fólk skiptist algjörlega í tvö horn: Sumir eru hrifnir af forsetafrúnni og því sem hún segir, aðrir eru yfir sig hneykslaðir og tala um hana af lítilsvirðingu. Og svo eru alltaf einhverjir sem leggjast í ógurlegar pælingar um hvað Morgunblaðinu hafi gengið til með birtingu viðtalsins. Þeir æsa sig upp úr öllu valdi og eyða miklu púðri í slíkar pælingar. Og allir hafa lesið hvert orð í viðtalinu. Um leið svara þeir spurningu sinni sjálfir: Viðtal við Dorrit er áhugavert og ekki síst fyrir þá sök að fólk verður seint á einu máli um hana. ÞAÐ er ástæða þess að Dorrit er gott viðtalsefni.
Á heimavellinum eru systur sofnaðar eftir góðan dag. Heimsókn til afa og ömmu og afa og ömmu, langur hjólatúr með Kötu og svo Dagvaktin með okkur fyrir svefninn. Við verðum að endurskoða það þáttaval, því þetta er ekki beinlínis barnaefni! Við eyddum meiri tíma í að beina athygli þeirra frá skjánum en að horfa á þetta.
Annars allt gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.10.2008 | 10:36
Helgi
Þetta er allt að smella Sunnudagsblaðið á leið í prentun fljótlega og allt gengur eins og í sögu. Það er stútfullt af skemmtilegu efni, enda hver frábæri blaðamaðurinn upp af öðrum á þessum bæ.
Systur eru í gítartíma, en familían er búin að plana rólega helgi þegar því lýkur, og vinnunni hjá mér. Kata var að vinna alla síðustu helgi, ég hef tekið duglega törn undanfarið og nú er það bara barnatíminn í fyrramálið, síðbúinn morgunmatur, kannski skautar, eða bíó... Ég hlakka til rólegheitanna.
En það verður þó dálítið stuð með. Greta Lind frænka, blessað litla barnið, er 35 ára í dag. Til lukku með það! Hún kann að halda partý, konan sú og ég verð líklega að leggja mig ef ég á ekki að lognast út af snemma kvölds. Um síðustu helgi, þ.e. mjög seint á föstudagskvöldinu, leit ég við í fertugsafmæli en fór þaðan klukkutíma síðar vegna svima og almenns ræfildóms. Svei mér þá, öðruvísi mér áður brá og allt það! En ég lærði þó að bæði svefn og matur er nauðsynleg forsenda þess að maður sé hrókur alls fagnaðar í samkvæmum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.10.2008 | 18:18
Leti?
Við Kata fórum á foreldrafund í dag. Erla kennari hafði ekkert nema gott um stelpukrúttin að segja, eins og við reiknuðum auðvitað með
Lífið gengur sinn vanagang, sem er auðvitað stórmerkilegt eftir heimsendi. Systur fengu bréf í dag um að þær væru loks komnar inn í frístundaheimilið. Þær eru alsælar, enda Tara og Marta María báðar komnar inn. Við verðum að semja við afa og ömmu um að þær komi áfram til þeirra alla vega einu sinni í viku. Systur njóta þess og ég held að afi og amma séu ekkert sérstaklega leið yfir þeim heimsóknum. Annars erum við enn að púsla þessu saman, þær eru í fimleikum og fótbolta og knúsað að koma því heim og saman við frístundaheimilið..... Þetta leysist, eins og annað. Ég er alla vega viss um að Hanna Birna borgarstjóri er lukkuleg með stöðu mála. Ég þarf ekki að hóta því lengur að senda systur heim til hennar í pössun!
Kata skammar mig fyrir bloggleti þessa dagana og það má auðvitað til sanns vegar færa. Eitthvað verður nú undan að láta í fjörinu á Mogganum þessa dagana!
Um næstu helgi verður Sunnudagsmogginn í nýjum búningi. Fullur af góðu stöffi, því lofa ég. Það er gaman að koma þeim breytingum á koppinn og svo ætlast ég til að fá gríðarlega mikil (og góð) viðbrögð frá bloggvinum. Hafið það!
Áhugaverðir tímar! Áhugaverðir tímar! Áhugaverðir tímar! (þetta er mantran mín þessa dagana og svo miklu uppbyggilegri en eilíft krepputal. Eða getur einhvern mælt því í mót að þetta séu áhugaverðir tímar? Neibb, hélt ekki)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.10.2008 | 16:06
Einn rauður
Thelma Törumamma fór með stelpur í fimleika.
Henni gekk að vísu illa að finna þær eftir skóla. Þær höfðu farið til Stebba og faríð út að ganga með honum og litla hundinum hans.
Þær fundust loksins í sjoppunni. Allar með munninn fullan af nammi, eins og Stebbi. Hann hafði átt "rauðan seðil" og ákvað að splæsa í kreppunni. Alltaf sami höfðinginn og stórtöffarinn.
Þær eru komnar í fimleika núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.10.2008 | 22:21
Súkkulaði
Ásthildur systir bjargaði málum í gær og var með systur frá skóla og fram að fimleikum. Ég sótti þær í fimleikana og þegar heim kom hurfu þær í sístækkandi klíkuna. Það voru ekki bara þær, Marta og Tara, heldur Halldóra, Stebbi, Jens og örugglega einhverjir fleiri.
Þær flugu svo inn úr dyrunum og tilkynntu að þær yrðu að skipta um föt fyrir brúðkaupið. Það var sem sagt búið að blása aftur til brúðkaups heima hjá Jens. Núna ætluðu Tara og Stefán að ganga í það heilaga og Elísabet ætlaði að vera prestur, eins og þegar hún pússaði Jens og Margréti saman. Hún endurtók það reyndar líka í gær, því þau hrifust með stemningunni og giftust í annað sinn á örfáum mánuðum.
Í dag var Magga systir í hlutverki reddarans, sótti systur í skólann og fór með þær heim. Þar stoppuðu þær stutt, enda vissu þær að afi Ís og amma Dedda voru með nýbakaða súkkulaðiköku á Einimelnum. Þær lásu líka heima, Margrét fyrir Möggu frænku og Elísabet fyrir ömmu sína. Báðar vildu ólmar sýna hvað þær eru orðnar fluglæsar og kláruðu bækurnar sínar.
Þegar ég sótti þær voru þær alsælar, úttroðnar af súkkulaðiköku og hvor með sitt suðusúkkulaðistykkið. Eins og alltaf þegar afi Ís fær að ráða. Sem er alltaf.
Einu sinni maldaði ég í móinn þegar þær höfðu hástemmdar lýsingar eftir afa sínum á því hversu ótrúlega hollt suðusúkkulaðið væri, allra meina bót og ekki hægt að fá nóg af því. Það er löngu glötuð barátta. Ég verð hins vegar að muna að spyrja pabba hvernig stendur á því að hann borðar það ekki sjálfur.
Við laumuðumst til að vaka aðeins lengur en lög gera ráð fyrir í kvöld. Kata hvarf á kvöldfund og við hreinlega nenntum ekki kvöldverkunum strax. Kósý.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.10.2008 | 10:05
Fyrr en varir
Elísabet hélt áfram vangaveltum um kreppuna í gær og eins og fyrri daginn sagði ég henni að fullorðna fólkið myndi leysa þetta mál.
"Má ég koma með eina hugmynd?" spurði hún. "Af hverju er ekki haldinn stór fundur? Allt fullorðna fólkið getur talað saman og þeir sem eiga enga peninga geta fengið peninga hjá þeim sem eiga peninga. Og þá er kreppan búin fyrr en varir."
Ég sagði henni að þetta væri góð hugmynd.
Hún heyrði svo þegar ég endursagði þetta við Kötu, en þá varð mér á að hafa eftir henni að ef þessi leið yrði farin yrði kreppan búin áður en við vissum af.
"Fyrr en varir!" ítrekaði sú stutta þá
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Um bloggið
Logalandið
Bloggvinir
- margretsverris
- begga
- annapala
- stebbifr
- andreaolafs
- sms
- seth
- salvor
- hrafnaspark
- svartfugl
- vitinn
- ingibjorgelsa
- konukind
- eddaagn
- konur
- thorbjorghelga
- elvabjork
- steinunnolina
- jullibrjans
- toshiki
- adhdblogg
- malacai
- arndisthor
- asarich
- baldvinjonsson
- berglindnanna
- beggita
- birna-dis
- birtab
- bjb
- blomid
- dabbaa
- doggpals
- madamhex
- saxi
- ellasprella
- garun
- gislihjalmar
- neytendatalsmadur
- gudni-is
- lucas
- gylfig
- iador
- helgamagg
- skjolid
- hildigunnurr
- hildurhelgas
- himmalingur
- hlekkur
- danjensen
- innipuki
- jakobk
- jenfo
- joninaros
- prakkarinn
- nonniblogg
- julianamagg
- kari-hardarson
- kiddijoi
- kollak
- hjolaferd
- kristinm
- lenapena
- liljabolla
- lillagud
- lindalinnet
- 101isafjordur
- mal214
- mongoqueen
- olinathorv
- fjola
- amman
- siggiholmar
- sij
- sigthora
- zsapper
- svala-svala
- possi
- saemi7
- saethorhelgi
- steinibriem
- thorasig
- thorhildurhelga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar