Reykingar eru góðar - fyrir urriða

Guðmæðurnar buðu okkur í mat í ljúfasta kvölmat. Og sögðu okkur Kötu söguna af veiðinni miklu, þegar sá 3,5 punda var dreginn á land.

Margrét varð fyrst vör og hóf að draga inn af miklum krafti. Sá losaði sig hins vegar fljótlega. Bára kastaði út aftur og viti menn, hann var strax á. Margrét missti þá allan áhuga, enda var hún sannfærð um að þetta væri sami fiskurinn og hún var jú búin að prófa að veiða hann.

Elísabet tók við og dró fiskinn rösklega að landi. Bára átti nú ekki von á svo myndarlegum fiski í Skorradalsvatni og hafði skilið rotarann eftir heima í bústað. Þær systur hrylltu sig ægilega þegar sjálf guðmóðirin greip stein og slæmdi í hausinn á urriðanum.

Addý tók að sér að rista upp kviðinn og hreinsa út úr urriðanum, en á meðan kúguðust klígjugjarnar systur. Þá stakk Addý upp á að fiskurinn yrði reyktur. "Eigum við ekki bara að láta reykja hann og koma honum svo til ykkar?" spurði hún.

Elísabet horfði á hana í forundran: "Reykja? Reykja?" og svo færði hún hægri hönd upp að munni eins og hún væri að reykja sígarettu og spurði einu sinni enn: "REYKJA?"!!

Addý útskýrði reykingarnar með vísan í svínakjötið sem þær höfðu borðað fyrr um kvöldið og hangikjötið á jólunum. En þær systur vildu samt ekki láta reykja fiskinn.

Á sunnudagskvöldið síðasta matreiddum við blessaðan urriðann. Þær systur vildu alveg endilega fylgjast með þegar ég hausaði og flakaði. Þær komu báðar fram í eldhús, en varð svo mikið um aðfarirnar að þær settust upp á borð úti í horni og sneru baki í mig. Þær fengu íspinna til að stytta sér stundir og svo kölluðu þær af og til spurningar um gang mála.

"Ertu að taka allt innan úr honum?"

Nei, Addý var búin að því.

"Ertu að taka hausinn af honum?"

Þegar ég sagðist vera að því manaði Elísabet systur sína til að líta við, sem Margrét gerði og lýsti því sem fyrir augu bar. Svo bar klígjan hana ofurliði og hún varð að líta undan.

Þær treystu sér ekki til að líta við aftur fyrr en ég var búin að flaka og haus og bein voru horfin í ruslið.

Ég held ég verði að koma þeim í sumarstarf í frystihúsi um leið og þær hafa aldur til, svo þær nái þessu úr sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert með eindæmum orðheppin, ég stend sjálfa mig að því að skellihlæja yfir skemmtilegum skrifum.

Sjálf er ég mjög hlynnt því að fólk kynnist því að vinna í fiski - þó ekki væri nema bara til að átta sig á því hversu erfitt þetta er. Ég vann í saltfiski eitt sumar þegar ég var 18 ára og í stuttri rútuferð á leiðinni heim var ég farin að slefa í kjöltuna á mér, steinsofnuð.

 Gaman að heyra með hundinn og -ekkiofnæmið-

Kveðja,

Katrín

KBH (IP-tala skráð) 20.6.2007 kl. 23:10

2 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Já, það er alveg bráðnauðsynlegt að vinna aðeins í fiski. Ég kynntist því aðallega á Ísafirði sem krakki, fyrst í hörpuskelinni og svo í frystihúsinu Norðurtanganum, en ég var líka að djöflast í skreið hérna fyrir sunnan og miklu síðar fór ég í síldina á Eskifirði. Ég get alla vega hausað, slógdregið og flakað skammlaust og það án þess að kúgast!

Ragnhildur Sverrisdóttir, 20.6.2007 kl. 23:28

3 identicon

Eskifirði hmmmm

Kannski við höfum rekist á - á sveitaböllum fyrir austan!

Saltfiskreynslan átti sér stað á Norðfirði.

KBH (IP-tala skráð) 20.6.2007 kl. 23:41

4 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Uss, það er svo langt síðan ég var á Eskifirði. 1983 minnir mig! Þar var að vísu ekki mikil síld framan af dvöl minni, svo ég lá á verðbúðinni og tróð mig út af mat. Þegar ég gat varla hreyft mig lengur (og var farin að skulda stórkostlega fyrir uppihaldið) fór ég í saltfisk til að vera þó alla vega matvinnungur. Saltfiskvinnan snerist um að plokka orm úr fiski, sem var löngu búið að salta. Mig minnir að þessi farmur hafi verið sendur í hausinn á framleiðendum og þeir ákváðu að rífa upp heilu stæðurnar, koma fyrir öflugum ljósaborðum og láta skulduga verðbúðarbúa rýna í þessi ósköp og reyna a.m.k. að fækka kvikindunum í fiskinum.

Ég get ekki mælt með þessari aðferð, enda ólíkt gáfulegra að plokka fyrst og salta svo.

Ragnhildur Sverrisdóttir, 21.6.2007 kl. 09:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband