Framkvæmdin

Rétt í þessu var sýnt úr næsta þætti af CSI. Þar er sagt að einhver hafi tekið að sér að vera "Judge, jury and executioner."

Þetta var þýtt: "Dómari, kviðdómur og ....

haldið ykkur fast....

"framkvæmdaaðili aftökunnar" LoL

Guð minn góður, er ekki hægt að sleppa svona stofnanamáli og nota gamla og góða orðið: Böðull?

Held að "framkvæmdaaðili þýðingarinnar" ætti að vanda sig betur næst.


Söknuður

Tara vinkona fór í ferðalag og systur sakna hennar óskaplega.

Þær eru báðar búnar að skrifa henni bréf og frekar spældar að ég skuli ekki vilja senda þau í pósti til Töru. Ég benti þeim á að hún yrði löngu komin heim áður en bréfin bærust til hennar.

Rétt í þessu reyndi Elísabet að lýsa söknuðinum. "Sko, ég er ekkert svöng og heldur ekki södd, bara svona venjuleg. En mér er alveg illt í bragðlaukunum, ég sakna Töru svo."

Illt í bragðlaukunum af söknuði.

Hafa aðrir lent í slíkum hremmingum?


Sund er sko ekkert mál!

Úff, Kata lenti í hörkuárekstri á leiðinni suður á Keflavíkurflugvöll í dag. Hún virðist hafa sloppið án allra meiðsla, en sú sem ók hinum bílnum fékk einhver smávægileg meiðsli. Vonandi er það allt saman satt og rétt, stundum koma auðvitað einhver meiri meiðsli í ljós eftir á. En Litli skítur er farinn þangað sem bensínlítrinn kostar ekki krónu og mengun er óþekkt hugtak.

Systur voru brattar eftir sundið í dag. Þeim fannst þetta greinilega  MJÖG gaman. Ég þráspurði þær um allt fyrirkomulag og þær lýstu öllu mjög nákvæmlega.

"Og hvernig er passað að þið farið ekki í djúpu laugina?" spurði ég.

"Það er band," svaraði Margrét.

"Band? Á band að halda ykkur á réttum stað?"

Hún horfði mjög undrandi á mig: "Já, það er band við grunnu laugina. Og svo eru REGLUR!"

Æ, já, reglur og bönd. Sú var tíðin að slíkt dugði líka til að halda mér í skefjum.

Elísabet bætti um betur: "Það er ekki bara einn starfsmaður. Það eru margir!"

Og Margrét: "Svo má maður ekkert vera hvar sem er. Það má ekkert fara beint út í laug, við verðum að ganga svona í kringum (dró mynd í loftið) og svo fara allir á sama stað. Það er REGLA."

Ég var löngu hætt að stressa mig, alveg dagsatt, og löngu farin að stríða þeim og grínast. En mér fannst samt ósköp notalegt að fá kveðju frá sundkennaranum, sem reyndist hafa lesið bloggið og -það sem betra var- vera ættuð úr Kaldalóni. Vestfirski sundkennarinn bað þær að skila til mín að hún myndi gæta þeirra vel InLove

Ekki skil ég foreldra, sem stressa sig á öllum fjáranum og gefa börnum sínum aldrei lausan tauminn. Uss, ekki ætla ég að vera svoleiðis!

 

 

 

Blush


Pollróleg

Aðeins tíu mínútur eftir af fyrsta raunverulega sundtímanum þeirra og hér sit ég heima við tölvuna.

Alveg pollróleg.

Ég sver það.

 

 

(lygaramerki á tánum)


Afmælisnammi

Systur ætluðu aldrei að fást á fætur í morgun, toguðu bara sæng yfir höfuð og muldruðu eitthvað óskiljanlegt. Þær voru bara búnar að sofa í hálfa elleftu klukkustund, svo þetta var auðvitað skiljanlegt.

Það ætti ekki að verða erfitt að ná þeim snemma í hátt í kvöld. Kata þarf að bregða sér af bæ og til að vega upp á móti þeirri fúlu staðreynd fá systur að sofna í stóra rúminu. Þeim finnst það alltaf mjög notalegt og heimta þá að ég sofi í miðjunni. Þar með sofa þær alsælar alla nóttina, en ég vakna hins vegar reglulega með litlar tær í andlitinu.

Þær eru mjög spenntar að fá að fara ofan í sundlaugina í  skólasundinu í dag. Ég tók út allt mitt stress í gær, er alveg pollróleg núna og ekkert á leiðinni á sundlaugarbarminn með myndavél. Þær voru sjálfar á því fyrir nokkrum dögum að best væri ef ég fylgdi þeim fyrstu skiptin, en núna finnst þeim sú hugmynd alveg afleit. Hver vill láta fylgja sér eins og einhverju smábarni? Þær eru orðnar SJÖ ára og engin smábörn lengur, takk fyrir.

Í morgun lágu þær yfir Mogganum, þar sem sagt var frá konu sem á hvorki fleiri né færri en 17 hvolpa. Systrum fannst konan búa í paradís. Það kom fram í fréttinni að nokkrir hvolpanna fæddust fyrst, næsti hópur daginn eftir og lokaskammturinn kom á þriðja degi.

"Vá, þeir mega borða nammi þrjá daga í röð!" sagði Elísabet hrifin.

Margrét, sem var með nefið ofan í greininni, hváði. "Af hverju mega þeir borða nammi þrjá daga í röð?" spurði hún systur sína.

"Margrét, það er einfalt!" sagði Elísabet og ranghvolfdi augunum. "Fyrst er einn afmælisdagur og svo er annar afmælisdagur og svo er einn afmælisdagur í viðbót. Það má borða nammi á afmælisdögum og þeir mega borða nammi ÞRJÁ daga í röð!"

Margréti fannst þetta frábært. Eini gallinn við að vera tvíburi er nefnilega að það er bara einn afmælisnammidagur. Eða tveir, ef fyrst er afmæli fyrir bekkjarsystur og svo fyrir fjölskylduna. En þeir gætu verið fjórir, ef þær hefðu ekki fæðst á sama degi.

 


Fólk með rauða bletti á líkamanum

Systur voru alsælar með heimsóknina í sundlaugina. Þær ruddu út úr sér öllum reglum, hvernig ætti að bera sig að í sturtunni, hvað mætti og mætti ekki gera í lauginni (það má auðvitað ekki stinga sér í laugina og svo er lína á botninum sem verður að passa að fara ekki yfir af því að þar er djúpa laugin). Og geta ekki beðið eftir að fá að fara aftur á morgun.

Margrét hafði spurt sérstaklega um teikninguna í sturtuklefanum, þessa sem sýnir með rauðum skellum hvar á líkamanum er mikilvægast að þvo sér, og fengið þau svör að svona myndir væru í öllum sundlaugum landsins. Hún var ánægð að frétta það; hafði nefnilega tekið eftir myndinni í Laugardal og Árbæ, á Ísafirði, í Bolungarvík og á Súganda (já, þetta er stelpur með sundlaugareynslu, þótt ég láti eins og þær hafi aldrei stungið tá í klórblandað vatn).

Þær fóru í fimleika og svo buðu þær Mörtu Maríu í mat. Eins gott að ég keypti óvart of stóra skammta hjá Ning's! Marta er nú reyndar fremur matgrönn, svo það hefði blessast.

Við erum búnar með Bláa hnöttinn, því miður, en Gallsteinar afa Gissa voru fínir fyrir svefninn.

Þegar ég knúsaði Elísabetu góða nótt sagði hún mér að hún væri stolt af okkur mömmunum. Og af hverju var nú það? "Ég er stolt af því að þið eruð mömmur mínar," sagði krúttið. Svo rifjaði hún upp, að fyrr um kvöldið hefðum við verið að fíflast eitthvað við matarborðið og þegar mamma hennar fór fram í eldhús hvíslaði ég að þeim systrum, mátulega hátt, að þessi kelling kynni ekki góða borðsiði. Þeim fannst það mjöööög fyndið, en reyndu að bera í bætifláka fyrir mig þegar Kata þóttist stórmóðguð. "En henni fannst það líka fyndið. Þið passið svo vel saman og það finnst mér best," sagði Elísabet.

Ekki amaleg einkunn.

 


Annar í sundi

Systur komnar heim.

Með skraufþurrt hárið og brakandi þurr sundföt.

Fyrsti "sundtíminn" fór í að sýna púkunum búningsklefa, sundlaugina (úr fjarska), og fleira áhugavert.

Ég get þá byrjað upp á nýtt að stressa mig fyrir "fyrsta sundtímann" sem er á morgun.

Murf Angry


1/2

Sundtíminn er hálfnaður.

Ég er enn heima hjá mér.

Pollróleg.

NOT


Þroski

Systur fara í skólasund í fyrsta skipti í dag.

Þessi staðreynd hefur kallað á allnokkurn undirbúning. Að vísu hafa þær ekki fengið ný sundföt, þótt gamli sundbolurinn hennar Margrétar og bikiníið hennar Elísabetar sé alveg að springa utan af þeim. Við sjáum hvað setur á næstunni.

Þær fara í sundlaug uppi í Breiðholti, svo það kemur víst rúta að Fossvogsskóla og sækir bekkinn þeirra. Ég hef haft af þessu óendanlegar áhyggjur undanfarið. Eiga litlu stelpukrílin okkar að fara í rútu í annan borgarhluta, fara sjálfar og eiginlega aleinar í búningsklefann og sturtuna, fara svo ofan í sundlaug án mömmu-eftirlits, upp úr og í sturtu, klæða sig, aftur í rútuna....??

Þetta er hreint skelfilegt mál.

Ég hef reynt að hemja mig, enda veit ég að mér hættir til að mála skrattann á vegginn. Í gær ræddum við Kata fram og til baka um skólasundið og hún var afskaplega yfirveguð og fannst þetta allt saman eðlilegur gangur lífsins. Hún er stundum svoleiðis, rétt eins og hún sé alveg fullorðins og með allt á tæru.

Svo talaði hún eitthvað um ..."þetta er þroskamerki".... og ég varð ógurlega upp með mér. Ég hélt að hún væri að dást að því hvað ég væri stillt, þrátt fyrir allt, enda var ég þá hætt að tala um að ég ætlaði að aka á eftir rútunni og standa á bökkum sundlaugarinnar allan fyrsta tímann.

Hún var auðvitað að tala um þroskamerki hjá dætrunum.

47 ára konur fá aldrei neitt kredit, þótt þær taki mikil stökk í þroska.


OMG!

Fjölskyldan skrapp í Skorradalinn um páskana. Við fórum á laugardag og komum til baka fyrri hluta mánudags. Við vorum svo heppnar að fá lánaðan bústað sem stóra systir og hennar fjölskylda á við vatnið. Eins gott að við fórum ekki lengra: Ég hefði ekki þolað öllu stærri skammt af "hvenær komum við?" og "erum við núna að verða komnar?"

Systur gistu þó ekki hjá mæðrum sínum í bústaðnum fína. Skammt frá eiga guðmæður þeirra, Addý og Bára, bústað og systurnar sváfu þar báðar næturnar. Þær eru sannfærðar um að þær eigi bústaðinn með guddunum sínum og auðvitað var því sjálfsagt að þær svæfu í "sínu" rúmi, með "sína" sæng, í "sínu" herbergi. Þær virðast reyndar eiga drjúgan hluta í bústaðnum, því þær halda því fram að þær eigi einar annað svefnherbergið og þar að auki allt svefnloftið. Restina eiga þær í félagi við guðmæðurnar, sem hafa ekki mótmælt þessu neitt, svo það er ekki nema von að systur séu sannfærðar um þetta.

Við skiptum með okkur verkum, morgunmatur páskadag og annan dag páska var hjá þeim, kvöldmatur laugardag og páskadag hjá okkur. Það voru mjög þægileg býti. Systur leituðu um allt á páskadagsmorgun að páskagjöf frá guddunum og fundu svo stórar plastkúlur hangandi upp í tré. Þær voru fullar af nammi og alls konar sniðugu dóti. Svo röltum við yfir til þeirra með páskaegg.

Systur skemmtu sér einna mest niðri við vatnið, þar sem ísinn hafði hrönglast upp, hvert lagið ofan á öðru. Það var gaman að hoppa á ísnum, brjóta eitt lagið og hlunkast niður á næsta. Svo var hægt að liggja lengi á maganum og rýna inn undir íshellur, stúdera litinn á ísnum og skoða ísnálar. Þær voru líka lengi, lengi að mála hænuegg með flottu glimmerlitunum sem Hlédís gaf þeim í afmælisgjöf. Ég hef ekki séð fínni egg.

Á páskadag ókum við alla leið inn með vatni. Þar hef ég aldrei farið áður, svo það var gaman að svipast þar um. En fíni, nýpússaði jeppinn okkar varð ein drulluklessa. Þegar ég var búin að skola af honum heima í gær þurfti ég að eyða löngum tíma í að spúla drulluna af stéttinni.

Kata er ekki enn búin að finna endanlega út hvernig við komum myndböndum af fínu vélinni hennar inn á bloggið. Systrum er alveg sama, þær eru orðnar mjög meðvitaðar um bloggið og taka mjög gjarnan fram ef eitthvað má alls ekki fara inn á það. "Ó, MÆ GODD!" skrækti Margrét þegar Kata var búin að taka myndband af þeim að skreyta egg og ég sagðist ætla að setja það inn á "bloggina".

Kannski get ég staðið við hótunina. Mun hvetja Kötu til dáða í kvöld.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband