Batnandi manni er best að lifa

 pistill í Mbl. 31. des 2008

 
Sumt fólk temur sér víst að strengja heit um áramótin. Það ber sér á brjóst, dregur djúpt andann, bíður á meðan klukkurnar hringja nýja árið inn og strengir svo heitið. Um að hætta að reykja, sinna vinum og fjölskyldu betur, láta verða af því að fara upp á jökul, hætta að rífast við makann um fjarstýringuna eða hvaðeina mannbætandi annað, sem brennur á fólki.
Mig grunar reyndar að áramótaheitin séu helst strengd í fjölmiðlum. Sjálf hef ég aldrei á ævinni kynnst nokkrum, sem hefur viðurkennt að hafa strengt hátíðlegt heit við upphaf nýs árs og staðið svo við það. Einstaka hefur sagst ætla að gera eitthvað, en gleymt því svo yfir uppvaskinu á nýársdag og svoleiðis telst ekki með.
Á unglingsárum fannst mér áramótaheit ágætis hugmynd, enda fellur það vel að dramatík þeirra ára. Ég átti hins vegar bágt með að finna nógu merkileg markmið, enda lestirnir í lágmarki á þeim árum og þeir sem þó voru töldust bara kostir hjá unglingi. Kannski hef ég strengt einhver heit, en ekki í alvöru, því ekkert þeirra man ég.
Undanfarin ár hef ég aftur orðið hallari undir heit. Eða öllu heldur, móttækilegri fyrir að verða aðeins skárri. Ástæðan er ofur einföld: Dætur mínar fæddust fyrir tæpum átta árum og mér finnst ósköp eðlilegt að ég reyni að vanda mig meira í lífinu frá þeim tímamótum. Nú snúast ákvarðanir mínar í lífinu ekki bara um mig og aðra fullorðna manneskju, sem er þar að auki fullfær um að axla ábyrgð á sínum gjörðum sjálf, heldur er ég skyndilega farin að ráða öllu um hagi stelpukríla, sem eiga ekki annarra kosta völ en að reiða sig á mig. Það fylgir þessu hlutverki mínu í lífinu, að reyna að skána dálítið.
Nú get ég sem sagt upplýst, að ég hef markvisst reynt að skána á undanförnum árum. Kannski kemur þetta einhverjum á óvart, en þeim get ég bent á, að ég gæti hæglega verið verri. Það veit ég af fyrri reynslu.
Þótt ég geri mér engar vonir um algjörlega nýja og svo miklu betri Ragnhildi, þá hlýt ég að stefna áfram að því að verða skárri. Reyna alla vega að vanda mig pínulítið meira í lífinu.
Að sama skapi bind ég ekki miklar vonir við að Nýja Ísland verði allt öðruvísi en hið gamla. Eða miklu betra, á einhvern hátt sem enn hefur ekki verið skilgreindur. En mér finnst alveg sjálfsagt að við reynum öll að vanda okkur aðeins betur. Þar með er ég ekki að segja að öllum sé um að kenna hvernig komið er. Það er bölvuð vitleysa. Það lendir samt á okkur öllum að byggja samfélagið upp á ný, koma fyrirtækjunum aftur á gott ról, gæta að heimilunum og passa upp á að velferðarkerfið okkar haldi.
Ef hver og einn skánar dálítið og sumir kannski töluvert mikið, þá verður Nýja Ísland betra. Margt smátt gerir eitt stórt.
Er þetta ekki ágætis áramótaheit?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er ljómandi áramótaheit, Ragnhildur. Við þurfum öll að taka þátt í uppbyggingunnni.

Kristín Sævarsdóttir (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 14:01

2 identicon

Þetta held ég að sé einmitt rétta hugarfarið núna ( ef ekki alltaf) byrja á að bæta sjálfan sig, í stað þess að benda alltaf á flísina í annars auga, ergo: ef allir bæta sig verður allt betra.

3ja barna og 1 barnabarns mamma/amma (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 16:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband