Dauður!

Pistill í Mbl. 23/6 

Hvítabirnir, líf þeirra og dauði voru helsta umfjöllunarefnið á heimilinu dögum saman. Sjö ára systur, Elísabet og Margrét, vildu fá að vita allt um málavöxtu. Hvaðan komu þeir? Voru þetta mömmur? Pabbar? Lítil hvítabjarnarbörn?

Þeim fannst súrt í broti þegar sá fyrri lá dauður, en þann dauðdaga bar þó svo brátt að, að hvorug varð sérstaklega miður sín. Þær höfðu hins vegar nægan tíma til að fylgjast með þeim síðari.

Á laugardag voru þær úti í garði að leika með vinkonum sínum, Töru og Unni. Ég var að bauka við að mála kofann þeirra og fylgdist með samræðunum með öðru eyranu. Allt í einu heyrði ég Elísabetu lýsa því yfir, að hún ætlaði að skjóta ísbjörninn. Hún stökk inn eftir boga og örvum. „Merkilegt hversu fús hún er að skjóta hann, eftir allar Disney-legu vangavelturnar undanfarið," hugsaði ég með mér.

Elísabet kom æðandi út og sveiflaði boganum sigri hrósandi og Margrét mundaði sömu vopn. Um leið kallaði Tara: „Ég er með svæfingarlyfin!"

Hún hefur greinilega fylgst með fréttunum eins og systurnar.

Elísabet og Margrét hurfu fyrir húshorn að skjóta hvítabjörninn með svæfingarlyfinu, Unnur og Tara laumuðust á eftir. Ég hélt að málið væri úr sögunni. Nokkrum mínútum síðar komu vinkonurnar fjórar stynjandi og másandi og báru á milli sín þungt teppi. „Við verðum að setja ísbjörninn þarna, af því að hann er dauður," tilkynnti Unnur, um leið og hún mjakaði hópnum á enda pallsins.

„Dauður? Er hann dauður?" argaði ég innan úr kofanum þeirra. „Voruð þið ekki bara að svæfa hann?"

„Elísabet og Margrét svæfðu hann og svo dreptum við Unnur hann með hníf," tilkynnti Tara stolt.

Þær ákváðu að borða hvítabjörninn og settust að snæðingi allar fjórar. Með hvítabirninum dauða hafði fylgt lítill húnn, sem þær höfðu ákveðið að þyrma og buðu nú til borðhalds með sér. „En við getum ekki gefið honum ísbjörn að borða. Það borðar enginn mömmu sína," sagði Elísabet. Enginn gat mótmælt þeim rökum.

Eftir hvítabjarnarát, þar sem súkkulaðisnúður lék hlutverk kjöts, fóru þær aftur á veiðar. Silungur, lax, krókódíll, hvalur og dreki lágu í valnum.

Þær systur horfðu einu sinni á myndina um Bamba. Þegar mamma hans Bamba var skotin voru þær sallarólegar. Síðar í myndinni horfir Bambi litli dapur í bragði yfir að búðum veiðimannanna. Reykur liðast upp. Margrét sneri sér að mér og spurði: „Eru þeir núna að sjóða mömmuna?"

Ég hélt engar ræður um hvítabjarnardráp eða hvalveiðar. Ekki frekar en ég gerði athugasemd við einlæga spurninguna um mömmu hans Bamba. Pólitísk rétthugsun er svo fjári leiðinleg að það er best að fresta henni sem lengst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þetta er blóðþyrst gengi sem þú elur við brjóst þér kona.

Mikið rosalega er þetta frískandi færsla eftir allan Lúkasinn á ísbjörninn.

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.6.2008 kl. 13:03

2 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Ég elska barnafantasíur! Yndisleg saga af systrum - takk fyrir.

Edda Agnarsdóttir, 23.6.2008 kl. 13:35

3 Smámynd: Einar Þór Strand

Börnin eru oft skynsamari en fullorðnir.

Einar Þór Strand, 23.6.2008 kl. 14:41

4 Smámynd: Hulla Dan

En æðisleg lesning  
Börn brillera...

Takk fyrir þetta og gott kvöld á ykkur

Hulla Dan, 23.6.2008 kl. 19:09

5 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Grimmsævintýri hvað ;)

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 25.6.2008 kl. 00:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband