3.5.2010 | 23:47
Fattaði með eyrunum
Elísabet er búin að vera mjög iðin að æfa sig á gítarinn undanfarið. Hún hefur hins vegar pirrað sig óskaplega á einu laganna á prógramminu; hefur bara alls ekki náð lokatóninum rétt. Lagið var ósköp ómþýtt, en svo kom lokatónninn eins og skrattinn úr sauðarleggnum.
Í kvöld grúfði hún sig yfir nótur og pældi lengi. Svo kom þetta loksins, hinn eini, sanni tónn. Hún leit upp sigri hrósandi og sagði: Hey mamma, ég fattaði með eyrunum mínum hvernig síðasti tónninn er!
Gott að hafa tóneyra
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.4.2010 | 13:15
Ferðalagið
Í gærmorgun kom ég heim frá London, eftir heldur óskemmtilegt ferðalag. Ég er búin að jafna mig að mestu, en á áreiðanlega töluvert í land að endurheimta mannorðið!
Ég fór út á fimmtudag. Heimferðartími var framan af dálítið óljós, ég vildi gjarnan losna við London-Glasgow-Akureyri-rúta til Reykjavíkur og freista þess að komast beint til Keflavíkur, en að morgni sunnudagsins sá ég að sú bið gat orðið löng og eins gott að drífa sig í bókað flug þann daginn.
Vélin átti að fara kl. 13 og ég var búin að tékka mig inn á Heathrow kl. 11. Allt í sóma til að byrja með. Að vísu varð fljótlega ljóst að áætlun stæðist ekki. En ég átti fínan boðsmiða í betri stofuna á Heathrow og sat þar yfir bresku blöðunum í rólegheitum.
Eitthvað var nú samt öðruvísi en átti að vera. Þarna buðust mér alls konar kökur og kruðerí og drykkjarföng eins og ég gat í mig látið. En ég kom bara alls engu niður. Það er afskaplega ólíkt mér, en ég píndi þó í mig dálítið saltkex og kóksopa, þótt ég væri undarleg í maganum.
Vélin fór ekki frá Heathrow fyrr en 16.30. Þá var ég farin að titra og skjálfa, með beinverki og áfram þessi undarlegheit í maganum, sem voru nú bara mikil ónot að svo komnu máli. Ég fór í apótek, keypti verkjalyf og hitastillandi, tróð mig út af þessu og hálfmókti í þessu klukkutíma flugi til Glasgow. Skömmu fyrir lendingu hrökk ég upp við að eldingu laust niður í vélina. Það var auðvitað fyrirboði áframhaldandi sælu.
Við lentum í Glasgow kl. 17.30. Vélin átti samkvæmt áætlun að fara þaðan kl. 18 og alveg ljóst að það tækist ekki. Farþegar tosuðu töskunum sínum út, yfir í næsta terminal og biðu innskráningar. Þarna stóð ég og var bara nokkuð brött, miðað við allt. En svo kom yfir mig þessi svimi og ég fór að síga saman, hékk á töskunni minni, góðviljaðar konur í röðinni hálf gripu mig og næst þegar ég vissi af mér lá ég endilöng á gólfinu. Í fyrsta skipti á ævinni sem ég lognast svona út af. Konurnar tóku á mér púls, karl var sendur á hlaupum eftir vatni, hann gaf mér líka brjóstsykur og kona bauð mér af súkkulaðinu sínu. Ég staulaðist á fætur og hafsjór fólks opnaðist til að hleypa mér að innritunarborði. Úff! Allt saman var þetta fólk afskaplega elskulegt og ekki því að kenna hversu lítt ánægjuleg þessi uppákoma var.
Ég staulaðist á kaffihús í brottfararsal og reyndi að koma ofan í mig kaffi og einhverju afspyrnu vondu orkustykki. Gekk það heldur illa. Þarna var klukkan að verða 19 og ljóst að vélin færi ekki strax í loftið. Ég ákvað því að fara á betri stofuna á þessum velli, þar væri alla vega náðugt og gott að bíða fram að flugi.
Ég var lengi að rölta og finna þessa blessuðu betri stofu. Inn eftir gangi, til vinstri hjá apóteki, hægri hjá viskíi, beint áfram framhjá nammi, karlmannafötum og leikföngum, svo í lyftu upp á aðra hæð og stóð þá loks við dyrnar. Klukkan var 19.00. Betri stofunni var lokað kl. 19.00.
Niður og í plaststóla nálægt brottfararhliði. Seturnar voru nokkurn veginn sléttar og því hægt að leggjast út af. Og þar lá ég og skalf í drjúga stund.
Við fórum loks um borð í vélina til Akureyrar kl. 22. Svo biðum við um borð, eftir að lokið væri við að hlaða vélina. Klukkan 23 sagði flugstjórinn að því væri að ljúka. Skömmu síðar var hleðslu lokið. En þá kom í ljós að vélin var ofhlaðin. Hlaðmenn í Glasgow voru 20 mínútur að plokka eitt tonn út úr vélinni. Ég hugsaði með mér að taskan mín væri pottþétt ein þeirra sem yrði eftir. Þarna var ég nefnilega farin að missa trúna á eigin heppni.
Við fórum í loftið um kl. 23.30. Framundan var tveggja tíma flug til Akureyrar. Og alltaf varð ég ómögulegri. Þar dugði ekki einu sinni þótt ég fengi fyrsta klassa umönnun hjá Björgu yfirflugfreyju, sem er vinkona Ásthildar systur. Hún gaf mér meira að segja blómadropa, til að reyna að hjálpa mér til heilsu. Líklega hefur hún áttað sig á því hvað ég er viðkvæmt lítið blóm, sem fellur í yfirlið af minnsta tilefni!
Ég sýndi fullkomið vanþakklæti, rauk inn á salerni og skilaði dropunum frá mér. Ásamt öllu öðru sem ég hafði og hafði ekki - getað borðað þann daginn. Frábær tilfinning að vera með uppköst á flugvélarsalerni.
Ég fór nú að hjarna við. Björg yfirflugfreyja hélt áfram að stjana við mig. Mér tókst að sofna dálítið, en um hálftíma fyrir lendingu færði Björg mér heitt og vel sætt te. Heilt glas og hvatti mig til að reyna að koma því niður, því einhverja orku yrði ég að fá. Ég var sammála þessu og saup af og til á, örlitla sopa. En ég var bara svo úrvinda að ég var alltaf að detta útaf. Og í eitt skiptið hrökk ég upp þegar vélin tók dýfur yfir Eyjafirði, kippti að mér hendinni og hellti nær fullu glasi af volgu tei yfir mig. Beint í klofið.
Kerlingin hafði sem sagt fyrst steinlegið í Glasgow, svo kastað upp hálfa leiðina til Akureyrar og nú var hún með stóran blett framan á buxunum sínum. Þetta leit satt best að segja afleitlega út. Gat eitthvað fleira farið úrskeiðis?
Við lentum á Akureyri . Þar var önnur þota nýlent. 400 farþegar úr báðum þotunum reyndu að nálgast farangurinn sinn og komast í gegnum fríhöfn og tollafgreiðslu. Áhugavert.
Um borð í vélinni hafði ég verið ákveðin í að hringja í félaga minn, sem á gistiheimili á Akureyri, og fá að sofa þar til morguns. En núna vildi ég bara komast sem fyrst heim. Taskan mín hafði skilað sér, merkilegt nokk. Ég fór út í rútu, kom mér vel fyrir og svo var lagt af stað til Reykjavíkur.
Núna var allt í lukkunnar velstandi. Ég svaf eins og ungabarn (á lyfjum, vissulega!) og rumskaði bara þegar einhverjir fóru frá borði á Blönduósi. Svo var stoppað í Staðarskála og þá vaknaði ég aftur. Klukkan orðin 5 á mánudagsmorgni og ég fann að loksins, loksins gæti ég borðað eitthvað. Ég fór inn og pantaði pylsu og kók.
Kortinu mínu var hafnað.
Ef fólk heldur að ég hafi haft einhvern húmor fyrir þessu, klukkan 5 að morgni, þegar ég var að reyna að nálgast fyrstu máltíð sem ég hafði haft lyst á frá laugardagskvöldi, þá er það misskilningur.
Ég varð gjörsamlega kjaftstopp. Var reyndar með fullt veski af pundum. Og hefði getað haft rænu á að ná í debet-kortið, sem leyndist í veskinu. En áður en ég hafði náð áttum sagði kona við hliðina á mér, að þar sem hún vissi til þess að við værum skyldar, þá ætlaði hún að bjóða mér upp á þessa pylsu. Ég átti greinilega afar miskunnsama og góða samferðamenn, sem vildu mér allt hið besta, þar á meðal Ketilbjarnar-leggurinn. Takk fyrir það.
Áfram svaf ég og vaknaði á Umferðarmiðstöðinni rétt fyrir 7. Tók leigubíl heim og ræsti Kötu, sem borgaði fyrir hann, af því að ég var ekki enn búin að átta mig á möguleikanum á að borga með debet. Ég hugsaði ekki alveg skýrt. Getur einhver álasað mér fyrir það?
Ég ætla ekki út fyrir landsteinana á næstunni, ef ég mögulega kemst hjá því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.4.2010 | 23:30
Tómatur, túmatur
Við kvöldverðarborðið í gær vorum við Kata að tala um einhvern mann. Ég kom honum ekki fyrir mig og Kata var að rifja upp nafnið. Sagði svo: "Ég held að hann sé Tómasson."
Elísabet hrökk við: "Ha, heitir pabbi hans þá Tómatur?"
Nei, Elísabet, hann er Tómasson en ekki Tómatsson!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2010 | 21:44
Ekkert bras
Systur voru að fara að sofa og við Kata lágum hjá þeim og slúðruðum við þær. Þær þurftu að ræða um allt milli heima og geima, eins og venjulega.
Svo barst talið að afmæli afa þeirra á fimmtudag. Kata sagði þeim að okkur væri boðið í afmælisbröns, en þær voru nú fljótar að segja okkur að þær vissu allt um það. Afi þeirra og amma eru alltaf hjá þeim eftir skóla á þriðjudögum og málin höfðu greinilega verið rædd í þaula.
Margrét sagði að afi þeirra og amma hefðu spurt hvað þær vildu helst fá að borða í þessum afmælisbröns.
Hverju svöruðu þær?
Margrét: "Við sögðum að við vildum spælt egg og pönnukökur og beikon. En þau geta ekki haft spæld egg og ekki pönnukökur og þá er ekkert gott að hafa beikon."
Svo skildu þær ekkert í því af hverju við Kata fengum hláturskast.
Og voru auðvitað alsælar með loforð um nýtt brauð, smjör og ost og annað bröns-gúmmelaði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2010 | 17:59
Rokk á ukulele
Systur fóru í gítartíma á laugardagsmorgun, eins og alltaf. Þær eru komnar með mikla gítardellu og tími kominn til, þær eru á þriðja ári í náminu. Mikill áhugi núna helgast af því að þær eru farnar að plokka melódíur, en áður voru þær alltaf að læra grip. Vissulega stóðu þær sig vel þar og fannst alltaf gaman í tímum, en plokkið á hug þeirra allan.
Áhuginn smitast yfir í vinahópinn. Tara er t.d. mjög iðin að læra allt plokk hjá þeim þessa dagana. Svo áskotnaðist systrum ukulele um daginn og þótt um það gildi nokkuð önnur lögmál en gítarinn, þá finnst þeim samt afskaplega gaman að fikta í því. Það var reyndar dálítið fyndið þegar Margrét rakst fyrst á ukulele í hljóðfæraverslun um daginn. Hún greip þetta kríli og plokkaði strax upphafsstefið í Smoke on the Water! Ég held að það hafi aldrei hvarflað að Deep Purple að spila það á ukulele, enda glottu töffararnir í hljóðfæraversluninni þegar mjóir tónarnir bárust um sali.
Við Margrét áttum annars það erindi í búðina að skoða trommukjuða og æfingaplatta fyrir verðandi trommuleikara. Hún er nefnilega farin að æfa trommuleik. Ólafur Hólm Nýdanskra-trommari ætlar að berja í hana taktinn, sem ætti nú ekki að verða erfitt verk. Þessa dagana situr hún oft og lemur æfingaplattann og trampar á ímyndaða bassatrommu. Trommusett kemur hins vegar ekki á þetta heimili á næstunni. En seinna meir verður kannski leitað að ódýru rafmagnstrommusetti, sem þarf ekki að heyrast neitt í frekar en maður vill.
Jæja, með allan þennan tónlistaráhuga og vaxandi hljóðfærasafn verður stundum stuð á heimilinu. Í gær sátu þær lengi við, systur, Tara og Marta María og sungu mikinn söng um ágæti Fossvogsskóla, með tilheyrandi svívirðingum í garð annarra skóla. Ég veit ekki hvar þær kokkuðu upp þennan texta! Margrét og Tara spiluðu á gítara, Elísabet trommaði og Marta María var með ukulele. Úr varð mikið hljómasafn. Þær áttu samt ekki í neinum vandræðum með að halda allar fjórar lagi í söngnum.
Tara gisti hjá okkur í nótt. Því fylgdi auðvitað að allar þrjár þurftu að sofa á gólfinu, því það er mesta fjörið. Systur færðu dýnurnar úr rúmunum sínum niður á gólf og Tara fékk dýnu undir sig. Hún hafði komið með nýju myndavélina sína með sér og þær tóku áreiðanlega 200 myndir hver af annarri að stökkva á dýnunum. Þær voru ekki lengi að sofna eftir þær æfingar.
Í morgun vildu þær klatta. Þeim finnst það einfaldlega tilheyra þegar þær gista (Það heitir alltaf að gista, líka hjá gestgjöfunum). Og auðvitað fengu þær klatta.
Núna eru systur í afmælisboði.
Góðri helgi að ljúka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.4.2010 | 12:17
Klikkað krútt
Margrét fer á kostum í sms-skilaboðum.
Ég sendi henni skilaboð í morgun og var að þakka henni fyrir fyrri skilaboð. Þá hófust sendingar:
M: Það var ekkert glópagull
Ég sendi til baka að hún væri rugludallur.
M:" Flottasti klaufi" var það sem ég fékk þá til baka.
Og næstu skilaboð frá henni voru: "Sætasti sykur"
Þá skrifaði ég henni að hún yrði að hætta að vera svona mikið krútt, ég væri í krúttkasti og gæti ekki unnið.
M: "Ég skildi þetta ekki alveg "
Þá neyddist ég til að útskýra þetta nánar og benda á að hún hefði sent mér svo mörg krúttleg sms að ég væri óvinnufær.
M: "Þú sendir svo klikkuð skilaboð að ég er í klikkkasti "
Svei mér þá!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.3.2010 | 15:34
Fyndið
Magga systir bauð systrum í leikhúsið í gær, að sjá Með öðrum morðum, ráðgátu um Heimi og Harry í Borgarleikhúsinu.
Þegar systur loks skiluðu sér heim voru þær alsælar. Margrét króaði mig af frammi í forstofu á meðan Elísabet hljóp fram í eldhús til Kötu. Og báðar hófu þær afskaplega nákvæma endursögn á leikritinu, sem þeim fannst ótrúlega fyndið. Fyrsti brandarinn var strax í upphafi. Þá heyrðist rödd sem bað leikhúsgesti að slökkva á farsímum. Svo heyrðist hringing í farsíma og röddin sagði: "Ó, ég hef sjálfur gleymt að slökkva á mínum síma." Og hafði vart sleppt orðinu þegar hratt fótatak heyrðist og svo skothvellur.
Skilaboðin voru augljós: Þeir sem gleyma að slökkva á farsímanum í leikhúsinu eru skotnir.
Systrum fannst þetta óborganlega fyndið og héldu svo áfram að tíunda aðra brandara, jafn sjúklega fyndna. Að mati þeirra sem eru nýorðnir 9 ára.
Ég skil núna af hverju Magga systir var dauf í dálkinn eftir sýninguna. Gott að hún fór með þeim, en ekki ég!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.3.2010 | 22:34
Glimmer-gengi
Í dag var furðufatadagur í Fossvogsskóla.
Systur, Marta María og Tara hafa alltaf ruglað furðufatadegi við öskudag og vilja fara í búningum, ekki bara einhverjum furðufötum. Núna ætluðu þær allar að vera prakkarar, en engin þeirra átti smekkbuxur, sem voru víst alveg bráðnauðsynlegar. Og þær eru heldur ekki freknóttar, svo hugmyndin var slegin af.
Svo tilkynntu systur að þær vinkonurnar ætluðu allar að vera rosalega brúnar og með hvítt hár. Þá væri þær nefnilega "skinkur". Við mömmur urðum gjörsamlega stúmm, en Kata var fljótari að átta sig og stakk upp á að þær færu bara allar í Fame-bolunum sínum og leggings og þá gætu þær verið danshópur. Til allrar hamingju var sú hugmynd samþykkt samhljóða.
Í morgun vöknuðu systur fyrir allar aldir og Tara kom rúmlega 8. Kata þurfti að fara snemma af bæ og því sat ég uppi með að spreyja bleikum og fjólubláum lit í hárið og glimmer yfir allt saman. Það hefði nú verið mér næg raun á einum degi, en þar við bættist andlitsmálning. Ég lét eins og þaulvanur farðari og til allrar hamingju eru þær ekkert mjög þjálfaðar í slíkri list og voru alsælar. Enda ekki skinkur.
Mörtu Maríu ræstum við rétt fyrir 9. Hún vissi ekki að við ætluðum að mæta kl. 9 í skólann, enda hófst furðufatadagurinn ekki formlega fyrr en kl. 10. Hún var nú samt mætt hérna fimm mínútum síðar, fékk sprey og málningu og svo fóru allar í skólann. Þær tóku með sér hvítu Michael Jackson hattana og þar með var dansaragervið fullkomnað. Til að kóróna daginn máttu þær hafa með sér pening til að kaupa nammi í skólanum.
Eftir skóla fylltist garðurinn af krökkum. Systur, Tara, Þórunn, Stebbi, Kári, Andri, Einar Dagur og áreiðanlega einhverjir fleiri, sem ég sá aldrei, en heyrði svo sannarlega í. Leikföng um allar trissur og mikill hávaði. Það er komið vor.
Á morgun þarf ég að manna mig upp í að þrífa baðherbergið á neðri hæðinni. Það er á því bleikur og fjólublár blær og gólfið er þakið glimmeri.
Marta María, Elísabet, Margrét, Halldóra og Tara í Fossvogsskóla
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2010 | 21:08
Hattar
Ég náði að bruna með systur í Partýbúðina fyrir lokun í dag. Sem var alveg bráðnauðsynlegt, því þær þurftu að eignast Michael Jackson hatta. Í afmælinu þeirra á laugardag kom í ljós að nær allar stelpurnar kunnu flotta dansa við Jackson-lög og bráðum á að sýna dans í skólanum. Þá þarf að sjálfsögðu hatta. Systur áttu sjálfar peninga fyrir höttunum og voru afar stoltar. Rokið gerði Margréti að vísu lífið leitt, því hatturinn fauk af henni og þeyttist um allt bílastæði Hagkaupa í Skeifunni. Margrét hljóp á eftir og ég þar á eftir, argandi og gargandi á hana að passa sig á bílunum.
Þær hurfu með hattana yfir til Töru við heimkomuna og hafa ekki skilað sér heim ennþá. Hjá Töru var nefnilega pizza í matinn, en við vorum með fisk. Auðvelt val fyrir 9 ára.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2010 | 21:56
9 ára
Afmælishelgin mikla er að baki!
Systur áttu reyndar afmæli á föstudaginn. 9 ára og afskaplega lukkulegar með það. Margrét var svo spennt fyrir afmælinu að hún ætlaði aldrei að geta sofnað á fimmtudagskvöld, var enn að bylta sér um hálf ellefu leytið. Sofnaði loks, en ég vaknaði klukkan hálf þrjú um nóttina við að hún stóð við rúmstokkinn hjá mér og horfði á mig. Það var magnað augnaráð. Hún skreið upp í og sofnaði.
Um morguninn fengu þær pakka, frá okkur Kötu og hvor frá annarri. Þær höfðu vandað sig afskaplega við að velja gjöf fyrir systur og auðvitað endurspegluðu gjafirnar karakterana. Elísabet gaf Margréti kassa með alls konar galdradóti og núna gabbar Margrét okkur upp úr skónum við hvert tækifæri. Margrét gaf systur sinni stuttbuxur, ekki neinar íþróttastuttbuxur heldur einhverjar voða fínar sem hvorki ég né Margrét kunnum skil á en Elísabet var afskaplega hrifin af og naut þar stuðnings Kötu. Þær fengu líka fínustu náttföt frá Magga frænda og familíu í Svíþjóð.
Nýtilkominn fataáhugi systra létti okkur Kötu valið, við gátum gefið þeim föt, fullvissar um að þær yrðu hinar lukkulegustu, sem gekk líka eftir. Og hvor eftir sínum karakter, að sjálfsögðu.
Stórfjölskyldan kom í kaffi síðdegis á föstudag og enn bættist í gjafahrúguna. Meiri dekurdósirnar þessar stelpur. Allt alveg ótrúlega flott og systur alsælar.
Þær fengu bekkjarsystur og vinkonur í afmæli á laugardeginum. Aðalmálið í því afmæli var súkkulaðigosbrunnur (takk fyrir lánið, Heiða ;) ) Ég veit ekki hvað fór mikið af súkkulaði ofan í blessuð börnin, en þær fengu þó alla vega jarðarber, banana, vínber og melónur með í magann.
Sunnudaginn var enn ein veislan, að þessu sinni bröns með guðmæðrum á 19. hæð í Turninum. Rétt eins og í fyrra, þegar Elísabet var búin að einsetja sér að halda upp á 8 ára afmælið með því að fara alla leið upp á 19. hæð með lyftunni. Núna var hún alveg svöl, laus við alla lyftuhræðslu.
Svo fóru þær í afmæli til Þórunnar vinkonu sinnar og liðsfélaga síðdegis á sunnudag. Þá vorum við mömmurnar nú alveg þokkalega sáttar við að fá að setjast niður og gera ekki neitt :)
Mikil helgi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Logalandið
Bloggvinir
- margretsverris
- begga
- annapala
- stebbifr
- andreaolafs
- sms
- seth
- salvor
- hrafnaspark
- svartfugl
- vitinn
- ingibjorgelsa
- konukind
- eddaagn
- konur
- thorbjorghelga
- elvabjork
- steinunnolina
- jullibrjans
- toshiki
- adhdblogg
- malacai
- arndisthor
- asarich
- baldvinjonsson
- berglindnanna
- beggita
- birna-dis
- birtab
- bjb
- blomid
- dabbaa
- doggpals
- madamhex
- saxi
- ellasprella
- garun
- gislihjalmar
- neytendatalsmadur
- gudni-is
- lucas
- gylfig
- iador
- helgamagg
- skjolid
- hildigunnurr
- hildurhelgas
- himmalingur
- hlekkur
- danjensen
- innipuki
- jakobk
- jenfo
- joninaros
- prakkarinn
- nonniblogg
- julianamagg
- kari-hardarson
- kiddijoi
- kollak
- hjolaferd
- kristinm
- lenapena
- liljabolla
- lillagud
- lindalinnet
- 101isafjordur
- mal214
- mongoqueen
- olinathorv
- fjola
- amman
- siggiholmar
- sij
- sigthora
- zsapper
- svala-svala
- possi
- saemi7
- saethorhelgi
- steinibriem
- thorasig
- thorhildurhelga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar