Persónugjörningurinn

Pistill í Mbl. 10. desember

Við megum ekki „persónugera“ vandann.

Þetta er viðkvæði margra í hvert sinn sem einhver vekur máls á því að tímabært sé að stjórnmálamaður eða embættismaður axli ábyrgð á því hvernig málum er komið hér á landi. Við megum ekki „persónugera“ vandann. Sem virðist þýða að við megum ekki vera vond við einstakling, sem er áreiðanlega góður inn við beinið og gerir sitt besta þrátt fyrir allt. Og svo geta flestir Íslendingar rakið ættir sínar saman í ættfræðigrunni, svo persónulegur vandi eins verður allt í einu vandi allra.

Forsætisráðherra sagði að ekki mætti „persónugera“ vandann með því að benda á seðlabankastjóra.

Fyrrverandi bankastjóri Landsbankans sagði hamfarirnar á fjármálamarkaðinum miklu stærra mál en svo að þær snerust um einhverja einstaklinga hér á landi og ekki rétt að „persónugera“ málin, „því það réð enginn við þetta þegar það var farið af stað“.

Aðrir hafa sagt að ósanngjarnt sé að benda á ákveðna ráðherra, forstöðumenn eftirlitsstofnana, stjórnendur fjármálafyrirtækja eða útrásarvíkinga. Það er nefnilega ekki við neina einstaklinga að sakast.

Í öðrum löndum er fólki gjarnt að líta svo á, að þeir beri ábyrgð sem hafa verið kjörnir eða sitja í embætti hverju sinni, jafnvel þótt öllum sé ljóst að það sem úrskeiðis fór sé ekki þeim „að kenna“. Ekki persónulega. Í þeim tilvikum er fólk alls ekki að „persónugera“ vandann, heldur einfaldlega varpa ábyrgðinni þangað sem hún á heima, á þá sem hafa verið kjörnir til að axla hana, eða sitja í opinberum embættum.

Af þessum ástæðum segir dómsmálaráðherra í Belgíu af sér þegar fangi sleppur úr haldi. Samt er það ekki honum að kenna, en kerfið sem hann stýrir er ekki nógu gott.

Af þessum ástæðum segir yfirmaður breska ríkisútvarpsins BBC af sér þegar rangt er eftir manni haft í frétt, með hörmulegum afleiðingum. Það er samt ekki honum að kenna, persónulega. Vinnubrögð undirmanna voru bara ekki nógu góð.

Stundum er ábyrgðin augljósari. Skrökvi ráðherrar að löggjafarsamkundum í útlöndum þurfa þeir að fara. Noti þeir orðalag, á borð við að segja að ESB sé líkast Þriðja ríki nasismans, verða þeir að stíga úr stóli.

Það skiptir engu máli hvað þessir ráðherrar og embættismenn heita. Í lýðræðislegu þjóðfélagi geta stjórnmálamenn og embættismenn ekki brugðist trausti almennings án þess að þurfa að taka afleiðingunum. Það skiptir engu máli hvað þeir heita. Það er nefnilega óþarfi að „persónugera“ vandann, heldur alveg nóg að líta til ábyrgðarinnar sem starfanum fylgir. Klúðrist málin í meðförum stjórnmálamannsins eða embættismannsins er það eitt næg ástæða afsagnar.

Alla vega í öðrum löndum.

Hérna má ekki „persónugera“ vandann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Góð greining !!

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 10.12.2008 kl. 11:02

2 identicon

Það er nefnilega málið að persónugera ekki vandann og það er sagt þegar bjarga þarf eihverjum úr klípu en vonandi verður það ekki gert.

Guðrún Vestfirðingur (IP-tala skráð) 10.12.2008 kl. 11:06

3 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

"Við erum ein stór fjölskylda"

Frábær grein.

Sigrún Jónsdóttir, 10.12.2008 kl. 12:33

4 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Innlitskvitt og ljúfar kveðjur

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 10.12.2008 kl. 14:38

5 identicon

Orð í tíma töluð. Því miður er ekki tekið mark á neinu sem við "lýðurinn" segir! Björn Bjarnason sagðist bera pólitíska ábyrgð! Hvað þýddi það? Þeir fá ofurlaun vegna hinnar miklu ábyrgðar sem þeir bera! Nú sjáum við hver sú ábyrgð er!!! Nákvæmlega engin, því eiga laun þeirra að lækka niður að þeim mörkum sem ábyrgðarlaus störf er metin. Og þá kemur vandinn, litla fólkið ber alltaf ábyrgð á öllum sínum gerðum og annarra líka. Við munum þurfa að borga brúsann vegna þessarar yfirgengilegu græðgi sem kollriðið hefur svo mörgu. Ekki nema að við rísum nú einu sinni upp og mótmælum. Allt of margir sem kúrast í kofa sínum og rífast í stað þess að koma og sýna óánægju sína í verki!

Hildur Harðardóttir (IP-tala skráð) 10.12.2008 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 786153

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband