Leiðindaendurgreiðsla

Systur eru alveg vitlausar í sund þessa dagana. Þeim nægir ekki að fara tvisvar í viku í skólasund, heldur reyna að draga okkur við hvert tækifæri.

Í gær tók ég heita pottinn rækilega í gegn, þreif og skrúbbaði hann allan, þreif síur og svo rann ferskt og nýtt vatnið í hann. Hitinn á vatninu var nú bara rétt að slefa í 12 gráður um kvöldmatarleytið í gær, en við lofuðum stelpunum að þær mættu fara í pottinn í dag. Við nenntum nefnilega ekki í sund á sunnudagsmorgni og Kata þarf að bregða sér af bæ síðar í dag og þurfti að undirbúa það.

Við fórum allar saman í pottinn á afar ókristilegum tíma, þótt mér. Löngu, löngu fyrir hádegi á sunnudegi. En það var ósköp notalegt. Systur köfuðu aftur og aftur og alveg stórmerkilegt að þær hafi ekki fengið nóg af að skoða það sem fyrir augu bar í kafi. Þetta er nú ekkert stór pottur, bara svona venjulegur.

Þegar þær höfðu ólmast töluvert lengi róuðum við þær aðeins niður. Margrét dormaði í Kötufangi og Elísabet í mínu. Hún tilkynnti að hún hefði pantað mig, því Margrét hafði kúrt hjá mér skömmu áður. Og systur verða alltaf að skiptast á.

Margrét kann þá list að slaka á og gera alls ekki neitt. Elísabet getur verið kyrr, en hún getur bara alls ekki þagnað. Ég bað hana, aftur og aftur. Hún hætti kannski að tala augnablik, en hummaði þá bara á meðan. Loks féllst hún á að þagna og stóð við það í ....tja, líklega í heilar 20 sekúndur.

Svo settist hún upp, leit á mig og sagði: "Þetta er ekkert gaman. Ég vil fá peningana mína til baka."

Barnið fór fram á "endurgreiðslu" af því að kúr í fangi var leiðinlegra en hún reiknaði með þegar hún pantaði fangið!!

Það sem á mann er lagt.

Núna eru systur úti á palli í fótbolta. Stebbi bekkjarbróðir bankaði upp á áðan og svo bættust tveir strákar í hópinn. Annar þeirra "eldri", örugglega 9 ára eða eitthvað. Sem systrum finnst afskaplega spennandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Frá sjónarhóli tvíbura er sá 9 ára örugglega myndarlegur "eldri" maður.

Jenný Anna Baldursdóttir, 20.4.2008 kl. 13:46

2 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Við mæðgur fórum þrjár saman í sund saman í dag. Ég man ekki hvenær mér var síðast sýnd slík upphefð!!!!

Það nefnilega kemur sá tími í lífi sérhverrar stúlku að hún vill alls ekki láta sjá sig með mömmu sinni í sundi. Og svo eru þær líka að komast yfir spéhræðslu tímabilið. Ég hef ekki séð þær allsberar í nokkur ár. Það er allt í lagi að fara í sund með öðrum - en mamma má sko alls ekki sjá mann bera. Þetta hafa að mestu verið dyntir í þeirri eldir - og sú yngri tekur eftir henni bæði í góðum siðum og vondum.

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 20.4.2008 kl. 21:17

3 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Þær voru dálítið ánægðar með þann eldri, af því að hann var ekkert ógnvekjandi. Þær eru enn á því að taka eldri krökkum með dálitlum fyrirvara, þótt flestir hafi reynst mestu englar.

Ég ætti líklega að prísa mig sæla, Kristín, að þær vilji enn hafa mig með í sundlaugarnar. En ég held að ég verði ekki sátt við sundlaugaferðirnar fyrr en þær hætta að reyna að draga mig með í helv.... rennibrautirnar. Það er bara hreinlega ekki mitt rétta umhverfi.

Ragnhildur Sverrisdóttir, 20.4.2008 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband