Staðganga og meðganga

Pistill í Mbl. 17. september

 

Á næstunni verða án efa líflegar umræður um staðgöngumæður. Á að leyfa konum að ganga með börn, sem getin eru af öðru fólki með tæknifrjóvgun? Börn, sem þær „eiga“ ekkert í, en bera og næra alla meðgönguna og foreldrar taka við eftir fæðingu?

Um nóg er að rökræða. Sumir munu segja að staðgöngumóðir geti tryggt hamingju fólks, sem ekki getur eignast börn upp á eigin spýtur. En aðrir að barneignir séu ekki óskoraður réttur fólks. Dögg Pálsdóttir lögmaður benti á það á bloggi sínu í vor að fyrst lesbíum væri nú heimilt að fara í tæknifrjóvgun með gjafasæði þyrfti að ræða hvort hommum ætti ekki að vera heimilt að eignast börn með gjafaeggi og staðgöngumæðrun, svo jafnræðis væri gætt. Þar er enn eitt álitaefnið.

Þeir eru til, sem hafa þungar áhyggjur af því að staðgöngumæðrun verði „atvinnuvegur“, þ.e. að konur muni freistast til að ganga með börn gegn greiðslu. Peningar koma málinu ekkert við, segja aðrir og benda á að með lögum megi hindra að konur selji aðgang að legi sínu. Greiðslur til staðgöngumæðra hljóti líka fremur að vera áhyggjuefni í löndum þar sem sárasta fátækt ýtti konum til örþrifaráða.

Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir nefndi þetta í viðtali við Morgunblaðið í gær. „Þetta má ekki verða atvinnuvegur,“ sagði hann og bætti við að heppilegra væri að staðgöngumóðir væri nákomin hinum verðandi foreldrum.

Matthías er því sammála Reyni Tómasi Geirssyni, prófessor og yfirlækni á kvennasviði LSH. „Ég tel það heppilegra en að velja ókunnugt fólk,“ sagði hann í apríl sl. „Ég hef það á tilfinningunni að óskyld kona myndi frekar vilja halda barninu en ef þetta væri meðal skyldfólks. Það sama átti við um ættleiðingar áður fyrr. Þær reyndust auðveldari ef börn voru látin til ættingja.“

Er hægt að binda ákvæði um nánd foreldra og staðgöngumóður í lög? Væri ekki afskaplega auðvelt að komast framhjá slíku ákvæði? Og hvers vegna ætti löggjafinn, ef hann ákveður að leyfa staðgöngumæðrun á annað borð, að skipta sér af því hversu náin foreldrar og staðgöngumóðir eru?

Staðgöngumæður nefna ýmsar ástæður fyrir ákvörðun sinni. Stundum eru þær vissulega að hjálpa nánum ættingjum. Í öðrum tilvikum ákveða þær að launa eigið barnalán með því að ganga með barn fyrir fólk, sem ella á enga möguleika á að njóta sömu hamingju. Það er nefnilega til fólk, sem finnur sanna gleði í að gleðja aðra. Staðgöngumóðir, sem vitnað var til í sjónvarpsfréttum, sagðist alltaf hafa þráð að ganga með barn fulla meðgöngu, eftir að hennar barn fæddist töluvert fyrir tímann. Hennar ástæða er ekki verri en annarra.

Í þessu máli syngur hver með sínu nefi. Fólk verður seint sett undir sama hatt, sérstaklega ekki þegar um svo tilfinningarík mál er að ræða og barneignir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég held að það sé hárrétt hjá þér að hver syngi hér með sínu nefi.  Ég get ómögulega sett mig inn í þær aðsæður sem kalla á að fólki leiti til staðgöngumóður enda aldrei verið í námunda við slíka reynslu.  Þekki bókstaflega engan.

Ég held að það verði að treysta fólki til að taka þessa ákvörðun sjáft ásamt með því að setja einhvern ramma um málið.

En vá hvað þetta slítur í mig eitthvað.  Finn til með öllum í þessum aðstæðum.  Svo margt sem þarf að íhuga.

Takk fyrir þetta.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.9.2008 kl. 11:18

2 identicon

Gott blogg  hjá þér. Ég hef oft skemmt mér vel yfir skrifum þínum og þakka fyrir góða pistla.

 Varðandi staðgöngumæður þá er mín persónulega skoðun sú að ekki eigi að leyfa slíkt. Ég tel að möguleg vandamál; líkamleg, andleg, félagsleg og tilfinningaleg, sem af þeim hljótast séu allt of mörg til að slíkt sé æskilegt. T.d. hvað gerist ef "lífforeldrarnir" skilja og hætta við á meðan meðgöngu stendur eða hreinlega deyja? Hvað  með rétt barnsins um að þekkja báða lífforeldra sína? Það gætu komið upp dæmi þar sem kona væri ófær um að vera "líffræðileg" móðir, bæði hvað varðar gjafaegg og meðgöngu, þannig að þótt sæði eiginmannsins væri notað þyrfti að nota gjafaegg (og þá kannski egg staðgöngumóðurinnar og kannski annarrar konu).

 Persónulega tel ég að réttur barnsins eigi að vera meiri en hinna fullorðnu í þessum tilvikum. Barn á (í mínum huga) skilyrðislausan rétt á að þekkja báða lífforeldra sína og þeirra fjölskyldur (þar sem hægt er). Ekki finnst mér rétt að blanda saman umræðum um ættleiðingar við þetta heldur, því þar er um að ræða börn sem þegar eru fædd (og oft yfirgefin), en hvað varðar staðgöngumeðmæður, þar erum við að ræða um hugsanleg börn, sem ekki eru til ennþá og ættu e.t.v. ekki að fæðast.

 Ég er á móti.

Sirrý (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 12:03

3 Smámynd: Eydís Hentze Pétursdóttir

Sæl

Þú vitnar í staðgöngumóður sem tjáði sig í fréttum, hvenær var það?

Eydís Hentze Pétursdóttir, 17.9.2008 kl. 21:17

4 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Ég á sjálf glasabarn sem kom eftir endalausar aðgerðir og meiriháttar baráttu. Þessi drengur er ljós lífs míns. Mér finnst að það eigi að nota allar aðferðir sem hægt er til þess að gefa fólki færi á að eignast barn, hvort sem það eru hommar og lesbíur eða fólk sem ekki getur eignast barn eftir venjulegum leiðum. Það er hræðileg tilfinning að fá ekki það barn sem maður þráir og ég sé enga ástæðu til að setja hindranir í veginn fyrir því að fólk geti eignast sitt barn. Er ekki alveg eins hægt að segja að glasabörn hafi ekki átt að fæðast af því þau voru ekki búin til í hjónarúminu?

Helga Magnúsdóttir, 17.9.2008 kl. 22:11

5 identicon

Ég gæti aldrei gengið með annara manna barn. Og á ég afskaplega erfitt að skilja konur sem geta þetta! Að láta barnið af hendi eftir 9 mánuði eins og ekkert sé finnst mér bara óskiljanlegt.......

Því ekki að gera ættleiðingar auðveldari fyrir þær sem geta ekki gengið með börn? nei nú spyr ég bara.....

Ragnheiður Arna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 07:19

6 identicon

Sæl, ég hlakka til að fylgjast með umræðunni, finnst þetta mjög áhugavert málefni. 

Afskaplega skrítin rök hér í kommentakerfinu. Ég er sjálf í vafa um hvernig lagaramma væri hægt að setja um slíkar athafnir eins og að ganga í níu mánuði og bera fulla ábyrgð á barni sem þú í rauninni átt ekki samkvæmt lagalegum skilningi. Lífræðilega, félagslega og andlega er þetta erfitt mál og þarf að skoða vel frá öllum hliðum. Það að þetta verði ekki að atvinnuvegi er augljóslega mjög erfitt mál og verður að koma í veg fyrir, enda stangast það væntanlega á við önnur lög landsins.

Hins vegar finnst mér kjánaleg rök að segjast ekki geta gert þetta sjálf. Sem betur fer snúast lögin ekki um það að neyða einn eða neinn til þess að ganga með börn fyrir aðra. Það væri hræðilegt! Að mínu mati lýsir það skilningsleysi að segja að það að gera ættleiðingarferlið auðveldara kæmi í veg fyrir staðgöngumæður. Það er ég viss um að fólk sem hefur gert allt sem það getur til að eignast sitt líffræðilega barn, og meðal annars gengið svo langt að fara í kringum lögin með staðgöngumæðrum sárnar svo einfaldur hugsanaháttur.

Með það hvað gerist ef eitthvað kemur fyrir foreldra á meðan meðgöngu stendur þá eru fordæmi fyrir þessu erlendir (meðal annars á norðulöndunum). Hvað gerist ef foreldrar hætta við á meðan á "eðlilegri" meðgöngu stendur? Hvað gerist ef foreldrar deyja frá fæddum börnum sínum? Einnig hefur það gerst að móðir láti lífið þó hægt sé að bjarga fóstrinu eða móðir láti lífið í fæðingu og faðir ekki til staðar - hvað gerist þá? Ég sé ekki að þetta sé mikið öðruvísi, er þetta ekki leyst þannig erlendis að lagalegur forræðisréttur sé hjá líffræðilegum foreldrum allan tíma meðgöngu? Með gjafaegg og rétt til að þekkja líffræðilegan foreldra finnst mér það í rauninni vera annað umræðuefni þar sem gjafaegg og gjafasæði eru nú þegar lögleg á Íslandi. Hver er munurinn á því hver gengur með barnið?

Hins vegar finnst mér erfitt að taka afstöðu til þeirra marka sem liggja milli staðgöngumóður og fósturs. Hvar koma barnaverndarlög inní? Gæti lífræðileg móðir t.d. lögsótt staðgöngumóður ef henni þykir hún ekki fara nógu vel með sjálfa sig og þar með ekki nógu vel með barnið hennar? Væri hægt að kyrrsetja staðgöngumóður á landinu, til að koma í veg fyrir að hún hlaupist á brott - það væri væntanlega brot á helling af öðrum lögum?

Ég skil að ferlið er erfitt og flókið og að mörgu að huga, en mér þykir þó til mikils að vinna ef hægt er að finna góða lausn.

Dóra Hlín (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 10:28

7 identicon

Kjánaleg rök að segjast ekki getað gengið með barn annarra?? Ég var einfaldlega að segja að ég gæti þetta ekki persónulega og skildi ekki hvernig konur gætu gert þetta! Það er bara ég og þú þarft ekkert að vera sammála mér! En að segja að þetta sé kjánaleg rök finnst mér bara dónaskapur!

Það nefnilega gleymist í umræðunni hvort margar konur séu til í að ganga með börn annarra og ef svarið er já hvernig á að takast á við  fjölskylduna maka, börn??? Hvaða áhrif hefur þetta á "systkin" osf....

Það er eðlilegt að maður spyr í þessari umræðu útaf hverju ekki ættleiðing? Því jú margir eflaust spyrja eins og ég! Því er þessi umræða af því góða. Ég hef aldrei sagt að ég væri á móti eða með sagði bara að ég persónulega gæti þetta ekki.....

Ragnheiður Arna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 13:21

8 identicon

Hugsið ykkur dæmi þar sem hjón langar til að eignast barn en konan getur ekki gengið með barn. Ímyndið  ykkur að þessi hjón fái gjafaegg og síðan staðgöngumóður til að ganga með barnið. Þá á barnið í raun 3 foreldra, hjónin sem munu taka við barninu, líffræðilega móður sem gefur eggið og ef líffræðileg móðir er ekki staðgöngumóðir, þá er búið að bæta við fjórða aðila í þessa meðgöngu. Það væri síðan að æra óstöðugan ef við bættum við gjafasæði líka.

Kona sem gengur með barn er meira en bara "hulstur" utan um það barn. Hún er lífgjafi þess. Líkami konunnar nærir barnið, verndað það og þó e.t.v. séu ekki komnar rannsóknir á því, þá er ég viss um að ýmislegt færist frá líkama konu til fósturs við meðgöngu sem getur haft varanleg áhrif á barnið.

Það verður líka að huga að því að barnið er raunverulegur einstaklingur, með raunverulegt líf, þarfir, langanir og sinn sjálfstæða rétt í tilverunni sem er aðskildur frá öðrum. Ef um er að ræða gjafasæði eða egg, þá finnst mér slíkt aðeins réttlætanlegt ef gefandinn er látinn skrifa undir lögformlegt plagg þar sem hann/hún viðurkennir gjöfina og gengst undir allar þær lögformlegu skuldbindingar sem fylgir því að vera foreldri. Ef karlmaður getur barn með konu "upp á gamla mátann", þá er hann lagalega skuldbundinn því barni. Því skyldi það vera öðruvísi þó tæknifrjóvgun eigi sér stað.

Í þessu máli og svo mörgum öðrum finnst mér oft sem lög séu sett áður en umræða fari fram og málin séu rædd frá öllum hliðum, hvað þá að siðfræðin sem á bak við lögin standa sé til umræðu. Þó svo eitthvað sé hægt er það ekki endilega rétt.

Sirrý (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 15:31

9 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Innlitskvitt og góðar ljúfar kveðjur.

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 20.9.2008 kl. 22:03

10 Smámynd: Bergljót Hreinsdóttir

Ein af mínum bestu vinkonum stóð frammi fyrir því að geta ekki átt börn sjálf og leið mikið fyrir það. Hún var búin að reyna alla hugsanlega möguleika en ekkert gekk.

Þau hjónin brugðu á það ráð að finna konu sem vildi taka það að sér að ganga með barn fyrir þau og gekk allt mjög vel. Þau hittu hana mikið á meðgöngunni.., fóru með henni í mæðraskoðun og sónar og voru alltaf til staðar þegar eitthvað tengt meðgöngunni var í deiglunni. Þau voru svo viðstödd fæðingu dóttur sinnar og fengu að klippa á naflastrenginn og taka við barninu strax.

Þetta var þeirra stærsta hamingja í lífinu og nú er stelpan þeirra sex ára gömul og enginn eftirmáli hefur verið að þessari meðgöngu.

Þetta fór fram í Bandaríkjunum þar sem slíkt er ekki þekkt eða leyft hér á landi, en maður spyr sig hvort maður hafi einhvern atkvæðarétt þegar maður sjálfur stendur ekki frammi fyrir þeirri sáru staðreynd að geta ekki eignast börn.

En maður spyr sig líka hvort landið okkar sé hreinlega of lítið fyrir slíkt..þar sem maður þekkir alltaf mann....sem þekkir mann....????

Bergljót Hreinsdóttir, 22.9.2008 kl. 00:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband