21.3.2008 | 23:37
Hvorki kvöl né pína
Systur fóru á flakk með Afa Torben og Ömmu Möggu eftir hádegið. Fyrst fóru þau í Hallgrímskirkju og hlustuðu á upplestur Passíusálma og söng, en stóðu nú ekki lengi við þar. Systrum fannst þetta víst heldur bragðdauf skemmtun og áttuðu sig ekki á að föstudagurinn langi er alltaf samfelld kvöl og pína.
Útstáelsið með afa og ömmu var hins vegar sársaukalaust með öllu. Þau fóru öll á kaffihús og systur fengu vöfflur og ís. Komu afar lukkulegar heim og sögðust hafa skemmt sér mjög vel. Það kom reyndar upp úr kafinu að Elísabet var alveg að springa í kirkjunni og um leið og þau komu út á tröppur spurði hún hvort hún mætti núna tala? Þá hafði hún þurft að þegja í heilt korter samfleytt og það kemur afar, afar sjaldan fyrir á þeim bænum.
Á meðan þær voru að heiman tók ég hreingerningakast á bílunum. Jeppinn er núna gljáandi fagur og meira að segja Litli Skítur verður víst að fá annað nafn. Alla vega út vikuna, en svo á ég fastlega von á að sæki í sama farið. Kata baukaði við tölvuna, svo bráðum fæ ég bæði myndir og videó.
Þegar tengdó komu með stelpurnar settumst við öll út í garð. Það var bara blíða, svei mér þá. Við fengum okkur svaladrykk og systur skelltu sér í heita pottinn, bara rétt eins og komið væri sumar. Svo véluðu þær mig til að horfa með sér á eina mynd. Og þurftu nú ekkert að hafa fyrir því, mig langaði að sjá Spy Kids og skemmti mér vel. Ég held ég vaxi aldrei upp úr barnamyndum, svei mér þá.
Svo var það Blái hnötturinn fyrir svefninn. Úff, hvað sú bók er spennandi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.3.2008 | 13:03
Tækni og tól
Systur orðnar 7 ára og það er eins og við manninn mælt: Þær eru farnar að sofa út! Ég hélt að þessi dagur kæmi aldrei.
"Að sofa út" á þessu heimili er nú ekki sama og "að sofa út" var fyrir tíma systra. Ég vaknaði auðvitað fyrst allra, en þá var klukkan líka rétt að verða 10. Stuttu síðar kallaði Margrét á mig, en Elísabet svaf enn í stóra rúminu. Sumum finnst kannski ekki merkilegt að sofa til 10, en það er alveg stórmerkilegt hérna. Og alveg nauðsynlegt fyrir mömmur sem voru á kjaftatörn með handboltaskvísum fram undir morgun
Systur horfðu á barnatíma og ég fékk að sitja hjá þeim. Þær rauluðu uppáhaldslagið sitt þessa dagana, Allt fyrir ástina. Þær fóru rétt með fyrstu línuna, en næsta lína var eitthvað um "tækni og tól" hjá þeim, í stað þess að vera "eina sem aldrei nóg er af".
Ég fann rétta textann á netinu og sýndi þeim svart á hvítu. Og spurði hvaðan í ósköpunum þær hefðu þessa hugmynd að sungið væri um tækni og tól í þessu lagi. Margrét sagðist hafa haldið að Páll Óskar væri að syngja um að hann væri til í að gefa ástinni sinni "sjónvarpið og símann og tölvuna sína. Alls konar svona tækni. Og kannski heyrnartól líka."
Hver vill ekki gefa ástinni sinni tækni og tól?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.3.2008 | 22:32
Ballettskór og frosinn vettlingur
Rólegur og góður frídagur að baki.
Við slæptumst lengi frameftir, en fórum loks í helgarinnkaupin upp úr hádeginu. Margrét fór með mér í búðina, en Elísabet skrapp í fylgd mömmu sinnar til læknis, hún er með sýkingu í auga og þurfti augndropa. Ef ég þekki hana rétt verður hún strax orðin skárri á morgun.
Seinni partinn fórum við í gönguferð, en hún varð reyndar heldur endasleppt, enda alveg skrambi kalt í dag. Við fundum þó kolfrosinn vettling, sem systur ætla að fara með í skólann og setja í kassann fyrir óskilamuni. En þótt það væri kalt var miklu skárra að vera í skjóli úti í garði í fótbolta og tennis, eins og Kata og stelpurnar gerðu á meðan ég fann eitthvað hlýlegra að gera innandyra. Bjó til pizzur, sem vöktu lukku.
Ég var búin að lofa systrum að lesa fyrir þær textann við sjónvarpsmynd sem heitir víst Ballettskórnir, eða eitthvað í þá veruna. Þetta var nú ekkert sérstaklega skemmtileg mynd, en systur fengu svo mikinn fiðring í danstærnar að þær voru farnar að skoppa um allt og löngu hættar að fylgjast með myndinni, en kyrrsettu mig samt í sófanum þar sem ég varð að halda áfram að lesa textann fyrir þær. Eða bara út í tómið, því ekki voru þær að hlusta. Ég prófaði að bulla einhver ósköp á tímabili og þær hváðu aldrei.
Kata fékk gamlar handboltavinkonur í heimsókn í kvöld og kliðurinn verður æ háværari að ofan. Þetta er ansi hávær hópur þegar hann er kominn á skrið, alltaf eins og þær séu að hrópa af öðrum enda vallarins yfir á hinn. Líklega get ég huggað mig við að þær voru ekki í fótbolta, þar er völlurinn svo fjári stór Best ég kíki á samkvæmið áður en þær klára allt rauðvínið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.3.2008 | 16:37
Afi Uppátæki
Þessa dagana rífur Margrét sig úr sokkunum við hvert tækifæri, hnoðar þeim saman í tvær kúlur og æfir sig að joggla, kastar þeim hátt upp, grípur aftur, eða reynir að grípa aftur...
Ég sagði þeim systrum að mamma mín hefði verið ansi lagin við þetta þegar ég var lítil. Stundum greip hún þrjár appelsínur, eða eitthvað annað hentugt sem hendi var næst og náði að halda þeim á lofti samtímis, við hrifningaróp afkvæmanna.
Systur kipptu sér ekkert upp við þessar upplýsingar um ömmu Deddu. Hún kann meira að segja að spila á gítar, sem systur héldu að væri gjörsamlega ómögulegt. Hver hefur heyrt um ömmu sem spilar á gítar?
Rétt í þessu vorum við eitthvað að spjalla um hina og þessa hæfileika, hæfileikann til að HOJA, hæfileikann til að joggla og sérstaka púslhæfileika, sem Elísabet fínpússar núna yfir púsli frá Bettý frænku.
Þá rifjaðist allt í einu upp fyrir mér atburður þegar ég var lítil stelpa. Fjölskyldan fékk lánaðan sumarbústað, sem mig minnir að hafi verið einhvers staðar á Suðurlandinu. Þetta var fyrsta og eina skiptið sem við fórum í annan bústað en okkar eigin fyrir vestan.
Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir í bústaðnum sátum við Magga systir og vorum að gera fuglafit. Önnur byrjaði, hin "tók við" eins og það hét og alltaf breyttist munstrið sem þurfti að leysa til að taka við næst.
Allt í einu leit pabbi okkar upp úr bókinni eða blaðinu sem hann var niðursokkinn í þá stundina og lýsti því yfir að þetta gæti hann gert. Einn og óstuddur. Svo tók hann bandið og áður en við vissum af hafði hann leyst hverja þrautina á eftir annarri. Hann kunni sem sé að taka við af sjálfum sér.
Þetta voru mikil undur og stórmerki. Pabbi minn var ekki alveg "týpan" í fuglafit, hvað þá til að æfa sig að taka við af sjálfum sér. Kannski hefur hann haft nægan tíma til að æfa sig vestur í Djúpi á vetrarkvöldum.
Ég sagði stelpunum þetta og lýsti því í mörgum orðum hvað ég hefði verið bit á þessu. Og spurði þær svo hvort þær væru ekki undrandi að heyra þetta um afa sinn.
Nei, aldeilis ekki! Þær horfðu á mig og skildu ekkert hvað ég var að tala um. "Afi gerir oft eitthvað skemmtilegt," sagði Elísabet svo.
Auðvitað er þetta rétt hjá henni og gildir ekki bara um þennan afa. Afar eiga það til að vera svo miklu uppátækjasamari en pabbar voru
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.3.2008 | 09:50
Vinsælasti hnötturinn
Systur héldu afmælisveislu síðdegis í gær, mest fyrir fjölskyldu en einn og einn vandalaus vinur slæddist með. Það bættist enn á pakkafjallið mikla og alveg með ólíkindum hvað allir höfðu valið vel og fallega fyrir þær. Takk, fyrir þeirra hönd.
Þegar síðustu gestir voru farnir og við Kata búnar að ganga frá í eldhúsinu fórum við allar í hjólatúr. Systur urðu auðvitað að prófa nýju hjálmana, sem eru svo miklu, miklu betri en gömlu hjálmarnir þeirra. Þeir gömlu voru líka orðnir of litlir, svo nú er allt eins og það á að vera.
Við hjóluðum niður í dal, út og suður. Þær voru farnar að þreytast og ætluðu ekki að nenna að hjóla alla leið til baka, en þá stakk Kata upp á að við færum allar í heita pottinn þegar við kæmum heim. Þær gáfu í og við vorum komnar heim örskömmu síðar.
Kvöldstundin í pottinum var jafn ljúf og allar slíkar. Þær mændu upp á stjörnurnar og Margrét velti mjög fyrir sér lífi á öðrum hnöttum. "Er okkar hnöttur ekki vinsælastur?" spurði hún og við samsinntum því, jú, hann væri áreiðanlega vinsælastur hjá mannfólkinu. Henni finnst að við eigum að taka vel á móti öðrum sem slæðast hingað. "Við ættum að setja risastórt skilti í sjóinn, þar sem stendur VELKOMIN Á VINSÆLASTA HNÖTTINN!"
Þessari hugmynd er hér með komið á framfæri.
Elísabet benti hingað og þangað upp í himinn, þarna væri Karlsvagninn og þarna Sjöstjarnan. Ekki gat ég mótmælt henni, ég hef aldrei þekkt nokkra bletti þarna úti, veit hvað tunglið er og kannast vissulega við sólina, en allt annað er mér gjörsamlega framandi. Kata er eitthvað skárri, en ekki mikið. Elísabetu þykir þetta þekkingarleysi mæðranna með ólíkindum. Erum við ekki vanar að vita allt?
Svo þurftu þær að ræða skilnaði. Við gengum nú ekkert á þær til að forvitnast um hvers vegna þær hafa svona mikinn áhuga á því málefni akkúrat núna, líklega hvílir það þungt á einhverjum í vinahópnum. En þær eru alveg með það á hreinu að skilnaður er alvörumál. Margrét lagði þunga áherslu á að fólk ætti ekkert að skilja þótt það væri ekki sammála um hvað ætti að hafa í sjónvarpinu eða hvað ætti að hafa í matinn. Það yrði að vera ósammála um eitthvað miklu merkilegra.
Elísabet vildi fá meira fjör í pottinn og bað Margréti að sýna nokkra HOJA-takta. Sem systir hennar gerði svikalaust, enda búin að stúdera karate-bókina sína vel. Hún hefur sjálf bætt ýmsu við, til dæmis hnykkir hún höfðinu mjög snöggt til í miðju öskri. Hún sýndi okkur þessa viðbót og fékk svo hláturskast okkur til samlætis.
Kata notar páskafríið í að setja myndir og videó inn á síðuna mína.
Þótt langt væri liðið á kvöld þegar við loks fórum upp úr pottinum lásum við tvo kafla í Bláa hnettinum.
Systur sofnuðu um leið og þær lögðust út af.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.3.2008 | 12:50
Afmæli
Systur sváfu óvenju lengi í morgun. Vekjarinn hringdi hjá mér klukkan 8, en þá bólaði enn ekkert á þeim. Korteri síðar kom Eísabet og Margrét fylgdi fast á eftir. Þær tóku við afmælisknúsum frá mæðrum, en sneru sér svo hvor að annarri og knúsuðust lengi. "Til hamingju með afmælið, systir!" Elísabet smellti kossum beint á munninn á Margréti, en systir hennar er eina manneskjan í heiminum sem fær kossa á munninn við öll möguleg og ómöguleg tækifæri. Mömmur fá slíka kossa í algjörum undantekningatilfellum og aðrir geta nú ekki látið sig dreyma um slíka nánd. Systir er í sérflokki.
Þær byrjuðu á að gefa hvor annarri. Elísabet var ekki í nokkrum vafa um hvað hún ætlaði að gefa Margréti. "Ég vil finna Karate-bók fyrir Hojarann" sagði Elísabet, en "Hojarinn" er nafnið sem hún hefur gefið systur sinni þegar sú síðarnefnda stekkur um allt hús í bardagaham og öskrar ógnvekjandi HOOOOJ-AA!! Elísabet er meira að segja farin að hóta manni, ef hún þykist eitthvað ósátt og spyr þá: "Á ég að sækja Hojarann?" Þá á maður líklega að skjálfa á beinunum af ótta við karate-kappann ógurlega.
Við fundum bókina "Karate for Kids" í Iðu og þótt hún sé á ensku þá er hún vel myndskreytt. Um leið og Margrét opnaði pakkann ljómaði hún af hamingju og kyssti og knúsaði systur sína í tætlur. Svo fletti hún og hermdi eftir stellingum á öllum myndunum.
Margrét fór sjálf í bæinn með Kötu í gær til að velja gjöf fyrir systur. Hún ætlaði fyrst að kaupa pils, dauðfegin að geta keypt slíka flík á systur sína án þess að eignast svoleiðis sjálf. Þær fara stundum báðar í leggings, en Elísabet fer þá alltaf í pils líka, sem Margrét kærir sig alls ekki um. Hún vissi að Elísabet yrði glöð að fá nýtt pils, en eftir nokkra leit í Kringlunni rak hún augun í gylltar leggings og þar var gjöfin auðvitað komin. Elísabet var jafn hamingjusöm með gylltu buxurnar og systir hennar var með Hoja-bókina.
Þær fengu margar aðrar gjafir í morgun. Flotta reiðhjólahjálma og flíspeysur frá Afa Ís og Ömmu Deddu, stór og mikil púsl frá Bettý frænku og flotta Nike-boli og töskur frá Magga frænda og fjölskyldu í Svíþjóð. Áður höfðu þær fengið að þjófstarta á gjöfinni frá Möggu frænku og fjölskyldu, krúttlegum, mini-gæludýrum í sérstökum ferðatöskum. Og allt þetta bættist við fínu gjafirnar sem skólasystur gáfu þeim á laugardaginn.
Þetta var nú ekki aldeilis allt. Litlu dekurrófurnar okkar fengu tölvu frá mömmunum! Kata hafði útvegað flotta, notaða fartölvu, sem er alveg eins og ný. Það er nú eiginlega hálf vandræðalegt að viðurkenna það, en ég get ekki betur séð en að hún sé töluvert yngri og öflugri en mín og dugar mín þó ágætlega til að skrifa heilu bækurnar. Systur hafa sótt mjög stíft í tölvurnar okkar Kötu undanfarið, en nú hafa þær eigin tölvu inni í herbergi. Vinir okkar, Sjonni og Addý, komu hér við í gærkvöldi og hjálpuðu okkur við að setja tölvuna þannig upp að hvor um sig geti haft sinn aðgang, án þess að klúðra nokkru fyrir hinni eða uppsetningu tölvunnar. Sjonni fann hinar og þessar leikja- og fræðslusíður, sem þær geta farið beint inn á.
Þær settust strax við tölvuna, með eggjaklukku sér við hlið. Margrét byrjaði, lék í 10 mínútur, þá hringdi klukkan og Elísabet fékk næstu 10 mínútur. Þeim gengur yfirleitt vel að semja um svona hluti, svo þetta gengur áreiðanlega snurðulaust. Nú þurfa mæður bara að ákveða hversu oft og lengi þær mega sitja við.
Eftir fyrstu tölvuprófun voru systur orðnar svangar og heimtuðu afmælismorgunmatinn: Egg, beikon og amerískar pönnukökur. Þrátt fyrir að hafa fengið senda uppskrift (takk, Kristín!) þá lét ég nú Betty Crocker að mestu um pönnsudeigið. Systur ætluðu aldrei að fá nóg af kræsingunum og þegar Elísabet knúsaði mig á eftir bað hún mig vinsamlega að kreista sig ekki fast. Hún var alveg troðin.
Þær eru núna í Neðstalandi, frístundaheimilinu sínu. Þar ætla þær aðeins að baða sig í afmælisljóma, en þær vilja koma snemma heim, enda eiga þær von á gestum síðdegis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.3.2008 | 11:27
Ómarktæku kellingarnar
Pistill í 24 stundum í dag:
Dætur mínar eiga sjö ára afmæli á morgun. Þær geta ekki beðið eftir að eldast.
Ég hef ekki enn fengið af mér að segja þeim að þær verði stelpur fram yfir þrítugt, svo komi u.þ.b. 10 ára tímabil þar sem þær teljist kannski til brúklegra þjóðfélagsþegna sem mark er takandi á, en að því tímabili loknu umturnist þær í kellingar. Og kellingar eru til fárra hluta brúklegar.
Svo undarlegt sem það nú er, þá er ævi karlmanna með allt öðrum brag. Vissulega eru þeir fyrst strákar. Þá eru þær stelpur.
Svo verða þeir ungir menn og jafnvel efnilegir ungir menn. Þá eru þær áfram stelpur, en sumar að vísu efnilegar stelpur.
Á þriðja stigi verða þeir bara menn og á mönnum er mark takandi. Þá eru þær enn stelpur, en hafi þær menntað sig og séu fylgnar sér þykja þær að vísu marktækar á þessu tímabili. Konur eru þær sjaldnast kallaðar, enda þykir það eins konar skammaryrði. Komi karlmaður í hús þykir ekkert tiltökumál að hrópa: Það er hér maður að spyrja eftir þér! Komi kona í hús verður fólk vandræðalegt, heldur að það móðgi hana með því að kalla hana konu, kallar hana frekar stelpu eins lengi og hægt er, en kemur sér undan því ella.
Að þessu tímabili loknu eru þeir enn menn. Þær eru kellingar.
Þetta sést skýrt í stjórnmálunum. Þar verða efnilegu, ungu stjórnmálamennirnir að stjórnmálamönnum. Efnilegu, ungu stelpurnar verða kellingar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
18.3.2008 | 10:47
Gat í götu
Systur eru að bræða úr sér af afmælisspenningi. Í morgun reyndu þær margoft að fá okkur Kötu til að segja hvað við ætlum að gefa þeim í afmælisgjöf á morgun. Þeim fannst við alla vega geta sagt fyrsta stafinn, en við harðneituðum, enda eru þær orðnar svo flinkar að stafa að við gátum ekki tekið neina áhættu.
Kata lýsti því yfir að að þessu sinni fengju þær svo fína gjöf að hún hefði ákveðið að eiga hana með þeim. Þær kipptu sér ekkert upp við það, hlógu bara og sögðu að það væri ekkert hægt. Ef maður gefur eitthvað, þá er ekkert hægt að eiga það sjálfur! Skrítin skrúfa, þessi mamma.
Við gengum í skólann og enn einu sinni býsnaðist ég yfir niðurfallinu við gangbrautina úti á horni á Logalandi og Óslandi. Ristina vantar yfir gatið og ég hef áður sagt þeim hversu hættulegt það getur verið að stíga í svona gat, krakkar geta auðveldlega fótbrotnað. Ég hef alltaf gleymt að gera eitthvað í þessu, en að þessu sinni var ég með símann á mér og hringdi í borgina til að láta vita. Systur ætluðu ekki að trúa sínum eigin augum. Þær hvísluðust á og voru mjög spenntar á meðan ég talaði við einhvern ágætan Jóhann, sem lofaði að skila þessu til þeirra sem ráða yfir ristum borgarinnar.
Eftir símtalið sagði ég þeim að Jóhann hefði þakkað mér fyrir að láta vita. Þá sá ég að þeim létti töluvert, þær eru að mjakast á þann aldur þar sem þær hafa áhyggjur af því að mömmur geti hugsanlega gert eitthvað vandræðalegt. Svo þurftu þær að ræða þetta fram og til baka, um stóra sjóðinn sem allir borga í af laununum sínum, hvað ljósastaurar kosta, hver borgar laun starfsmanna ríkis og bæja og allt það. Nú vona ég bara að Jóhann og félagar bregðist fljótt við, svo systur sjái að kerfið virkar ef borgarbúar þurfa að láta fjarlægja svona slysagildrur.
Þær voru glaðar þegar þær komu í frístundaheimilið upp úr klukkan 9, enda allur hópurinn að fara í keilu klukkan 10. Svo fara þær á fótboltaæfingu síðdegis og María Hrund frænka þeirra, sem er í heimsókn frá Danmörku, ætlar að fara með þeim.
Eftir fótboltaæfinguna verðum við að skipta liði, þær systur eiga nefnilega eftir að finna afmælisgjafir hvor fyrir aðra. Þær hafa verið með ótrúlega krúttlegar vangaveltur um þau kaup, hvor um sig er ákveðin í að finna eitthvað sem hinni finnst allra best.
Þær eru búnar að ákveða morgunmatinn í fyrramálið, á sjálfan afmælisdaginn: Þá vilja þær beikon, spælt egg og amerískar pönnukökur! Ég held ég verði að vakna extra snemma, mér líst ekkert á að fara beint upp úr rúminu í slíka matseld. Amerískar pönnsur hef ég aldrei gert, svo þetta verður tilraunastarfsemi á afmælisdaginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.3.2008 | 22:06
Fallin keila
Það fór eins og ég óttaðist: Systur stóðu sig vel á skautunum og vilja alveg endilega fara sem allra fyrst aftur. Kata kom mér til bjargar, lýsti því yfir að hún hefði verið afar liðug á járnunum hérna í den og væri meira en til í að fara með þeim bráðlega. Þær vilja hins vegar gjarnan að ég fari með og horfi á, líklega svo þær geti spurt mig í sífellu hvort ég hafi virkilega dottið í hverju skrefi. Þær spurðu mig að því 127 sinnum í dag og svarið var fyndið 127 sinnum.
Á morgun fara þær í keilu. Ég hef aðeins prófað keilu einu sinni, en ef þær falla fyrir því eðla sporti reikna ég með að geta fylgt þeim eftir án þess að leggja mig í lífshættu. Er ekki ólíklegt að ég detti í hverju spori í keilu?
Þær voru örþreyttar í kvöld, eftir skautana, leiki, hjólatúr, fimleikaæfingu og hjólatúr, í þessari röð. Svo lásum við um bláa hnöttinn og þær þurftu ekkert að suða í mér að lesa meira en ég ætlaði mér, bókin er svo spennandi og skemmtileg að ég þurfti að beita mig hörðu til að hætta að lesa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.3.2008 | 10:23
Skautað yfir sannleikann
Systur voru kátar í morgun. Við vorum nú ekkert að flýta okkur af stað þótt við vöknuðum kl. 7, kúrðum lengi og hnoðuðumst, tókum góðan tíma í morgunmat og svo ráku þær augun í kassa með páskaskrauti á borðstofuborðinu. Þær urðu auðvitað óðar og uppvægar þegar þær sáu allt fína skrautið sem þær gerðu í gamla daga, á meðan þær voru enn á leikskóla, og nú er þetta skraut komið upp um alla veggi og borð. Ég fékk alla vega að klára kaffið mitt og Moggann í friði, en Kata hin ofuraktíva stökk af stað í leikfimi. Kannski hefur hún fengið meira koffín en ég? Nei, held ég geti nú ekki útskýrt leikfimileti mína með koffínskorti.
Ég varð að svíkja loforðið um hjólaferð í skólann, enda hálka úti og systur voru alveg sáttar þegar ég sagði að við myndum ganga. Þær óttuðust að við færum á bílnum, en fátt finnst þeim verra á morgnana. Þær þurfa svo mikið að spjalla, að gönguferðin er eiginlega bráðnauðsynleg.
Að þessu sinni var þeim væntanleg skautaferð ofarlega í huga. Þær spurðu mig hverjar líkurnar væru á að þær gætu strax staðið á skautunum hjálparlaust. Ég kaus að segja þeim ekki bernskusögur af mér, því þótt þær séu sívinsælar þá eru skautasögurnar kannski engin sérstök hvatning. Ég trúi því reyndar enn að ég hafi alltaf verið frekar slöpp á skautum af því að þegar skautarnir voru loks komnir í mínar hendur höfðu tvær eldri systur skælt þá svo rækilega að það var engin leið að nota þá. Systur mínar myndu áreiðanlega segja þetta síðari tíma söguskýringu...
Alla vega, ég neyddist nú til að segja systrum að þær gætu ekki reiknað með að svífa um allt skautasvellið í fyrstu tilraun, en hins vegar væri óskaplega gaman að prófa. Ég ætti að vita það, prófaði og prófaði árum saman.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Logalandið
Bloggvinir
- margretsverris
- begga
- annapala
- stebbifr
- andreaolafs
- sms
- seth
- salvor
- hrafnaspark
- svartfugl
- vitinn
- ingibjorgelsa
- konukind
- eddaagn
- konur
- thorbjorghelga
- elvabjork
- steinunnolina
- jullibrjans
- toshiki
- adhdblogg
- malacai
- arndisthor
- asarich
- baldvinjonsson
- berglindnanna
- beggita
- birna-dis
- birtab
- bjb
- blomid
- dabbaa
- doggpals
- madamhex
- saxi
- ellasprella
- garun
- gislihjalmar
- neytendatalsmadur
- gudni-is
- lucas
- gylfig
- iador
- helgamagg
- skjolid
- hildigunnurr
- hildurhelgas
- himmalingur
- hlekkur
- danjensen
- innipuki
- jakobk
- jenfo
- joninaros
- prakkarinn
- nonniblogg
- julianamagg
- kari-hardarson
- kiddijoi
- kollak
- hjolaferd
- kristinm
- lenapena
- liljabolla
- lillagud
- lindalinnet
- 101isafjordur
- mal214
- mongoqueen
- olinathorv
- fjola
- amman
- siggiholmar
- sij
- sigthora
- zsapper
- svala-svala
- possi
- saemi7
- saethorhelgi
- steinibriem
- thorasig
- thorhildurhelga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar