Sumar?

Systur fóru í langan hjólatúr með Töru og pabba hennar í dag. Þær komu til baka rétt fyrir kl. 7, mokuðu þá í sig matnum og hentust aftur út. Að þessu sinni með Mörtu Maríu. Þær máttu vera úti til kl. hálf átta, en Elísabet kom inn 5 mínútum síðar og spurði hvort hún mætti ekki bara fara í heitt bað. Ég benti henni á að hún hefði farið í heita pottinn og sturtu í dag, en hún ranghvolfdi augunum og sagði að það hefði nú verið fyrir tveimur eða þremur eða átta tímum!

Auðvitað fékk barnið að fara í heitt og notalegt freyðibað, nema hvað. Á meðan heyrðust hamingjuópin í systur hennar inn um opinn gluggann.

Þegar báðar voru komnar í hús sýndi ég þeim Eurovision-myndbandið (við Kata erum alltaf að reyna að muna eftir slíkum hlutum, svo þær séu með á nótunum, blessaðar. Þar liggur uppeldislega gildið, en ekki í menningarlegu verðmæti þess sem á er horft!). Systur horfðu tíu sinnum á myndbandið á meðan ég horfði á Hildi Helgu hjá Evu Maríu. Góð skipti það.

Á morgun heldur Víkingur upp á 100 ára afmælið með einhverri uppákomu í Fossvogsskóla. Krakkarnir fá t.d. fána og þeim er uppálagt að koma í einhverju svörtu og rauðu í tilefni dagsins. Systur ætla í nýju, svörtu æfingabuxunum sínum, en við vorum sammála um að best væri að láta rauða Valsbolinn eiga sig á þessum degi. Þær fara í einlitum, rauðum bol við buxurnar.

Fyrir svefninn spurðu þær hvenær trampólínið kæmi í garðinn og hvort sumarið kæmi ekki eftir nokkra daga. Ég sagði þeim að þótt sumardagurinn fyrsti væri á fimmtudag, þá þýddi það ekki að þann dag brysti á með endalausri blíðu. Og sagði það aftur. Og aftur. Allur er varinn góður: Ég man enn hvað það fauk heiftarlega í Elísabetu fyrir ári, þegar hún vaknaði glöð og kát á sumardaginn fyrsta og vildi endilega fara í stuttbuxur og hlírabol. Við höfðum ekki varað okkur á hversu bókstaflega hún tók heiti dagsins. Henni fannst hún afskaplega illa svikin í skítakuldanum þann daginn.

Þær sofnuðu fljótt og vel. Og ákváðu að skrifa sjálfar á "bloggina" á morgun, svo fjarstödd mamma þeirra geti lesið það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Ég á afmæli á sumardaginn fyrsta, og þar sem ég er ALLTAF svo góð stelpa, þá lofa ég góðu veðri þann dag..... og vonandi marga næstu daga

Lilja G. Bolladóttir, 21.4.2008 kl. 01:12

2 identicon

Ekkert skrýtið þó að blessuð börnin séu alveg ringluð í þessu. Hefur nú sjálf, fullorðin manneskjan, staðið mig að því að fara léttklædd í "sumardagsins fyrsta-göngu" og næstum drepist úr kulda. Þetta er sama sagan og með 17. júní - það klikkar næstum aldrei að það rigni. Ísland - Ó kæra Ísland, full of surprises.

Olla (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 09:54

3 identicon

Komdu með þær í heimsókn sem fyrst er búinn að setja trampólínið upp alltaf sumar og sól í Hvassaleitinu.

KV

Kristján Vigfússon (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 11:05

4 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Ég þakka kærlega höfðinglegt veðurboð Lilju. En sleppi því samt að setja systur í pils og stutta sokka þennan dag. Ég man allt of vel eftir sjálfri mér léttklæddri á þessum blessaða degi hér í den. Að vísu hætti ég því þegar ég komst á legg, en Olla hefur verið dálítið seinþroska, eða hvað??

Þakka trampólínboð, Kristján. Be careful what you wish for!

Ragnhildur Sverrisdóttir, 21.4.2008 kl. 12:59

5 identicon

Hehe, já það mætti segja að ég væri svona "late bloomer" á sumum sviðum  

Olla (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 13:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband