Furðufatagengi

Furðufatadagur í Fossvogsskóla hefst í þessum rituðum orðum.

Systur, Marta María og Tara voru búnar að ákveða að vera smábörn. Fjórburar. Hins vegar þurftu mæður að sannfæra þær um að fjórburar væru ekki alltaf nákvæmlega eins klæddir. Tara og Marta María eiga eins náttföt og voru í þeim, en systur fengu heimatilbúnar samfellur. Ég keypti hvíta stuttermaboli í fullorðinsstærð í Rúmfatalagernum og Kata breytti þeim í samfellur í gærkvöldi með nokkrum vel völdum saumsporum. Svo straujaði ég Bangsimon myndir framan á samfellurnar. Í morgun voru systur vaknaðar klukkan 7. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið: Aðeins þrjár klukkustundir til stefnu!

Þær voru hinar lukkulegustu með föndur mæðranna. Fóru í sokkabuxur innan undir samfelluna og allt of litlar peysur yfir. Þær fengu líka hvor sinn pelann og auðvitað voru þær með bangsa. Kata dúllaði lengi við fléttur í hárið á Elísabetu og Margrét samþykkti að vera með tagl í tilefni dagsins.

Svo hlupu þær yfir á númer 5, til að sjá hvernig Töru gengi, en þá voru þær tvívegis búnar að hringja yfir í Mörtu Maríu á númer 2 til að kanna hver staðan væri þar. "Við förum til Töru og svo til Mörtu" hrópuðu þær og hlupu á harðaspretti út, á samfellum, í úlpum og kuldaskóm. Þær máttu varla vera að því að kasta kveðju á Kötu, sem var að fara í vinnuna.

Þær voru rétt horfnar fyrir húshornið hjá Töru þegar Marta María kom yfir með Dóru mömmu. Þær komu færandi hendi og bættu enn við búningana með litlum brjóstsykursnuðum. Marta hvarf upp á númer 5 með fenginn.

Þegar ég hringdi á númer 5 skömmu síðar heyrðist óljóst í Thelmu Törumömmu, enda fjörið alveg í hámarki. Margrét missti brjóstsykursnudduna og braut hana, en Thelma bjargaði því snarlega með alvöru snuddu. Margréti fannst það frábær skipti. Satt best að segja líst mér ekkert á blikuna. Hún var svakalegt snuddubarn og virtist taka mjög skyndilegu ástfóstri við þessa nýju snuddu!

Thelma bætti enn á lúkkið þegar hún málaði rjóðar kinnar og fallegar freknur. Svo kom allt gengið aftur hingað og ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að rölta með þeim í skólann. Og tók örugglega tuttugu myndir af þessum krúttum.

Logalandsgengið skokkaði á undan mér í ótrúlegri eftirvæntingu. Þær leiddust allar, valhoppuðu, sungu og trölluðu.

Þær leiddust líka allar inn í skólann og ef ein þeirra var spurð í hvernig búningi hún væri svaraði hún: "Við erum fjórburar."

Ein fyrir allar, allar fyrir eina.

Stórkostlegur stelpuhópur, þetta Logalandsgengi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Mig langar aftur að verða barn við lesturinn.  Minnir mig á áhyggjulausa æskudaga þegar lífið var alltaf dásamlegt, með örfáum undantekningum sem ég er löngu búin að gleyma.

Á ekki að smella inn myndunum af atburðinum?

Jenný Anna Baldursdóttir, 14.3.2008 kl. 11:08

2 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Ég er tæknifötluð. Kata kenndi mér að smella af, en ég verð að bíða þar til hún kemur heim til að færa herlegheitin inn í tölvu. En svo birtast myndir.

Úje, eins og sumir myndu orða það.

Ragnhildur Sverrisdóttir, 14.3.2008 kl. 11:38

3 Smámynd: Blómið

Alltaf jafngaman að kíkja hér inn   Sat fyrir framan tölvuna og var reyndar að bölva því að þurfa að versla í föstudagstraffíkinni.  Búin að lesa og fer brosandi í verslunarleiðangurinn  Þessar stelpur ykkar Kötu eru bara frábærar, og vinkonurnar líka.  Bara allt "Logalandsgengið"   

Blómið, 14.3.2008 kl. 14:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 786245

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband