Steikt

Fjölskyldan lætur sér ekki nægja að flengjast til útlanda í sumarfríinu. Aldeilis ekki.

Um daginn fórum við út í Flatey, drösluðum með okkur tjaldi og sváfum þar eina nótt. Nema milli kl. 4 og 6, þá sváfum við ekki neitt af því að unglingadýrin neðar á tjaldstæðinu voru í stuði. Systrum þótti það hins vegar frekar spennandi, pískruðust á í svefnpokunum, voru svo orðnar svangar klukkan hálf sex, fengu þá brauð og við steinsváfum allar frá 6 til 8.

Ég fer allt of hratt yfir sögu. Í Flatey hittum við Addý og Báru, sem höfðu tekið fyrsta bát um morguninn og voru sólbrenndar og sælar þegar við loks birtumst. Við nutum blíðunnar í Flatey með þeim og skildum þær svo lúnar eftir á hótelinu á meðan við gengum stóran hring, rannsökuðum fuglalíf og gamlan skipsskrokk í fjöru, fórum í kirkjuna og rákumst á kunningja í þrautum og leikjum úti á túni. Flatey er miklu yndislegri en ég hafði gert mér í hugarlund og ég ætla þangað aftur.

Við borðuðum á hótelinu um kvöldið og svo fylgdu Addý og Bára okkur á tjaldstæðið. Þar ákváðu systur að troða upp og fluttu Bahama-lagið frá upphafi til enda og dönsuðu frumsaminn dans með. Bára myndaði á meðan, en blessað póstforritið mitt leyfir mér ekki að opna myndirnar frá henni hérna heima. Skelli þeim inn á betri tölvu bráðum.

Frá Flatey fórum við yfir á Barðaströnd, ókum svo yfir í Arnarfjörðinn, út í Selárdal, til baka að Dynjanda og tjölduðum þar.

Áður en við lögðum í ferðina höfðum við keypt þetta fína ferðagrill. Ég hafði vit á að fara með hluta þess inn á bensínstöð, benda á viðeigandi stykki og segja: "Ég ætla að fá gaskút sem passar fyrir svona." Og fékk gaskút.

Við Dynjanda setti ég grillið saman og svo greip ég gaskútinn. Hann passaði auðvitað alls ekki á grillið.

Ég blótaði sjálfsörugga afgreiðslumanninum hjá Skeljungi við Vesturlandsveg í sand og ösku og sjálfri mér dálítið líka. Ég hefði nú alveg getað tekið lokið af kútnum við kaupin og athugað hvort þetta stæðist hjá manninum.

Alla vega, illt í efni og við svangar. Við gáfum upp á bátinn að grilla fína kjötið, en fengum að skella pulsum á grill hjá hjálpsömu fólki á tjaldstæðinu. Ég fékk lánað litla grillið þeirra, skrúfaði frá gasinu og baksaði svo við að ná loga. Verst að enginn var með vídeókameru, þá hefði verið hægt að taka upp fræðslumyndbandið "Hvað ber að varast þegar kveikt er í gasgrilli."

Ég bograði yfir grillinu og allt í einu kom VÚMP !!! Mér snögghitnaði í andliti, en enginn hiti var á grillinu. Ég skrúfaði aftur frá gasinu, beygði mig vel yfir grillið og rétti logandi bréf að því. Aftur kom VÚMP !!! og aftur snögghitnaði mér í framan. Ég gerði þetta einu sinni enn, gafst svo upp og kallaði í grilleigandann, sem reddaði þessu snarlega og hættulaust.

Við grilluðum pulsurnar og sem ég sat og strauk mér um andlit í sæluvímu eftir þá dásemdar gourmet-máltíð fann ég eitthvað undarlegt. Gat verið að ég væri með svona mikinn steiktan lauk á augabrúnunum? Eitthvað brúnt og hart hrundi af þeim þegar ég strauk þær.

Ég hallaði mér að Kötu og spurði: "Er eitthvað framan í mér?"

Kata hallaði sér að mér, horfði framan í mig og lak svo niður af hlátri, skreið á krampakenndan hátt að bílnum, dró fram spegil og rétti mér. Á því augnabliki reyndi hún að gefa frá sér eitthvað sem líktist samúðarandvarpi, en það kafnaði eiginlega alveg í hlátursrokunum.

Ég leit í spegilinn og nú var komið að mér að fá alvarlegt kast. Ég var ekki með steiktan lauk í augabrúnunum. Augabrýrnar voru steiktar. Og farnar.

Hártoppurinn var líka grunsamlega stuttur og þegar ég greip í hann hrundi hluti hans af. Dökkur, snarhrokkinn hluti, sem molnaði eins og steiktur laukur, rétt eins og augabrýrnar.

Það er algjör óþarfi að lýsa augnhárunum. Þau eru hvort sem er ekki þarna lengur, nema sem hugsuð lína.

Þannig er nú það.

Vara sig á gasgrillunum, gott fólk.

En mikið assgoti var gott að fá svona hressilegt hláturskast LoL

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Fannst þér vegurinn út í Selárdal ekki ferlega leiðinlegur ? Samhryggist þér með þennan eldsvoða...(þetta er nú smá fyndið aflestrar)

Ég held að ég hafi hrunið úr bloggvináttu við þig...smelli aftur

Ragnheiður , 7.8.2008 kl. 01:46

2 Smámynd: Svanfríður Lár

Hlakka til að sjá ykkur allar í gleðigöngunni.. Kveðja, Maddit

Svanfríður Lár, 7.8.2008 kl. 01:46

3 Smámynd: Hulla Dan

Ómg.
Dásamlega frásögn. Búin að liggja hérna organdi.
Elska vestfirðina og Selárdalurinn er í sérstöku uppáhaldi hjá mér

Hulla Dan, 7.8.2008 kl. 09:27

4 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Kem sjálf ekki nálægt gasgrillum en hvernig þú ferð að því að "glæða" frásögnina gleði og húmor er hreint út sagt yndislegt.

Sigrún Jónsdóttir, 7.8.2008 kl. 09:45

5 identicon

Hehehe... sé þetta fyrir mér - hillerious. Hefði verið flott sem myndasería í leiðbeiningarbæklingi með gasgrillinu: "VARÚÐ svona skal EKKI gera þegar kveikt er upp í gasgrilli". Kv, Olla.

Olla (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 01:14

6 identicon

Bwahahhahah .. :o)

Dabba (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband