1.4.2008 | 10:28
1. apríl!
Í morgun sátu systur yfir morgunmat þegar við áttuðum okkur allt í einu á því að það var 1. apríl. Við göbbuðum mömmu þeirra til að fara niður á neðri hæð, stukkum svo allar út fyrir dyr og lögðumst á dyrabjölluna.
Kata kom stökkvandi upp og varð auðvitað óskaplega undrandi þegar hún opnaði dyrnar og við öskruðum allar þrjár "1. APRÍL !!!".
Systrum fannst þetta sjúklega fyndið og sögðu ekki eitt satt orð allt þar til þær hurfu inn um skóladyrnar. Í nýju drekastrigaskónum sínum.
Talandi um aprílgabb: Hvað var mannskapurinn á Fréttablaðinu að hugsa? Sat ritstjórnin kannski á fundi og hristist og hló yfir þessari hugmynd, að segja almenningi að nú væri hægt að fá ódýrara bensín? Sá hópurinn fyrir sér að EINHVER Íslendingur myndi hafa húmor fyrir því að sitja á bensínstöð samráðsfurstanna og fá þá framan í sig að þetta væri bara grín??
Úff! Fjölmiðlar eiga að reyna að greina tíðarandann. Fréttablaðið er gjörsamlega á skjön við hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.4.2008 | 10:02
Lifi mótmælendur!
Pistill í 24 stundum í morgun:
Þegar ég var stelpa voru stundum sagðar fréttir af mótmælum herstöðvarandstæðinga. Þetta pakk safnaðist saman í óþökk virðulegra skattborgara, sem hristu höfuðið í hneykslan og fyrirlitningu. En það fór minna fyrir almennilegri umfjöllun um skoðanir þessa fólks. Slíkt bull fékk ekki inni í alvöru fjölmiðlum.
Þeir sem gripu til aðgerða og mótmæltu Kárahnjúkavirkjun voru upp til hópa kjánar.
Borgarfulltrúar, hvar í flokki sem þeir stóðu, gengu fram af kjósendum með endalausum hringlandahætti í vetur. Þá birtist á áhorfendapöllum sama pakkið og áður orgaði gegn hernum og Nató. Eða alla vega skilgetin afkvæmi þeirra sem trufluðu eðlilegt líf áður fyrr. Getur þetta fólk ekki skrifað greinar í blöðin, hnussaði í góðborgurum, í stað þess að hrópa og segja ljótt?
Núna mótmæla flutningabílstjórar svívirðilegu eldsneytisverði og aðgerðaleysi stjórnvalda. Þeir eru víst líka ótínt mótmælapakk, alla vega þykir sumum fjölmiðlum ástæða til að eyða miklu púðri í að fjalla um hversu ábyrgðarlaus þessi mótmæli þeirra séu.Íslendingar hafa aldrei kunnað að mótmæla með hnefann á lofti á götum úti. Lítill hópur lætur sér ekki segjast, hefur hátt og krefst úrbóta. Sá hópur er óendanlega mikilvægur lýðræðinu. Við skuldum honum að hlusta á hvað hann hefur að segja, í stað þess að bölsótast alltaf yfir aðferðunum sem fólk notar til að vekja athygli á málstað sínum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.3.2008 | 21:12
Fyrstu komment
Ég var búin að skrifa færslu um fimleika og endurheimt Mörtu Maríu klíkufélaga og sú færsla bara PÚFF!! hvarf í óravíddir netsins. Á það að vera hægt?
Bíttar engu. Aðalefni færslunnar var að systur voru að æfa sig á tölvu með mömmu sinni í næsta herbergi, voru að leita að Eiffel turni á Google og fleira slíkt. Svo laumuðu þær athugasemdum inn á bloggið mitt, krúttin, og skrifuðu alveg sjálfar. Bestar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.3.2008 | 09:25
Rauðir drekar
Við drifum okkur út í garð í góða veðrinu í gær. OK, kannski var engin sumarblíða, en það var logn á pallinum og vel dúðaðar gátum við Kata dundað okkur við að setja saman tvær kommóður í herbergi systra. Þær skoppuðu í kringum okkur á meðan.
Þegar síðasti sexkanturinn hafði komin þúsundustu Ikea-skrúfunni á sinn stað fórum við í Hagkaup. Þar fundum við strigaskó á systur. Ekkert smá flotta, með myndum af rauðum drekum. Það heillaði bæði Hojarann og systur hennar.
Afi Torben og Amma Magga kíktu í heimsókn um miðjan daginn, en þá skelltu systur sér í heita pottinn. Ég eyddi svo drykklangri stund í að setja 18 fléttur í blautt hárið á Margréti. Hún hafði nefnilega sjálf þrætt fyrir að vera komin með sítt hár og var ansi svekkt yfir þeirri staðreynd. Ég sýndi henni fram á, með öllum þessum fléttum, að hún væri með heilmikið hár. Ætlunin var að taka flétturnar úr í morgun og skarta fínum liðum, en hún tímdi ekki að taka þær úr. Ætlar að bíða með það til morguns. Kata setti nokkrar fléttur í Elísabetu og hún var með liði um allan koll í morgun.
Í dag fara þær í fimleika. Ósáttar. Hvorki Marta María né Tara eru á staðnum og þeim finnst alveg glatað ef aðeins helmingur gengisins fer í fimleika.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.3.2008 | 08:24
Sunnudagur - of snemma
Ég var allt of fljót að fagna um daginn, þegar systur sváfu út. Þær hafa ekki gert það aftur. Í gærkvöldi og fyrrakvöld sofnuðu þær seint, en spruttu samt upp fyrir allar aldir. Það er náttúrulega ekki normal að geta ekki sofið lengur en til kl. 7 á sunnudagsmorgni!
Við áttum ljúfan gærdag, væfluðumst heima fram yfir hádegi og svo fóru systur í gítartíma kl. eitt. Þaðan brunuðum við beint á Sinfóníutónleika. María, Una og Einar gáfu systrum tónleikamiða í afmælisgjöf, enda var þessi sýning sérstakleg góð fyrir kríli. Hún Hallfríður, systir Maríu og flautuleikari í Sinfó, skrifaði bók um músina Maxímús Músíkús sem heimsækir hljómsveitina og félagi hennar, Þórarinn víóluleikari, teiknaði frábærar myndir. Þessum myndum var varpað upp á vegg í Háskólabíói á meðan Valur Freyr Einarsson leikari las bókina og hljómsveitin fylgdi með, í einstaka tónum þegar við átti, eða köflum úr stærri tónverkum. Þarna hljómaði Bolero eftir Ravel og dramatíkin í Örlagastefi Beethovens úr 5. sinfóníu hans ætlaði að rífa þakið af húsinu. Þegar hljómsveitin hleypti svo á skeið Á Sprengisandi sungu systur hástöfum með, eins og margir aðrir tónleikagestir, sérstaklega í þeirra stærðarflokki. Svo kom Maxímús Músíkús sjálfur fram, við mikla lukku og trúðurinn Barbara var óóóóótrúlega fyndin, fannst systrum. Ég get mælt með Maxímús fyrir krílin.
Dagurinn var nú aldeilis ekki á enda. Við erum vanar að vera eins og þeytispjöld um allar trissur um helgar og þessi dagur var engin undantekning. Við heimsóttum Knút frænda og skoðuðum íbúðina hans, sem er óðum að taka á sig mjög flotta mynd og svo brunuðum við í Hreyfingu, hvar Ágústa Johnson bauð okkur að líta herlegheitin. Við gegnum þar um hvern salinn á fætur öðrum með alls konar líkamsræktartækjum, sem ég kann ekki að nefna á nafn sökum algers ókunnugleika.
Systur voru með þetta alveg á hreinu. Þær prófuðu hvert tækið á fætur öðru (og fannst skemmtilegast að vera á hlaupabretti) og fengu meira að segja einkatilsögn í einhverju liggja-á-bekk-og-halda-í-teygjur-og-tosa-tæki. Það fannst þeim frábært og þær þökkuðu þjálfaranum fyrir svo oft að það var eiginlega vandræðalegt.
Þær skoðuðu líka barnagæsluherbergið og voru eiginlega alveg undrandi á því að fólki dytti í hug að hafa sérstakt herbergi fyrir börn, þegar allt húsið væri fullt af spennandi tækjum! Þær hreinlega hlustuðu ekki, sama hversu oft við reyndum að segja þeim að þessi líkamsræktartæki væru alls ekki ætluð 7 ára börnum -"og hættu að lyfta þessum lóðum, Margrét!"
Á jarðhæðinni jókst skilningur minn á staðnum mjög skyndilega! Þar er svona spa-aðstaða, alls konar pottar, nuddbekkir og svoleiðis dekur. Ekki að ég sæki í slíkt, ég segi bara að skilningur minn jókst. Þetta var allt svo....girnilegt, ég held að það sé besta orðið. Reyndar alveg ótrúlega flott allt saman. Nú hef ég minni en enga reynslu af húsum af þessu tagi, en ég get nú ekki ímyndað mér þau glæsilegri.
Systur, sem voru afar ósáttar við að mæður ætluðu að kíkja inn í þetta hús, mótmæltu hástöfum þegar við fórum þaðan. Þær þökkuðu Ágústu fallega fyrir sig, en Margrét gat ekki stillt sig um að spyrja hvort 7 ára börn mættu kannski koma þarna? Ágústa hélt það nú, það væri þetta fína herbergi fyrir börn á efri hæðinni.
Margrét var ekki sátt við það, hún vildi fara í tækin! J
újú, alveg guðvelkomið, en kannski aðeins seinna.
Margrét var ósátt.
Við horfðum á SpyKids3, með þrívíddargleraugu, þegar við komum heim. Systur sátu með gleraugun og æptu og skræktu þegar allt virtist ætla að koma út úr sjónvarpinu og beint á þær. Ég nennti ekki að hafa gleraugun, enda breyttu þau engu um upplifunina, það vantar hreinlega í mig alla þrívídd. Ég er krakkinn sem eyðilagði spjaldið hjá augnlækninum, þetta með myndinni af stórri flugu. Ég krafsaði alltaf í það, í stað þess að gera tilraun til að lyfta undir vænginn, af því að mér átti að sýnast flugan standa á blaðinu. Engin þrívídd.
Á meðan ég las texta djúpra samræðna í SpyKids heyrðist ógurlegt brambolt úr herbergi systra. Kata sneri þar öllu við, færði rúm Elísabetar, setti skrifborðið aftur á milli rúmanna þeirra o.s.frv. Þær voru alsælar með breytingarnar.
Við fórum í smá göngutúr eftir kvöldmatinn, sem er alltaf jafn spennandi. Systur fóru í rúmið um tíuleytið, en Elísabet gat ekki sofnað. Hún var óróleg í maganum og það endaði með ósköpum. Við óttuðumst að hún væri komin með gubbupest, en það varð nú ekki meira úr því.
Þegar hún var að sofna leit hún ströng á mömmu sína og sagði: "Ef ég gubba í rúmið í nótt þá er það ekki mér að kenna!"
"Auðvitað ekki, elskan mín," svaraði Kata, "það er aldrei börnum að kenna ef þau gubba í rúmið sitt."
Elísabet var fegin þessu svari og muldraði við sjálfa sig: "Nema ef maður á mjög stranga foreldra."
Gott að hún á ekki svo stranga foreldra að hún fái á baukinn við svoleiðis slys.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
29.3.2008 | 13:18
Cirka sandalar
Kata er komin heim, heilu og höldnu. Systur fengu að fara með mér að sækja hana í gærkvöldi og þótti það ógurlega spennandi.
Þær voru alsælar að fá gyllta sumarsandala frá Kaupmannahöfn. Ég lýsti líka mikilli hrifningu og spurði: "Á ég ekki líka að fá mér svona gyllta sandala?"
Það sló þögn á þær systur.
Svo sagði Margrét, mjög varfærnislega og vildi greinilega ekki særa mig: "Ja, svona sirk-a-bát."
OK, svo þeim finnst ég ekki passa í gyllta sandala. Ég get alveg lifað með því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.3.2008 | 17:55
Þrjú í potti
Bjarki bestivinur er í heimsókn.
Aldrei þessu vant voru engir kanelsnúðar í tilefni heimsóknarinnar, en ég keypti mér frið með kexi og mjólk. Þau nutu veitinganna úti í garði og svo fóru öll í heita pottinn. Þau eru þar enn -ábyggilega að leysast upp. Ásthildur systir og Matthildur komu í heimsókn og gáfu systrum nýja sundboli í afmælisgjöf og þær voru ekki seinar að rífa sig úr gömlu, þröngu sundfötunum.
Bjarki ætlar að búa til pizzu með okkur í kvöldmatinn. Við myndum áreiðanlega reyna að ræna honum í næturgistingu ef við ætluðum ekki að sækja Kötu á völlinn í kvöld.
Áðan voru einhverjir guttar fyrir utan garðinn að reyna að stríða Bjarka á því að hann væri með stelpum í heita pottinum.
"Og hvað með það?" spurði Bjarki, innilega hneykslaður.
Svo fengu þau sér íspinna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.3.2008 | 14:50
Veik fyrir Vespum
Elísabet er heit fyrir Vespu-hugmyndinni.
"Mega stelpur vera á Vespu?" spurði hún.
Ég svaraði henni að stelpur mættu prófa að sitja á Vespu með mömmu sinni, en hins vegar kæmist bara ein í einu.
"Má ég koma með? Ef Margrét er kannski veik?"
Eða kannski bara af því að stundum þarf ekki veikindi til að afsaka að tvíburar skipti liði? Jú, ætli það ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2008 | 12:30
Vespa?
Í hádeginu, áður en Kata lagði af stað til Kaupmannahafnar, með viðkomu í árekstri, vorum við að býsnast yfir bensínverði. Ég sagði að nú væri að koma vor, við ættum bara að selja Litla skít og ég fengi mér Vespu (það var nefnilega umfjöllun um Vespur í blaðinu sem ég var að lesa). Ég hef alltaf verið afskaplega veik fyrir slíkum farartækjum og nú benti ég Kötu á, að ég væri alltaf að vinna heima, Litli skítur stæði óhreyfður dögum saman og engin afsökun fyrir þessum bílaflota, með tilheyrandi kostnaði. Ef ég þyrfti að nota bíl, þá gæti ég skutlast á Vespunni í ráðuneytið og sótt jeppann, eða Kata sleppt því að fara á honum þann daginn og farið á Vespunni eða tekið leigubíl. Mér fannst þetta hið mesta þjóðráð, Vespur eyða engu og menga miklu minna en allir þessir blessuðu bílar. Rafmagnsbíll kæmi líka til greina....
Svo fór Litli skítur yfir mengunarmóðuna miklu og mér fannst þetta nánast tákn. Var ekki kominn tími á Vespu?
Ég fólísóferaði eitthvað um þetta við dæturnar þegar við ókum til Ömmu Deddu og Afa Ís seinni partinn. Ég sagði þeim líka, að einu sinni hefði ég verið mjög nálægt því að eignast litla Vespu. Þá var ég 16 ára og sumardjobbið mitt var að gróðursetja í Öskjuhlíðinni. Það var hábölvað að komast til vinnu og heim aftur úr Vesturbænum, ekki beinlínis eins og strætó biði við Granaskjólið til að koma mér í Nauthólsvíkina. Pabbi skutlaði mér oft á morgnana, enda fór hann alltaf snemma til vinnu, en svo var ég í eilífðar basli að komast heim aftur. Mér fannst því alveg rakið að eignast litlu, fallegu Vespuna, sem nágranninn var til í að selja. Og Bettý frænka bauðst til að lána mér fyrir henni, þar til ég fengi útborgað.
Mamma ræddi málið ekki mikið, kom bara með yfirlýsinguna sem hún hafði áður gefið Bryndísi, Kristjáni og Möggu: "Ekkert barna minna fer nokkurn tímann á mótorhjól."
Útrætt mál.
Rúmum 15 árum síðar eignaðist ég svo lítið mótorhjól. Þótt ég væri löngu, löngu flutt að heiman kveið ég því mjög að segja mömmu frá kaupunum. Svo hringdi ég í hana: "Mamma, ég var að kaupa svolítið og ég er hrædd um að þú verðir ekki hrifin."
Svarið kom um hæl: "Varstu að fá þér mótorhjól!!??"
Svona eru mömmur, vita allt áður en maður segir það. Hún var ekki hrifin, frekar en fyrri daginn og dauðfegin þegar ég losaði mig við hjólið nokkrum mánuðum síðar.
Þetta sagði ég stelpunum og af því að þær eru með skítahúmor stukku þær upp tröppurnar hjá afa sínum og ömmu, hömuðust á bjöllunni og um leið og amma þeirra kom til dyra æptu þær upp yfir sig: "Dalla mamma ætlar að kaupa sér mótorhjól!"
Mamma var ekkert hrifnari nú en fyrir 15 árum eða 30 árum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.3.2008 | 11:02
KRAS!
Systur sváfu mjög vel í alla nótt, þétt upp við mig. Ég svaf ekki alveg eins vel, en þær dásömuðu svo svefninn í morgun að ég lét eins og ég hefði svifið á skýi í djúpum svefni en ekki hrokkið upp til að ýta burt fótleggnum sem lá yfir barkakýlið, draga sængina yfir Margréti ískalda, ýta sænginni af Elísabetu löðursveittu, reyna að endurheimta örlítið pláss á koddanum mínum sem þeim fannst greinilega þægilegri en eigin koddar, rýna í klukkuna og óska þess að nóttin væri bráðum á enda, sofna smástund en hrökkva upp við tuðið í Margréti, sem stendur alltaf í einhverjum stórræðum á nóttunni, sofna aftur, vakna við að Elísabet ýtti við mér af því að hún var svo þyrst, sofna loks djúpum svefni og vakna við vekjaraklukkuna korteri síðar. Stön og pust, eins og Andrés myndi orða það. Systur halda að þær fái að sofa af og til í stóra rúminu til að verðlauna þær fyrir yndisleik, en starðeyndin er sú að þær fengju örugglega að kúra þar miklu oftar, ef mæður hefðu heilsu til!
Til að fá þær framúr náði ég í mömmu þeirra í símann. Hún var löngu vöknuð úti í Köben og spjallaði lengi við okkur. Til allrar hamingju virðist hún ætla að sleppa alveg meiðslalaust frá árekstrinum. En hún er að vísu marin á vinstri hendi og með lítinn skurð ofan við vinstra hné, svo eitthvert högg hefur hún fengið á þá hliðina án þess að muna sérstaklega eftir því.
Systur eru auðvitað mjög uppteknar af fréttum af árekstrinum. Margrét skrifaði frétt um málið í gærkvöldi:
"Tólf ára stelpa sá ekki umferðaljósið Mamma var að fara á flugvöllin og klesti beint á hanna! Margrét 7 ára!"
Frétt af þessu tagi kallar á upphrópunarmerki!
Hún lagfærði fréttina þegar ég benti henni á að ökumaður hins bílsins væri alls ekki 12 ára. Bílprófsaldur væri 17 ár og ég héldi að hún hefði verið 18 ára. Þá krotaði Margrét yfir "tólf ára" og skrifaði inn "18". Ég nennti hins vegar ekkert að fara út í einhverjar útlistanir á muninum á umferðarljósum og stöðvunarskyldu, enda skipti það alls engu máli í þessu samhengi.
Margrét teiknaði líka mynd með fréttinni. Á myndinni skella tveir bílar hvor framan á öðrum, það heyrist "KRAS!" og í öðrum bílnum situr "Mamma" og segir "ÁTSJ!" en í hinum situr "TÓLF 18 ára stelpa" og segir "Á!"
Þær vilja alveg ólmar sjá Litla skít, allan krumpaðan og skemmdan. Ég lofaði að hafa uppi á brakinu og alla vega taka mynd, ef ég næði ekki að hafa þær með mér. Ég þarf líka að nálgast uppáhalds flísteppin þeirra og fleira lauslegt í bílnum.
Við röltum í skólann og enn var ekki búið að setja rist yfir niðurfallið við gangbrautina. Ég hringdi í borgina fyrir páska og fékk þá þau svör að ristarnar væru á ábyrgð Orkuveitunnar. En afar vingjarnlegur borgarstarfsmaðurinn lofaði að koma kvörtuninni til skila.
Nú hringdi ég beint í Orkuveituna. Þar varð líka mjög vingjarnlegur maður fyrir svörum. Hann hélt í fyrstu að ristarnar væru á ábyrgð borgarinnar, en lofaði að kanna málið og koma þá kvörtun minni á réttan stað.
Þremur mínútum síðar hringdi hann til baka! Þá var ég nú aldeilis bit. Hver hefur heyrt um slík viðbrögð hjá starfsmanni opinbers fyrirtækis? Alla vega, hann vildi bara láta mig vita að ristarnar væru vissulega á ábyrgð Orkuveitunnar og hann myndi ganga í að láta loka opinu.
Sjáum nú til. Ég hringdi fyrst fyrir páska og þá lofaði borgarstarfsmaður öllu fögru. Svo hringi ég núna og fæ svona ljúf svör. Og er bara glöð, ekki vitund pirruð. Viðmót þessara manna var nefnilega með þeim hætti, að ég er algjörlega og gjörsamlega sannfærð um að málið sé í allra besta farvegi. Ef þeir hefðu verið stuttir í spuna eða leiðinlegir, þá væri ég áreiðanlega að blogga ótrúlega pirringsfærslu, þótt staða mála væri nákvæmlega sú sama. Þetta ætti að kenna mér að vera elskulegri við fólk, en alltaf er ég nú sama hrossið. Gott að aðrir eru mér skárri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Logalandið
Bloggvinir
- margretsverris
- begga
- annapala
- stebbifr
- andreaolafs
- sms
- seth
- salvor
- hrafnaspark
- svartfugl
- vitinn
- ingibjorgelsa
- konukind
- eddaagn
- konur
- thorbjorghelga
- elvabjork
- steinunnolina
- jullibrjans
- toshiki
- adhdblogg
- malacai
- arndisthor
- asarich
- baldvinjonsson
- berglindnanna
- beggita
- birna-dis
- birtab
- bjb
- blomid
- dabbaa
- doggpals
- madamhex
- saxi
- ellasprella
- garun
- gislihjalmar
- neytendatalsmadur
- gudni-is
- lucas
- gylfig
- iador
- helgamagg
- skjolid
- hildigunnurr
- hildurhelgas
- himmalingur
- hlekkur
- danjensen
- innipuki
- jakobk
- jenfo
- joninaros
- prakkarinn
- nonniblogg
- julianamagg
- kari-hardarson
- kiddijoi
- kollak
- hjolaferd
- kristinm
- lenapena
- liljabolla
- lillagud
- lindalinnet
- 101isafjordur
- mal214
- mongoqueen
- olinathorv
- fjola
- amman
- siggiholmar
- sij
- sigthora
- zsapper
- svala-svala
- possi
- saemi7
- saethorhelgi
- steinibriem
- thorasig
- thorhildurhelga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar