Leikur

Eftir fótboltaæfinguna í gær fóru systur beint heim, enda ætluðu þær sko að leika við Mörtu Maríu, sem hafði verið svo ósvífin að bregða sér af bæ í heila þrjá sólarhringa.

Þegar við ókum inn í Logalandið varð ég að setja þær úr við nr. 2. Sem er nú dálíitið fyndið, af því að við eigum heima á nr. 8, en þeim finnst alltaf óskaplega spennandi að fá að fara úr bílnum í heimreiðinni hjá Mörtu.

Ég sá þær ekki nema í mýflugumynd næstu tvær klukkustundirnar, heyrði bara hrópin, köllin og hamingjuskrækina í þeim og bekkjarsystrum hér og þar um hverfið.

Þær komu þrjár í kvöldmatinn, Elísabet, Margrét og Marta María, enda höfðu þær systur boðið Mörtu hátíðlega að borða hér. Allt í sóma með það eins og fyrri daginn. Þær fengu svo aðeins að leika sér eftir matinn, þótt allar ættu eftir að lesa fyrir skólann. Þær bara URÐU að fá að vera dálítið saman eftir aðskilnaðinn mikla. Örfáum mínútum síðar voru allar komnar í glæsikjóla, Marta og Margrét dönsuðu ballett af innlifun og Elísabet spilaði tónlist af geisladisk undir og bætti við daufum vindhljóðum úr eigin barka, til að auka á dramatíkina.

Svo hringdi dyrabjallan. Margrét áttaði sig strax á að þar væri Óli pabbi kominn að sækja Mörtu Maríu. Hún hljóp á harðaspani til dyra og um leið og Óli steig inn fyrir sagði hún: "Má ekki bjóða þér kaffisopa?" Óli þáði sopann og Margrét glotti ógurlega. Henni hafði tekist ætlunarverkið, að kaupa þeim vinkonunum nokkrar mínútur í viðbót.

Þegar Marta var farin lásu þær báðar í skólabókunum sínum. Þær eru orðnar alveg fluglæsar, þessar stelpur. Ég öfunda þær af öllum frábæru bókunum sem þær eiga eftir að lesa.

Elísabet fór inn á baðherbergi eftir lesturinn, en allt í einu heyrðist skaðræðisöskur. Snöggt og sársaukafullt vein og ljóst að barnið var alveg við það að fara að gráta af skelfingu. Svo kom hún hlaupandi út af baðinu og augum stóðu á stilkum af skelfingu. "Það er ógeðsleg kónguló í vaskinum," hrópaði hún um leið og hún hljóp framhjá mér.

Óttaleg hystería er þetta í barninu, hugsaði ég með mér og tautaði örugglega eitthvað upphátt um það líka, enda ekki einleikið hvernig hún lét.

Um leið og ég kom inn á bað og fór að svipast um eftir kvikindinu hrópaði Elísabet: "1.apríl!"

Ég var löngu búin að gleyma þessu gabb-degi og kolféll fyrir platinu. Leikrænir tilburðir barnsins réðu þar mestu, mig grunaði ekki að hún væri að plata þegar hún æddi framhjá mér, stóreyg af skelfingu.

Elísabet hefur oft nefnt að hana langi til að verða leikari. Ég held að maður verði að fara að skoða þann möguleika í alvöru, svei mér þá!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Hehe já mér sýnist það - það er leiklistarskólinn bara. Takk fyrir færslu. Rifjar upp gamla tíma þegar maður lék sér endalaust úti með vinum sínum

Ragnheiður , 2.4.2008 kl. 10:13

2 identicon

hahaha þetta er snilld. Gaman að lesa þetta þar sem ég á tvíburastelpur sem urðu 6 ára í febrúar og einmitt gerðu nákvæmlega þetta við pabba sinn í gær. Nema hvað kóngulóin var á gólfinu í svefnherberginu.

Takk fyrir frábær skrif.

Begga (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 10:28

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Oh það er komið vor í börnin.  Leikirnir tóku hug mans allan á þessum árum.  Ljúfa æska.  Ég yngist upp við lesturinn og fyrirgef þér nærri því að vilja ekki ala mig upp.  Ég meina það.  Arg.

Knús

Jenný Anna Baldursdóttir, 2.4.2008 kl. 13:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband