Helgi

Addý og Bára komu í heimalagaðar pizzur á föstudaginn og systur tóku þeim með kostum og kynjum. Þær eru alltaf sannfærðar um að guðmæðurnar séu bara að heimsækja þær og á tímabili vorum við Kata að hugsa um að láta okkur bara hverfa. Þá voru þær fjórar á kafi í alls konar leikjum og knúsi og okkur var fullkomlega ofaukið. Sætastar, allar saman.

Morguninn eftir fóru systur í gítartíma og svo fengum við afa Torben og ömmu Möggu í heimsókn um hádegisbil. Síðdegis sátu svo nágrannarnir á númer 2 hjá okkur úti í garði. Það var sól og blíða og við nutum vorveðursins og hlógum að snjónum sem hafði vogað sér að láta sjá sig daginn áður.

Systur gistu hjá afa Torben og ömmu Möggu aðfaranótt sunnudags. Það er ansi langt síðan þær hafa verið í næturgistingu þar og þær kvörtuðu hástöfum undan því. "Ég ætla að gista hjá þeim 8 sinnum í mánuði!" sagði Elísabet, svo það er ljóst að hún verður ekki heima hjá sér um helgar á næstunni.

Við Kata skelltum okkur aðeins út á lífið, borðuðum á 101 með Urði upplýstu og drukkum hvítvín með. Þarna sátum við á rassinum í 5-6 tíma og urðum aldrei uppiskrokka með umræðuefni. Merkilegur fjári. Og situr þó engin sérstök speki eftir í mér. Nema heillaráðið, sem Urður fékk einhvern tímann frá upplýsingafulltrúa einhvers batterís í útlöndum. Þetta var gamall og lífsreyndur Breti, sem sagði henni að ef hún neyddist til að svara einhverju sem hún vildi helst ekki svara, þá ætti hún að tvinna saman blótsyrðum, svo upptakan yrði óbrúkleg í útvarpi og sjónvarpi. Þetta hafði hann oft gert. Ég óttast hins vegar að hérna yrði blótsyrðarunan bara birt og Urður yrði fljótt þekkt sem strigakjafturinn í utanríkisráðuneytinu. Og það vill hún auðvitað ekki, pen konan.

Þegar langt var liðið á kvöldið hitti ég gamlan vin og við kíktum í fallegu íbúðina hans í miðbænum. Stoppuðum nú ekki lengi, en ég var leyst út með gjöf, fallegri ljósmynd sem við Kata ætlum að setja á góðan stað hér heima.

Og svo var allt á kafi í snjó á sunnudeginum. Svei mér þá! Ekkert hægt að dásama vorveðrið í garðinum þann daginn. Systrum var svosem slétt sama þegar við náðum í þær til afa og ömmu um hádegisbilið. Þær vissu að til stóð að fara í sund með Ölmu uppáhaldsfrænku og Daníel uppáhaldsfrænda og það skipti auðvitað öllu. Fyrst skruppum við í Iðu og þær fengu rúnahálsmen frá Addý. Margrét sá rúnastafróf í fyrsta skipti á ævinni í skólanum á föstudag og nú skrifar hún allt á rúnaletri, litli nördinn minn. Þetta veldur stundum óþarfa ruglingi Wink Hún hefur sérstök áhugamál, þessi elska, stekkur um allt hús með karateöskrum, höggum og spörkum og hripar svo niður á blað á rúnaletri. Skrítin skrúfa.

Við fórum svo í sundið og það var alveg jafn mikið fjör og við reiknuðum með. Fullorðna fólkið fékk meira að segja smá tíma í heita pottinum, af því að systur voru að ólmast með Ölmu og Daníel, en svo var öll fjölskyldan komin á fullt í boltaleik í sundlauginni.

Ég er með harðsperrur eftir sundknattleik: Setning sem ég hélt ég myndi aldrei skrifa LoL


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Það er svo frábært að sitja og spjalla með góðu fólki því þá eru 6 tímar eða svo bara æfing.  Tertubiti.  Been there, seen that, done it.

Krúttkveðjur

Jenný Anna Baldursdóttir, 14.4.2008 kl. 10:39

2 identicon

það var nú óþarfi að ljóstra upp atvinnuleyndarmálunum.....! Alltaf gaman að geta upplýst ykkur um eitthvað gagnlegt og ég skemmti mér að minnsta kosti konunglega! ...allt þar til að ég vaknaði í gærmorgun. úff.

frú Urr

Urður Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 11:46

3 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Jáhérnahér! Ég sem hélt að fólk í utanríkisþjónustunni væri svo marinerað eftir endalaus kokteilboð að það kippti sér ekkert upp við svona skrall! En ég verð að viðurkenna að ég var fegin að systur voru í næturpössun, það var ósköp gott að kúra frameftir.

Ragnhildur Sverrisdóttir, 14.4.2008 kl. 12:06

4 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Ég er ekki hissa á að þið hafið getað setið lengi með Urði, hún er alveg frábær manneskja.

Helga Magnúsdóttir, 14.4.2008 kl. 18:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband