Lucky

Systur hafa verið sorgmæddar síðustu daga. Vinur þeirra, hundurinn Lucky, fór yfir á hinar eilífu veiðilendur á miðvikudag.

Þær vissu ósköp vel að Lucky var orðinn lúinn, enda 16 ára gamall. Hann var hættur að skoppa allt í kringum þær, sá ekki sem fyrr, heyrði ekki allt sem fram fór. En þeim systrum fannst alltaf jafn gott að hitta hann. Þær voru aðeins 5 mánaða þegar við fengum inni hjá Lucky, Addý og Báru, þá nýfluttar heim frá Ameríku og bjuggum þar heilan vetur. Lucky hefur alltaf verið til og þær héldu að hann yrði alltaf til. Og hann var hundurinn þeirra, þótt hann væri ekki á sama heimili nema á fyrsta árinu þeirra. Það var honum að þakka að Elísabet ákvað að verða "hundaeltari" þegar hún yrði stór, henni fannst svo gaman að skottast á eftir Lucky.

Á þriðjudagskvöld sögðum við systrum að Lucky væri orðinn mjög veikur. Hann myndi ekki lifa mikið lengur. Þótt þær hefðu margoft rætt um að hann væri orðinn mjög gamall brugðust þær illa við tíðindunum og grétu eins og litlu hjörtun væru að bresta. Okkur gekk illa að hugga þær, reyndum nú ekkert mikið fyrst, enda gott að gráta yfir sorgartíðindum.

Svo fóru þær inn í rúm og við kúrðum hjá þeim, ég lengst af hjá Margréti og Kata hjá Elísabetu. Margrét gat ekki talað um annað og þótt hún næði að þerra tárin brast hún alltaf í grát á nýjan leik.  Elísabet ræskti sig hvað eftir annað, hún var með "svo mikið kalk" í hálsinum (við höfum oft sagt henni að fólk fái kökk í hálsinn, ekki kalk, en þær upplýsingar tolla illa í henni).

Hugurinn leitaði alltaf aftur til Lucky. Við Kata rifjuðum upp margar skemmtilegar sögur af honum og smám saman róuðust þær.

Margrét bað um að fá myndir af Lucky, til að ramma inn og setja upp á vegg í þeirra eigin húsi úti í garði.

Elísabet leit alvarleg til himins og bað Guð vinsamlegast að taka vel á móti Lucky þegar hann kæmi. "Og viltu passa að við getum hitt hann þegar við komum til himna, þótt það verði langt þangað til."

Þegar bæninni var lokið fékk hún bakþanka: "Ó, já, Guð, ef þetta er ekki hjá þér, hundahimnaríkið sko, viltu þá skila þessu til hundaguðsins?"

Þær voru úrvinda, en gekk samt illa að sofna. Við bárum þær yfir í stóra rúm og kúrðum hjá þeim þangað til þær sofnuðu. Svo ákváðum við að skipta liði um nóttina, Kata svaf í stóra rúmi með Elísabetu en ég í gestarúmi með Margréti. Við vissum að annars myndu þær hrökkva upp og eiga erfiða nótt, en með þessu móti sváfum við allar djúpum svefni til morguns.

Um leið og Tara vinkona bankaði upp á morguninn eftir til að verða samferða í skólann hlupu þær til dyra og sögðu henni tíðindin. Að Lucky væri mikið veikur og myndi bráðum deyja. Svo þurftu þær líka að segja frá þessu í skólanum. Þær voru hins vegar farnar að ræða um vin sinn á rólegum nótum og vildu endalaust rifja upp góðar sögur af honum. "Segðu okkur þegar þú misstir húfuna í vatnið og Lucky náði í hana," sagði Margrét, sem man alltaf alla hluti. Ég var búin að steingleyma sögunni, sem er áreiðanlega nokkurra ára gömul, en Margrét gat sjálf rifjað hana upp.

Þær voru glaðar að hafa eytt páskunum með Lucky og guðmæðrunum. "Ég er mjög glöð að við sváfum enga nótt í sumarbústaðnum hjá ykkur," tilkynnti Elísabet. Þær systur gistu nefnilega í sumarbústað guðmæðra um páskana og við Kata í öðrum bústað skammt frá. Þær vöknuðu því með Lucky á hverjum morgni. Og voru báðar hundaeltarar þá helgina.

Í gærmorgun sögðum við þeim að nú væri Lucky dáinn. Þær tóku því af ró og héldu áfram að rifja upp góðar minningar. Báðar eru þær undrandi á því að Lucky skuli ekki vera í heimsmetabók, jafn gamall og hann varð. Svo sögðust þær kannski ætla að halda veislu, af því að Lucky hefði verið svo frábær og maður ætti að vera glaður yfir frábærum hundi, en ekki bara sorgmæddur þegar hann deyr.

Núna eru þær óskaplega ánægðar með að hafa gefið honum sérstakan pakka á dögunum, með harðfiski, pylsum og mjúkum kodda. Og sannfærðar um að Lucky fái núna allan þann harðfisk og allar þær pylsur sem hann getur í sig látið.

Þær eiga enn bágt með sig, þegar þær tala um Lucky.

Fyrsta sorgin líður ekki hjá á nokkrum dögum.

9E4V9745   sunnubraut

Bára guðmóðir hefur tekið margar fallegar myndir af systrum og Lucky.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Æj elskurnar litlu. Ég var svona sem krakki, gat alveg farið yfirum þegar dýr dóu, taldi þau mína bestu vini. Skilningurinn á heimilinu á smátelpu sem hágrét yfir ketti var ekki mikill. Þess vegna finnst mér gott að sjá hvað þið mæðurnar takið á þessu með mikilli skynsemi og hlýju. Það hjálpar áreiðanlega mikið.

Elsku stelpurnar, svo tárast ég yfir hvutta og ég sá hann ekki einu sinni.

Ragnheiður , 11.4.2008 kl. 11:59

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég er hérna alveg búhú.  Þetta er svo tragískt en samt svo fallegt.

Æi þið eruð frábærar.  Allar sko.

Jenný Anna Baldursdóttir, 11.4.2008 kl. 12:13

3 identicon

Yndislegar myndir af góðum vinum. Svo falleg öllsömul. Þið takið afskaplega vel á þessari fyrstu sorg dætra ykkar.  Það er vont að kveðja vin sinn en gott að gleðjast yfir minningum um hann.  Þar kemur líka vel í ljós hve vænt þeim þótti um Lucky.

Auður Matthíasdóttir (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 14:35

4 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Æ, litlu skottin, mikið skil ég þær vel. Þegar ég var á þeirra aldrei átti ég hund þrátt fyrir að hundahald væri bannað í Reykjavík. Löggan kom eitt kvöldið til að sækja hann. Ég ríghélt í hann og hágrét. Aumingja löggurnar voru orðnar hálf miður sín og þessu lauk með því að annar þeirra sagði: Svona, svona þú færð þér bara annan hund! Hann var sem sagt að hvetja mig til lögbrota sjö ára gamla, löggan sjálf.

Helga Magnúsdóttir, 11.4.2008 kl. 14:56

5 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Takk fyrir góðar kveðjur, allar.

Helga, viðbrögð þín við þessu voru sérstök. Þú lagðist ekki í afbrot, að því er ég best veit, en þú gekkst hins vegar til liðs við lögguna síðar meir! Skrítin skrúfa

Ragnhildur Sverrisdóttir, 11.4.2008 kl. 15:20

6 identicon

Sæl ég er alveg ókunnug en finn alveg til með stelpunum, að missa vin er að missa vin. Endilega sýndu þeim systrum sem hugsa svona vel um vini sína þessa vefslóð http://www.indigo.org/rainbowbridge_ver2.html  og lestu fyrir þær ljóðið um leið og þú sýnir þeim myndirnar, ég fæ alltaf tár í augun þegar ég skoða þessa síðu og þó ég sé 40 ára er ég sannfærð um það sé til akkúrat svona regnbogabrú.

þetta er slóðin á Regnbogabrúnna en þangað fara gæludýrin okkar þegar þau deyja og þar bíða þau eftir okkur þangað til við hittumst á ný.  Þetta er svo falleg síða og svo fallegt ljóð og það huggaði mig og börnin mín þegar við misstum í fyrra ástkæra  fjórtán ára tík og við söknum hennar öll enn.  Eigum sem betur fer þrjá aðra loðfélaga hér í húsi en hver og einn er einstakur.

kærar kveðjur til stelpnanna

Kata 

Kata (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 16:21

7 identicon

æjjj greyin :( Skil þær svoo vel .... ég er svona viðkvæm líka :) Kveðja til ykkar

dabbaa (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 16:31

8 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Takk fyrir ábendinguna, Kata. Ég er viss um að systur kunna að meta þetta.

Góða helgi, Dabba ;)

Ragnhildur Sverrisdóttir, 11.4.2008 kl. 17:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband