Skvamp!

Viðburðarík helgi, þessi!

Við tókum saman dótið okkar á laugardagsmorgni og brunuðum upp í Skorradal. Þar var Bryndís systir búin að ná saman barnabörnunum sínum fjórum, sem öll búa í Svíþjóð. Kristín elst, svo Ívar, bæði Gunnhildarbörn og litlu skottin Salka og Sísí, Sverrisdætur.

Við tróðum okkur út hjá Bryndísi og héldum svo áfram ferðinni í Húsafell. Þar var Knútur Kötubróðir í sumarbústað með krakkana, Ölmu Karen og Daníel. Ungarnir fóru í vatnsbyssuslag og í heita pottinn, en "sumir" grjótsofnuðu í stofusófanum á meðan systkinin spjölluðu.

Við Kata fórum með systur og Daníel niður að á þar sem hún breiðir úr sér. "Komdu að fleyta kellingar" sagði ég við Margréti, sem kom hlaupandi og kallaði: "Hvar eru sætir kettlingar??!" Hún var ekki ánægð þegar hún uppgötvaði að sér hefði misheyrst. En svo fann hún marga flata steina og þeytti út á vatnið.

Kata sagðist ekki kunna þetta og Margrét tók að sér að kenna henni. Kom svo stolt til mín og sagði að mamma hennar væri búin að ná tökum á þessu. "Ég gaf henni sjálfstraust."

Það munar um minna.

Ég stiklaði um steina með Elísabetu, sem var mjög spennt yfir hættunum við hvert fótmál. Svo fékk ég þá snilldarhugmynd að draga myndarlega fjöl upp úr vatninu og leggja á milli steina. Hin fínasta brú. Ég ákvað að fara fyrst yfir. Og rann beint út af glerhálli brúnni. Þar sem ég stóð og hristi bleytuna úr hægri strigaskó og reyndi að vinda skálmina, um leið og ég bölvaði því að hafa ekki tekið með mér aukabuxur, ákvað Elísabet að reyna sig við brúna. Og rann líka út í! Hún var miklu lukkulegri en ég.

Við ókum í bæinn upp úr hádegi í dag og fengum svo Bryndísarkrakka og þeirra krakka í heimsókn á pallinn. Þá sannaðist enn, að þótt kuldi og norðanátt ríki annars staðar er Fossvogurinn undanskilinn.

Systur eru í fríi á morgun, en hafa auðvitað í nógu að snúast. Þær þurfa að þvælast aðeins með mér, fara í heimsókn og heilsa upp á afa og ömmu, svo fátt eitt sé nefnt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Það er alltaf munur að hafa kennara sem gefur nemandanum sjálfstraust, ég tala nú ekki um þegar nemandinn er mamma manns.  Skemmtileg frásögn. 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 30.6.2008 kl. 00:53

2 identicon

Hæhæ

les alltaf bloggið þitt af og til finnst það mjög skemmtilegt og þú skemmtilegur penni:)

hefur þér aldrei dottið í hug að koma með eina skemmtilega barnabók um þær systur? ég myndi vilja lesa hana fyrir minn prins

Kristín (IP-tala skráð) 30.6.2008 kl. 01:22

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Alltaf er jafn skemmtilegt að lesa bloggið þitt um þær tvíburasystur.  Frábærar stelpur sem þú átt.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 30.6.2008 kl. 02:06

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Lifi sumarið.

Jenný Anna Baldursdóttir, 30.6.2008 kl. 08:58

5 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Tek undir óskir um barnabók frá þér Ragnhildur.  Alltaf gaman að lesa færslurnar þínar.

Sigrún Jónsdóttir, 30.6.2008 kl. 10:37

6 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Innlitskvitt og bestu kveðjur

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 30.6.2008 kl. 18:28

7 identicon

Sæl..... Ég kem hér inn og les bloggið þitt einstaka sinnum þar sem ég á einmitt eineggja tvíburastelpur sem eru 6. Mér finnst svo gaman að sjá að það eru fleiri heimili jafn lífleg og mín. Mínar dömur fara að vísu ekki í skóla fyrr en í haust en spennan er mikil.

Ég verð að komenta á þessa færslu hennar Kristínar. Ég er sko sammála henni að þú sért góður penni og örugglega gaman að lesa um ævintýri tvíburasystra án þess að samskiptin séu eins og hjá Snuðru og Tuðru. Persónulega finnst mér þær systur S og N ekkert spennandi lesning, eilíf rifrildi og slagmál. Það vantar ævintýrabók um tvíbbasystur, eins og bókina um tvíbbabræðurna Jón Odd og Jón Bjarna

Kveðja Bergþóra

Begga (IP-tala skráð) 7.7.2008 kl. 14:22

8 identicon

Sæl aftur.

 Sáuð þið þáttinn á ruv í gær um fjölbura í móðurkviði. Magnað alveg....

Kv Bergþóra

Begga (IP-tala skráð) 9.7.2008 kl. 11:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband