Grátandi lóðbeint til helvítis

Pistill í Mbl. 6. okt. 

Taugaveiklunarlegar yfirlýsingar í kreppunni eru sumar nánast fyndnar. Eða öllu heldur tragikómískar. Ég er alla vega svo illa innrætt að glotta út í annað þegar fullorðnir menn, sem ættu að vita betur, gráta og veina á sjónvarpsskjánum af því að allt er að fara til fjandans hjá þeim og þjóðin öll hlýtur að fylgja þeim lóðbeint til helvítis.

Ég glotti auðvitað af því að ég er sannfærð um að þeir meina þetta ekki allt í raun og veru. Þeir eru bara að framfylgja dagskipuninni, að væla sem mest þeir mega til að hafa áhrif á atburðarásina. Auka söluna tímabundið eða beina athyglinni frá eigin verðhækkunum. Og ýta á stjórnvöld að gera það sem þeim sjálfum kemur best.

Þannig hlýtur því að minnsta kosti að hafa verið farið með yfirmann Bónusverslana, sem spáði miklum vöruskorti hér á landi innan skamms. Og beinlínis hvatti fólk til að hamstra eins og hér væri að skella á hungursneyð. Svo var eins og hann fengi bakþanka og þá ítrekaði hann að íslenskar vörur væru þrátt fyrir allt bestar og fólk ætti endilega að kaupa þær! Þetta virkaði svo vel að verslanir hans fylltust af fólki með skelfingu í hverjum andlitsdrætti.

Forstjóri olíufyrirtækisins N1 bætti um betur og lýsti því að nú væru birgðir af olíu í landinu nánast á þrotum. Í framhaldinu tóku alls konar minni spámenn af honum ómakið, bættu við og ýktu enn og þegar hysterían hafði grafið rækilega um sig var öllum ljóst að nú voru ekki bara bílar landsmanna að stöðvast, heldur líka allur fiskiskipaflotinn!

Verða landsmenn allir á fá sér dálitla bátskel til að ná einhverju trosi í pottinn?

Lítið finnst mér leggjast fyrir þessa kappa á þessum síðustu og verstu tímum þar sem vissulega er við erfiðleika að etja. Þeir ættu að taka sig saman í andlitinu og sinna vinnunni sinni, í stað þess að kvarta og kveina í sjónvarpinu. Og ef þeir gera það ekki upp á eigin spýtur ættu yfirmenn þeirra að taka í lurginn á þeim. Hvað finnst til dæmis alþingismanninum, sem situr sem stjórnarformaður N1, um framgöngu forstjóra síns? Er hann sáttur við að fyrirtæki hans fái á sig stimpil taugaveiklunar og múgæsings? Að forstjóri hans hræði úr landsmönnum líftóruna, á meðan þeir sem ráða fyrir flokki hans leggja nótt við dag að finna lausn á vandanum?

Þegar ein kýrin mígur verður annarri mál. Í útvarpinu var skýrt frá óvenjumiklum áhuga hobbýbænda á líflömbum þetta haustið og strax farið að fabúlera um að nú ætluðu menn að tryggja sér mat í kreppunni með því að stækka við frístundabústofninn. Allir geta ímyndað sér framhaldið: Nokkrar skjátur við hvert hús svo blessuð börnin fái stundum ferskt kjöt í þeim harðindum sem eru um það bil að skella á þjóðinni!

Erum við alveg að missa tökin á raunveruleikanum?

Er ekki betra að bíta á jaxlinn en gera sig að fífli með svona upphlaupum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinþór Ásgeirsson

Já en Ragga mín, Himnarnir eru við að að hrynja á höfuð oss.!

Steinþór Ásgeirsson, 6.10.2008 kl. 12:36

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Nú er komið að mér að panikera.....Þú vinnur á Mogganum Ragnhildur mín og talar um "kreppu"....Er búið að samþykkja það stóryrði?  Ég er ennþá í "niðursveiflunni".

Annars sammála öllu ofansögðu

Sigrún Jónsdóttir, 6.10.2008 kl. 12:46

3 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Rétt athugasemd, Sigrún! Ég hefði átt að skrifa "Taugaveiklunarlegar yfirlýsingar í "kreppunni" eru sumar nánast fyndnar."

Og mér finnst í fínu lagi að setja upp hjálm, svona ef brot úr himninum fellur beint í hausinn, Steinþór, en ástæðulaust að gráta bara af því að maður reiknar með að meiða sig illa seinna ;)

Ragnhildur Sverrisdóttir, 6.10.2008 kl. 12:57

4 identicon

Nú líður samviskunni í mér betur vitandi það að ég er ekki einn um það að brosa og hafa gaman af...

Axel (IP-tala skráð) 6.10.2008 kl. 13:27

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég las þessa grein í pappírsmogga í morgun og ég hló.

Svo les ég hana aftur núna, að dauða komin vegna áhyggna þar sem ÖLL mín verðbréf, sumarbústaðir, hallir, bílar og þotur, eru í tjóni.

Og ég hló.

Voða fyndin stelpa. Múha.

Jenný Anna Baldursdóttir, 6.10.2008 kl. 14:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband