24.2.2009 | 09:27
Andrúmsloft mannorðsmorðs
Pistill í Mbl. 24. febrúar
Engum hefur dulist að útgáfufélag Morgunblaðsins hefur átt við mikla rekstrarerfiðleika að etja. Þessum erfiðleikum hefur þurft að mæta með ýmsu móti. Sársaukamest er að þurfa að sjá á eftir fjölda samstarfsmanna okkar. Allt hefur það verið gott og vandað fólk, sem átti auðvitað ekki skilið að missa vinnuna.
Nú hefur einn pistlahöfunda Lesbókarinnar, Guðni Elísson, tvívegis skrifað um uppsögn Þrastar Helgasonar umsjónarmanns Lesbókarinnar og í síðari pistlinum nefndi hann Höllu Gunnarsdóttur, fyrrverandi þingfréttaritara blaðsins, einnig til sögunnar. Guðni sér mikið samsæri í uppsögn þeirra og virðist ganga út frá að þau hafi misst vinnuna vegna þess að þau hafi ógnað harðlínuöflunum í Sjálfstæðisflokknum. Og Guðni spyr í þessu sama Morgunblaði ritskoðendanna, hvort málfrelsið sé ekki lengur virkt á blaðinu. Hvort aðeins hafi verið hægt að umbera skoðanir Þrastar og Höllu á meðan Sjálfstæðisflokkurinn hafði öll völd í landinu. Svo dramatískur er málflutningur hans að pistillinn heitir Andrúmsloft morðsins.
Samstarfsfólk Þrastar og Höllu saknar þeirra sáran. Við söknum líka Jóhönnu, Guðrúnar, Hjartar, Hjálmars, Sigmundar, Steinþórs, Elínar, Örlygs, Láru og allra hinna blaðamannanna sem við höfum þurft að sjá á eftir undanfarna mánuði. Allt hið besta fólk, sumt hvert sammála ritstjóranum um margt ef ekki flest, hitt algjörlega á öndverðum meiði. Rétt eins og sá hópur sem eftir situr. Við söknum líka allra hinna sem misstu vinnuna í öðrum deildum, Þorsteins, Sigríðar, Sigfúsar, Ólafs, Andrésar, Jóns, Huldu, Þorvaldar, Birgis, Þuríðar og tuga til viðbótar.
Guðni sýnir starfsfólki Morgunblaðsins lítilsvirðingu með því að ganga út frá að hér sitji eftir dusilmenni og gungur, sem sætti sig við andrúmsloft morðsins. Og sé alveg sama um málfrelsið. Hann sýnir öllu fyrrverandi samstarfsfólki okkar mikla vanvirðingu, þeim tugum sem hafa þurft að kveðja á undanförnum mánuðum, án þess að hafa nokkuð til saka unnið, annað en að vera statt í efnahagshruninu miðju. Ekki sá Guðni ástæðu til að taka upp hanskann fyrir það fólk. En líklega mun hann enn á ný hefja skrif, í tilefni fregna af uppsögnum á Fréttablaðinu. Er ekki hægt að grafa upp höft á málfrelsi, andrúmsloft morðs og samsæriskenningar? Eða neyðist Fréttablaðið kannski til að draga saman seglin?
Í hroka sínum sér Guðni Elísson ekki nokkra mótsögn í skólablaðslegum yfirlýsingum sínum sem sjálfskipaður útvörður málfrelsis og þeirri staðreynd, að pistla sína fær hann birta í Morgunblaðinu. Rétt eins og Morgunblaðið birtir daglega fjölda aðsendra greina, án nokkurs tillits til þess hvort þær ganga gegn skoðunum einhverra harðlínuafla í Sjálfstæðisflokknum. Svo hefur verið um langa hríð og verður áfram.
Um bloggið
Logalandið
Bloggvinir
- margretsverris
- begga
- annapala
- stebbifr
- andreaolafs
- sms
- seth
- salvor
- hrafnaspark
- svartfugl
- vitinn
- ingibjorgelsa
- konukind
- eddaagn
- konur
- thorbjorghelga
- elvabjork
- steinunnolina
- jullibrjans
- toshiki
- adhdblogg
- malacai
- arndisthor
- asarich
- baldvinjonsson
- berglindnanna
- beggita
- birna-dis
- birtab
- bjb
- blomid
- dabbaa
- doggpals
- madamhex
- saxi
- ellasprella
- garun
- gislihjalmar
- neytendatalsmadur
- gudni-is
- lucas
- gylfig
- iador
- helgamagg
- skjolid
- hildigunnurr
- hildurhelgas
- himmalingur
- hlekkur
- danjensen
- innipuki
- jakobk
- jenfo
- joninaros
- prakkarinn
- nonniblogg
- julianamagg
- kari-hardarson
- kiddijoi
- kollak
- hjolaferd
- kristinm
- lenapena
- liljabolla
- lillagud
- lindalinnet
- 101isafjordur
- mal214
- mongoqueen
- olinathorv
- fjola
- amman
- siggiholmar
- sij
- sigthora
- zsapper
- svala-svala
- possi
- saemi7
- saethorhelgi
- steinibriem
- thorasig
- thorhildurhelga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ætli Guðni Elísson hafi eitthvað heyrt um að 15.000 manns hafað misst atvinnuna á nokkrum mánuðum vegna hörmunganna sem útrásarmafían hefur skapað þjóðinni?
Hefur hann skrifað pistla um einhvern þeirra og þá blaðamenn annara miðla sem eru í þeim hópi?
Getur verið að Guðni er einn þeirra fjölmörgu sem hafað komið sér fyrir á ríkisspenanum og þess vegna gerir sér ekki grein fyrir hvað er að gerast í þjóðfélaginu?
Guðmundur Gunnarsson (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 14:50
Sæl Ragnhildur, það eru margir sem lesa bloggið sem ekki lesa mbl. Er ekki rétt að við birtum þá pistilinn hans Guðna líka hérna svo hann lendi nú ekki í persónulegum árásum í athugasemdum fyrir það það sem hann hafi sagt eða ekki sagt. Þetta er pistillinn hans Guðna:
Andrúmsloft morðsins
FJÖLMIÐLAR
Um síðustu mánaðamót rak ritstjóri Morgunblaðsins tvo af nafntoguðustu blaðamönnum sínum í nafni skipulagsbreytinga. Ég hef engan hitt sem tekur mark á þeirri skýringu. Fremur hafa menn velt vöngum yfir hvort málfrelsið sé enn virkt á Morgunblaðinu. Þröstur Helgason umsjónarmaður Lesbókarinnar og Halla Gunnarsdóttir þingfréttamaður eru í fremstu röð íslenskra blaðamanna og höfðu starfað lengur á blaðinu en margir sem voru ekki látnir taka pokann sinn. Getur verið að þau hafi með skrifum sínum ögrað harðlínuöflunum í Sjálfstæðisflokknum og því verið látin fara? Brottrekstur Þrastar og Höllu bar upp í sömu viku og áratuga langri ríkisstjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins lauk. Var aðeins hægt að umbera skoðanir þeirra á meðan flokkurinn hafði öll völd í landinu?
Síðastliðinn fimmtudag varpaði María Kristjánsdóttir fram þeirri spurningu hvort blaðamaðurinn Kolbrún Bergþórsdóttir væri reiðubúin að verja kollega sína á blaðinu af sömu einurðinni og hún hefur varið íslenska ráðamenn í gegnum tíðina. María, sem er leiklistargagnrýnandi Morgunblaðsins, segir um Kolbrúnu: „Hún er jú blaðamaður á Morgunblaðinu og hefur verið, minnir mig, í um það bil ár. Á þessu ári hefur fjölda einstaklinga sem störfuðu við hlið hennar verið sagt upp störfum. Fólki sem ekki hefur unnið þar bara í ár heldur áratugum saman. Fólki sem sett hefur svip á Morgunblaðið með vönduðum skrifum og með fagmennsku í prentlistinni. [...] Mér leikur sem sagt forvitni á að vita hvernig Kolbrún brást við uppsögnum þeirra? [...] Segðu mér það, Kolbrún? Gekkstu á fund yfirmanna þegar til dæmis Höllu Gunnarsdóttur og Þresti Helgasyni var sagt upp fyrir skömmu og áminntir þá hneyksluð: Svona hagar maður sér ekki! Svona hagar sér ekki siðað og skynsamt fólk! Það ber virðingu fyrir einstaklingnum!?“
Í síðustu viku greindi ég frá gagnrýni Láru Hönnu Einarsdóttur fjölmiðlarýnis, sem spyr á bloggsíðu sinni hver hafi „hag af því að hér ríki áfram ótti við að tjá skoðanir sínar?“ (5.2. 2009). Brottrekstur Þrastar og Höllu er tilefni skrifanna og undir lok pistilsins vísar Lára í þekkta grein Agnesar Bragadóttur um „Hræðsluþjóðfélagið“ frá nóvember 2007. Þar spyr Agnes hvort „kúgun þöggunar“ sé „að ná undirtökunum í þjóðfélagsumræðum á Íslandi?“ Hún segir jafnframt: „Að undanförnu hefur mér oft orðið hugsað til þess, hvað er að gerast í íslensku samfélagi, þar sem æ fleiri virðast óttast að koma fram með upplýsingar, skoðanir, ábendingar, túlkanir og greiningar, undir nafni, af ótta við hvaða afleiðingar frásagnir þeirra kæmu til með að hafa á persónulega hagi þeirra.“
Ég er ekki viss um að hræðsluþjóðfélagið sé svo nýtt af nálinni þótt kannski hafi það ekki skotið rótum jafn víða síðustu tuttugu árin og það gerði á tímum kalda stríðsins. Því miður tíðkaðist það lengi í íslensku samfélagi að menn liðu fyrir skoðanir sínar og voru fórnarlömbin ekki einungis á vinstri væng stjórnmálanna. Hér ríkti andrúmsloft morðsins um áratuga skeið eins og mætur ritstjóri sagði eitt sinn í mín eyru. Heilar kynslóðir glötuðust í grimmilegu hugmyndastríði, líf fóru í súginn.
Það er rétt hjá Agnesi að þöggunaróttinn hefur farið vaxandi í allri umræðu hér á landi. Ég hef með stuttum hléum skrifað pistla í Lesbók Morgunblaðsins frá árinu 2001. Rétt eins og Agnes hef ég orðið var við að lesendur eru nú fremur á varðbergi en áður og láta síður í ljós skoðanir sínar. Til marks um það get ég nefnt að upp á síðkastið hafa lesendur sem taka undir sjónarmiðin í pistlum mínum beðið mig um líta á bréf sín sem trúnaðarmál, eða þá að þeir hafa sent mér stuðningsyfirlýsingar undir dulnefni og búið svo um hnútana að ekki er hægt að rekja netfangið til nafngreindra einstaklinga.
Lýðræðislegri umræðu stendur ógn af slíku ástandi og við eigum að kosta öllu til að andrúmsloft morðsins verði ekki vakið upp aftur.
María Kristjánsdóttir, 24.2.2009 kl. 16:43
Það er auðvitað alveg sjálfsagt mál að birta þennan pistil Guðna, þá hlýtur fólk að átta sig enn frekar á hvers vegna mér er svo misboðið.
Sjálf er ég algjörlega sammála því að "ofsóknir vegna skoðana á ekki að líða, enda er það brot á skoðanafrelsi og tjáningarfrelsinu." Guðni, sem hefur enga þekkingu á Morgunblaðinu og rekstri þess, gengur hins vegar út frá því að tveir kollegar mínir hafi misst vinnuna vegna skoðana sinna. Aðrir, sem hafa engu betri þekkingu, telja sér sæmandi að taka undir fullyrðingar um skoðanakúgun og brot á tjáningarfrelsi, án þess að hafa nokkuð til síns máls. Eða eru það rök þegar Guðni segist engan hafa hitt sem taki mark á þeim skýringum að síðustu tveir starfsmenn, sem misstu vinnuna á Morgunblaðinu, hafi orðið fórnarlömb skipulagsbreytinga?
Pistilinn skrifaði ég vegna þess að mér og fjölmörgum starfsmönnum Morgunblaðsins ofbauð þetta. Á síðustu mánuðum hafa um 80 félagar okkar misst vinnuna, fólk á öllum deildum blaðsins og sem hefur hinar fjölbreytilegustu skoðanir. Sumir þessara samstarfsmanna minna höfðu starfað áratugum saman á Morgunblaðinu, aðrir miklu skemur. Þessar uppsagnir hafa fengið mjög á okkur öll.
Guðni, María og fleiri hafa fengið pistla og greinar birtar í Morgunblaðinu, þar sem þau hafa lýst ímynduðum ritskoðunartilburðum blaðsins. Hvers vegna ætli það sé? Kannski vegna þess að Morgunblaðið hefur staðið vörð um tjáningarfrelsið? Eða geta Guðni, María og Erlingur bent á annan fjölmiðil, þar sem jafn fjölbreytileg sjónarmið koma fram á degi hverjum?
Ragnhildur Sverrisdóttir, 24.2.2009 kl. 20:14
Í hvaða pistil minn ert þú að vitna, Ragnhildur?
María Kristjánsdóttir, 25.2.2009 kl. 05:37
Ég var reyndar að vitna til sömu greinar og Guðni, en fór þar offari, enda nefnir þú ekki ritskoðunartilburði heldur virðingu fyrir einstaklingnum og þá í tengslum við uppsagnir á Morgunblaðinu.
Ég hefði ekki átt að falla í þá sömu gryfju og Guðni að nefna ritskoðun í sömu andrá og þessa grein þína og gefa þar með meira í skyn en efni stóðu til. Ég biðst forláts á því.
Ragnhildur Sverrisdóttir, 25.2.2009 kl. 09:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.