Ferðalag

Fjölskyldan kom heim úr góðu sumarfríi um helgina.

Við flugum til Gautaborgar, á réttum tíma með Iceland Express, merkilegt nokk. Komum þangað miðvikudaginn 2. júlí og vorum í góðu yfirlæti hjá Magga Kötubróður, Helene og stelpunum þeirra, Ellen og Agnesi. Systur og frænkur þeirra láta alltaf eins og þær hafi síðast sést í gær og aldrei koma upp nein vandamál í leik þótt tvær tali íslensku en hinar tvær beiti helst sænskunni. Ellen er samt öll að sækja í sig veðrið í íslenskunni og skilur hana nokkuð vel.

Stelpuskott skemmtu sér á trampólíni, sulluðu með stórum sápukúlusverðum sem Kata hafði keypt í Toyr'R'Us og dröslað með yfir hafið og fóru niður á bryggju að veiða krabba. Það var afar einföld veiði. Þvottaklemma var fest á snærisenda, svo fundum við bláskel, brutum hana upp, settum bita af fiskinum í klemmuna og létum hana síga niður í sjóinn. Krabbarnir eru svo gráðugir og vitlausir að þeir hanga á klemmunni á meðan einhvern mat er að fá og sleppa ekki þótt þeir séu dregnir á þurrt. Þeim var öllum safnað í fötu en þegar veiðimennirnir voru búnir að fá nóg hvolfdum við fötunni í fjörunni og þá upphófst æðisgengið krabbakapphlaup út í sjó.

Við vorum hjá Magga og Helene fram á laugardagsmorgun, en þá fórum við öll í ferju yfir til Danmerkur. Þau á sínum bíl og við á bílaleigubíl. Við þræddum svo Danmörku, byrjuðum á Skagen og gistum þar á notalegri krá, héldum svo áfram og gistum í glæsilegri höll rétt norðan við Álaborg, þaðan lá leiðin í suður að Billund, þar sem við gistum á býli hjá Íslendingunum Bjarna og Bryndísi og loks fórum við Kata og stelpurnar til Köben, en Maggi og co óku yfir til Svíþjóðar aftur.

Ferðin var frábær og systur léku við hvern sinn fingur. Þeim fannst stórkostlegast að gista í höllinni. Þar fengum við stórt herbergi, með rauðum og logagylltum plusshúsgögnum, sem þeim fannst auðvitað afskaplega konunglegt. Svo fórum við í mikla rannsóknarleiðangra um alla höll og þær bönkuðu á alla veggi, alltaf sannfærðar um að nú hefðu þær fundið leynigöng.

Um kvöldið fórum við öll í gönguferð um hallargarðinn. Margrét varð óð af kæti þegar hún náði nokkrum litlum froskum, en lét nú vera að kyssa þá. Ellen stóra frænka kyssti tvo, en hvorugur reyndist prins.

Við létum vera að segja þeim sögur af draugagangi í höllinni þar til morguninn eftir. Þarna voru auðvitað alls konar draugar. Einn þeysti um á kerru sem dregin var af hauslausum hestum, en aðrir vöppuðu um ganga hallarinnar. Maggi frændi lenti í hremmingum þegar hann brá sér út úr rúminu um nóttina, því rétt á meðan var koddinn hans færður til fóta. Og Kata sagði systrum að hún hefði þurft að snúa aukarúminu í herberginu um morguninn, af því að einhver ærsladraugurinn hafði fært það til um nóttina.

Þær voru stóreygar og nokkuð nervusar fram undir hádegi. En þá fóru þær í sundlaugina, sem áður var ráðsmannshúsið við hallarsíkið og náðu úr sér hrollinum.

Frá höllinni ókum við til Álaborgar, þvældumst þar aðeins um og héldum svo áfram á býli Bjarna og Bryndísar við Billund. Þar er ekki hefðbundinn búskapur, enda öll skot full af ferðalöngum, en þó voru þar nokkrar geitur sem vöktu mikla lukku. Bjarni leyfði stelpunum oft að gefa geitunum brauð og það var alltaf jafn gaman.

Legoland var tekið með stæl allan þriðjudaginn 8. júlí. Við örkuðum einbeitt framhjá litlu Lego-bæjunum og byrjuðum á leiktækjunum. Þegar við vorum búin að fá okkur fullsödd af þeim var notalegt að skoða pínulitla Lego-heiminn. Systur tóku andköf yfir þessu öllu saman. Skipastiginn, þar sem pínulítill bátur fór upp og niður, vakti mikla lukku. Og þegar sendibíll, á lengd við framhandlegg þeirra og kyrfilega merktur Toys'R'Us stöðvaði við litla vindubrú og beið þess að komast yfir laumuðust þær til að pota ofurvarlega í hann og fannst það stórkostlegt.

Á meðan við vorum í Legolandi gerði nokkrum sinnum mikið úrhelli. Það stóð afskaplega stutt hverju sinni, svo við gátum bara hlaupið í skjól. Kosturinn við þetta var, að garðurinn var ekki troðinn af fólki, svo við losnuðum við biðraðir og leiðindi.

Þegar við ákváðum að nóg væri komið voru meira að segja systur orðnar mettar á Legolandi í bili.

Um kvöldið fórum við á litla krá í miðri sveitinni að fá okkur að borða. Krána reka eldri hjón, sem eitt sinn ráku hótel en ákváðu að minnka við sig. Bjarni hafði til allrar hamingju varað okkur við frúnni, sem sér um að þjóna til borðs á meðan maður hennar eldar. Hún leggur afskaplega hart að fólki að velja einn rétt og hafa þetta sem einfaldast. "Hlustið ekkert á hana," sagði Bjarni. "Maturinn er fínn og þetta er bara í nösunum á henni."

Þegar við mættum öll átta á krána byrjaði frúin á að mæla með þremur réttum, en bætti svo við að best væri ef við pöntuðum öll það sama. Við bitum á jaxlinn, ég og Helene pöntuðum það sama og Maggi og Kata annan rétt. Frúin varð hin pirraðasta. "Ég get ekki garanterað gæðin á matnum þegar svona flókin pöntun kemur og þið gerið ykkur grein fyrir að þið verðið að bíða töluvert lengur heldur en ef þið hefðuð öll pantað það sama!" hreytti hún út úr sér. Hún gerði samt engar athugasemdir við ólíkar pantanir krílanna, nennti ekkert að vera ókurteis við svoleiðis stýri.

Maturinn kom fljótt og vel. Frúin mildaðist öll þegar leið á kvöldið og þegar við hrósuðum heimatilbúna ísnum hennar í hástert var hún orðin hin alúðlegasta. Krúttleg upplifun, en hefði áreiðanlega verið pirrandi ef Bjarni hefði ekki verið búinn að vara okkur við.

Svei mér þá, ferðasagan rétt hálfnuð og ég nenni ekki að skrifa meira í bili. Verð að færa restina til bókar síðar. Og Kata myndasmiður lætur mig fá eitthvað til að skreyta með.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hallo

eg hef aldrey kvittad adur en hef haft mykid gaman af thvi ad lesa :)

kv Birna Dallas Texas

Birna (IP-tala skráð) 21.7.2008 kl. 01:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband