Nei takk, en takk samt!

Pistill í Mbl. 23. júlí 

Stelpurnar eiga að ganga í stuttum bolum, svo skíni í bert. Og þær eiga að vera í þröngum og þunnum buxum við. Allar eru þær eins, þessar stelpur og því engin ástæða til annars en að hafa fatnaðinn við hæfi. Best að byrja sem fyrst. Bolur á 4-5 ára stelpu sem gefur skýra kynferðislega skírskotun? Alveg sjálfsagt mál!

Það er niðurdrepandi að fara í verslunarleiðangur að kaupa buxur á sjö ára systur. Þær eru búnar að gera göt á hnén á æfingabuxunum sem fylgdu Vals-gallanum í vor og tími til kominn að finna nýjar. Þær eiga eftir að fara út á sjó með afa sínum á Ísafirði, ganga á fjöllin fyrir vestan og leika sér í fjörunni. En það er engin ástæða til að fara í dýrar sérverslanir, svona buxur hljóta að vera í stöflum í stórmörkuðunum.

Annað kom á daginn. Í stelpudeildum stórverslana eru auðvitað buxur, en bara gallabuxur og svokallaðar leggings. Mjúkar, þunnar bómullarbuxur, sem eru ágætar til síns brúks og þær systur eiga nóg af, en gegna ekki sama hlutverki og íþróttabuxur sem hægt er að ólmast í, fara í fótbolta, detta á hnén, skríða undir girðingu, klifra upp í tré. Í stelpudeildunum eru aðallega glyðruleg, glitrandi föt á stelpurnar. Frá fjögurra ára aldri og upp úr. Fram að fjögurra ára aldri eru fötin nokkurn veginn eðlileg, þótt flest séu þau bleik.

Eru engar íþróttabuxur til? spurði ég afgreiðslukonuna undrandi og þótti merkilegur fjári ef allar væru uppseldar.

Jújú, íþróttabuxur voru vissulega til. Í strákadeildinni.

Auðvitað fást íþróttabuxur bara í strákadeildinni. Allir vita að það eru bara strákar sem hreyfa sig og ólmast af einhverri alvöru. Þetta hefði ég átt að geta sagt mér sjálf. En hélt bara í einhverri augnabliks brjálsemi, af því að stelpurnar mínar hreyfa sig oft og mikið, að þær gætu fengið íþróttabuxur á sig í stelpudeildinni. Þær eru ekki einu sinni einu stelpurnar á landinu sem vilja göslast um frjálsar og skítugar þegar svo ber undir.

Í strákadeildinni fengust passlegar íþróttabuxur. Svartar. Við fórum í næsta stórmarkað og þar var nákvæmlega sama uppi á teningnum. Engar íþróttabuxur í stelpudeildinni, en við fundum fínar buxur í strákadeildinni. Dökkbláar.

Systur eru alsælar í íþróttabuxunum sínum, önnur í bláum og hin í svörtum. Þeim finnst gott að vera í þægilegum buxum á fótboltaæfingu, í trampólínhoppi með vinunum, í njósnaferðum um hverfið, í dansi með vinkonunum, í tjaldútilegu með mömmum sínum og þegar þær fara út að hjóla.

Systur eru sjö ára börn, sem hafa sömu áhugamál og vel flest önnur sjö ára börn. Þær eru ekki ungar glyðrur og ég afþakka aðstoð stórverslana við að ala þær upp í því hlutverki. Eða eins og Margrét dóttir mín myndi orða það: „Nei takk, en takk samt!"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Þór Strand

Ég hef oft reynt að útskýra hvers vegna ég er ómögulegur í að kaupa föt á dóttur mína, ég finn heppilegu fötin í strákadeildinni en þá segir hún "pabbi þú ert svo vitlaus ég er ekki strákur" og ég veit að það væri að henda peningum að reyna að sannfæra hana. 

Einar Þór Strand, 23.7.2008 kl. 11:20

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég er búin að verða arfavitlaus út af glyðrufötunum sem yfirgnæfa allt í stórmörkuðunum.  En það hlýtur að vera markaður fyrir þetta.

Hver klæðir smábörn í föt sem eru hönnuð til að gera þann sem þeim klæðist að kynveru.

Ragnhildur stofnum samtök.  Game?

#%$/()/$#/7

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.7.2008 kl. 13:22

3 identicon

Gæti ekki verið meira sammála hef sjálf lent í þessu þegar ég er að versla á 8 ára dóttur mína. Við foreldrar eigum að leyfa börnunum að vera börn.

Guðrún Vestfirðingur (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 13:40

4 Smámynd: Hanna

FRÁBÆR og þarfur pistill!

Hanna, 23.7.2008 kl. 15:01

5 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Ég skil alls ekki hvernig það er markaður fyrir þennan fatnað, því allt hugsandi fólk sem ég þekki hryllir sig við tilhugsunina um að setja stúlkubörn í g-streng, stuttan bol og efnislitlar buxur eða eitthvað þaðan af verra.

Við gætum sosum alveg stofnað samtök, Jenný. En erum við ekki bara samtök? Hver og ein lítill hlekkur í keðju? Ef við ákveðum allar að kaupa þetta ekki og láta aðra vita hvað okkur finnst þetta óþolandi, þá hefur það kannski áhrif.

Kannski.

Ragnhildur Sverrisdóttir, 23.7.2008 kl. 15:35

6 identicon

Eins og talað út úr mínum munni. Mikið er ég sammála. Fyrir nokkrum árum þegar magabolir komust í "tísku", þetta var á Spicegirls-tímabilinu og dóttir mín enn á barnsaldri, var ónafngreind stórverslun með slíka boli til sölu í barnadeildinni með áletruninni "sexy girl". Er þetta nokkur hemja? Sjaldan hefur mér verið jafn misboðið. Frétti af því skömmu síðar að bolirnir hefðu verið innkallaðir, eins og það heitir. Finnst einhverjum það skrítið? Það hlýtur að vanta allmargar heilasellur í þá sem framleiða svona vörur. Svo ég tali nú ekki um foreldra sem kaupa og klæða börnin sín í fullorðins fatnað í smækkaðri mynd. Það er nægur tími fyrir blessuð börnin að verða fullorðin þó að ekki sé verið að þröngva þeim til þess allt of snemma. Allt hefur sinn tíma!

Olla (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 15:51

7 identicon

Ég lenti einmitt í því sama þegar ég var að fata þriggja ára, fremur hávaxna stelpuna mína upp á útsölunum núna.. voru til þægilegir jogginggallar í strákadeildinni í þeim appelsínugula og í öðrum íþróttavörurisanum. Þetta finnst mér algjörlega FÁRÁNLEGT! Á maður að þurfa að panta allt af netinu nú til dags? Alveg út í hött að stelpur eigi bara að vera einhverjar fínar puntudúkkur sem hreyfi sig ekki!

Halldóra F Sigurgeirsdóttir (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 17:04

8 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Mér finnst það alvöru mál hvernig byrjað er að markaðssetja vörur á smástelpur með lólítusyndrómið sem útgangspunkt.

Svo ég tali nú ekki um allar smástelpurnar sem ég hef séð sem eru klæddar þessum fötum.

Og hvar er þá ábyrgð foreldra?

Er hlaupið eftir öllu ruglinu í tískuiðnaðinum.

Afsakið á meðan ég...

En Ragnhildur, það er rétt við erum samtök. 

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.7.2008 kl. 17:28

9 identicon

Einu sinni fór ég í hagkaup að leita að bol á 9 ára dömu og fann rauðann bol með stórri mynd af rosa sætum kettlingi framan á. En undir myndinni stóð "art of seduction" Ég lét starfsfólkið vita en öllum var allveg sama, en mér fannst þetta viðbjóður og virtist bara vera ein um það. Listin að tæla og 9 ára stelpur á ekki samleið, ég held að það sé ekki hægt að þýða þetta á neinn annan hátt!?   

Frúin (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 17:31

10 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Vá, vá, vá! Man eftir því þegar foreldrar trylltust eitt árið þegar Hagkaup seldi glyðrufatnað á stelpur (g-strengi og fleira) og hélt í sakleysi mínu að þetta væri hætt!!! Enda á ég ekki litla stelpu, heldur 28 ára strák sem ég er löngu hætt að kaupa fötin á. Kvartaði helst yfir því þegar hann var lítill hversu lítið úrval var af flottum jólafötum á hann á tímabili á meðan haugar af flottum kjólum (ekki glyðrulegum) héngu í stelpudeildinni. Gott að þú vekur athygli á þessu, þetta er fáránlegt.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 23.7.2008 kl. 18:36

11 identicon

Ég var himinlifandi þegar ég var erlendis fyrir nokkrum dögum og sá fallegan bol á 9-10 ára stelpu, svona eins og ég vil hafa hana klædda á þessum aldri. Hann er það fallegur að þó hann nái niður fyrir mittið þá mun hún ekki hugsa sig tvisvar um að ganga í honum.

finnst þessi stefna að gera smástelpur að unglingum svona fyrirfram. þau ár koma nógu fljótt, og svo eru litlu telpurnar orðnar fullorðar áður en maður áttar sig á því.

mbk/sjs

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 19:36

12 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sælar

Stelpurnar mínar eru nú orðnar svo stórar að ég kaupi ekkert á þær lengur, en þetta vandamál er búið að vera viðvarandi í mjög langan tíma.

Það er ekki að það sé markaður fyrir þetta, heldur hitt að maður fær ekkert annað á börnin. Síðan virðist vera búið að innprenta þetta viðhorf hjá börnunum.

Gott að einhver tók þetta upp, því þetta hefur farið í taugarnar á mér í mörg ár.

Því miður er eiginlega sömu sögu að segja um skófatnað og yfirhafnir, nema teknir séu pollagallar eða snjógallar. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 23.7.2008 kl. 20:32

13 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Kannast við þetta vandamál. Lendi oft í þessu þegar ég kaupi á sonardætur mínar. Hef rekist á boli á 6-7 ára með alls kyns kynferðislegum skilaboðum. Mætti ætla að barnaperrar hönnuðu þessi föt.

Helga Magnúsdóttir, 23.7.2008 kl. 21:33

14 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Takk fyrir pistilinn, las hann í Mogganum í morgun og varð svo glöð að sjá pistil þar um þetta málefni á virðulegum stað í blaðinu en ekki bara í Velvakanda eftir húsmóður eða ömmu sem ekkert mark er tekið á, sko pistlinum.

Þótt ég og fleiri séum búin að ræða þessi mál frá því ég var ung stúlka er aldrei of mikið gert af því að vekja athygli á því ofurvald sem breytist í ofbeldi á bernskunni með fatatísku sem er bæði bein og óbein tilvísun í eitthvað kynferðislegt. Stórhættulegt.

Edda Agnarsdóttir, 24.7.2008 kl. 00:21

15 identicon

Hef lent í þessum vandræðum með guð- og stjúpdóttur mína - magabolir, mjaðmabuxur og allt í númerum sem eru bara á grindhoraðar stelpur! Fór að skoða katalóga í staðinn, en þetta er óþolandi þróun..... og tískan er öll eins og það er líka óþolandi.....spurning um að taka upp saumavélina barasta ;)

Martha Elena Laxdal (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 00:25

16 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Þetta vandamál þekki ég vel.  Og togstreituna sem því fylgir. 

Það er ekki nema von að einhver spyrji hvort barnaperrar hanni þessi föt.  Í nafni frjálsræðis höfum við, vestrænar þjóðir, verið að normalívera klám og þar með talið barnaklám.  Þau sem hafa mótmælt hafa verið púuð niður sem gamaldags og kynköld með forræðishyggju á háu stigi.  Markaðurinn, blessaður garmurinn, á víst ekki að geta haft rangt fyrir sér.  Svei

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 24.7.2008 kl. 10:53

17 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Ótrúlegt en satt,- bolir á stelpur niðrí 3ja ára eru aðsniðnir í mittið !!  Hvaða mitti ??   og síðan er varla hægt að fá sundföt á stelpur nema það séu bikiní......leitaði lengi þar til ég fann tangini ( með síðum bol) á mína 8.ára,- þannig að hún gæti vippað sér úr bolnum þegar sólin skini.  Hefur bara ekkert að gera með bikiníbrjóstahaldara á meðan það eru engin brjóst.  En það má sjá ótrúlegar litlar stúlkur í sundi í bikiníbrjósahöldum, svei mér þá alveg niður í eins árs !!  Skil bara ekki tilganginn. 

Hættum að versla þessi föt og hellum tölvupósti yfir þær verslanir sem hafa ekki góð íþróttaföt í stelpudeildinni !!!

Síðan má líka alveg ræða skiptingu í stelpu/strákadeildir í leikfangaverslunum......þegar ég keypti leikfangaryksugu fyrir barnabarn mitt ( strák) fann ég hana ekki fyrr en mér var bent á stelpudeildina.....hvaða bull í mér,- strákar ryksuga ekki ;)

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 25.7.2008 kl. 02:19

18 identicon

Góður pistill, takk fyrir. Ég gleymi aldrei 5 ára stelpunni sem kom í tónmenntatíma hjá mér einu sinni-hún var í bleikum bol sem á stóð PORN STAR!!!! Þarf ég að segja meira? Barnið fékk ekki að koma í þessum bol aftur. Stundum hrósa ég happi yfir því að eiga tvo stráka sem ég þarf að fata. Í þeim verslunum sem ég versla við hér í Chicago þá hef ég lítið eða ekkert séð af svona glyðru fatnaði á ungar stúlkur þó svo að erfitt sé að finna sundföt sem ekki eru bikiní, eftir því hef ég tekið. En þó að það sé ekki í samhengi við það sem þú talar um hér, þá vildi ég óska að hægt væri að kaupa sokkabuxur hérna eins og heima..en nælon buxur niður í nýfætt er hægt að versla.En takk enn og aftur fyrir góðan og þarfan pistil.

Svanfríður (IP-tala skráð) 30.7.2008 kl. 16:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband