11.8.2008 | 09:22
Í liði með lögreglunni
Lögregluþjónar, sem eru á vakt í Reykjavík að næturlagi um helgar, lenda oft í því að fólk reynir að koma í veg fyrir að þeir geti sinnt störfum sínum. Þeir þurfa að þola háðsglósur og dónaskap og stundum veitist einhver kappinn að þeim með höggum og spörkum.
Virðingarleysið gagnvart lögreglunni er ekkert einkamál pirraða verktakans á þakinu eða misdrukkinna einstaklinga í miðborginni. Það smitar út frá sér og nú er svo komið að hið ólíklegasta fólk sér tilefni til að hæða lögregluna og spotta. Slíkt virðingarleysi grefur smám saman undan lögreglunni og afleiðingarnar eru ófyrirséðar.
Í Morgunblaðinu í gær skrifaði Ómar Smárason grein um lögregluþjóna. Neikvætt viðhorf fólks gagnvart lögreglunni veldur mér áhyggjum. Það hlakkar jafnvel í fólki þegar lögregluþjónn gerir mistök sem verða þess valdandi að honum er vísað frá starfi tímabundið, eins og gerðist í frægu atviki sem átti sér stað í verslun 10-11, skrifar Ómar. Hann bendir á að lögregluþjónar gegni lykilhlutverki í því að gæta öryggis okkar borgaranna og barna okkar.
Við verðum að gæta að viðhorfi okkar gagnvart lögreglunni. Auðvitað er hún ekki yfir gagnrýni hafin. En sú gagnrýni verður að vera málefnaleg hverju sinni, en ekki ráðast af pirringi misviturra manna.
Við höfum aldrei haft vopnað lögreglulið. Nú eru glæpir orðnir harðari en áður og glæpahópar vígbúast. Því heyrast þær raddir, að lögreglan verði að vopnast, ella sé öryggi hennar og borgaranna ógnað.
Besta vopnið í fórum lögreglunnar er stuðningur almennings. Flest fullorðið fólk hlýtur að sjá nauðsyn þess að lögreglan geti unnið starf sitt og fylgt eftir þeim reglum sem þjóðfélagið hefur sett sér. Virðingarleysið gagnvart lögreglunni byrjar kannski í smáu; með dónalegum köllum þegar einhver áflogaseggur er handtekinn í miðborginni. En ef virðingarleysið fær að vaxa og dafna óáreitt, þá missir lögreglan helsta vopn sitt. Lögreglulið, sem ekki nýtur stuðnings almennings, endar áreiðanlega með að búast raunverulegum vopnum.
Þeir góðborgarar, sem hreykja sér af því að hafa gert lögreglunni lífið leitt, ættu að leiða hugann að því að þeir eru að grafa undan henni og um leið auka líkurnar á að börn þeirra njóti ekki sömu forréttinda og þeir: Að alast upp í samfélagi þar sem lögreglan á almennan stuðning og þarf ekki að bera vopn við dagleg störf sín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.8.2008 | 19:49
Helgi
Frábær gleðihelgi að baki
Við fengum nokkrar konur í heimsókn á laugardagsmorgun, flestar með börn. Alls 10 konur og 8 börn. Við fengum okkur léttan bröns til að tryggja að öll hefðum við kraft í gönguna miklu.
Familían var mætt á Hlemm kl. hálf tvö, allar í fínum bolum. "Stolt fjölskylda" stóð framan á okkur og það vorum við líka. Systur fóru í hamingjusama kleinu þegar tekið var við þær sjónvarpsviðtal og voru hinar fúlustu um kvöldið þegar fréttatíminn byrjaði og þær höfðu verið klipptar út. O, jæja . . .
Við gengum í stórum hópi annarra samkynhneigðra með börnin sín og alla leið á Arnarhól. Systur að vísu á hlaupahjólum. Það var svo gaman að sjá allt þetta fólk í bænum, allir svo glaðir og kátir. Við breiddum út teppi á Arnarhóli og vorum þar næstu tímana. Svo fórum við í rólegheitum upp Laugaveginn aftur og alla leið að Klambratúni, þar sem bíllinn beið.
Afi og amma á Gilsó voru búin að panta stelpurnar í næturgistingu. Við Kata vorum ekki með nein sérstök plön svo við kættumst mjög þegar Inga Dóra og Símon kölluðu á okkur í grill. Þar áttum við afskaplega ljúfa kvöldstund, eins og alltaf þegar við hittum þau hjón.
Fólk hélt áfram að dekra við okkur í dag. Urður bakaði gulrótarköku og bauð okkur að ráða niðurlögum hennar með sér. Fín hugmynd, fín kaka og assgoti góður appelsínudjúsinn hjá frú Urr. Kisan Þvæla vakti lukku systranna, sem tóku Töru með sér svo hún fengi líka að leika við Þvælu.
Síðdegis var furðulegt veður. Yndislegt vissulega, en það var dálítið sérstakt að standa á stuttermabol í steikjandi sól og blíðu, en líka rigningu! Svona rigndi á mig í sólinni á meðan ég sló blettinn og aftur á meðan ég klippti runnann meðfram gangstígnum við hliðina á húsinu (ég fékk móral þegar ég sá nágranna minn hlaupa í keng þar í gegn, gróðurinn var svo þéttur að hann ætlaði ekki að hafa þetta!)
Systur eru búnar að vera úti í allan dag. Þær standa í ströngu, hafa ákveðið að þrífa allt veggjakrot sem þær finna. Stundum eru þær svo ljónheppnar að veggjakrotið er krítarmynd eftir ungan snilling í hverfinu, en oftast nudda þær og nudda sama blettinn með engum árangri. Það er erfitt að ná málningu af með vatni. Ekki svo að skilja að veggjakrot sé stórvandamál í okkar rólegu götu, en þeim tókst að finna eina girðingu, einn ljósastaur og veggjarbrot með kroti á.
Þær ætla í frístundaheimilið á morgun. Þar er að fjölga núna, hinir krakkarnir að koma úr fríum og verður áreiðanlega enn skemmtilegra en venjulega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.8.2008 | 20:26
Stolt
Systur voru hálf súrar í morgun að fá ekki að fylgja okkur Kötu í útvarpið. Við fórum í smá spjall við Hrafnhildi og Guðrúnu í morgunútvarpinu, í tilefni Gay Pride. Elísabet bað mig að skila því í útvarpið að henni þætti gott að eiga tvær mömmur. Margrét tók fram að það væri áreiðanlega gott að eiga pabba, en hún vildi ekki skipta.
Ég skilaði þessu að sjálfsögðu.
Á meðan við vorum í útsendingu voru þær hjá Töru. Þar hlustuðu þær á útvarpið hinar lukkulegustu.
Á morgun förum við svo allar niður í bæ, í sérstökum bolum með regnbogafána og áletruninni "Stolt fjölskylda"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
7.8.2008 | 15:25
Bahama
Systur tróðu upp í Flatey. Þær kunna textann við Bahama lagið með Ingó og veðurguðunum og það lag fylgdi okkur til Svíþjóðar og Danmerkur. Núna eru þær að færa sig yfir í ABBA.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.8.2008 | 00:19
Steikt
Fjölskyldan lætur sér ekki nægja að flengjast til útlanda í sumarfríinu. Aldeilis ekki.
Um daginn fórum við út í Flatey, drösluðum með okkur tjaldi og sváfum þar eina nótt. Nema milli kl. 4 og 6, þá sváfum við ekki neitt af því að unglingadýrin neðar á tjaldstæðinu voru í stuði. Systrum þótti það hins vegar frekar spennandi, pískruðust á í svefnpokunum, voru svo orðnar svangar klukkan hálf sex, fengu þá brauð og við steinsváfum allar frá 6 til 8.
Ég fer allt of hratt yfir sögu. Í Flatey hittum við Addý og Báru, sem höfðu tekið fyrsta bát um morguninn og voru sólbrenndar og sælar þegar við loks birtumst. Við nutum blíðunnar í Flatey með þeim og skildum þær svo lúnar eftir á hótelinu á meðan við gengum stóran hring, rannsökuðum fuglalíf og gamlan skipsskrokk í fjöru, fórum í kirkjuna og rákumst á kunningja í þrautum og leikjum úti á túni. Flatey er miklu yndislegri en ég hafði gert mér í hugarlund og ég ætla þangað aftur.
Við borðuðum á hótelinu um kvöldið og svo fylgdu Addý og Bára okkur á tjaldstæðið. Þar ákváðu systur að troða upp og fluttu Bahama-lagið frá upphafi til enda og dönsuðu frumsaminn dans með. Bára myndaði á meðan, en blessað póstforritið mitt leyfir mér ekki að opna myndirnar frá henni hérna heima. Skelli þeim inn á betri tölvu bráðum.
Frá Flatey fórum við yfir á Barðaströnd, ókum svo yfir í Arnarfjörðinn, út í Selárdal, til baka að Dynjanda og tjölduðum þar.
Áður en við lögðum í ferðina höfðum við keypt þetta fína ferðagrill. Ég hafði vit á að fara með hluta þess inn á bensínstöð, benda á viðeigandi stykki og segja: "Ég ætla að fá gaskút sem passar fyrir svona." Og fékk gaskút.
Við Dynjanda setti ég grillið saman og svo greip ég gaskútinn. Hann passaði auðvitað alls ekki á grillið.
Ég blótaði sjálfsörugga afgreiðslumanninum hjá Skeljungi við Vesturlandsveg í sand og ösku og sjálfri mér dálítið líka. Ég hefði nú alveg getað tekið lokið af kútnum við kaupin og athugað hvort þetta stæðist hjá manninum.
Alla vega, illt í efni og við svangar. Við gáfum upp á bátinn að grilla fína kjötið, en fengum að skella pulsum á grill hjá hjálpsömu fólki á tjaldstæðinu. Ég fékk lánað litla grillið þeirra, skrúfaði frá gasinu og baksaði svo við að ná loga. Verst að enginn var með vídeókameru, þá hefði verið hægt að taka upp fræðslumyndbandið "Hvað ber að varast þegar kveikt er í gasgrilli."
Ég bograði yfir grillinu og allt í einu kom VÚMP !!! Mér snögghitnaði í andliti, en enginn hiti var á grillinu. Ég skrúfaði aftur frá gasinu, beygði mig vel yfir grillið og rétti logandi bréf að því. Aftur kom VÚMP !!! og aftur snögghitnaði mér í framan. Ég gerði þetta einu sinni enn, gafst svo upp og kallaði í grilleigandann, sem reddaði þessu snarlega og hættulaust.
Við grilluðum pulsurnar og sem ég sat og strauk mér um andlit í sæluvímu eftir þá dásemdar gourmet-máltíð fann ég eitthvað undarlegt. Gat verið að ég væri með svona mikinn steiktan lauk á augabrúnunum? Eitthvað brúnt og hart hrundi af þeim þegar ég strauk þær.
Ég hallaði mér að Kötu og spurði: "Er eitthvað framan í mér?"
Kata hallaði sér að mér, horfði framan í mig og lak svo niður af hlátri, skreið á krampakenndan hátt að bílnum, dró fram spegil og rétti mér. Á því augnabliki reyndi hún að gefa frá sér eitthvað sem líktist samúðarandvarpi, en það kafnaði eiginlega alveg í hlátursrokunum.
Ég leit í spegilinn og nú var komið að mér að fá alvarlegt kast. Ég var ekki með steiktan lauk í augabrúnunum. Augabrýrnar voru steiktar. Og farnar.
Hártoppurinn var líka grunsamlega stuttur og þegar ég greip í hann hrundi hluti hans af. Dökkur, snarhrokkinn hluti, sem molnaði eins og steiktur laukur, rétt eins og augabrýrnar.
Það er algjör óþarfi að lýsa augnhárunum. Þau eru hvort sem er ekki þarna lengur, nema sem hugsuð lína.
Þannig er nú það.
Vara sig á gasgrillunum, gott fólk.
En mikið assgoti var gott að fá svona hressilegt hláturskast
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
6.8.2008 | 23:56
Auðugir landráðamenn
Það er stutt í sveitarómantíkina í okkur Íslendingum. Þeir sem búa á mölinni sjá starf bóndans oft í hillingum. Það hljóti að vera allra starfa göfugast að yrkja jörðina og sinna skepnum sínum og ekkert ægilegra en að búskapur leggist af þar sem jörðin hefur verið ræktuð mann fram af manni. Á hátíðarstundum er ýtt undir þetta í upphöfnum ræðum: Bóndi er bústólpi, bú er landstólpi, því skal hann virður vel, orti Jónas Hallgrímsson.
Aðrir eru raunsærri, án þess að á nokkurn hátt sé varpað rýrð á ágætt starf bænda. En sumir bændur taka því satt best að segja fagnandi að eygja möguleika á að selja jörð sína á viðunandi verði, í stað þess að þurfa að berjast í bökkum, bundnir í átthagafjötra. Sem er því miður hlutskipti æði margra. Rómantíkin verður nefnilega ekki í askana látin og það er hörkuvinna að stunda búskap.
Þótt sveitarómantíkin ætli okkur stundum lifandi að drepa er furðuleg sú árátta að bölsótast út í þá sem búa á mölinni og auðvitað sérstaklega þá sem hafa efnast á störfum sínum fjarri fjósum og fjárhúsum. Fari auðmenn út í sveit, banki upp á hjá bóndanum og bjóðist til að kaupa af honum jörðina, þá líta sumir á það sem hálfgerð drottinsvik. Fréttir eru sagðar af því að meira að segja forsvarsmenn bænda fái ekki að vera í friði á jörðum sínum fyrir ófyrirleitnum auðmönnum sem spyrji hvort þeir vilji selja.
Ja, svei! Ég á bágt með að koma auga á hvað er svo glæpsamlegt við hegðun auðmannanna. Ef þá langar að kaupa jörð er ekki nema sjálfsagt að þeir kanni hvort hún sé til sölu og hvað hún myndi kosta.
Ef bændur vilja selja, þá setja þeir upp það verð sem þeir vilja fá og ganga vonandi sáttir frá borði.
Annars segja þeir bara að þeir vilji ekki selja. Svo einfalt er það.
Trúir einhver því í raun og veru að ásókn auðmanna í jarðir sé stærsti vandi íslensks landbúnaðar?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2008 | 10:50
Nei takk, en takk samt!
Pistill í Mbl. 23. júlí
Stelpurnar eiga að ganga í stuttum bolum, svo skíni í bert. Og þær eiga að vera í þröngum og þunnum buxum við. Allar eru þær eins, þessar stelpur og því engin ástæða til annars en að hafa fatnaðinn við hæfi. Best að byrja sem fyrst. Bolur á 4-5 ára stelpu sem gefur skýra kynferðislega skírskotun? Alveg sjálfsagt mál!
Það er niðurdrepandi að fara í verslunarleiðangur að kaupa buxur á sjö ára systur. Þær eru búnar að gera göt á hnén á æfingabuxunum sem fylgdu Vals-gallanum í vor og tími til kominn að finna nýjar. Þær eiga eftir að fara út á sjó með afa sínum á Ísafirði, ganga á fjöllin fyrir vestan og leika sér í fjörunni. En það er engin ástæða til að fara í dýrar sérverslanir, svona buxur hljóta að vera í stöflum í stórmörkuðunum.
Annað kom á daginn. Í stelpudeildum stórverslana eru auðvitað buxur, en bara gallabuxur og svokallaðar leggings. Mjúkar, þunnar bómullarbuxur, sem eru ágætar til síns brúks og þær systur eiga nóg af, en gegna ekki sama hlutverki og íþróttabuxur sem hægt er að ólmast í, fara í fótbolta, detta á hnén, skríða undir girðingu, klifra upp í tré. Í stelpudeildunum eru aðallega glyðruleg, glitrandi föt á stelpurnar. Frá fjögurra ára aldri og upp úr. Fram að fjögurra ára aldri eru fötin nokkurn veginn eðlileg, þótt flest séu þau bleik.
Eru engar íþróttabuxur til? spurði ég afgreiðslukonuna undrandi og þótti merkilegur fjári ef allar væru uppseldar.
Jújú, íþróttabuxur voru vissulega til. Í strákadeildinni.
Auðvitað fást íþróttabuxur bara í strákadeildinni. Allir vita að það eru bara strákar sem hreyfa sig og ólmast af einhverri alvöru. Þetta hefði ég átt að geta sagt mér sjálf. En hélt bara í einhverri augnabliks brjálsemi, af því að stelpurnar mínar hreyfa sig oft og mikið, að þær gætu fengið íþróttabuxur á sig í stelpudeildinni. Þær eru ekki einu sinni einu stelpurnar á landinu sem vilja göslast um frjálsar og skítugar þegar svo ber undir.
Í strákadeildinni fengust passlegar íþróttabuxur. Svartar. Við fórum í næsta stórmarkað og þar var nákvæmlega sama uppi á teningnum. Engar íþróttabuxur í stelpudeildinni, en við fundum fínar buxur í strákadeildinni. Dökkbláar.
Systur eru alsælar í íþróttabuxunum sínum, önnur í bláum og hin í svörtum. Þeim finnst gott að vera í þægilegum buxum á fótboltaæfingu, í trampólínhoppi með vinunum, í njósnaferðum um hverfið, í dansi með vinkonunum, í tjaldútilegu með mömmum sínum og þegar þær fara út að hjóla.
Systur eru sjö ára börn, sem hafa sömu áhugamál og vel flest önnur sjö ára börn. Þær eru ekki ungar glyðrur og ég afþakka aðstoð stórverslana við að ala þær upp í því hlutverki. Eða eins og Margrét dóttir mín myndi orða það: Nei takk, en takk samt!"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
22.7.2008 | 15:04
Frí
Æfingin skapar meistarann og nú mokast myndir inn á síðuna, svei mér þá!
Krabbaveiðarnar í Gautaborg vöktu mikla lukku, svona oftast nær. Systrum varð stundum um og ó þegar krabbarnir komu of nálægt.
Í Gautaborg var veðrið með besta móti. Við fórum á ströndina þar sem var mjög aðgrunnt, óðum sjóinn langt út og fengum okkur svo nesti á eftir
Ellen og Agnes eiga risatrampólín í sínum garði, svo systur fengu engin fráhvarfseinkenni. Svo kom í ljós að þær frænkur eiga allar eins föt. Skemmtileg tilviljun
Ellen, Agnes, Elísabet og Margrét.
Frá Gautaborg tókum við ferju yfir til Danmerkur. Siglingin var enn eitt ævintýrið. Systur fengu að velja sér nammi um borð og völdu alls konar nammi-varaliti, hálsfestar og hringa. Svo stilltu þær sér upp, litlu skvísurnar
Og bættu svo mömmu inn á næstu mynd
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.7.2008 | 12:18
Í draugahöll
Gamla slottið, þar sem við gistum nyrst á Jótlandi, er morandi í draugum. Þeir sem ekki þeysa um landareignina á hestakerrum með hauslausa hesta fyrir eru á vappi inni á herbergjunum.
Maggi frændi sagði systrum frá draugaupplifun sinni um nóttina og þær voru yfir sig spenntar.
Svo fórum við í mikla rannsóknarleiðangra um höllina, um stóra og mikla sali og upp og niður hringstiga.
Um kvöldið borðuðum við fínan kvöldverð á veitingastað hótelsins. Þar voru og eru vínkjallarar, en koníaksstofan er í gömlu dýflissunni. Við létum alveg eiga sig að fara þangað. Systur voru í sínu fínasta pússi og alsælar.
Svo fór öll fjölskyldan líka alla leið út á Skagen og þá var nú ljúft og gott á ströndinni
Og sædýrasafnið, maður lifandi! Ég var næstum búin að gleyma því! Ef Kata væri ekki svona dugleg með myndavélina væri ég alveg glötuð!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Logalandið
Bloggvinir
- margretsverris
- begga
- annapala
- stebbifr
- andreaolafs
- sms
- seth
- salvor
- hrafnaspark
- svartfugl
- vitinn
- ingibjorgelsa
- konukind
- eddaagn
- konur
- thorbjorghelga
- elvabjork
- steinunnolina
- jullibrjans
- toshiki
- adhdblogg
- malacai
- arndisthor
- asarich
- baldvinjonsson
- berglindnanna
- beggita
- birna-dis
- birtab
- bjb
- blomid
- dabbaa
- doggpals
- madamhex
- saxi
- ellasprella
- garun
- gislihjalmar
- neytendatalsmadur
- gudni-is
- lucas
- gylfig
- iador
- helgamagg
- skjolid
- hildigunnurr
- hildurhelgas
- himmalingur
- hlekkur
- danjensen
- innipuki
- jakobk
- jenfo
- joninaros
- prakkarinn
- nonniblogg
- julianamagg
- kari-hardarson
- kiddijoi
- kollak
- hjolaferd
- kristinm
- lenapena
- liljabolla
- lillagud
- lindalinnet
- 101isafjordur
- mal214
- mongoqueen
- olinathorv
- fjola
- amman
- siggiholmar
- sij
- sigthora
- zsapper
- svala-svala
- possi
- saemi7
- saethorhelgi
- steinibriem
- thorasig
- thorhildurhelga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar