Íkornar í sundi

Eftir að systur komu heim úr skólanum kom Tara skoppandi og Margrét fór og náði í Mörtu Maríu skömmu síðar. Og svo léku þær íkorna næsta hálftímann. Þær sáu nýlega mynd um íkornana syngjandi, Alvin og vini hans, og núna kemst ekkert annað að. Þær sungu einkennislag íkornanna, sem er víst á ensku en í þeirra meðförum ríma orð á borð við "fulifre" á móti "skiriskre".

Þær verða alltaf að klæða sig eftir tilefni. Alvin íkorni er í rauðri hettupeysu með stóru "A"-i á maganum. Margrét mundi eftir rauðri hettupeysu í minni eigu. Hún fór í hana og ég bretti sex sinnum upp á ermar. Systur eiga eins konar risapúsluspil, eða stafaspil, með stórum mjúkum ferningum sem hægt er að krækja saman á gólfi svo úr verði stafamotta. Hver staf er hægt að losa úr rammanum. Svo Margrét stórt A, batt það framan á sig með böndunum í hettunni á peysunni og var alsæl með útkomuna.

Marta María var næsti íkorni, sem hefur víst dálæti á grænum peysum. Ég fann græna æfingatreyju af Kötu. Og bretti sex sinnum upp á ermar.

Tara átti að vera bláklæddi íkorninn. Hún fann bláa peysu af Margréti, en ósköp litla. Eiginlega bara svona axlastykki. Það var frekar fyndið að horfa á íkornana þrjá, þar sem sá rauði og græni drösluðust áfram í risastórum peysum og sá blái hoppaði á eftir með bláan renning um axlirnar.

Elísabet stjórnaði. 

Klukkan sex fórum við í sund. Ég, Elísabet, Margrét, Marta María og Tara. Ég var alveg að fá nóg af íkornalaginu þegar hér var komið sögu og samdi við þær að hlusta á Latabæ í stað þess að syngja.

Þessar stelpur eru orðnar svo veraldarvanar eftir skólasundið að ég þurfti ekkert að hafa fyrir þeim. Þær klæddu sig úr, fóru í sturtu, í sundfötin og voru farnar að góla á mig að koma út í laug áður en ég hafði svo mikið sem sagt "hvernig á að ná heitu vatni úr þessari helv.... sturtu?

Við fórum í útilaugina í Árbæ og þá loks áttaði ég mig á að ég hafði lofað þessari sundlaugarferð í gær. Í blíðunni. Örskömmu síðar vorum við komnar í innilaugina. Þar var hlýtt. Og það sem betra var, þar blasti rennibrautin ekki við þeim svo þær fengu engar undarlegar hugmyndir um að sniðugt væri að kanna hversu hratt er hægt að senda eina kellingu, þrjá íkorna og einn íkornastjórnanda niður vatnsrennibraut.

Þær ólmuðust í klukkutíma á meðan ég horfði á. Þær köfuðu eftir skáplyklinum mínum, tróðust allar upp á uppblásna slöngu, veltu hver annarri af kork-krókódílnum, fóru upp á bakka, hoppuðu út í, fóru upp á bakka, hoppuðu út í, fóru upp á bakka, hoppuðu út í, fóru upp á bakka, hoppuðu út í, fóru upp á bakka, hoppuðu út í, fóru upp á bakka . . . .

Og sungu íkornalagið með heimatilbúna textanum allan tímann.

Þegar ég var orðin gjörsamlega örmagna af að horfa á þær fórum við upp úr. Og svo beint í sjoppuna Skalla í Hraunbæ. Ein með remúlaði og tómatósu, ein bara með tómatsósu, tvær berar í brauði...

Þær fengu eftirrétt. Margrét kreisti brauðformið sitt svo fast að það hrökk í sundur og ísinn á gólfið. Góða konan í ísbúðinni gaf henni annan.

Marta María ákvað að fara að fordæmi Margrétar og kreisti krap-bikarinn sinn svo fast að krapið fór að mestu upp úr. Hún reyndi að koma í veg fyrir það með því að styðja við það með bringunni.

Tara hélt á ísnum sínum allt til enda. Það var hins vegar dálítið snúið að borða hann, svo ísinn náði frá nefrótum og niður á höku. "Þurrkaðu þér um munninn, Tara mín," sagði ég í hugsunaleysi áður en ég rétti henni servíettuna. Úff, ég ætti nú að vera búin að læra að svoleiðis gerir maður ekki. Hægri ermin á jakkanum hennar á leið í þvott, ef ekki allur jakkinn.

Elísabet virtist afskaplega snyrtileg, stóð með bikarinn sinn og potaði varfærnislega í ísinn. Hún hafði fengið sér nammi út í og það var víst ekki allt jafn gott. Þess vegna þurfti hún að halla bikarnum mikið, svo hún kæmist framhjá vonda namminu og í það góða, sem var auðvitað á botninum. Ísinn leitaði út og hún fór að fordæmi Mörtu Maríu og studdi við hann með bringunni. Af því að sú aðferð hafði reynst svo óskaplega happadrjúg hjá MM.

Loks voru þær hættar í ísnum og ég búin að skúra ísbúðina. Þá fórum við heim og nú brá svo við að enginn íkornasöngur hljómaði.

Getur verið að þær hafi verið orðnar þreyttar?

Eftir þessi rólegheit?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Að sjálfsögðu ekki. Sko, ekki af því að ég sé ekki óskaplega spennt fyrir henni, heldur bara af því að .... æ, ég man það ekki í augnablikinu

Ragnhildur Sverrisdóttir, 9.5.2008 kl. 22:54

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég hlæ upphátt, ein í morgunkyrrðinni.  Sé þessa með bláa renninginn á bakinu fyrir mér hoppandi um allt.

ARG og þið eruð frábærar

Jenný Anna Baldursdóttir, 10.5.2008 kl. 09:54

3 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Dásamlegt hvað þessi litlu stykki geta verið orkumikil. Mér fannst hér í den svo gott að fara með mínar 2 og 4 í sund seinni part dags og svo beint í náttfötin. Örþreytt kríli sofnuðu þá fljótt.

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 10.5.2008 kl. 15:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband