Femínistar og annað fólk (Viðhorf í Mbl. 9.feb.)

Eru kynferðisbrot sérstakt áhugamál kvenna? Eða kannski eingöngu þeirra kvenna sem skilgreina sig femínista? Koma þessi brot ekki körlum við? Af hverju ekki? Af því að þeir eru ekki fórnarlömbin? Þeir eru það reyndar sumir, á unga aldri. Og brotamennirnir eru karlkyns. Er það einhver sérstakur femínismi að benda á það?

Sitt sýnist hverjum um þá ákvörðun Morgunblaðsins að birta myndir af hæstaréttardómurum á forsíðu blaðsins sl. föstudag. Tilefnið var vægur dómur yfir manni, sem hafði svívirt fimm lítil stúlkubörn, hið yngsta þriggja ára.

Reyndar var yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem tjáðu sig um málið sammála uppsetningu blaðsins. Einhverjir urðu þó til að gagnrýna hana, meðal annars á þeirri forsendu að Morgunblaðið væri með þessu að móta viðhorf almennings, gefa tóninn um að refsingin væri allt of væg. Þetta þykir mér vægast sagt undarlegur málflutningur. Hefur almannarómur ekki lengi haldið því fram að refsingar fyrir þessi skelfilegu brot séu allt of vægar? Ég hef margoft tekið þátt í, eða orðið vitni að, heitum umræðum um hvernig standi á því að dómstólarnir nýti ekki refsirammann, sem lögin setja, og dæmi níðinga af þessu tagi til þyngstu mögulegu refsingar. Morgunblaðið var því alls ekki að vekja slíkar hugmyndir hjá fólki. En kannski hnykkti fólki við þegar það sá svart á hvítu að dómar Hæstaréttar koma frá mönnum, en ekki stofnun? Á föstudagskvöld var meðal annars rætt um þessa forsíðu Morgunblaðsins í Kastljósi Sjónvarpsins. Þar var mættur prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Hann var ekki par ánægður með forsíðuna, enda kvaðst hann vilja sitt blað trúverðugt og áreiðanlegt og gætið. Ekki skýrði hann þó nánar hvað hefði skort upp á trúverðugleikann og áreiðanleikann í frásögn Morgunblaðsins, enda kórrétt sagt þar frá öllum efnisatriðum. Gætnin er annað mál og prófessornum að sjálfsögðu frjálst að óska eftir meiri gætni, telji hann hana æskilega í þessu tilviki.

Hannes vísaði svo til skoðanabræðra sinna á vefsíðunni andriki.is, sem teldu Morgunblaðið núna vera eins konar dagblaðsútgáfu af Veru. Þá skoðun sína rökstyðja Andríkismenn með tilvísan í að Morgunblaðið hafi annars vegar talið fréttnæmt að Hillary Clinton hafi hafið opinberlega baráttu fyrir því að vera kjörin forseti Bandaríkjanna og hins vegar að Halla Gunnarsdóttir, þingfréttaritari blaðsins, byði sig fram til formennsku í Knattspyrnusambandi Íslands, fyrst kvenna. Andríki þykir þar með sýnt að "kvennabarátta" sé það sem skiptir Morgunblaðið mestu.

Stjórnmálafræðiprófessorinn og álitsgjafinn Hannes Hólmsteinn Gissurarson sér síðan sóma sinn í því að tengja "kvennabaráttu" Morgunblaðsins við áhuga ritstjórnar á að dómarar Hæstaréttar nýti þann refsiramma sem löggjafarvaldið hefur leyft þegar dæmt er í níðingsmálum af þessu tagi. Slíkur er vilji löggjafans og slík er krafa íslensku þjóðarinnar. En nei, að mati prófessorsins ýtir umrædd forsíða Morgunblaðsins undir þá túlkun að blaðið sé dagblaðsútgáfa af Veru, blaði Kvennalistans eins og hann orðaði það – og þar með hallærislegt og marklaust í samfélagi alvörumanna, eða hvað? Hér er vert að rifja upp að Vera var tímarit um konur og kvenfrelsi. Það kom fyrst út árið 1982 og útgefandinn var þá Kvennaframboðið í Reykjavík. Síðar tók Kvennalistinn við útgáfunni, en árið 2000 tók útgáfufélag 63 ein-staklinga við Veru og gaf út þar til yfir lauk nokkrum árum síðar. Vera var tímarit um konur og kvenfrelsi, tímarit um femínisma, skrifað af femínistum.

Og nú tekur prófessor við Háskóla Íslands undir að Morgunblaðið hafði breyst í dagblaðsútgáfu af þessu femínistariti, með því að vekja athygli á linku dómara við níðing.

Hvað á prófessorinn við? Eru kynferðisbrot sérstakt áhugamál kvenna? Eða kannski eingöngu þeirra kvenna sem skilgreina sig femínista? Koma þessi brot ekki körlum við? Af hverju ekki? Af því að þeir eru ekki fórnarlömbin? Þeir eru það reyndar sumir, á unga aldri. Og brotamennirnir eru karlkyns. Er það einhver sérstakur femínismi að benda á það? Kynferðisbrot gegn börnum eru viðurstyggileg, um það er allt sómakært fólk sammála. Að morði frátöldu er var hægt að ímynda sér stærri glæp en þann að svipta börn æskunni og setja um leið óafmáanleg ör á sál þeirra.

Ekki er langt síðan óhugsandi var að kynferðisbrot gegn börnum væru rædd opinberlega. Þau voru leyndarmál, sem fórnarlömbin burðuðust með alla ævi. Og glæpamennirnir komust upp með hegðun sína óáreittir.

Á allra síðustu árum hefur viðhorfið til ljótu leyndarmálanna gjörbreyst. Í fyrstu snerist umræðan um ofbeldi gegn konum. Stígamót lyftu Grettistaki, en þá, eins og oft síðar, örlaði á því viðhorfi að þar færu róttækir femínistar offari og margur góður drengurinn liði að ósekju fyrir.

Þegar fæstir gátu lengur lokað augunum fyrir nauðgunum og ofbeldi gegn konum á heimilum var athyglinni beint að börnunum. Einstaklingar, sem höfðu sem börn orðið fyrir grófri misnotkun, stigu fram í dagsljósið og sögðu sögu sína, þrátt fyrir að slíkt hljóti að hafa kostað nær ofurmannlegt átak. Það átak var sannarlega í þágu þjóðarinnar allrar. Frásagnir þessara einstaklinga voru trúverðugar og áreiðanlegar, en gætnin var látin lönd og leið. Til allrar hamingju, því við getum ekki lengur lokað augunum fyrir því að misnotkun á börnum er staðreynd. Við viljum að samfélagið taki á þessum vanda og sjái til þess að níðingarnir fái makleg málagjöld.

Og aftur spyr ég: Er það einhver sérstakur femínismi að benda á það?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér fyrir frábæra grein, þar sem hægt er að taka undir hvert orð.  Getur verið að það rugli, einstaka forpokaða menn að upphaf umræðu um kynferðislegt ofbeldi gegn konum og börnum var að frumkvæði Kvennalistans og greinar um þetta efni birtust fyrst í VERU. Það er mér ógleymanlegt hversu óhugnalegt það var að lesa fyrst þessa umfjöllun VERU um kynferðilegt ofbeldi gegn börnum. Ég var miður mín í margar vikur, mánuði, þar á eftir. Ég held að svo hafi verið um fleiri. Við höfðum gengið um í þeirri sælu blekkingu að engin slýkur ljótleiki væri framin á litla landinu okkar.

Kristín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 10:57

2 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

vel sagt hjá þér - mjög vel sagt.

Hannes á það nú til að vera dálítið mikið oft svona "út á þekju" í mörgum málum :)

Andrea J. Ólafsdóttir, 9.2.2007 kl. 13:04

3 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Ekkert að því að vera úti á þekju og kemur fyrir besta fólk. En verra þegar það er stjórnmálafræðiprófessor, sem gefur sig í að vera álitsgjafi um allan fjandann. Og af hverju er hann eiginlega alltaf spurður álits? Who cares??

Ragnhildur Sverrisdóttir, 9.2.2007 kl. 16:20

4 identicon

Þú sagðir nákvæmlega það sem ég var að hugsa, Ragnhildur: who cares?

alla (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 22:00

5 identicon

Takk fyrir að skrifa þetta. Þetta segir það sem segja þarf.

 spáið samt í það hvað það væri svalt ef mogginn væri í alvöru farinn að taka VERU til fyrirmyndar.

Heiðrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 22:47

6 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Þetta finnst mér alveg prýðilegt framlag.

Hlynur Þór Magnússon, 10.2.2007 kl. 13:55

7 identicon

Það er gott að Hannes er spurður.  Það heldur okkur vakandi því hann eiginlega er lifandi viðvörun um að það eru öfl í þjóðfélaginu sem þykir ofbeldi gegn börnum ekkert til að æsa sig yfir.  

Greinin þín er góð. 

Björgvin Valur (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 15:45

8 identicon

Takk fyrir frábæra grein.
Ég er líka orðin dálítið hugsandi yfir því hvað Breiðavíkurmálið fer hátt í þjóðfélaginu (ofbeldi gagnvart strákum) en það var aðallega talað um fjármálaóreiðu í Byrginu! Hafa fimmtugu kallarnir í ráðuneytunum meiri samúð með neyð stráka á þeirra reki en yngri kvenna?

Birna (IP-tala skráð) 11.2.2007 kl. 13:02

9 Smámynd: erlahlyns.blogspot.com

Fyrirmyndargrein sem ég leyfði mér að vísa á í bloggfærslu minni nýlega. Gleymdi þó alltaf að kvitta og þakka fyrir mig.

erlahlyns.blogspot.com, 12.2.2007 kl. 21:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband