Sagan öll

Ósköp gengur treglega að koma þessari ferðasögu á blað!

Við fórum frá Legolandi og ókum til Köben. Maggi, Helene og stelpurnar óku rakleiðis yfir brúna til Malmö, en við familían fórum í hús Kristjáns bróður og Ernu í Köben. Því miður voru þau suður í Búlgaríu, en við nutum lífsins á þeirra kostnað. Takk fyrir það Wink

Í Köben hélt börnevenligt prógramm áfram. Við fórum í dýragarðinn og sáum alls konar framandi dýr. Apa, nashyrninga, gíraffa, sebradýr og fleiri og fleiri. Systur voru mjög hrifnar. En alsælar þegar þær komu að geitagirðingunni. Þar máttu þær klifra yfir og klappa öllum litlu kiðlingunum. Við stoppuðum þar lengi, lengi . . .

Þegar þær höfðu loks fengið nægju sína af kiðlingum fórum við að næstu girðingu. Þar settust þær á íslenska hesta, sem voru teymdir undir þeim nokkurn hring. Þá fannst okkur Kötu við nú hafa farið langt yfir skammt! Íslensku hestarnir voru toppurinn á danska dýragarðinum LoL

Við tókum auðvitað líka Tívólí með trompi. Þar mæltum við okkur mót við Hlédísi og Helgu Kristínu og vinkonurnar þrjár fóru í alls konar skemmtitæki. Margrét súr eins og venjulega að enginn vildi fara með henni í skelfilegustu rússíbanana. Hún er algjör ofurhugi í þessum tækjum. En við höfðum líka gaman af skotfimi, þar sem ég plaffaði miskunnarlaust niður skógarbirni og hitti í öllum tólf skotunum og systur nældu sér í bangsa með handboltatilþrifum, sem þær hafa erft í beinan kvenlegg.

Það er ekki nógu gott að bíða svona lengi með ferðasöguna. Ég man bara ekki meira!

En við tókum myndir:

krabbar

Systur fengu hjálp við krabbaveiðarnar. Maggi frændi var drjúgur liðsauki.

 

 


Ferðalag

Fjölskyldan kom heim úr góðu sumarfríi um helgina.

Við flugum til Gautaborgar, á réttum tíma með Iceland Express, merkilegt nokk. Komum þangað miðvikudaginn 2. júlí og vorum í góðu yfirlæti hjá Magga Kötubróður, Helene og stelpunum þeirra, Ellen og Agnesi. Systur og frænkur þeirra láta alltaf eins og þær hafi síðast sést í gær og aldrei koma upp nein vandamál í leik þótt tvær tali íslensku en hinar tvær beiti helst sænskunni. Ellen er samt öll að sækja í sig veðrið í íslenskunni og skilur hana nokkuð vel.

Stelpuskott skemmtu sér á trampólíni, sulluðu með stórum sápukúlusverðum sem Kata hafði keypt í Toyr'R'Us og dröslað með yfir hafið og fóru niður á bryggju að veiða krabba. Það var afar einföld veiði. Þvottaklemma var fest á snærisenda, svo fundum við bláskel, brutum hana upp, settum bita af fiskinum í klemmuna og létum hana síga niður í sjóinn. Krabbarnir eru svo gráðugir og vitlausir að þeir hanga á klemmunni á meðan einhvern mat er að fá og sleppa ekki þótt þeir séu dregnir á þurrt. Þeim var öllum safnað í fötu en þegar veiðimennirnir voru búnir að fá nóg hvolfdum við fötunni í fjörunni og þá upphófst æðisgengið krabbakapphlaup út í sjó.

Við vorum hjá Magga og Helene fram á laugardagsmorgun, en þá fórum við öll í ferju yfir til Danmerkur. Þau á sínum bíl og við á bílaleigubíl. Við þræddum svo Danmörku, byrjuðum á Skagen og gistum þar á notalegri krá, héldum svo áfram og gistum í glæsilegri höll rétt norðan við Álaborg, þaðan lá leiðin í suður að Billund, þar sem við gistum á býli hjá Íslendingunum Bjarna og Bryndísi og loks fórum við Kata og stelpurnar til Köben, en Maggi og co óku yfir til Svíþjóðar aftur.

Ferðin var frábær og systur léku við hvern sinn fingur. Þeim fannst stórkostlegast að gista í höllinni. Þar fengum við stórt herbergi, með rauðum og logagylltum plusshúsgögnum, sem þeim fannst auðvitað afskaplega konunglegt. Svo fórum við í mikla rannsóknarleiðangra um alla höll og þær bönkuðu á alla veggi, alltaf sannfærðar um að nú hefðu þær fundið leynigöng.

Um kvöldið fórum við öll í gönguferð um hallargarðinn. Margrét varð óð af kæti þegar hún náði nokkrum litlum froskum, en lét nú vera að kyssa þá. Ellen stóra frænka kyssti tvo, en hvorugur reyndist prins.

Við létum vera að segja þeim sögur af draugagangi í höllinni þar til morguninn eftir. Þarna voru auðvitað alls konar draugar. Einn þeysti um á kerru sem dregin var af hauslausum hestum, en aðrir vöppuðu um ganga hallarinnar. Maggi frændi lenti í hremmingum þegar hann brá sér út úr rúminu um nóttina, því rétt á meðan var koddinn hans færður til fóta. Og Kata sagði systrum að hún hefði þurft að snúa aukarúminu í herberginu um morguninn, af því að einhver ærsladraugurinn hafði fært það til um nóttina.

Þær voru stóreygar og nokkuð nervusar fram undir hádegi. En þá fóru þær í sundlaugina, sem áður var ráðsmannshúsið við hallarsíkið og náðu úr sér hrollinum.

Frá höllinni ókum við til Álaborgar, þvældumst þar aðeins um og héldum svo áfram á býli Bjarna og Bryndísar við Billund. Þar er ekki hefðbundinn búskapur, enda öll skot full af ferðalöngum, en þó voru þar nokkrar geitur sem vöktu mikla lukku. Bjarni leyfði stelpunum oft að gefa geitunum brauð og það var alltaf jafn gaman.

Legoland var tekið með stæl allan þriðjudaginn 8. júlí. Við örkuðum einbeitt framhjá litlu Lego-bæjunum og byrjuðum á leiktækjunum. Þegar við vorum búin að fá okkur fullsödd af þeim var notalegt að skoða pínulitla Lego-heiminn. Systur tóku andköf yfir þessu öllu saman. Skipastiginn, þar sem pínulítill bátur fór upp og niður, vakti mikla lukku. Og þegar sendibíll, á lengd við framhandlegg þeirra og kyrfilega merktur Toys'R'Us stöðvaði við litla vindubrú og beið þess að komast yfir laumuðust þær til að pota ofurvarlega í hann og fannst það stórkostlegt.

Á meðan við vorum í Legolandi gerði nokkrum sinnum mikið úrhelli. Það stóð afskaplega stutt hverju sinni, svo við gátum bara hlaupið í skjól. Kosturinn við þetta var, að garðurinn var ekki troðinn af fólki, svo við losnuðum við biðraðir og leiðindi.

Þegar við ákváðum að nóg væri komið voru meira að segja systur orðnar mettar á Legolandi í bili.

Um kvöldið fórum við á litla krá í miðri sveitinni að fá okkur að borða. Krána reka eldri hjón, sem eitt sinn ráku hótel en ákváðu að minnka við sig. Bjarni hafði til allrar hamingju varað okkur við frúnni, sem sér um að þjóna til borðs á meðan maður hennar eldar. Hún leggur afskaplega hart að fólki að velja einn rétt og hafa þetta sem einfaldast. "Hlustið ekkert á hana," sagði Bjarni. "Maturinn er fínn og þetta er bara í nösunum á henni."

Þegar við mættum öll átta á krána byrjaði frúin á að mæla með þremur réttum, en bætti svo við að best væri ef við pöntuðum öll það sama. Við bitum á jaxlinn, ég og Helene pöntuðum það sama og Maggi og Kata annan rétt. Frúin varð hin pirraðasta. "Ég get ekki garanterað gæðin á matnum þegar svona flókin pöntun kemur og þið gerið ykkur grein fyrir að þið verðið að bíða töluvert lengur heldur en ef þið hefðuð öll pantað það sama!" hreytti hún út úr sér. Hún gerði samt engar athugasemdir við ólíkar pantanir krílanna, nennti ekkert að vera ókurteis við svoleiðis stýri.

Maturinn kom fljótt og vel. Frúin mildaðist öll þegar leið á kvöldið og þegar við hrósuðum heimatilbúna ísnum hennar í hástert var hún orðin hin alúðlegasta. Krúttleg upplifun, en hefði áreiðanlega verið pirrandi ef Bjarni hefði ekki verið búinn að vara okkur við.

Svei mér þá, ferðasagan rétt hálfnuð og ég nenni ekki að skrifa meira í bili. Verð að færa restina til bókar síðar. Og Kata myndasmiður lætur mig fá eitthvað til að skreyta með.


Á flótta

Elísabet kom til mín með bréf frá systur sinni. Grafalvarleg. Eða reyndi a.m.k. að vera það.

Í bréfinu stóð:

"Elsku Dalla.

Þú veist að ég elska þig mjög mikið. en ég hef ákveðið að flýa héðann

Kær hveðja

Margrét!"

Við Kata hlupum auðvitað um húsið í dauðans angist. Nema hvað. Og fundum flóttamanninn í hláturskasti á bakvið stofusófa. Með svefnpokann sinn með sér, enda á flótta.


Tækni og vísindi

Margrét er fluglæs og mjög dugleg að stafa allt sem henni dettur í hug.

Elísabet er að verða ágætlega læs, en hún skilur ekki hvernig Margrét getur romsað upp úr sér endalaust þegar hún stafar.

Sem við ókum um Danmörku í síðustu viku lagði Elísabet mörg og þung próf fyrir systur sína. "Stafaðu VIÐ ERUM TVÍBURASYSTUR OG HEITUM MARGRÉT OG ELÍSABET," sagði hún.

Og Margrét bunaði út úr sér: V-I-Ð E-R-U-M T-V-Í-B-U-R-A-S-Y-S-T-U-R o.s.frv. og sló aldrei feilpúst.

Elísabet prófaði. Aftur og aftur. Langar og flóknar setningar.

Loks gafst hún upp. Og sagði með mikilli aðdáun: "Vá, Margrét, þú ert eins og tæknidót!"

 


Skvamp!

Viðburðarík helgi, þessi!

Við tókum saman dótið okkar á laugardagsmorgni og brunuðum upp í Skorradal. Þar var Bryndís systir búin að ná saman barnabörnunum sínum fjórum, sem öll búa í Svíþjóð. Kristín elst, svo Ívar, bæði Gunnhildarbörn og litlu skottin Salka og Sísí, Sverrisdætur.

Við tróðum okkur út hjá Bryndísi og héldum svo áfram ferðinni í Húsafell. Þar var Knútur Kötubróðir í sumarbústað með krakkana, Ölmu Karen og Daníel. Ungarnir fóru í vatnsbyssuslag og í heita pottinn, en "sumir" grjótsofnuðu í stofusófanum á meðan systkinin spjölluðu.

Við Kata fórum með systur og Daníel niður að á þar sem hún breiðir úr sér. "Komdu að fleyta kellingar" sagði ég við Margréti, sem kom hlaupandi og kallaði: "Hvar eru sætir kettlingar??!" Hún var ekki ánægð þegar hún uppgötvaði að sér hefði misheyrst. En svo fann hún marga flata steina og þeytti út á vatnið.

Kata sagðist ekki kunna þetta og Margrét tók að sér að kenna henni. Kom svo stolt til mín og sagði að mamma hennar væri búin að ná tökum á þessu. "Ég gaf henni sjálfstraust."

Það munar um minna.

Ég stiklaði um steina með Elísabetu, sem var mjög spennt yfir hættunum við hvert fótmál. Svo fékk ég þá snilldarhugmynd að draga myndarlega fjöl upp úr vatninu og leggja á milli steina. Hin fínasta brú. Ég ákvað að fara fyrst yfir. Og rann beint út af glerhálli brúnni. Þar sem ég stóð og hristi bleytuna úr hægri strigaskó og reyndi að vinda skálmina, um leið og ég bölvaði því að hafa ekki tekið með mér aukabuxur, ákvað Elísabet að reyna sig við brúna. Og rann líka út í! Hún var miklu lukkulegri en ég.

Við ókum í bæinn upp úr hádegi í dag og fengum svo Bryndísarkrakka og þeirra krakka í heimsókn á pallinn. Þá sannaðist enn, að þótt kuldi og norðanátt ríki annars staðar er Fossvogurinn undanskilinn.

Systur eru í fríi á morgun, en hafa auðvitað í nógu að snúast. Þær þurfa að þvælast aðeins með mér, fara í heimsókn og heilsa upp á afa og ömmu, svo fátt eitt sé nefnt.


Dauður!

Pistill í Mbl. 23/6 

Hvítabirnir, líf þeirra og dauði voru helsta umfjöllunarefnið á heimilinu dögum saman. Sjö ára systur, Elísabet og Margrét, vildu fá að vita allt um málavöxtu. Hvaðan komu þeir? Voru þetta mömmur? Pabbar? Lítil hvítabjarnarbörn?

Þeim fannst súrt í broti þegar sá fyrri lá dauður, en þann dauðdaga bar þó svo brátt að, að hvorug varð sérstaklega miður sín. Þær höfðu hins vegar nægan tíma til að fylgjast með þeim síðari.

Á laugardag voru þær úti í garði að leika með vinkonum sínum, Töru og Unni. Ég var að bauka við að mála kofann þeirra og fylgdist með samræðunum með öðru eyranu. Allt í einu heyrði ég Elísabetu lýsa því yfir, að hún ætlaði að skjóta ísbjörninn. Hún stökk inn eftir boga og örvum. „Merkilegt hversu fús hún er að skjóta hann, eftir allar Disney-legu vangavelturnar undanfarið," hugsaði ég með mér.

Elísabet kom æðandi út og sveiflaði boganum sigri hrósandi og Margrét mundaði sömu vopn. Um leið kallaði Tara: „Ég er með svæfingarlyfin!"

Hún hefur greinilega fylgst með fréttunum eins og systurnar.

Elísabet og Margrét hurfu fyrir húshorn að skjóta hvítabjörninn með svæfingarlyfinu, Unnur og Tara laumuðust á eftir. Ég hélt að málið væri úr sögunni. Nokkrum mínútum síðar komu vinkonurnar fjórar stynjandi og másandi og báru á milli sín þungt teppi. „Við verðum að setja ísbjörninn þarna, af því að hann er dauður," tilkynnti Unnur, um leið og hún mjakaði hópnum á enda pallsins.

„Dauður? Er hann dauður?" argaði ég innan úr kofanum þeirra. „Voruð þið ekki bara að svæfa hann?"

„Elísabet og Margrét svæfðu hann og svo dreptum við Unnur hann með hníf," tilkynnti Tara stolt.

Þær ákváðu að borða hvítabjörninn og settust að snæðingi allar fjórar. Með hvítabirninum dauða hafði fylgt lítill húnn, sem þær höfðu ákveðið að þyrma og buðu nú til borðhalds með sér. „En við getum ekki gefið honum ísbjörn að borða. Það borðar enginn mömmu sína," sagði Elísabet. Enginn gat mótmælt þeim rökum.

Eftir hvítabjarnarát, þar sem súkkulaðisnúður lék hlutverk kjöts, fóru þær aftur á veiðar. Silungur, lax, krókódíll, hvalur og dreki lágu í valnum.

Þær systur horfðu einu sinni á myndina um Bamba. Þegar mamma hans Bamba var skotin voru þær sallarólegar. Síðar í myndinni horfir Bambi litli dapur í bragði yfir að búðum veiðimannanna. Reykur liðast upp. Margrét sneri sér að mér og spurði: „Eru þeir núna að sjóða mömmuna?"

Ég hélt engar ræður um hvítabjarnardráp eða hvalveiðar. Ekki frekar en ég gerði athugasemd við einlæga spurninguna um mömmu hans Bamba. Pólitísk rétthugsun er svo fjári leiðinleg að það er best að fresta henni sem lengst.


Ein-eitthvað

Tvíburastelpa getur alveg ruglast þegar fólk er sífellt að tala um eineggja og tvíeggja. Margrét skilur ekki alveg þessar vangaveltur og í kvöld kom í ljós að hún hélt að fólk væri að tala um allt annað.

Hún sagði mér að vinkona hennar ætti engin systkini.

"Hún er sko eineggja."

"Meinarðu kannski einkabarn?"

"Já. Eineggja."


Fordrykkur

Föstudagskvöld og blessað sunnudagsblaðið alveg að komast á koppinn. Ég hef ekkert betra að gera á föstudagskvöldi. Ónei.

Kata situr heima á palli og sleikir sólina. Er að fara að grilla, en lofaði að skilja eftir borgara á grillinu fyrir mig. Mér líst nú ekki nema í meðallagi vel á það. Held hann verði orðinn heldur lúinn seinna í kvöld.

Ég fyllti á litla samviskubætandi Ford-bílinn í gær. Rúmlega 30 lítrar kostuðu mig bara 3000 krónur, en ekki 5200 krónur, eins og minni spámenn þurfa að borga.  Af því að Brimborg er með "bensínverðvernd" og tryggir mér 1500 lítra á 99 kr. pr lítra. Þessi bíll verður sífellt betri kaup, svei mér þá.

Ég ætlaði að keyra hann ofurvarlega, til að spara sem mest bensín. Núna rykki ég af stað á ljósum ef mér sýnist svo. Það er svokallaður Ford-rykkur, eins og ákveðinn fyrirsagnasmiður benti á. Bíllinn heitir hér eftir Fordrykkurinn.

Alkóhólfrír. 


Sautjándinn

Loksins er sumarið komið fyrir alvöru! Systur eru útiteknar, enda í íþróttaskóla Víkings alla daga. Þegar honum lýkur fara þær beint heim í garð, hoppa á trampólíni og fara í heita pottinn.

17. júní var svo mikil blíða að við ákváðum að borða síðbúinn morgunmat úti í garði. Þær vildu nú samt almennilegan morgunmat, svo þær fengu klatta og meðlæti. Mikil lukka. Eftir hádegi fórum við í bæinn, lögðum við Háskólann og gengum í Hljómskálagarðinn. Við náðum að ganga síðustu metrana með skrúðgöngunni frá Hagatorgi.

Eins og alltaf á sautjándanum vildu þær "bleikt búðingsský". Þetta heiti á candy floss hefur fylgt þeim frá því að þær voru agnarsmáar og horfðu á Stubbana. Í einum þættinum var ryksugan og heimilishjálpin Núnú að þrífa upp bleikan búðing, sem Stubbarnir höfðu misst niður. Svo laumuðust nokkur ský inn í Stubbahúsið og Núnú þreif þau líka upp. Henni varð að vonum bumbult af blöndunni og út komu bleik búðingsský. Þegar systur brögðuðu á bleiku candy flossi í fyrsta skipti voru þær auðvitað sannfærðar um að þar hefðu þær fundið bleik búðingsský eins og í Stubbaþættinum.

Við gengum eftir Lækjargötu í strekkingsvindi á meðan þær kláruðu búðingsskýin. Eftir stutt innlit í Iðu röltum við sömu leið til baka og núna voru systur með risastóra sleikjóa.

Þegar við komum aftur í Hljómskálagarðinn stungum við Kata upp á að þær færu í stóran og myndarlegan hoppukastala, minnugar þess hvað þeim fannst það ótrúlega gaman í fyrra. Biðröðin var löng og við sáum fram á að þurfa að bíða mjög lengi, en við Kata ætluðum að láta okkur hafa það. Systur mótmæltu hins vegar hástöfum og spurðu hvort þær mættu ekki bara fara heim. Við samþykktum það auðvitað.

Þegar við gengum í bílinn trúði Margrét okkur fyrir að hún hefði ákveðið að fara ekki í hoppukastalann "af því að ég man ekki alveg hvað það var gaman og ég vil ekki kjafta frá áður en ég fer í Legoland."

Hún var sem sagt að treina sér skemmtunina þar til við förum til Danmerkur seinna í sumar.

Í garðinum heima var enginn strekkingsvindur, bara koppalogn og sól. Við stoppuðum þó stutt, en fórum í heimsókn til Knúts frænda og krakkanna. Og svo aftur heim, enda áttum við von á Hlédísi í næturgistingu.

Það urðu miklir fagnaðarfundir þegar Hlédís kom. Þær þrjár fóru auðvitað á trampólínið og í alls konar stúss í litla kofanum, ásamt Töru, Brynju og litla bróður hennar.

Við grilluðum, vinkonurnar tróðu sig út -og fóru svo beint á trampólínið aftur. Úff, ég varð nú eiginlega að snúa mér undan þá! Hvernig geta þessi kríli hoppað og skoppað svona eftir matinn?

Heiti potturinn, sturta, teiknimynd.... og samfelldar hrotur úr þremur rúmum.

Góður dagur.


Barnalegur leikur

Systur voru ekki búnar að fá nóg af boltanum, þrátt fyrir heilan dag í íþróttaskóla Víkings, svo við mæðgurnar skelltum okkur á leik Vals og KR. Tara kom með, en stökk fyrst heim til sín og losaði sig við Víkingstreyjuna Smile

Við sátum tveimur bekkjum ofan við trommugengi Vals og vorum alveg að ærast. En þarna var allt stuðið. Systur öskruðu sig hásar og voru afskaplega hamingjusamar þegar Rakel þjálfari þeirra kom inn á og enn hamingjusamari með lokatölurnar. 2:1 fyrir Val.

Þær hlustuðu á allt sem sagt var í kringum þær allan leikinn. Þegar við vorum á heimleið hringdi Kata og Elísabet sagði henni frá leiknum. Hún hafði greinilega tekið allra best eftir nauðaómerkilegu atviki í fyrri hálfleik, þar sem Valsari felldi KR-ing og dæmd var aukaspyrna. Hún var andstutt af hneykslan þegar hún rakti þetta fyrir mömmu sinni. "Valsarinn kom sko ekki við hana! Hún bara datt alveg sjálf og viljandi. Þetta var bara barnaskapur. Barnaskapur, mamma!"

Leikaraskapur, barnaskapur. Það skiptir ekki öllu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband