Tertuhelgi

Systur voru alsælar með afmælisboðið í Smáralind. Stelpuhópurinn fékk pizzur, köku (já, hina einu sönnu) og ís og svo klifruðu þær upp um alla veggi sleitulaust. Allar vinkonurnar gáfu þeim fínar gjafir og þær voru alveg í skýjunum þegar þær dunduðu sér með dótið í gær og í morgun. Kata gat tekið stutt vídeó á myndavélina sína þegar systur voru að skreyta tertuna og hún getur áreiðanlega fundið út úr því með mér hvernig á að setja það inn á síðuna.

Við fórum snemma út í morgun, hittum Addý og Báru í brunch á 101 og svo fóru systur í afmæli til Sigurlaugar bekkjarsystur. Sama hamingjan í því afmæli og þeirra eigin, sýndist mér. Við Kata röltum eftir þeim klukkan þrjú og klukkutíma síðar vorum við mættar í fermingu hjá Elínu Rósu. Við erum því rækilega úttroðnar af tertum og pizzum eftir þessa helgi Wink

Páskafríið er byrjað í skólanum, en systur fara í frístundaheimilið í fyrramálið. Mér sýnist prógrammið þar mjög skemmtilegt næstu daga, hópurinn fer á skauta á morgun og í keilu á þriðjudag. Þær eru spenntar og ekki baun svekktar að vera ekki í fríi alla daga. Þær fá líka að hjóla í frístundaheimilið á morgun, ég lofaði því víst í einhverju bríaríi fyrr í dag.

 


Terta upp í loft

 Á morgun er afmælisveisla fyrir bekkjarsysturnar.

Systur hafa mjög sterkar skoðanir á því hvernig afmælisveisla á að vera. Hver sá sem ávarpar Elísabetu þessa dagana og spyr um afmælisveislu fær athugasemdina: "Það verður ekki bara veisla. Það verða skipulagðir leikir."

Kata ætlar að taka að sér að skipuleggja og stjórna leikjum. Hún hefur sérstaklega gott lag á argandi krakkahópum. Kannski býr hún enn að eigin þátttöku í hópíþróttum, eða þjálfaradjobbinu? Ég hef ekki þann hæfileika að láta hóp af skrækjandi og flissandi stelpum þagna til að hlusta á mig.

Ég get hins vegar alveg skipulagt hitt og þetta, ef nauðsyn krefur. Annað atriði, sem systur taka skýrt fram við alla sem spyrja um afmælið, er að það verður "terta sem verður svona upp í loft."

Þessi glæsiterta er að fæðast í áföngum inni í ofni núna. Ég treysti mér í þann part, þ.e. að setja hvert mótið á eftir öðru inn í ofninn. Svo kemur Kata heim, snikkar þetta allt saman til og voila: Þriggja hæða afmælisterta!

Auðvitað er þetta ekki alveg svona einfalt. Það gengur víst ekki að hlaða botni tvö ofan á botn eitt, þótt aðeins minni sé, og setja svo þann þriðja og minnsta efst. Nei, það verður að setja upp einhverja beinagrind, stillansa innvortis, svo tertan haldist glæst og fögur. Þetta hefði ég ekki vitað nema af því að ég asnaðist til að fara að googla eitthvað um tertur og datt inn á ameríska síðu. Kaninn kann sko að gera margra hæða tertur! Og með fylgdi nákvæmur uppdráttur, sem sýndi hvar innri bygging ætti að vera, svo tertan yrði sem fegurst.

Mér féllu nánast hendur um sinn. Tók mig 3-4 klukkutíma að fatta að hér á landi er allt morandi í fagmönnum sem geta leiðbeint. Svo ég hringdi í byggingarmeistara... nei , djók, ég hringdi í elskulegan bakara hjá Bernhöftsbakaríi, sem benti mér á að fara í Akron og kaupa plexíglerstöng. Hana saga ég svo bara niður í hentuga búta, sting þeim niður í botn eitt og botn tvö og hleð svo upp þessari flottu tertu. Ókei, KATA hleður upp þessari flottu tertu og mundar rjómasprautuna, ég er betri í grunnvinnunni.

Systur eru alveg sérstaklega sælar með mæður að láta þessa margra hæða tertu eftir þeim. Með súkkulaðikremi og bleikum rjóma. Þær ætla hins vegar sjálfar að sjá um að skreyta hana að öðru leyti. Mig grunar að hún verði að vera einstaklega sterkbyggð, eigi hún að þola allt það sælgæti sem þær vilja setja á hana.


Furðufatagengi

Furðufatadagur í Fossvogsskóla hefst í þessum rituðum orðum.

Systur, Marta María og Tara voru búnar að ákveða að vera smábörn. Fjórburar. Hins vegar þurftu mæður að sannfæra þær um að fjórburar væru ekki alltaf nákvæmlega eins klæddir. Tara og Marta María eiga eins náttföt og voru í þeim, en systur fengu heimatilbúnar samfellur. Ég keypti hvíta stuttermaboli í fullorðinsstærð í Rúmfatalagernum og Kata breytti þeim í samfellur í gærkvöldi með nokkrum vel völdum saumsporum. Svo straujaði ég Bangsimon myndir framan á samfellurnar. Í morgun voru systur vaknaðar klukkan 7. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið: Aðeins þrjár klukkustundir til stefnu!

Þær voru hinar lukkulegustu með föndur mæðranna. Fóru í sokkabuxur innan undir samfelluna og allt of litlar peysur yfir. Þær fengu líka hvor sinn pelann og auðvitað voru þær með bangsa. Kata dúllaði lengi við fléttur í hárið á Elísabetu og Margrét samþykkti að vera með tagl í tilefni dagsins.

Svo hlupu þær yfir á númer 5, til að sjá hvernig Töru gengi, en þá voru þær tvívegis búnar að hringja yfir í Mörtu Maríu á númer 2 til að kanna hver staðan væri þar. "Við förum til Töru og svo til Mörtu" hrópuðu þær og hlupu á harðaspretti út, á samfellum, í úlpum og kuldaskóm. Þær máttu varla vera að því að kasta kveðju á Kötu, sem var að fara í vinnuna.

Þær voru rétt horfnar fyrir húshornið hjá Töru þegar Marta María kom yfir með Dóru mömmu. Þær komu færandi hendi og bættu enn við búningana með litlum brjóstsykursnuðum. Marta hvarf upp á númer 5 með fenginn.

Þegar ég hringdi á númer 5 skömmu síðar heyrðist óljóst í Thelmu Törumömmu, enda fjörið alveg í hámarki. Margrét missti brjóstsykursnudduna og braut hana, en Thelma bjargaði því snarlega með alvöru snuddu. Margréti fannst það frábær skipti. Satt best að segja líst mér ekkert á blikuna. Hún var svakalegt snuddubarn og virtist taka mjög skyndilegu ástfóstri við þessa nýju snuddu!

Thelma bætti enn á lúkkið þegar hún málaði rjóðar kinnar og fallegar freknur. Svo kom allt gengið aftur hingað og ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að rölta með þeim í skólann. Og tók örugglega tuttugu myndir af þessum krúttum.

Logalandsgengið skokkaði á undan mér í ótrúlegri eftirvæntingu. Þær leiddust allar, valhoppuðu, sungu og trölluðu.

Þær leiddust líka allar inn í skólann og ef ein þeirra var spurð í hvernig búningi hún væri svaraði hún: "Við erum fjórburar."

Ein fyrir allar, allar fyrir eina.

Stórkostlegur stelpuhópur, þetta Logalandsgengi.


Samsæri

Vampíran mætti ekki til vinnu í skólanum í dag!

Þetta kallaði á ótrúlegustu samsæriskenningar. Hvað geta vampírur verið að gera, þegar þær ættu að vera að vinna með skólabörnum?

Skipuleggja eitthvað skelfilegt og vara allar hinar vampírurnar við Logalandsgengi með hvítlauk og spegla.

Systur í fótbolta, vampírur gleymdar í bili.

Á morgun er furðufatadagur í skólanum. Þær eru svo aldraðar orðnar, að þeim finnst óskaplega furðulegt að fara í smábarnaföt og ætla að gera það í fyrramálið. Fá svo alvöru pela sem props.


Vampíra

Ímyndunaraflið er að gera út af við skólagöngu Logalandsgengisins.

Þegar ég sótti systur og Mörtu Maríu í skólann benti Margrét mér laumulega á ljósmynd af einum starfsmanninum uppí á vegg. Sagðist svo þurfa að segja mér dálítið, en ekki fyrr en við kæmum út í bíl.

Á þessari ljósmynd er ung og brosmild kona. En sú blekking! Í bílnum var ég leidd í allan sannleika um hana. "Við höldum að hún sé vampíra," sögðu systur og Marta María klíkufélagi þeirra.

Þær voru nú ekki alveg með það á hreinu hvað það væri að vera vampíra, en samt sannfærðar um að þessi kona væri einmitt það. Vampíra.

Þær færðu mörg og mismunandi rök fyrir þessu áliti sínu, sem hafði nákvæmlega ekkert með það að gera að þeim líkar mjög vel við þessa ágætu, ungu konu. Sterkustu rökin voru þau, að á myndinni eru augun í henni rauð.

Ég á fullt, fullt af vondum ljósmyndum af vampírum í myndaalbúmi fjölskyldunnar ef þetta er einhver sönnun.

Mér finnst ekkert gaman að eyðileggja svona pælingar, svo ég ákvað að ýta fremur undir ímyndunarveikina en hitt. Og sagði þeim að vampírur yrðu alveg óðar ef þær kæmu nálægt hvítlauk.

Þær ákváðu strax að hengja hvítlauksfestar um hálsinn á sér og faðma svo umræddan starfsmann til að athuga hvort hann bráðnaði.

Mörtu Maríu fannst líklegt að konuna myndi gruna eitthvað, ef þær kæmu með hvítlauksfestar um hálsinn og stakk upp á að þær myndu fara inn í eldhús, bíða þar til konan kæmi og spyrði hvað þær væru eiginlega að róta í ísskápnum og snúa sér svo snöggt við með hvítlauk í hendinni. Þær æfðu þetta nokkrum sinnum og æptu: HVÍTLAUKUR ! svo þakið ætlaði að rifna af Litla Skít.

Ég skaut því inn í hvort það væri ekki missir að konunni, ef hún yrði að einni klessu á gólfinu, en þær létu eins og þær heyrðu ekki í mér. Ég var líka búin að ákveða að vera ekki leiðinleg, svo ég hélt áfram að gefa góð ráð: "Vampírur hafa enga spegilmynd."

Það ætlaði allt um koll að keyra í aftursætinu eftir þessar upplýsingar. Elísabet ákvað að segja ungu konunni að varaliturinn væri aðeins útfyrir, hún þyrfti að laga hann og best væri að gera það fyrir framan spegil. "Og svo fer ég með henni inn á bað og þá sé ég ef hún er í speglinum," sagði hún sigri hrósandi.

Marta María og Margrét kunnu ótalmörg önnur ráð til að tæla konuna að spegli, en þá benti ég þeim á eitt vandamál. Ungar konur settu alltaf málningu framan í sig og því væri erfitt að greina hvort þetta væri í raun spegilmynd þeirra, eða bara spegilmynd af öllu meik-öppinu.

Nú kom óvenju löng þögn afturí. En Elísabet benti loks á, að freknurnar á konunni sæust, svo varla málaði hún sig mjög mikið.

Ú-Ú-Ú, vampíra með freknur! Þetta varð sífellt ógnvænlegra.

Þær héldu áfram að ræða vampíruna eftir að við komum hingað heim.

Svo kom fjórði klíkufélaginn, Tara á númer 5, og þá þurfti að setja hana inn í málin.

Margrét kom til mín áðan. Hún er að hugsa um að hætta í skólanum. Henni finnst ómögulegt að vera í skóla sem er "fullur af vampírum".


Enn furðulegra

Fyrst ég er nú farin að velta fyrir mér furðulegheitum:

Kvennalandsliðið í fótbolta fer á mót í Portúgal, vinnur ALLA leiki í sínum riðli, en keppir svo um SJÖUNDA sæti á mótinu??!!

Getur einhver útskýrt svona fyrirkomulag?


Furðulegt

Afmælið á laugardag verður aðeins fámennara en til stóð, því í morgun kom í ljós að stelpa í hinum bekknum á líka afmæli 19. mars og ætlar líka að halda upp á það 15. mars. Það gengur ekki að hafa tvær afmælisveislur á sama tíma, svo systur bjóða bara stelpunum úr sínum bekk að þessu sinni. Það verður áreiðanlega alveg heilmikið fjör samt. Ellefu stelpur eru nú alveg ágætur hópur Grin

Systur eru annars farnar að velta fyrir sér komandi furðufatadegi, sem er á föstudaginn. Í Fossvogsskóla er alltaf furðufatadagur á síðasta skóladegi fyrir páskafrí og allur dagurinn fer í leiki, söngvakeppni og svoleiðis gaman. Um daginn voru einhver undanúrslit og þá var hópur keppenda með lagið Ho-ho-ho we say hey-hey-hey, sem féll nú aldeilis í kramið hjá systrum. "Strákarnir voru meira að segja á bringunni!" sagði Margrét. Töff.

Logalandsgengið ætlar víst að klæða sig upp sem smábörn á furðufatadaginn. Ekki veit ég af hverju. Á öskudaginn voru þær nornir og púkastelpur og kannski hafa þær fengið nóg af svörtu hliðinni, núna vilja þær vera sakleysið uppmálað. Þær vita hins vegar að smábörn mega ekki vera eftirlitslaus, svo nú eiga þær í samningaviðræðum við 12 ára skólavinkonur að taka barnapíuhlutverkið að sér. Elísabet var að vísu dálítið heit fyrir því um tíma, því það þýddi að hún fengi að vera eins og unglingur, en svo hafði hópþrýstingurinn betur og hún ætlar í smábarnabúning.


Hrossakaup

Systur spruttu fram úr rúmum í morgun, enda nóg að gera áður en haldið var í skólann. Kata hafði gert boðskort í afmælið þeirra í gærkvöldi og nú þurftu þær að skrifa inn nöfn gestanna og kvitta sjálfar undir. Þær bjóða öllum stelpum í báðum 6 ára bekkjum, alls 16 stelpum. Þar við bætast svo þrjár gamlar vinkonur af leikskóla. Alls 21 stelpa með afmælisbörnunum. Þær systur ætla að halda afmælið í Veröldinni okkar í Smáralind, svo þar verður klifrað og hoppað, borðað og leikið af krafti næsta laugardag. Afmælið sjálft er ekki fyrr en eftir slétta viku, en þann dag kemur fjölskyldan og fylgihlutir hingað heim í boð.

Afmæliskortin voru ekki eina ástæða þess að þær spruttu framúr. Í gærkvöldi hringdi Tara á númer 5 og spurði hvort hún mætti verða samferða í skólann. Það var auðvitað sjálfsagt mál og hún var mætt hérna rétt fyrir 8, þegar við vorum að labba af stað. Svo stoppuðum við á númer 2 og þar var Marta María tilbúin að slást í hópinn.

Logalandsgengið skoppaði á undan okkur Kötu í skólann. Nú fer líklega að styttast í að þær vilji bara labba þetta saman, vinkonurnar. Við Kata erum ekki alveg tilbúnar að samþykkja það strax, okkur finnst svo gott og gaman að rölta þetta með þeim á morgnana. Og enn nýtumst við ágætlega til að halda á töskunum þegar þær verða lúnar og vilja skoppa frjálsar.

Logalandsgengið er einstaklega samhent. Þær eru enn að safna fyrir sameiginlegum hesti, einhverju risadýri úr Toys'R'Us sem þær ætla að kaupa saman og skiptast á að hafa á númer 2, 5 og 8. Í gær komu systur og Tara með poka af plastflöskum frá ömmu Töru og í dag ætla þær að flokka dósir og flöskur hérna heima og selja öll herlegheitin til að eiga fyrir hestinum. Ég var nú alltaf að vona að þær myndu gleyma hrossinu, en það stefnir ekkert í það. Það er töluvert kvíðaefni að þeim takist í raun að safna fyrir dýrinu. Ég hef reyndar aldrei litið það augum og hef ekki hugmynd um hvað það kostar. Líklega allmargar plastflöskur.


Blindur er bóklaus maður

Hamborgaraveislan á föstudag hjá Töru klíkufélaga á númer 5 tókst rosalega vel. Sem var nú eins gott, því systur höfðu byggt upp miklar væntingar. Margrét hafði meira að segja teiknað komandi veislu í skólanum fyrr um daginn. Á myndinni er Logalandsgengið, þ.e. þær systur, Marta María og Tara gestgjafi, við matarborðið heima hjá Töru. Þær fjórar sitja allar með hamborgara fyrir framan sig og eru eitt sólskinsbros. Thelma Törumamma stendur yfir þeim með könnu í hendi, albúin að skenkja einhvern ljúfan drykk.

Margrét er nákvæm í teikningum sínum. Hún hefur komið margoft til Töru, svo hún gleymdi auðvitað ekki að teikna fiskabúrið hennar og litla stautinn með fiskamatnum. Svo fékk hún aðstoð Töru við að rifja upp hvernig stólarnir við matarborðið eru í laginu. Nákvæm.

Systur eru svo uppteknar í sósíal lífinu þessa dagana að við höfum varla tíma til að lesa á kvöldin. Á laugardag vorum við allar í mat hjá Þórdísi og Kristjáni. Enginn kvöldlestur. Í gær komum við heim úr fermingarveislu á háttatíma. Enginn kvöldlestur Blush

Þetta er sérstaklega frústrerandi þessa dagana, af því að við gerðum okkur ferð á bókamarkaðinn í Perlunni um daginn. Systur voru mjög spenntar og spurðu hvort þær mættu fá eina bók á mann. Ég sagði að þær mættu fá tvær á mann. Svo fórum við á markaðinn og keyptum tíu bækur, eins og lög gera ráð fyrir að maður geri á bókamarkaði. Allar þessar bækur, þeirra á meðal Sagan af bláa hnettinum, Hundaeyjan, Gallsteinar afa Gissa og Marta smarta, eru hér í stórum stafla. Þetta gengur ekki lengur.

Eftir bókamarkaðsheimsókn ákvað ég að fara með þær á sögusýninguna í einum tankinum í Perlunni. Þeim leist nú ekki meira en svo á blikuna, enda eru blessuðu víkingarnir þar eiginlega einum of raunverulegir. En systur báru sig samt vel, sögðu að þetta hefði nú verið gaman og spurðu svo hvort þær þyrftu nokkuð að fara aftur á þessa sýningu.

Aftur að nýliðinni helgi: Systur fóru í gítartíma eins og alltaf á laugardögum og svo skruppum við fjórar til Knúts. Síðdegis á þessum baráttudegi kvenna var mömmum boðið í dálítið kvennapartý hjá Örnu Garðars. Systur voru á meðan hjá afa Torben og ömmu Möggu og þegar við náðum í þær þangað rétt fyrir kvöldmat voru þær alsælar. "Þau eru svo skemmtileg," sögðu þær.

Öll familían brunaði til Þórdísar og Kristjáns og lét þau góðu hjón dekra við sig langt fram eftir kvöldi. Elísabet sá ekkert og engan nema litlu tíkina þeirra, sem er alveg einstaklega falleg. Margrét er vissulega líka mikil hundastelpa, en hún getur þó litið af slíkum dýrum af og til. Elísabet verður algjörlega heltekin, sé eitthvert dýr nálægt henni. Sama gildir raunar um smábörn, hún fer alveg á hvolf ef kríli er nálægt.

Sunnudagurinn varð alveg sama letilífið. Systur vöknuðu auðvitað klukkan 8 eins og alltaf, en mæður fengu að dorma aðeins lengur. Svo var það morgunkaffi á Te og Kaffi í M&M, þar sem við hittum Þórdísi, Kristján, Vigdísi og vinkonu hennar aftur, en svo tók Kata á sig rögg og fór með systur í sund. Ég fékk að liggja heima að berjast við fjárans kvefið sem ætlaði mig lifandi að drepa. Sá litli lúr dugði til að ég náði áttum og komst í fermingarveislu Katrínar Sigríðar síðdegis.

Systur eru afskaplega ánægðar í fjölskylduboðum. "Eru allir hérna inni í stórfjölskyldunni?" spurði Elísabet opinmynnt og starði í kringum sig í Oddfellow húsinu. Þær systur vilja hafa sem flesta í stórfjölskyldunni og eiga til að skrifa ótrúlegasta fólk þar inn. Þær eru sannfærðar um að maður geti aldrei átt of marga ættingja. En þær eru nú bara rétt að verða sjö ára Wink


Æ er stafur vikunnar

Stafur vikunnar er Æ.

Margrét settist við blaðið eftir fótboltaæfingu í gær og fór strax að teikna og skrifa án þess að leita nokkuð til mín. Hún veit að það kann ekki góðri lukku að stýra, ég fer sífellt að skipta mér af, koma með hugmyndir, leiðrétta jafnvel stafsetningu.

Henni finnst ótrúlega gaman í fótbolta, svo hún teiknaði tvær stelpur að berjast um boltann, tvö mörk þar sem markverðir biðu spenntir og auðvitað var stigatafla uppi á vegg. Æfing.

Svo kom nú aðeins minna hugguleg mynd. Stelpa kraup við klósett. Æla.

Þriðja myndin var af litlum, hvítum fugli með appelsínugula fætur og gogg. Að vísu byrjar heiti fuglsins ekki á Æ-i, en það kemur ekki að sök. Hæna.

Hér reyndi systir hennar, með skelmislegt glott á vör, að sannfæra hana um að hæna væri skrifað með tveimur H-um! Margrét lét ekki gabba sig svo auðveldlega.

Fjórða mynd Margrétar er allra best. Á henni er kantað, bleikt tæki, með hring í miðjunni. Frá tækinu liggur snúra og á enda hennar er heyrnartól. Æpot LoL

Þetta var svo flott hjá henni að það hvarflaði ekki að mér að segja henni að heiti tækisins væri í raun skrifað i-Pod. Enda í fínu lagi að íslenska ritháttinn.

Elísabet sat hugsi yfir blaðinu sínu, kom svo fram í eldhús og spurði: "Hvað þýðir æska?"

Ég útskýrði þetta fyrir henni eftir bestu getu. Hún fór aftur inn og var lengi að teikna tvo krakka, sem voru í svo fjörugum leik að það var erfitt að átta sig á myndinni. Æska.

Næst fór hún svipaða leið og systir hennar. Teiknaði fótboltastelpu, sem var á harðahlaupum og að þruma í knöttinn. Æfing.

Hún var ekki lengi að teikna þriðju myndina. Sem var sama marki brennd og hænumyndin hjá systur hennar, að heitið er ekki með Æ-i í upphafi. En þetta var fínt hús. Eða bær.

Síðasta myndin var órækur vitnisburður um 7 ára húmor. Á myndinni sést einhver ljót vera úti í horni öskra "B-ö-ö!" Lítil stelpa á miðri mynd er afar óttaslegin. Svo óttaslegin raunar að hún pissar á gólfið. Sem Elísabetu fannst töluvert fyndið. Ljóta veran er að hræða.

Við fengum gesti í kvöldmat, Ingu Dóru, Símon og tvíburastelpurnar þeirra, Erlu og Sonju. Þær eru 12 ára og systrum fannst mjög merkilegt að hitta svo aldraða tvíbura Wink 

Heimsóknin þýddi auðvitað að systur fengu að vaka aðeins lengur en venjulega, sem er alltaf sama upplifunin. Þær voru þó brattar í morgun, sérstaklega þegar ég sagði að þeim væri boðið í hamborgarapartý á númer 5 í kvöld. Góður dagur framundan. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband