Gat í götu

Systur eru að bræða úr sér af afmælisspenningi. Í morgun reyndu þær margoft að fá okkur Kötu til að segja hvað við ætlum að gefa þeim í afmælisgjöf á morgun. Þeim fannst við alla vega geta sagt fyrsta stafinn, en við harðneituðum, enda eru þær orðnar svo flinkar að stafa að við gátum ekki tekið neina áhættu.

Kata lýsti því yfir að að þessu sinni fengju þær svo fína gjöf að hún hefði ákveðið að eiga hana með þeim. Þær kipptu sér ekkert upp við það, hlógu bara og sögðu að það væri ekkert hægt. Ef maður gefur eitthvað, þá er ekkert hægt að eiga það sjálfur! Skrítin skrúfa, þessi mamma.

Við gengum í skólann og enn einu sinni býsnaðist ég yfir niðurfallinu við gangbrautina úti á horni á Logalandi og Óslandi. Ristina vantar yfir gatið og ég hef áður sagt þeim hversu hættulegt það getur verið að stíga í svona gat, krakkar geta auðveldlega fótbrotnað. Ég hef alltaf gleymt að gera eitthvað í þessu, en að þessu sinni var ég með símann á mér og hringdi í borgina til að láta vita. Systur ætluðu ekki að trúa sínum eigin augum. Þær hvísluðust á og voru mjög spenntar á meðan ég talaði við einhvern ágætan Jóhann, sem lofaði að skila þessu til þeirra sem ráða yfir ristum borgarinnar.

Eftir símtalið sagði ég þeim að Jóhann hefði þakkað mér fyrir að láta vita. Þá sá ég að þeim létti töluvert, þær eru að mjakast á þann aldur þar sem þær hafa áhyggjur af því að mömmur geti hugsanlega gert eitthvað vandræðalegt. Svo þurftu þær að ræða þetta fram og til baka, um stóra sjóðinn sem allir borga í af laununum sínum, hvað ljósastaurar kosta, hver borgar laun starfsmanna ríkis og bæja og allt það. Nú vona ég bara að Jóhann og félagar bregðist fljótt við, svo systur sjái að kerfið virkar ef borgarbúar þurfa að láta fjarlægja svona slysagildrur.

Þær voru glaðar þegar þær komu í frístundaheimilið upp úr klukkan 9, enda allur hópurinn að fara í keilu klukkan 10. Svo fara þær á fótboltaæfingu síðdegis og María Hrund frænka þeirra, sem er í heimsókn frá Danmörku, ætlar að fara með þeim.

Eftir fótboltaæfinguna verðum við að skipta liði, þær systur eiga nefnilega eftir að finna afmælisgjafir hvor fyrir aðra. Þær hafa verið með ótrúlega krúttlegar vangaveltur um þau kaup, hvor um sig er ákveðin í að finna eitthvað sem hinni finnst allra best.

Þær eru búnar að ákveða morgunmatinn í fyrramálið, á sjálfan afmælisdaginn: Þá vilja þær beikon, spælt egg og amerískar pönnukökur! Ég held ég verði að vakna extra snemma, mér líst ekkert á að fara beint upp úr rúminu í slíka matseld. Amerískar pönnsur hef ég aldrei gert, svo þetta verður tilraunastarfsemi á afmælisdaginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinþór Ásgeirsson

Þú getur svindlað og keypt þær tilbúnar frosnar

bara að rista þær:)

Steinþór Ásgeirsson, 18.3.2008 kl. 10:53

2 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Takk, Steinþór

 Ég er reyndar búin að plana svindl þótt það sé ekki alveg svona stórt,  þ.e. ég kaupi deigið í pakka, hræri út og baka á pönnu ;)

Ragnhildur Sverrisdóttir, 18.3.2008 kl. 11:06

3 Smámynd: Ragnheiður

Um að gera að flýta fyrir sér. Gott hjá þér að láta vita af niðurfallinu, það er stórvarasamt ef krakkar lenda ofan í svona.

Ef ég gleymi á morgun þá óska ég uppáhaldsstelpunum í Logalandi til lukku með afmælisdaginn á morgun. Best að þær njóti áður en þær breytast í "kellíngar"

Ragnheiður , 18.3.2008 kl. 11:15

4 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Haha, já Ragnheiður, ég mun passa upp á að þær njóti þess að vera stelpur, en svo vil ég gjarnan að þær njóti sannmælis og fái að vera konur þegar þar að kemur.

Ragnhildur Sverrisdóttir, 18.3.2008 kl. 11:24

5 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Nei nei nei kona góð - ekkert pakka drasl!!!! Hér kemur ein sem er sára einföld og klikkar ekki.....og áfram með smjörið. Þessi er meira að segja ættuð úr Fossvoginum, nánar til tekið úr Geitlandinu

Hér kemur uppskriftin góða skemmtun.

Amerískar pönnukökur 

5dl hveiti

¾ dl sykur

1 tsk. salt

4tsk. lyftiduft

5dl mjólk

2 stór egg

60gr. bráðið smjörlíki.

  

Meðlæti:

Smjör og Mabel sýróp

 

Blandið þurrefnunum saman fyrst, svo mjólk ,egg og loks bræddu smjörlíki. Hrærið vel eða þangað til degið er alveg laust við  alla kekki.

Steikið á heitri pönnu. Þetta deig er svo þykkt og viðráðanlegt að það er ekkert mál að búa til alls kyns fíkúrur og stafi úr því. Það er alveg nauðsynlegt að setja  smjörklípu á kökurnar og hella sýrópi yfir. Það er allt í lagi svona endrum og eins.

 

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 18.3.2008 kl. 16:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband