KRAS!

Systur sváfu mjög vel í alla nótt, þétt upp við mig. Ég svaf ekki alveg eins vel, en þær dásömuðu svo svefninn í morgun að ég lét eins og ég hefði svifið á skýi í djúpum svefni Sleeping en ekki hrokkið upp til að ýta burt fótleggnum sem lá yfir barkakýlið, draga sængina yfir Margréti ískalda, ýta sænginni af Elísabetu löðursveittu, reyna að endurheimta örlítið pláss á koddanum mínum sem þeim fannst greinilega þægilegri en eigin koddar, rýna í klukkuna og óska þess að nóttin væri bráðum á enda, sofna smástund en hrökkva upp við tuðið í Margréti, sem stendur alltaf í einhverjum stórræðum á nóttunni, sofna aftur, vakna við að Elísabet ýtti við mér af því að hún var svo þyrst, sofna loks djúpum svefni og vakna við vekjaraklukkuna korteri síðar. Stön og pust, eins og Andrés myndi orða það. Systur halda að þær fái að sofa af og til í stóra rúminu til að verðlauna þær fyrir yndisleik, en starðeyndin er sú að þær fengju örugglega að kúra þar miklu oftar, ef mæður hefðu heilsu til!

Til að fá þær framúr náði ég í mömmu þeirra í símann. Hún var löngu vöknuð úti í Köben og spjallaði lengi við okkur. Til allrar hamingju virðist hún ætla að sleppa alveg meiðslalaust frá árekstrinum. En hún er að vísu marin á vinstri hendi og með lítinn skurð ofan við vinstra hné, svo eitthvert högg hefur hún fengið á þá hliðina án þess að muna sérstaklega eftir því.

Systur eru auðvitað mjög uppteknar af fréttum af árekstrinum. Margrét skrifaði frétt um málið í gærkvöldi:

"Tólf ára stelpa sá ekki umferðaljósið Mamma var að fara á flugvöllin og klesti beint á hanna! Margrét 7 ára!"

Frétt af þessu tagi kallar á upphrópunarmerki!

Hún lagfærði fréttina þegar ég benti henni á að ökumaður hins bílsins væri alls ekki 12 ára. Bílprófsaldur væri 17 ár og ég héldi að hún hefði verið 18 ára. Þá krotaði Margrét yfir "tólf ára" og skrifaði inn "18". Ég nennti hins vegar ekkert að fara út í einhverjar útlistanir á muninum á umferðarljósum og stöðvunarskyldu, enda skipti það alls engu máli í þessu samhengi.

Margrét teiknaði líka mynd með fréttinni. Á myndinni skella tveir bílar hvor framan á öðrum, það heyrist "KRAS!" og í öðrum bílnum situr "Mamma" og segir "ÁTSJ!" en í hinum situr "TÓLF 18 ára stelpa" og segir "Á!"

Þær vilja alveg ólmar sjá Litla skít, allan krumpaðan og skemmdan. Ég lofaði að hafa uppi á brakinu og alla vega taka mynd, ef ég næði ekki að hafa þær með mér. Ég þarf líka að nálgast uppáhalds flísteppin þeirra og fleira lauslegt í bílnum.

Við röltum í skólann og enn var ekki búið að setja rist yfir niðurfallið við gangbrautina. Ég hringdi í borgina fyrir páska og fékk þá þau svör að ristarnar væru á ábyrgð Orkuveitunnar. En afar vingjarnlegur borgarstarfsmaðurinn lofaði að koma kvörtuninni til skila.

Nú hringdi ég beint í Orkuveituna. Þar varð líka mjög vingjarnlegur maður fyrir svörum. Hann hélt í fyrstu að ristarnar væru á ábyrgð borgarinnar, en lofaði að kanna málið og koma þá kvörtun minni á réttan stað.

Þremur mínútum síðar hringdi hann til baka! Þá var ég nú aldeilis bit. Hver hefur heyrt um slík viðbrögð hjá starfsmanni opinbers fyrirtækis? Alla vega, hann vildi bara láta mig vita að ristarnar væru vissulega á ábyrgð Orkuveitunnar og hann myndi ganga í að láta loka opinu.

Sjáum nú til. Ég hringdi fyrst fyrir páska og þá lofaði borgarstarfsmaður öllu fögru. Svo hringi ég núna og fæ svona ljúf svör. Og er bara glöð, ekki vitund pirruð. Viðmót þessara manna var nefnilega með þeim hætti, að ég er algjörlega og gjörsamlega sannfærð um að málið sé í allra besta farvegi. Ef þeir hefðu verið stuttir í spuna eða leiðinlegir, þá væri ég áreiðanlega að blogga ótrúlega pirringsfærslu, þótt staða mála væri nákvæmlega sú sama. Þetta ætti að kenna mér að vera elskulegri við fólk, en alltaf er ég nú sama hrossið. Gott að aðrir eru mér skárri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Gott að ekki varð stórslys í árekstrinum. En er litli skítur það illa farinn að honum verði sturtað niður?

Svona nætur eins og þú lýsir hétu í denn á mínu heimili að sofa með nefið á náttborðinu. Það fannst mér segja allt - eða allavega flest....

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 28.3.2008 kl. 11:11

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Úff, vonandi nær konan sér vel og fljótt eftir hörmungarnar frá þeirri 12 ára.  Hehe.

Knús í bæinn.

Jenný Anna Baldursdóttir, 28.3.2008 kl. 11:30

3 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Það er afar ólíklegt að Litli skítur snúi nokkurn tímann til fyrri starfa, Kristín. (Ég er eiginlega með móral að kalla hann þetta núna, ég var nýbúin að þrífa hann svo vel. Kannski hefði ég átt að sleppa því, hann hefði örugglega hangið betur saman á tjörunni að utan og krakkaklístrinu að innan  )

Kata hristir þetta af sér, ef ég þekki hana rétt. Akkúrat núna er hún búin á einum fundi og á leið á annan. Held að sú leið liggi um Strikið og vænti þess að það kæti hennar geð 

Ragnhildur Sverrisdóttir, 28.3.2008 kl. 11:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband