10.6.2008 | 23:48
Amen á eftir ... súkkulaðinu
Systur eru komnar í sumarfrí. Þeirra frí er dálítið frábrugðið því fríi sem ég myndi kjósa mér. Ég myndi ekki vakna snemma á morgnana til að æða í Víkingsheimilið, hamast þar í alls konar boltaleikjum allan daginn, koma heim, hoppa á trampólíni, fara í heita pottinn og í háttinn seint og síðar meir. Ég myndi vakna, ekki snemma, vera heima, fara í heita pottinn og í háttinn seint og síðar meir. En þær eru alsælar. Þeim fannst að vísu heldur undarlegt að ég skyldi gera mér ferð til þeirra um miðjan dag í gær til að fara með þær á fótboltaæfingu hjá Val, enda höfðu þær þá spilað fótbolta í fjóra klukkutíma. En þær fóru nú samt og það var gaman, eins og alltaf.
Í dag sótti Thelma Törumamma gengið og dekraði við þær með pizzum og leikjum. Þær sömdu mjög fína dansa, sem þær sýndu mér þegar ég kom heim. Svo fóru þær á trampólínið ásamt Brynju Törufrænku. Marta María slóst í hópinn og fór í fótabað í heita pottinum, en þær hinar í sundföt og ofan í pottinn. Ólafur bekkjarfélagi þeirra var í stuði á trampólíninu allan tímann.
Þegar Brynja var sótt fóru systur og Tara í sturtu með tilheyrandi hrópum, köllum og skvettum.
Rétt áður en þær fóru að sofa gaf ég systrum tvo súkkulaðipeninga sem Kolbrún á Mogga hafði nestað mig með fyrir þær. Hún er mikil vinkona þeirra. Þær voru mjög glaðar að fá slíka sendingu. Margrét sagði að ég yrði að skila kveðju til Kollu. Og kveðjan var svona: "Takk kærlega fyrir súkkulaðið. Þú ert besta Kolla. Amen."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.6.2008 | 21:57
Góð leti
Stundum er fólk að býsnast yfir hvernig bloggarar geti staðið í því að setja færslur inn alla daga. "Þarf þetta fólk ekkert að vinna?!" er spurt í vandlætingartóni.
Einu sinni bloggaði ég og vann.
Núna blogga ég eða vinn.
Síðasta vika var fyrsta vikan í nýju Moggavinnunni og það var eins og við manninn mælt: Sú gamla hætti bara alveg að blogga.
Ýmislegt afrekaði ég annað en að byrja í nýrri vinnu. Við Kata settum trampólínið saman í garðinum og síðan hafa verið skoppandi börn fyrir utan gluggann. Svo skrapp Kata til Svíþjóðar í tvo daga, sem var mjög heppilegt, því þá var ég einmitt að byrja í vinnunni og þurfti að hafa bílinn. Á miðvikudeginum var þetta strax klúður, Kata þurfti að fara í ráðuneytið og ég upp að Rauðavatni. Við ræddum þetta yfir morgunkaffinu. Ég hefði getað skutlað henni, ef hún hefði svo komið í hádeginu og látið mig fá bílinn af því að þá gat ég skutlað stelpunum í fótboltann seinni partinn en svo þurfti ég að fara strax í vinnuna aftur og þá þurfti hún bílinn svo hún gæti sótt stelpurnar, en svo varð ég líka að koma tímanlega heim af því að hún varð að fara á fund....
Niðurstaðan? Kata skutlaði mér á bílaleigu. Ég tók ódýrustu tíkina á leigu og notaði hádegið þann dag til að kaupa mér bíl.
Það voru ákaflega yfirveguð kaup. Ég gekk inn í Brimborg og sagði við elskulegan sölumanninn hann Valmund: "Ég ætla að fá að skoða hjá þér minnsta Citroen sem þú átt."
"Alveg guðvelkomið," sagði hann, "en Citroen verslunin okkar er hérna hinum megin við götuna."
Ég (hugs-hugs: Á ég að ganga héðan út, yfir götuna og inn í annað hús þar? Eru engin takmörk fyrir stressi í þessari fyrstu vinnuviku? Hver vissi að Brimborg væri á tveimur stöðum við sömu götu??)
Svo komst ég að niðurstöðu: "Jahá, hinum megin við götuna segirðu! En ert þú ekki með neinn smábíl í þessu húsi?"
Eftir að hann hafði tilnefnt mig til heiðursverðlauna hinna ofur-lötu benti hann mér á lítið, hnöttótt kríli uppi á palli og sagði að þennan Ford Ka gæti ég fengið á fínu verði.
Ég ætlaði auðvitað ekki að æða út í neina vitleysu, svo ég ákvað að spyrja nokkurra vel valinna spurninga um gírkassann, blöndunginn og allt það allra nauðsynlegasta af tæknibúnaði. Eina sem kom út úr mér var: "Í hvaða lit áttu hann?"
Ég veit, ég veit!!! Þetta er samt ekki af því að ég sé svo konótt að ég geti ekki hugsað hálfa hugsun um bíla. Ég var bara dálítið að flýta mér. Pínu stressuð og þurfti bíl fljótt.
Eftir að ég fékk litla Ka-krúttið mitt í hendur uppgötvaði ég hvað hann er nú stórfínn. Þetta er olíukreppu-bíllinn minn, sem samviskujafnar fyrir dísel-hlunkinn sem Kata siglir einbeitt á um göturnar, eins og hún ætli einmitt núna að skreppa upp á Hvannadalshnjúk.
Mæli með Ford Ka! Eða pínulitlum Citroen fyrir þá sem ramba á það hús fyrst.
Stundum er leti af hinu góða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
1.6.2008 | 00:39
Kellingar
Við Kata skelltum okkur á Tengslanetsráðstefnuna hennar Dr. Herdísar á Bifröst í vikunni. Ég varð að mæta þar, af því að Herdís hafði vit á að hringja í mig upp úr kl. 7 morgunn einn fyrir margt löngu og þá þótti mér ekkert tiltökumál að samþykkja að flytja þar erindi. Ég gerði það líka 2004, að mig minnir, en þá ók ég uppeftir, talaði og ók heim. Voða sósíal.
Núna ákváðum við Kata að gera almennilega ferð úr þessu, fórum uppeftir á fimmtudeginum og vorum fram á föstudagssíðdegi. Konurnar voru allar búnar að ganga á Grábrók og horfnar inn með Hreðavatni í dinner og djamm þegar við komum uppeftir, en við húkkuðum far með vínsendibílnum og komumst á leiðarenda.
Þetta var mjög gaman. Ótrúlega margar konur úr öllum áttum og allar í feiknagóðu samkvæmisformi.
Á föstudeginum voru konur merkilega borubrattar og þá hófst sjálf ráðstefnan. Dr. Herdís hafði fengið fína gesti, Judith Resnik fannst mér sérlega áhugaverð. Hún fjallaði mikið um konur og dómstóla, hvernig dómarar í Bandaríkjunum hefðu systematískt pælt í hvernig þeir tækju á málum þar sem konur kæmu við sögu o.fl. Svo hefur hún töluverðar áhyggjur af þeirri þróun að mál eru í síauknum mæli leyst með alls konar gerðardómum, en niðurstöðurnar eru ekki opinberar og því missa fræðimenn eins og hún yfirsýn yfir afgreiðslu mála.
Fyrirlesarar voru margir. Lögfræðingar og dómarar, bankastarfsmenn og kúabændur, pólitíkusar og forstjórar, fræðimenn og fjölmiðlamenn. Allir þessir menn voru kvenmenn.
Sumir fyrirlesarar gengu alveg fram af fólki, eins og kellingin sem lét allar hinar kyrja vögguvísur um miðjan dag. Hún var dálítið undarleg, sú. En konurnar kunnu sig og klöppuðu samt.
Við Kata misstum af síðasta pallborðinu af því að klukkan var komin langt fram yfir skólatíma og þótt systur væru í góðu yfirlæti hjá Thelmu Törumömmu fannst okkur nóg komið. Kata þurfti líka að mæta í opinberan dinner um kvöldið, svo okkur var ekki til setunnar boðið.
Systur voru svo sannarlega í góðu yfirlæti. Þær höfðu farið með Thelmu og Töru í verslunarleiðangur og voru auðvitað leystar út með gjöfum. Þegar ég sótti þær fylgdi Tara að sjálfsögðu með. Kata fór í dinnerinn og ég ákvað að kaupa takkaskó á systur, enda fótboltamót á grasvelli í dag. Auðvitað var ég allt of sein til að ná í almennilegar búðir. Þá fór ég með gengið á McDonalds, sem vakti mikla lukku.
Í dag var fótboltamótið, á Tungubökkum í Mosfellsbæ. Klukkan 10 vorum við mæðgur mættar í íþróttabúð og réttu skórnir fundust. Afturelding vann fyrsta leikinn, Valur vann Víking í næsta leik, en FH valtaði yfir Valsara í þeim þriðja. Á þessu móti fengu hins vegar allir medalíu. Systrum fannst þetta samt heldur súrt í broti. Valur vann nefnilega alla sína leiki á mótinu um síðustu helgi, en þá var það bara svona "gúddí" mót og engin verðlaun. "Við hefðum örugglega fengið BIKAR ef það hefðu verið verðlaun," sagði Elísabet sármóðguð.
Það var töluverð sárabót að komast að því að Rakel þjálfari, sem spilar með meistaraflokk Vals, á nákvæmlega eins takkaskó.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
28.5.2008 | 16:02
Mistök
"Vegna tæknilegra mistaka serbneska sjónvarpsins" getur RÚV ekki sent beint út frá leik kvennalandsliðsins okkar í fótbolta við Serbíu.
Af hverju læðist að mér sá grunur að þessu hefði verið reddað ef arfaslakt karlalandsliðið hefði átt í hlut?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
27.5.2008 | 21:29
Merkar konur
Margrét var komin upp í rúm og kúrði sig undir sæng. Sagði svo: "Einu sinni sá ég bíómynd og stelpan í myndinni átti bók um allar frægustu konur í heimi. Get ég fengið svoleiðis bók?"
Ég sagðist ætla að athuga málið, vissi ekki hvort slík bók væri til á íslensku.
"Ef hún er ekki til þá geri ég hana bara sjálf og ég ætla að hafa Rosu Parks og Astrid Lindgren í henni."
Astrid er auðvitað æðst allra. Og Rosu Parks hefur Margrét verið með á heilanum frá því að konan dó og í fréttum var rifjað upp hversu hugrökk hún var þegar hún neitaði að færa sig í strætónum og setjast í sæti sem ætlað var svörtum.
Svo spurði Margrét mig hverjar kæmu fleiri til greina. "Kannski Sigga?" spurði hún og var þar að vísa til vinkonu og virðulegs saksóknara. Margréti finnst nefnilega ansi merkilegt djobb að koma "vondu köllunum" í fangelsi.
Fyrir utan Rosu Parks, Astrid Lindgren og Sigríði saksóknara sættist Margrét á Marie Curie. Hún ætlar að bæta við listann á morgun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.5.2008 | 20:40
Stressandi
Sumarið er hlaupið í systur og þeim halda engin bönd. VIð leyfðum þeim að hjóla hér í nágrenninu með Töru eftir kvöldmatinn, en sögðum að þær ættu að koma heim kl. hálf níu. Það fannst þeim frábært, þessum ormum sem yfirleitt eru komnir í rúmið á þeim tíma.
Kata lét Margréti fá úr og sagði henni að koma inn þegar stóri vísirinn væri kominn niður á 6.
Margrét kom inn 20 mínútur yfir 8. "Ég er svo stressuð af því að stóri vísirinn er alveg að koma á 6 að ég skemmti mér alls ekkert!"
Kata stóðst þetta ekki og sagði henni að þær mættu vera lengur, við yrðum ekkert reiðar þótt þær færu aðeins fram yfir tímann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.5.2008 | 20:14
Óþægilegir ávextir
Kata var að tæma nestisbox systranna áðan. Í báðum var bananahýði og kiwihýði. Í boxinu hennar Elísabetar var að auki samanbrotinn miði.
Utan á miðanum stóð: TIL MÖMU MÍNA OPNAÐU ÞETA.
Kata fletti miðanum í sundur og þar stóð:
HÆ ÞETA ER ELÍSABET
MIG LÁKAR EKKI AÐ FÁ AFTUR BANNANA OG KÍVÍ Í NESTI
BÆ KVEÐJA ELÍSABET
KOS OG KNÚS ELÍSABET
Þær systur voru hjá Töru, en þegar þær komu heim var ég með miðann.
"Ertu búin að lesa þetta?" spurði Elísabet.
"Já," svaraði ég, "en af hverju viltu ekki fá banana og kiwi í nesti oftar?"
"Æ, það er svo óþægilegt. Ég þurfti að fá gulrót hjá Mörtu Maríu."
"Hvað áttu við með óþægilegt?" spurði ég.
"ÓÞÆGILEGT," svaraði hún hægt og skýrt. "Ég var að segja það, ég þurfti að fá gulrót hjá Mörtu Maríu."
Samt hafði hún klárað bananann og næstum allt kiwiið.
Það hlýtur að hafa verið óþægilegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.5.2008 | 10:09
Sumarpest
Eftir hádegi í gær helltist yfir mig vanlíðan, klukkan fimm skalf ég og titraði, flýtti mér heim, beint undir sæng og grjótsvaf í þrjá tíma.
Hávaðinn í systrum og vinum þeirra fyrir utan gluggann hafði engin áhrif á mig. Þær voru á trampólíninu ásamt Töru, Erni Steinari og litlu systur hans, Kára og einhverjum fleiri, held ég. Stundum var einn að hoppa, stundum fleiri, svo settust þau af og til og röbbuðu saman um daginn og veginn, þessi krútt. Þetta hef ég eftir áreiðanlegum heimildum, því ég svaf allt fjörið af mér. En mikið er gott að eiga trampólín.
Ég svaf líka af mér kvöldmatinn. Kata gaf systrum og Töru draumakvöldmat 7 ára kríla, samtíning af alls konar gúmmelaði. Grillaða ostasamloku, jógúrt, vínber, banana og áreiðanlega eitthvað fleira. Merkilegt hvað þeim systrum finnst gott að fá slíka máltíð, þeim finnst það eiginlega miklu betra en "hefðbundin" heit máltíð.
Í morgun ætluðu beinverkirnir mig lifandi að drepa og nú verð ég víst að skríða aftur upp í rúm. Hvað á nú að þýða að fá einhverja bölvaða pest loksins þegar farið er að sumra almennilega?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.5.2008 | 23:55
Ekkert nema sigur!
Systur kepptu á fyrsta fótboltamóti sumarsins í dag. Mótið, Reykjavíkurmótið, var haldið í Egilshöll. Fyrir réttu ári mættu systur þar á fyrsta fótboltamót ævinnar og voru svekktar, töpuðu hverjum einasta leik. Elísabet var sérstaklega spæld og ætlaði að hætta æfa. Í dag unnu þær alla leiki og ætla sko EKKI að hætta í fótbolta
Við ætluðum varla að tíma að fara á mótið þegar blessuð blíðan brast á. Systur fengu að gista hjá Mörtu Maríu á nr 2 eftir Eurovision-partý og við Kata vorum komnar snemma út í góða veðrið. Kata snurfusaði garðhúsgögnin, bar olíu á sólbekki og borð og ég skolaði mesta skítinn af bílnum. Svo fór hún með þær í fótboltann á meðan ég gerði risainnkaup í Bónus (ætla að geyma kassastrimilinn og kíkja á hann við næstu risainnkaup, ég er að reyna að verða meðvitaður neytandi).
Eftir boltann byrjaði fjörið. Systur fengu vinkonur í heimsókn í garðinn og við Kata vorum óspart hvattar áfram á meðan við komum trampólíninu upp. Við vorum að leggja lokahönd á öryggisnetið þegar við áttuðum okkur á smá mistökum og vorum korter að laga það. Þetta féll í afar grýttan jarðveg, stelpurnar voru komnar úr skónum og alveg tilbúnar að hoppa og skoppa. Loksins, loksins tókst þetta og hvílík hamingja! Þær skoppuðu næstu tvo tímana, svei mér þá.
Auðvitað grilluðum við í góða veðrinu, en við vorum nú orðnar svo seinar fyrir að það var orðið of kalt að borða úti, systrum til mikillar mæðu.
Þær fóru í heitt bað og á meðan Elísabet var í baði knúsaði ég Margréti. Hún þakkaði enn og aftur fyrir trampólínið. Alveg frábærast í öllum heimi, sagði hún, en bætti nú við til vonar og vara að mömmur væru samt frábærari og hún myndi velja mömmur ef hún þyrfti að velja milli þeirra og trampólíns en það er nú samt dálítið asnalegt af því að maður þarf ekkert að velja á milli svoleiðis, er það nokkuð??? Lét sem sagt dæluna ganga.
Svo sofnuðu þær á 5 sekúndum sléttum.
Nú styttist í að ég fari enn og aftur á Morgunblaðið. Í þetta sinn til að stýra Sunnudagsblaðinu. Ég hlakka mikið til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
23.5.2008 | 11:44
Plúsinn við Eurovision
Fimleikasýningin mikla er í kvöld. Systur eru búnar að æfa grimmt síðustu daga. Í gær var generalprufa í Laugadalshöllinni, frá 17-19.30. Þær voru ansi framlágar þegar ég sótti þær (og auðvitað Mörtu og Töru) Tvær örþreyttar kanínur og tveir örmagna hundar.
Við komum við á Ning's og brunuðum svo heim. Þar skelltum við á RÚV + og náðum að sjá byrjunina á Eurovision. Kata fékk þá snilldarhugmynd að lyfta eldhúsborðinu upp í stofu, svo við gætum borðað og horft um leið á stóra sjónvarpið þar. Þetta var því svona dinner-eurovision partý, afskaplega menningarlegt allt saman. Jæja, fyrir utan Eurovision líklega.
Sjö ára stelpur hafa ósköp lítið úthald að horfa á misgóða söngvara belja misvond lög á óskiljanlegum tungum. Þær horfðu auðvitað heillaðar á Eurobandið, fussuðu og sveiuðu yfir þeirri sænsku, voru hálf hræddar við falska þungarokkarann með síða hárið og furðuðu sig á því af hverju væri svo mikill vindur á sviðinu að lá við að keppendur fykju um koll. Þeir leist heldur ekkert á konuna með kallana í upplýstu kössunum. Shady lady. "Ég myndi ekki vilja þekkja svona mikinn montrass," sagði Margrét, afskaplega hneyksluð.
Þær voru að missa einbeitinguna þegar við skiptum af RÚV+ yfir á rauntíma. Þá var stutt í úrslitin og þær kættust óskaplega þegar Ísland komst áfram.
Allt þetta dekkuðum við á einum klukkutíma. Ég er að hugsa um að fara í einhvern svona plúsleik á laugardaginn líka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Um bloggið
Logalandið
Bloggvinir
- margretsverris
- begga
- annapala
- stebbifr
- andreaolafs
- sms
- seth
- salvor
- hrafnaspark
- svartfugl
- vitinn
- ingibjorgelsa
- konukind
- eddaagn
- konur
- thorbjorghelga
- elvabjork
- steinunnolina
- jullibrjans
- toshiki
- adhdblogg
- malacai
- arndisthor
- asarich
- baldvinjonsson
- berglindnanna
- beggita
- birna-dis
- birtab
- bjb
- blomid
- dabbaa
- doggpals
- madamhex
- saxi
- ellasprella
- garun
- gislihjalmar
- neytendatalsmadur
- gudni-is
- lucas
- gylfig
- iador
- helgamagg
- skjolid
- hildigunnurr
- hildurhelgas
- himmalingur
- hlekkur
- danjensen
- innipuki
- jakobk
- jenfo
- joninaros
- prakkarinn
- nonniblogg
- julianamagg
- kari-hardarson
- kiddijoi
- kollak
- hjolaferd
- kristinm
- lenapena
- liljabolla
- lillagud
- lindalinnet
- 101isafjordur
- mal214
- mongoqueen
- olinathorv
- fjola
- amman
- siggiholmar
- sij
- sigthora
- zsapper
- svala-svala
- possi
- saemi7
- saethorhelgi
- steinibriem
- thorasig
- thorhildurhelga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar