Víti

Systur eru ákaflega uppteknar þessa dagana. Á morgun er lokatími í dansi í World Class og foreldrar mega sjá árangurinn. Systur og Tara hafa að vísu bara mætt í örfáa tíma, eftir að þær gáfust endanlega upp á fimleikunum. Þar voru þær að gera nákvæmlega sömu æfingar og á haustönninni í fyrra. Þótt þær hefðu verið farnar að fara handahlaup og gera alls konar skemmtilegheit á vorönninni, þá var bara byrjað á núllpunkti aftur í haust. Við gerðum athugasemdir, en þær báru alls engan árangur. Stelpurnar voru að vonum leiðar og svekktar og við fluttum þær í dansinn. Þar eru þær alsælar og ætla að halda áfram eftir áramót. En sýningin verður  á morgun og þær eru auðvitað spenntar Wink

Eftir fótbolta í dag sótti ég þær þrjár, systur og Töru og fór með á Moggann. Þar var tekið viðtal við þær fyrir Barnablaðið, um þátttöku þeirra í Söngvaborg. Mér skilst að þær hafi lýst afskaplega mikilli ánægju með allt saman í viðtalinu og þegar þær voru spurðar hvort ekkert hefði verið erfitt svaraði Margrét: "Jú, mamma fann ekki staðinn þar sem upptökurnar voru!" Sem er hárrétt, ég hringsólaði dálítið áður en ég rambaði á réttan stað. Mér finnst nú ansi hart að fá það framan í mig löngu seinna. En auðvitað eru það góðar fréttir ef þetta er það sem hvílir þyngst á blessuðum börnunum LoL

Á laugardag er stíft prógramm. Þá er jólamót í fótbolta og það stangast á við alls konar hluti aðra. Verst er, að Unnur bekkjarsystir þeirra ætlaði að halda upp á afmælið sitt þann dag, en svo kom í ljós að fimm stelpur í bekknum, af átta,  eru skráðar á fótboltamótið og þar með var afmælið flutt. Rétt áðan fékk ég póst og núna er tímasetningin á fótboltamótinu önnur en var, sem þýðir að afmælið var flutt að ástæðulausu og systur er leiðar, því þær komast ekki í "pæjuafmælið" þar sem þemað átti að vera Hanna Montana, einhver amerísk ofurskvísa sem þær kunna skil á og ekki ég.

En við ætlum líka á jólamarkað á laugardag og höggva jólatré og allt þetta eftir að þær fara í síðasta gítartímann fyrir jól. Það er því meira en nóg að gera hjá krúttum. Og mæðrum.

Áður en þær fóru að sofa sátu þær við hvítu töfluna sína og Kata útskýrði með tússteikningum hvers vegna dæmt væri víti í fótbolta og hvers vegna aukaspyrna. Þarna var völlur með miðju, mörkum og vítateig, annað liðið, eða punktahrúgan,  lá í vörn og hitt sótti stanslaust. Svo þurfti líka að fara yfir hornspyrnur. Ég spurði hvort ekki þyrfti líka að útskýra rangstöðu, en Kata horfði á mig eins og ég væri eitthvað verri. Líklega er rangstaða ekki alveg málið í 7. flokki. Ég var nú bara að reyna að vera með í þessu fótboltatali öllu saman.

Systur þurftu auðvitað að fá að fara rækilega yfir eigin skilning á fótbolta, með tilheyrandi tússteikningum. Þar voru sett upp ákaflega flókin spilakerfi og taflan fyrir rest orðin eins og litrík jólaskreyting.

Þetta verður hið fjörugasta fótboltamót.

Áfram Víkingur!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband