Góð leti

Stundum er fólk að býsnast yfir hvernig bloggarar geti staðið í því að setja færslur inn alla daga. "Þarf þetta fólk ekkert að vinna?!" er spurt í vandlætingartóni.

Einu sinni bloggaði ég og vann.

Núna blogga ég eða vinn.

Síðasta vika var fyrsta vikan í nýju Moggavinnunni og það var eins og við manninn mælt: Sú gamla hætti bara alveg að blogga.

Ýmislegt afrekaði ég annað en að byrja í nýrri vinnu. Við Kata settum trampólínið saman í garðinum og síðan hafa verið skoppandi börn fyrir utan gluggann. Svo skrapp Kata til Svíþjóðar í tvo daga, sem var mjög heppilegt, því þá var ég einmitt að byrja í vinnunni og þurfti að hafa bílinn. Á miðvikudeginum var þetta strax klúður, Kata þurfti að fara í ráðuneytið og ég upp að Rauðavatni. Við ræddum þetta yfir morgunkaffinu. Ég hefði getað skutlað henni, ef hún hefði svo komið í hádeginu og látið mig fá bílinn af því að þá gat ég skutlað stelpunum í fótboltann seinni partinn en svo þurfti ég að fara strax í vinnuna aftur og þá þurfti hún bílinn svo hún gæti sótt stelpurnar, en svo varð ég líka að koma tímanlega heim af því að hún varð að fara á fund....

Niðurstaðan? Kata skutlaði mér á bílaleigu. Ég tók ódýrustu tíkina á leigu og notaði hádegið þann dag til að kaupa mér bíl.

Það voru ákaflega yfirveguð kaup. Ég gekk inn í Brimborg og sagði við elskulegan sölumanninn hann Valmund: "Ég ætla að fá að skoða hjá þér minnsta Citroen sem þú átt."

"Alveg guðvelkomið," sagði hann, "en Citroen verslunin okkar er hérna hinum megin við götuna."

Ég (hugs-hugs: Á ég að ganga héðan út, yfir götuna og inn í annað hús þar? Eru engin takmörk fyrir stressi í þessari fyrstu vinnuviku? Hver vissi að Brimborg væri á tveimur stöðum við sömu götu??)

Svo komst ég að niðurstöðu: "Jahá, hinum megin við götuna segirðu! En ert þú ekki með neinn smábíl í þessu húsi?"

Eftir að hann hafði tilnefnt mig til heiðursverðlauna hinna ofur-lötu benti hann mér á lítið, hnöttótt kríli uppi á palli og sagði að þennan Ford Ka gæti ég fengið á fínu verði.

Ég ætlaði auðvitað ekki að æða út í neina vitleysu, svo ég ákvað að spyrja nokkurra vel valinna spurninga um gírkassann, blöndunginn og allt það allra nauðsynlegasta af tæknibúnaði. Eina sem kom út úr mér var: "Í hvaða lit áttu hann?"

Ég veit, ég veit!!! Þetta er samt ekki af því að ég sé svo konótt að ég geti ekki hugsað hálfa hugsun um bíla. Ég var bara dálítið að flýta mér. Pínu stressuð og þurfti bíl fljótt.

Eftir að ég fékk litla Ka-krúttið mitt í hendur uppgötvaði ég hvað hann er nú stórfínn. Þetta er olíukreppu-bíllinn minn, sem samviskujafnar fyrir dísel-hlunkinn sem Kata siglir einbeitt á um göturnar, eins og hún ætli einmitt núna að skreppa upp á Hvannadalshnjúk.

Mæli með Ford Ka! Eða pínulitlum Citroen fyrir þá sem ramba á það hús fyrst.

Stundum er leti af hinu góða.

Ka


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Æj ég er ekki hrifin að svona skóhornabílum, það má ekkert koma fyrir. Farðu varlega á þessu kona ! Mér finnst snilld að vera konótt..hehe skemmtilegt orð það.

Gott að sjá þig, þú nærð bráðum tökum á blogga OG vinna

Ragnheiður , 9.6.2008 kl. 22:11

2 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Til hamingju með nýja bílinn og nýju vinnuna.

Helga Magnúsdóttir, 9.6.2008 kl. 22:31

3 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Sko, Ragnheiður, ég var að velta fyrir mér að fá mér vespu. Þetta er yfirbyggð vespa OG stelpurnar komast með í styttra skutl. Alveg fullkomið.

Takk fyrir góðar kveðjur, Helga.

Ég veit að ég verð glöð þegar ég tek bensín á hann. Það ætti að verða um miðjan næsta mánuð. Þetta eyðir engu!

Ragnhildur Sverrisdóttir, 10.6.2008 kl. 00:07

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég er í krúttkasti yfir þér Ragnhildur.  Þú drepur mig.  Svona á að versla sér bíl.

Jenný Anna Baldursdóttir, 10.6.2008 kl. 00:07

5 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Frábær færsla og til lukku með nýja bílinn (saumavélina, eins og vinkona mín kallar sinn Ford Ka)

Sigrún Jónsdóttir, 10.6.2008 kl. 00:16

6 Smámynd: Birgitta

Fliss fliss, algjör snilld

Birgitta, 10.6.2008 kl. 00:45

7 Smámynd: Hulla Dan

Veinandi snilld.
Til hamingju með krútt bílinn.

Hulla Dan, 10.6.2008 kl. 07:01

8 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Mikið er gott að sjá þig aftur í bloggheimum. Ég var farin að örvænta......Til hamngju með þann nýja sparneytna.....ekki veitir af á þessum nýjustu og verstu.....

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 10.6.2008 kl. 11:19

9 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

......síðustu og verstu vildi ég sagt hafa......

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 10.6.2008 kl. 14:01

10 Smámynd: Húsmóðir

Til hamingju með nýja bílinn    Er handviss um að þú varst mjög gáfuleg með " égveitalltumbílasvip" þegar þú varst að versla hann.   

Húsmóðir, 10.6.2008 kl. 22:25

11 identicon

Hahahaha.... algjör snilld! Svona á að gera þetta. Hvað eru kaup á einni bíltík svo sem í hádeginu? Til hamingju með yfirbyggðu vespuna. Bara eins og litli sæti Pólóinn minn. Og ennþá hægt að kaupa fleiri en einn lítra af bensíni á hann fyrir 500... Já ég sagði ENNÞÁ! Allavega út vikuna....

Olla (IP-tala skráð) 10.6.2008 kl. 23:23

12 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Einu sinni var ég sölumaður hjá B&L og seldi Lödur. Þá voru sífellt að koma einhverjir karlar, sem reyndu að leiða mig í gildru með hinum og þessum karboratora/knastása (kambása)-spurningum. Ég lærði það sem þurfti til að standa ekki á gati, svo ég veit kannski eitthvað pínulítið. En það er hreinn óþarfi að þvælast inn í slíka hluti þegar maður er einfaldlega að kaupa góðan smábíl. Ka, sem er svo lítill að hann fær bara byrjun á nafni, er alveg stórfínn. Ef hann væri stærri hefði hann kannski heitið Karborator eða Kambás? Og eytt meiru. 

Ragnhildur Sverrisdóttir, 10.6.2008 kl. 23:53

13 identicon

ja nú varð Citroen félagið af félagsmanni... þú hefðir náttúrulega orðið fyrsti meðlimurinn til að kaupa bíl eftir lit, þessi blúnda sem þú ert orðin...

Urður (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 01:15

14 Smámynd: Egill Jóhannsson

Góð bílakaupasaga :) og til hamingju með nýja bílinn.

Kveðja

Egill

Egill Jóhannsson, 11.6.2008 kl. 07:51

15 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Takk Egill.

Fínt að skipta við fyrirtækið þitt -og Valmund.

Ragnhildur Sverrisdóttir, 11.6.2008 kl. 09:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband