Bjargráð eða bráðræði?

Pistill í Mbl. 12/2

 

Stundum er freistandi að grípa til snöggsoðinna lausna til að leysa vanda. En ef vandinn er langtímavandi þarf eitthvað annað en skammtímalausnir, sem geta komið manni í koll svo um munar síðar meir.

Nú ætla menn að freistast til að aflétta þeirri helgi, sem hvílt hefur á séreignarsparnaði landsmanna. Þessu fé, sem margir hafa kosið að leggja til hliðar, til að tryggja hag sinn betur en hægt er að gera með greiðslum í hefðbundna sameignarsjóði.

Auðvitað hafa margir getað lagt fé í séreignarsjóði vegna þess að þeir hafa haft góð laun. En því fer fjarri að séreignarsparnaður sé aðeins leið vel stæðra til að tryggja hag sinn í ellinni. Fjölmargir hafa kosið að leggja eitthvað til hliðar á þennan hátt. Þessir peningar voru öruggir, þá var aðeins hægt að nálgast þegar ákveðnum aldri var náð, ef fólk lifði ekki svo lengi gekk inneignin í arf og ef fólk varð gjaldþrota stóð þetta fé þó alltaf eftir. Þannig voru reglurnar, þegar til sparnaðarins var stofnað.

Núna eru fjölmargir að lenda í greiðsluerfiðleikum, enda allar forsendur brostnar fyrir fjárfestingum síðustu ára. Og þá líta menn til séreignarsparnaðarins. Núna er freistandi að nota hann til að létta á tímabundnu erfiðleikunum. Ýmsar hugmyndir heyrast, t.d. að sparnaðinn mætti nota til að lækka höfuðstól skulda vegna íbúðarkaupa, sem í mörgum tilvikum myndi aðeins lækka greiðslubyrði lítillega og ekki gagnast þeim sem eiga í erfiðleikum vegna annarra skulda. Eða að allir ættu að geta tekið þetta út, óháð því af hverju erfiðleikarnir stafa.

En hvað verður um sjóðina? Hvað verður um sparnaðinn minn, ef margir taka út sína peninga og sjóðurinn stenst ekki álagið? Hvaða samningsstöðu verða þeir í, sem ákveða að þrauka og hafa þennan sparnað óhreyfðan, en reyna að semja við bankann sinn um aðrar skuldir? Er ekki líklegt að bankinn hvetji þá til að taka sparnaðinn út? Setji það jafnvel sem skilyrði fyrir skuldbreytingu? Núna er ekki hægt að hreyfa við þessum peningum, jafnvel við gjaldþrot, en þrýstingur frá lánardrottnum gæti jafngilt því að þessi inneign væri aðfararhæf.

Einhverjir gætu tekið þessa peninga út núna, en haft alla burði til að bæta sér þann missi upp á næstu árum. Hvað með þá sem ekki ná því?

Ég hef áhyggjur af þessu. Ég hef áhyggjur af að þingmenn einblíni á hver leggi fram hvaða frumvarp um séreignarsparnaðinn okkar og gleymi að gæta að raunverulegu innihaldi frumvarpanna. Ég hef áhyggjur af þeim, sem taka sparnaðinn út, en komast samt ekki hjá gjaldþroti og eru þá búnir að þurrausa þann sjóð, sem annars hefði létt undir með þeim í ellinni. Ég hef áhyggjur af þeim sem ekki taka sparnaðinn út, en sitja uppi með hann í ónýtum sjóðum, af því að margir aðrir tóku sína fjármuni út. En mestar áhyggjur hef ég þó af þeirri tilhneigingu að breyta reglunum eftir á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Þetta er allt rétt hjá þér. Hugmyndaflug reddaranna nær ekki lengra en í næsta vasa. Engin framtíðarsýn.

Gísli Ingvarsson, 13.2.2009 kl. 23:28

2 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Þetta eru mjög þarfar vangaveltur. Hafði ekki hugsað þetta svona og að vísu ekki heldur um að taka út sparnaðinn minn. Eftir að hafa lesið þetta veltir maður hlutunum aðeins öðruvísi fyrir sér. Takk fyrir þetta.

Helga Magnúsdóttir, 17.2.2009 kl. 21:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband