T er geimvera

Þá er sumarið komið.

Systur vöknuðu auðvitað klukkan 7 í gærmorgun, þótt þær ættu frí. Elísabet var löngu komin upp í stóra rúm, henni finnst alveg ótækt að láta allt þetta pláss fara til spillis þegar mamma hennar er ekki heima. Margrét kom skokkandi yfir og svo biðu þær spenntar eftir sumargjöf.

Þær voru alsælar með risa mikadó prikin og í ljós kom að þær hafa oft leikið með svoleiðis í frístundaheimilinu. Þetta dót var nú hugsað fyrst og fremst á pallinn úti í sumar, en þær dunduðu sér með það hérna inni á gólfi.

Þar sem mig grunaði að systur myndu vakna fyrir allar aldir á þessum frídegi fengu þær aðra sumargjöf, dvd með teiknimynd um býflugur. Bee Movie, hvað sem hún nú heitir á íslensku. Ég hafði ímyndað mér að þær myndu sitja rólegar og horfa á myndina og ég gæti kúrt aðeins lengur. Ég gleymdi alveg að taka með í reikninginn hvað ég er sjálf veik fyrir teiknimyndum, svo ég var sest í sófann hjá þeim fyrir klukkan 8 og horfði á alla myndina.

Við fengum okkur vænan morgunmat eftir bíóið og eftir hádegi fórum við í Húsdýragarðinn. Þar var sumarhátíð krakkanna í hverfinu og mjög fjölmennt. Tara slóst í för með okkur og þær þrjár voru rígmontnar að sjá verkefni, sem þær hafa unnið með hinum krökkunum í frístundaheimilinu, til sýnis í tjaldinu stóra. Þar voru líka ljósmyndir af þeim uppi á vegg.

Vinkonurnar þrjár hoppuðu svo og skoppuðu á uppblásnu dýnunni lengi dags, klifruðu svo í stóra víkingaskipinu og ráku loks augun í leiktæki sem var í gangi. Krakkafoss, held ég að skipið heiti. Það þeytist fram og til baka og kallar fram viðeigandi skræki hjá börnunum.

Ég ákvað að leyfa þeim að fara í tækið. Stúlkan sem stýrði því sagði að ég yrði að kaupa miða og þeir fengjust í veitingatjaldinu eða við innganginn. Við vorum sem sagt allra austast í fjölskyldugarðinum, en þurftum að fara til baka í húsdýragarðinn til að nálgast miða. Ég hef lent í þessu áður og mér er gjörsamlega fyrirmunað að skilja af hverju ekki er hægt að selja miðana víðar. Er eitthvað að því að selja þá í veitingasölunni í fjölskyldugarðinum, til dæmis? Eða í litlum skúr á svæðinu? Eða jafnvel láta vel merkta starfsmenn ganga með miðana á sér á svæðinu? Þetta þarf að laga.

Þegar við komum að veitingatjaldinu var biðröð langt út á stétt. Það ægði saman fólki sem ætlaði að kaupa veitingar og fólki eins og mér, sem ætlaði bara að kaupa miða í tæki. Þetta virtist hálf vonlaust. Ég ákvað að hlaupa frekar að innganginum, en þar er hægt að kaupa miða í tækin í litla kofanum, sem selur líka alls konar dót.

Systur og Tara urðu eftir við hestagirðinguna og ég flýtti mér að innganginum. Kofinn var lokaður. Miðarnir voru hins vegar til sölu við innganginn, þar sem fólk beið í röð eftir að borga sig inn. Til allrar hamingju komst ég fljótt að, keypti miðana, flýtti mér til stelpnanna og við tók gangur alla leið yfir í ysta enda fjölskyldugarðsins.

Þegar við komum þangað var búið að slökkva á leiktækinu og enginn starfsmaður nálægt. Við biðum drjúga stund og á meðan reyndi ég ítrekað að hringja í aðalnúmer skemmtigarðsins. Þar var aldrei svarað.

Núna var farið að rigna og ég sannfærði stelpukrúttin um að við yrðum að gefa þetta upp á bátinn. Tækið yrði greinilega ekki sett í gang í bráð.

Svo gengum við alla leið til baka, í gegnum fjölskyldugarðinn og húsdýragarðinn og að útganginum. Þar stóð maður og fór fram á að fá 10 miða, sem hann hafði keypt skömmu áður, endurgreidda. Enda væru tækin í garðinum alls ekki í gangi!  Ég sagðist líka ætla að fá mína endurgreidda. Stúlkan í afgreiðslunni hafði greinilega aldrei heyrt aðra eins vitleysu. Hún sagði við manninn að tækin hefðu verið opin, að minnsta kosti sum þeirra. Og hló. Manninum fannst þetta ekkert fyndið. Við mig sagði stúlkan að skipið, sem ég ætlaði að leyfa stelpunum að sitja í, hefði bilað. Og yppti svo bara öxlum. Hún hafði nú samt vit á að endurgreiða okkur fyrir rest.

Við vorum allar holdvotar og ég dreif stelpur heim, setti allar þeirra spjarir í þurrkara og svo fengu þær að horfa aftur á býflugnamyndina. Það var auðvitað bráðnauðsynleg endursýning, því Tara hafði aldrei séð myndina.

Á meðan þær horfðu á myndina kom Torben tengdó í heimsókn, sveiflaði keðjusöginni sem ég fékk hjá Byko og snyrti runnana með austurhlið hússins. Það var nú aldeilis tímabært og núna er bæði hægt að ganga niður með húsinu og eftir göngustígnum handan við runnana. Ég var komin með töluverðan móral yfir að loka nánast göngustígnum síðasta sumar.

Eftir vorverkin þurftu systur að læra. Þær gerðu stafablað. Stafur vikunnar er T.

Margrét gerði einfalda mynd af einhverju kubbuðu og hvítu. Tönn.

Á næstu mynd sjást margir litlir og hvítir kubbar. Ofan á þeim eru tveir agnarsmáir náungar með haka og höggva ofan í hvítu kubbana. Þetta eru auðvitað Karíus og Baktus. Tannpína.

Á þriðju mynd er kona og í bólu út úr henni stendur "bla, bla, bla, bla, bla". Hún er að tala.

Á fjórðu myndinni sést handleggur. Á handleggnum er rautt hjarta með ör í gegn. Tattú.

Elísabet hefur beðið eftir T-blaðinu í margar, margar vikur. Hún var nefnilega ákveðin í að teikna geimveruna E.T., sem hún sá á vídeói hjá guðmæðrunum. Það var ekkert einfalt mál, en hún leysti það snilldarlega. Fyrst bað hún mig að finna mynd af E.T. í tölvunni. Sem ég gerði og prentaði hana út. Svo dró hún myndina í gegn á smjörpappír og færði hana yfir á stafablaðið. Hún dró líka upp hægri hönd geimverunnar, með logandi rauðum vísifingri. E.T.

Næst teiknaði hún mynd af konu og mikið blómskrúð í kring. Tína blóm.

Þriðja myndin hennar var af stóru tré. Frá trénu lá löng grein eða viðartág og neðan úr henni dinglaði lítil mannvera. Tarzan.

Afi Torben og amma Magga buðu okkur þremur í frábæran fisk í gærkvöldi og systur mokuðu í sig hollustunni.

Í dag er umhverfisdagur og systur lögðu upp í langferð með skólanum sínum klukkan 9 í morgun. Með heitt kakó og nesti í bakpoka héldu þær af stað gangandi alla leið í Laugardalinn og ætla líka að ganga til baka. Þær verða áreiðanlega örmagna eftir slíkt ferðalag, þótt þrekmiklar séu.

Ég lofaði þeim kósýkvöldi í kvöld, barnabíó, popp og svo mega þær sofna í stóra rúmi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Frábær dagur hjá ykkur. Ég er líka algjört teiknimyndafrík. Það hefur verið grínast með að við hjónin hefðum eignast Úlfar til að hafa afsökun fyrir öllum teiknimyndunum sem við áttum.

Helga Magnúsdóttir, 25.4.2008 kl. 14:56

2 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Ég viðurkenndi einhvern tímann fyrir stelpunum að ég hefði fengið Toy Story í jólagjöf frá mömmu þeirra þremur árum áður en þær fæddust. Hún var efst á óskalistanum.

Þeim fannst þetta ekkert undarlegt

Ragnhildur Sverrisdóttir, 25.4.2008 kl. 16:58

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hahahaha, Toy Story er reyndar alveg snilld.

Takk fyrir skemmtilega færslu.  Er þjónustulundin að kæfa þá í húsdýragarðinum?

Jenný Anna Baldursdóttir, 25.4.2008 kl. 21:56

4 Smámynd: Blómið

Þið eruð bara frábærar allar fjórar  Endalaust gaman að fylgjast með skvísunum.   Hlakka til að sjá þær eftir c.a. 15 ár

Blómið, 25.4.2008 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband