Afmæli

Systur sváfu óvenju lengi í morgun. Vekjarinn hringdi hjá mér klukkan 8, en þá bólaði enn ekkert á þeim. Korteri síðar kom Eísabet og Margrét fylgdi fast á eftir. Þær tóku við afmælisknúsum frá mæðrum, en sneru sér svo hvor að annarri og knúsuðust lengi. "Til hamingju með afmælið, systir!" Elísabet smellti kossum beint á munninn á Margréti, en systir hennar er eina manneskjan í heiminum sem fær kossa á munninn við öll möguleg og ómöguleg tækifæri. Mömmur fá slíka kossa í algjörum undantekningatilfellum og aðrir geta nú ekki látið sig dreyma um slíka nánd. Systir er í sérflokki.

Þær byrjuðu á að gefa hvor  annarri. Elísabet var ekki í nokkrum vafa um hvað hún ætlaði að gefa Margréti. "Ég vil finna Karate-bók fyrir Hojarann" sagði Elísabet, en "Hojarinn" er nafnið sem hún hefur gefið systur sinni þegar sú síðarnefnda stekkur um allt hús í bardagaham og öskrar ógnvekjandi HOOOOJ-AA!! Elísabet er meira að segja farin að hóta manni, ef hún þykist eitthvað ósátt og spyr þá: "Á ég að sækja Hojarann?" Þá á maður líklega að skjálfa á beinunum af ótta við karate-kappann ógurlega.

Við fundum bókina "Karate for Kids" í Iðu og þótt hún sé á ensku þá er hún vel myndskreytt. Um leið og Margrét opnaði pakkann ljómaði hún af hamingju og kyssti og knúsaði systur sína í tætlur. Svo fletti hún og hermdi eftir stellingum á öllum myndunum.

Margrét fór sjálf í bæinn með Kötu í gær til að velja gjöf fyrir systur. Hún ætlaði fyrst að kaupa pils, dauðfegin að geta keypt slíka flík á systur sína án þess að eignast svoleiðis sjálf. Þær fara stundum báðar í leggings, en Elísabet fer þá alltaf í pils líka, sem Margrét kærir sig alls ekki um. Hún vissi að Elísabet yrði glöð að fá nýtt pils, en eftir nokkra leit í Kringlunni rak hún augun í gylltar leggings og þar var gjöfin auðvitað komin. Elísabet var jafn hamingjusöm með gylltu buxurnar og systir hennar var með Hoja-bókina.

Þær fengu margar aðrar gjafir í morgun. Flotta reiðhjólahjálma og flíspeysur frá Afa Ís og Ömmu Deddu, stór og mikil púsl frá Bettý frænku og flotta Nike-boli og töskur frá Magga frænda og fjölskyldu í Svíþjóð. Áður höfðu þær fengið að þjófstarta á gjöfinni frá Möggu frænku og fjölskyldu, krúttlegum, mini-gæludýrum í sérstökum ferðatöskum. Og allt þetta bættist við fínu gjafirnar sem skólasystur gáfu þeim á laugardaginn.

Þetta var nú ekki aldeilis allt. Litlu dekurrófurnar okkar fengu tölvu frá mömmunum! Kata hafði útvegað flotta, notaða fartölvu, sem er alveg eins og ný. Það er nú eiginlega hálf vandræðalegt að viðurkenna það, en ég get ekki betur séð en að hún sé töluvert yngri og öflugri en mín og dugar mín þó ágætlega til að skrifa heilu bækurnar. Systur hafa sótt mjög stíft í tölvurnar okkar Kötu undanfarið, en nú hafa þær eigin tölvu inni í herbergi. Vinir okkar, Sjonni og Addý, komu hér við í gærkvöldi og hjálpuðu okkur við að setja tölvuna þannig upp að hvor um sig geti haft sinn aðgang, án þess að klúðra nokkru fyrir hinni eða uppsetningu tölvunnar. Sjonni fann hinar og þessar leikja- og fræðslusíður, sem þær geta farið beint inn á.

Þær settust strax við tölvuna, með eggjaklukku sér við hlið. Margrét byrjaði, lék í 10 mínútur, þá hringdi klukkan og Elísabet fékk næstu 10 mínútur. Þeim gengur yfirleitt vel að semja um svona hluti, svo þetta gengur áreiðanlega snurðulaust. Nú þurfa mæður bara að ákveða hversu oft og lengi þær mega sitja við.

Eftir fyrstu tölvuprófun voru systur orðnar svangar og heimtuðu afmælismorgunmatinn: Egg, beikon og amerískar pönnukökur. Þrátt fyrir að hafa fengið senda uppskrift (takk, Kristín!) þá lét ég nú Betty Crocker að mestu um pönnsudeigið. Systur ætluðu aldrei að fá nóg af kræsingunum og þegar Elísabet knúsaði mig á eftir bað hún mig vinsamlega að kreista sig ekki fast. Hún var alveg troðin.

Þær eru núna í Neðstalandi, frístundaheimilinu sínu. Þar ætla þær aðeins að baða sig í afmælisljóma, en þær vilja koma snemma heim, enda eiga þær von á gestum síðdegis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Til hamingju með afmælið flottu systur og takk fyrir skemmtilegan pistil af afmælisskvísum

Ragnheiður , 19.3.2008 kl. 13:27

2 Smámynd: Blómið

Til hamingju með stelpurnar   

Blómið, 19.3.2008 kl. 16:13

3 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Til hamingju með afmælið systur - og til hamingju með dætur, mömmur

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 19.3.2008 kl. 16:22

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Til hamingju með þessar krúttlegu dekurrófur.  En á maður ekki að dekra börn?  Ég amk. lifi í þeirri trú, sæl og glöð.

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.3.2008 kl. 17:03

5 identicon

Til hamingju með dæturnar mæður og eigið góðan dag.

hm (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 17:09

6 identicon

Til hamingju með afmælið stelpur

dabbaa (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 17:40

7 identicon

Til hamingju með daginn, systur og mömmur, þetta er hinn besti dagur

Halla Jökulsd. (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 17:56

8 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Takk fyrir góðar kveðjur.

Ég er löngu komin á þá skoðun að maður eigi að dekra svona yndisleg börn. Þegar þær voru enn pínupons lýsti ég einhverjum áhyggjum af því eftirlæti sem þær nutu alla daga. Pabbi hastaði á mig og sagði að börn gætu aldrei notið of mikillar athygli og ástúðar. Ég hef aldrei vanið mig af því að hlusta á pabba minn.

Ragnhildur Sverrisdóttir, 20.3.2008 kl. 09:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband