Sirkus

Familían fór að sjá sirkus í gærkvöldi. Það var mikil upplifun, enda margt ágætlega gert hjá sirkusfólkinu.

Systur áttu ekki til orð yfir 12 ára stelpu sem sveiflaði sér í loftfimleikum. "Svona vil ég gera," sagði Elísabet og lofthrædda ég lokaði augunum. Nógu slæmt var að horfa á bláókunnuga stelpu dingla í rólu uppi undir lofti, en tilhugsunin um dóttur mína þarna uppi var óbærileg.

Trúðurinn var skemmtilegastur. Ég þoli ekki trúða, þessa hefðbundnu með rauða nefið og úfna hárið, fæ satt best að segja hroll þegar þau skrípi birtast. Þessi var ekki svoleiðis, bara fyndinn.

Á leiðinni heim hófust samningaviðræður um hvort systur mættu sofna í stóra rúmi. Elísabet, sem hefur alltaf verið á eilífðar rápi á nóttunni, er dugleg að semja um að fá að sofna þar, ef hún nær að halda sér í sínu rúmi heila nótt. Margrét nýtur þá góðs af, eins og systir hennar benti á: "Hugsaðu þér ef ég svæfi alltaf heila nótt í rúminu mínu, þá mættum við aldrei sofna í stóra rúminu!" sagði hún og var þá búin að snúa málum rækilega á hvolf. "Hugsaðu þér ef þið systur væruð báðar eins og þú, alltaf að vakna á nóttunni. Þá væruð þið í vondum málum," sagði Kata.

Löng þögn í aftursætinu.

Þegar heim kom héldu umræður áfram. "Hugsaðu þér," sagði Elísabet við mig, "ef við Margrét gætum alltaf sofið í stóra rúminu og þið mynduð bara sofa í okkar rúmum."

"Já," sagði ég, "ætli þú myndir þá ekki vappa úr stóra rúminu og yfir í ykkar herbergi á nóttunni?" spurði ég.

Hún taldi það líklegast. En lýsti því svo yfir að hún skildi bara ekkert í því af hverju hún mætti ekki bara alltaf vera í stóra rúminu. "Það er miklu stærra en mitt rúm og þið notið aldrei plássið í miðjunni!"

Þetta voru samræður nr. 24.524 um stóra rúmið og þá heiftarlegu mismunun að aðeins "sumir" í fjölskyldunni fái að sofa þar.

Málið verður áreiðanlega tekið upp síðar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Réttindabarátta er nauðsynleg á hverju heimili og afhverju sofið þið Kata ekki í litlu rúmunum?  Mér finnst það sjálfsagt mál.

Jenný Una fór í Sirkus og henni fannst fimleikastelpan flott og hún sýndi mér margar æfingar sem hún hafði gert.

Trúðurinn var vinsæll en "hann var ekki alvöru trúður bara litaður í framan sko amma".

Love it.

Jenný Anna Baldursdóttir, 12.9.2008 kl. 10:37

2 Smámynd: Húsmóðir

kannast við þessa umræðu um stóra rúmið, annar sonurinn hefur lengi haft ákveðnar skoðanir á því hvernig nýtingin á því ætti að vera ( þ.e.a.s ) ef hann mætti ráða.  

Hann og mamma svæfu í stóra rúmi.  Bróðir svæfi  í sínu rúmi en pabbi gæti bara sofið á sófanum inni í stofu !

Húsmóðir, 12.9.2008 kl. 12:33

3 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Synir mínir sváfu alltaf hjá mér þegar pabbi þeirra var á sjónum. Merkilegt að það fór meira fyrir þeim pínulitlum en tveggja metra föður þeirra þegar hann var í landi. Þeir voru eins og ósamsettar kommóður í rúminu, úti um allt og með milljón handleggi og fótleggi.

Helga Magnúsdóttir, 12.9.2008 kl. 15:08

4 Smámynd: Júlíana

merkilegt þetta með handleggi og fótleggi barna. Afhverju ætli þeim fjölgi alltaf á nóttunni?

Júlíana , 13.9.2008 kl. 00:20

5 identicon

Þessar dætur þínar eru yndislegar aflestrar og þá vissulega enn betri "læf". En já ég tek undir með Júlíönu þar sem hún segir það merkilegt með hand-og fótleggi barna og fjölgun þeirra á nóttunni, gæti ekki verið meira sammála. Að einn grannur 4 ára gutti skuli ota mömmu sinni,182 cm á hæð á rúmbríkina þegar sjaldgæf leyfi fást til að deila rúmi. Botna það ekki :)

En takk fyrir skemmtilega pistla.Kveðjur úr Chicago.

Svanfríður (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband