Börnin okkar í borginni

Pistill í Mbl. 27. ágúst

Fjölskyldan vaknaði við vondan draum þegar skólinn byrjaði. Honum lýkur alla jafna klukkan tvö eftir hádegi og þá tekur ekkert við. Tvær sjö ára stelpur komast ekki á frístundaheimilið í húsnæði skólans. Enn vantar starfsfólk og því eru ekki nógu margir til að gæta barnanna.

Þetta hefði auðvitað ekki átt að koma okkur á óvart, enda árvisst vandamál. Í fyrra voru systur hins vegar 6 ára, gengu fyrir með pláss á frístundaheimilinu og gátu verið þar í góðu yfirlæti eftir skóla frá fyrsta degi. Þeim leið vel í regluföstum en skemmtilegum rammanum sínum og við gerðum líklega þau mistök að reikna með að svona yrði búið að börnunum okkar fyrstu skólaárin.

En nú eru þær systur orðnar sjö ára og byrjaðar í öðrum bekk. Þótt þær séu duglegar stelpur eru þær samt enn bara sjö ára. Þær eru ófærar um að sjá um sig sjálfar eftir skóla, eins og gefur að skilja og enginn vilji á heimilinu til að láta reyna á það. Þær eru sjö ára og mömmur þeirra báðar útivinnandi, rétt eins og foreldrar á velflestum heimilum öðrum.

Kannski höfðum við ekki varann á okkur í haust, af því að hver einasti stjórnmálamaður í Reykjavík, sem tjáir sig um frístundaheimilin, er allur af vilja gerður að kippa þessu í liðinn. Þar skiptir engu hvaða flokkar sitja við völd þann mánuðinn; allir eru sammála um að bregðast verði við og tryggja yngstu börnunum vist á frístundaheimilum eftir skóla. Og margir virðast á því máli að best færi á að samþætta starf skólans og frístundaheimilisins, a.m.k. hefur borgarstjóri talað á þann veg og er þar sammála oddvita Sam fylkingarinnar í menntaráði, sem hefur skólana á sinni könnu, og íþrótta- og tómstundaráði, sem rekur frístundaheimilin.

Kannski er peningaskorti um að kenna og þess vegna ekki hægt að hækka launin við starfsmennina á frístundaheimilum og lokka þannig fleiri til starfa. En hafa stjórnmálamennirnir hugsað sér að leysa vandann án þess að opna budduna? Reynslan hefur sýnt að stórar hugmyndir sem kallast nöfnum eins og „Samþætti ng frístundaheimila og skóla“ eru sjaldnast ódýrar í framkvæmd.

Er stjórnmálamönnunum kannski ekki full alvara? Getur verið að forgangsröðin hjá þeim sé önnur en hjá foreldrum, sem nú þeytast úr vinnu á miðjum degi til að skutla börnunum til afa og ömmu, koma þeim fyrir hjá vinum eða taka þau með í vinnuna? Hvað ætli sá þeytingur kosti fyrirtækin og þar með samfélagið? Fyrir nú utan óþægindin og óvissuna fyrir börnin og alla sem þurfa að taka þátt í dansinum.

Ég skora á stjórnmálamenn í Reykjavík að láta loks verkin tala. Þegar skólar byrjuðu vantaði 200 starfsmenn á frístundaheimilin og þar með voru 2400 börn í vanda. Þau og fjölskyldur þeirra eiga heimtingu á að borgin standi við stóru orðin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: M

Sammála þér að þetta er vandamál sem þarf að laga.  Finnst sárt að lesa blogg við frétt mbl. um lyklabörn þar sem fólk talar um að við foreldrar hefðum átt að hugsa þetta til enda áður en við eignuðumst börn.  Við erum búin að skuldbinda okkur í vinnu og svo til ófært að fá henni breytt í hlutastarf.  Vandinn finnst mér byrja í grunnskólanum þegar börnin eru 6- 9 ára.  Þetta var leikur einn þegar þau voru í leikskóla.

Takk fyrir góðan pistil. 

M, 27.8.2008 kl. 16:24

2 Smámynd: Ragnheiður

Undarlegt að þetta skuli ekki vera klárt við upphaf skóla !

Sjö ára smátelpur eiga auðvitað ekki að verða að lyklabörnum...ég ól upp hóp af lyklabörnum og mæli hreint ekki með því ! Í þá daga komust krakkar ekki á skóladagheimili nema eitthvað væri hreinlega að þeim.

Ragnheiður , 27.8.2008 kl. 17:32

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Án tillits til hvaða flokkur var við völdin þann mánuðinn.

Brilljant greining á biluðu ástandi.

Vonum það besta.

Jenný Anna Baldursdóttir, 27.8.2008 kl. 18:04

4 Smámynd: Halla Rut

En er það mögulega hægt að fá 200 mans til að vinna á lúsaralaunum frá 14:00 til 17:00? Ég held ekki. Það þarf að finna aðrar lausnir.

Skrifaði um mögulegar lausnir á minni síðu. 

Halla Rut , 28.8.2008 kl. 10:07

5 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Ja hérna hér.  Við þurfum að krefjast fritidshjem eins og í DK.  Börn eiga að fá vistun í 1. til 4. bekk alveg "fríkeypis" og tómstundastarf innifalið.  Það á ekki að þurfa að krossleggja fingur um að fá vistunarpláss og síðan aka um allan bæ með börnin í fótbolta, fimleika o.s.frv. 

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 29.8.2008 kl. 22:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband