Knattspyrna og kvendómarar

Pistill í Mbl. 26. ágúst 2009 

 

"Mér fannst við ekki spila nógu vel í seinni hálfleiknum og svo féll allt þeirra megin í dómgæslunni. Það má vel endurskoða það að vera með kvendómara í svona úrslitakeppni. Fullt af skrítnum atriðum féll Frökkunum í hag en svona er þetta bara.“

Þessi ummæli voru höfðu eftir einni af „stelpunum okkar“, Hólmfríði Magnúsdóttur, í Morgunblaðinu á mánudag. Hún var sem sagt ósátt við dómgæsluna í fyrsta leik íslenska liðsins í Evrópukeppninni í Finnlandi og var raunar ekki ein um það. Og ástæða slakrar dómgæslu skín í gegn: Dómarinn var kona sem og aðstoðardómararnir tveir.

Hvernig landsliðskonu í knattspyrnu dettur í hug að láta svona út úr sér er með miklum ólíkindum. Hólmfríður Magnúsdóttur nýtur þess að vera fastur leikmaður í liðinu sem á hug og hjarta þjóðarinnar um þessar mundir. Liðinu sem hefur náð miklu betri árangri en karlalandsliðið hefur nokkru sinni náð og hefur nú náð þeim mikla áfanga að keppa í úrslitakeppni stórmóts.

Árangur stelpnanna okkar hefur orðið til þess að allar úrtöluraddir um kvennaknattspyrnu eru þagnaðar. Þær eru frábærir íþróttamenn. Þar er hin harðsækna Hólmfríður sannarlega engin undantekning og skallamarkið hennar gegn Frökkum var enn ein fjöðrin í hattinn.

Eftir að Hólmfríður lét þessi ummæli falla hafa ýmsir komið henni til varnar, til dæmis í útvarpi. Þar hefur m.a. heyrst að hún hafi í raun verið að vísa til þess að ekki væru til nógu margir reyndir kvendómarar sem réðu við stórverkefni á borð við Evrópumót.

Ef Hólmfríður er að kvarta undan reynsluleysi dómara hefur hún auðvitað fullan rétt á því, hvors kynsins sem þeir eru. Kannski er aðaldómarinn í leiknum við Frakka, Natalia Avdonchenko, reynslulaus, þótt hún sé elsti dómari keppninnar og hafi m.a. dæmt í undankeppni EM, Evrópukeppni meistaraliða, heimsmeistarakeppnum yngri liða og náð þeim árangri á síðasta ári að vera valin besti knattspyrnudómari Rússlands.

Það er hins vegar með ólíkindum að leikmaður íslenska kvennalandsliðsins skuli alhæfa um kvendómara með þeim hætti sem felst í orðum Hólmfríðar. Hefur hún ekki fengið sig fullsadda á alhæfingum um kvenfólk og fótbolta? Gerir hún sér ekki grein fyrir hversu sterk fyrirmynd hún er öllum stelpunum sem vita að stelpur geta allt? Áttar hún sig ekki á að litlu stelpurnar vita þetta vegna þess að hún, Margrét Lára, Katrínarnar, Ólína, Sara, Guðrún Sóley, Edda, Dóra María, Erna Björk, Þóra og allar hinar hafa sannað það?

Stelpurnar okkar í landsliðinu eru ein ástæða þess að á mínu heimili eru átta ára systur brennandi af fótboltaáhuga, æfa oft í viku og vilja verða eins og fyrirmyndirnar. Slíkar fyrirmyndir verða að gera sér grein fyrir að þær bera mikla ábyrgð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Heyr, heyr.

Jenný Anna Baldursdóttir, 26.8.2009 kl. 15:59

2 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Dittó ;)

Ragnhildur Sverrisdóttir, 26.8.2009 kl. 17:12

3 Smámynd: Brandurj

Já þetta er satt hjá stelpunum.horfði á leikinn og sá að dómarinn var í því að gefa frökkum bæði auka og vítaspyrnur fyrir smá brot sem að hefðu aldrei verið dæmt á hérna heima eða í englandi.

Brandurj, 26.8.2009 kl. 17:28

4 Smámynd: Marinó Óskar Gíslason

Með fullri virðingu fyrir konum, ég er kvæntur einni, þá er það nú bara þannig að þegar konur komst í þá stöðu að hafa vald, þá fara þær oft, ekki alltaf, langt fram úr körlunum að nota það. Þetta sjáum við mjög glöggt hjá konum sem eru bæði í lögreglunni og tollinum. Það er eins og þær séu alltaf að reyna að sanna að þær geti tekið á málunum. Þær taka á málunum með meiri hörku. En það er samt gaman að sjá að það eru konur sem dæma leikina í kvennaboltanum þarna úti. ÁFRAM ÍSLAND.

Marinó Óskar Gíslason, 26.8.2009 kl. 22:54

5 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Sammála þessarri pælingu Ragnhildur. Hrökk við þegar ég heyrði þessi ummæli í útsendingu. (Reyndar held ég að það geti líka verið nokkuð til í því sem "Margis" segir).

Á svo næstum níræða móður, sem ekur bíl eins og herforingi, en þooolir ekki "kellingar" undir stýri !

"Gat nú skeð; KELLING" segir hún um leið og hún tekur fram úr...

Hildur Helga Sigurðardóttir, 27.8.2009 kl. 05:25

6 identicon

Ég ætla nú ekkert að fullyrða um það en kannski hefur hin ágæta Hólmfríður Magnúsdóttir reynslu af dómgæslu bæði karlkyns og kvenkyns dómara og hefur komist að þessari niðurstöðu byggðri á þeirri reynslu? Það eru líklega ekki margir aðrir en knattspyrnukonur sem hafa slíka reynslu til að byggja á.

Gulli (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 07:33

7 identicon

Þetta voru strangir dómar en ekki rangir. Það hefur ekkert með kyn dómarans að gera en mikið er það leiðinlegt að hlusta á íþróttamenn trekk í trekk kenna dómara um úrslit. Þetta er landlægt hér og þarf reyndar ekki íþróttir til. Allir hlutir sem aflaga fara eru vondu útlendingunum að kenna. Vitna hér í bankahrunið, Icesave eða hvað sem er. Við erum orðin mjög góð í fórnarlamba hlutverkinu. Hættum þessu og gerum okkur grein fyrir að úrslit eru undir okkur sjálfum komin. Þá eigum við sjéns í Norðmenn í dag.

Tryggvi Marteinsson (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 09:09

8 identicon

Ég skil bara Hólmfríði mæta vel.  Þegar maður er búin að leggja mjög mjög mjög mikið á sig til þess að komast á mót eins og þetta þá er eðlilegt að maður geri þá kröfu að það sé það besta í boði á öllum sviðum, besti boltinn, bestu vellinir (í því landi sem spilað er) og svo auðvitað bestu dómaranir.  Það hlýtur að segja sig sjálft þegar um dómara er að ræða að það getur varla verið að 20 - 30 bestu dómarar evrópu séu bara konur, það bara meikar ekki sens.  Afhverju?  Jú það eru mikið mikið mikið færri konur sem dæma.  Maður þarf ekki að vera tölfræðisnillingur til að finna þetta út.  Ef kona er góður dómari á hún að fá tækifæri til að dæma á top leveli.  Það sama á að gilda um kk dómara.

Ég væri amk massa pirruð ef gæði dómgæslunnar í mínum leikjum værru verri vegna þess að ég er ekki með typpi.

 p.s. með þessu er ég ekki að leggja dóm á störf dómarans í Frakkaleiknum

Hafrún (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 22:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband