Lægð

Yfir þessu bloggi liggur mikil lægð.

Kannski að stafablaðið í dag bæti úr?

Kannski.


Erfið spurning

Elísabet skreið upp í stóra rúm í nótt og svaf vært til morguns.

Klukkan 7 fórum við að ýta við henni, en hún sýndi lítil viðbrögð. Kata talaði til hennar og strauk um vanga, sem hafði þau áhrif að hún fékk litla handleggi um háls. Enn voru augun þó lokuð.

"Elísabet mín, ertu vöknuð?" spurði Kata.

"Ég veit það ekki," svaraði hún, enn með lokuð augun.


Gallsteinar og Grýla

Systur eru farnar í fimleika, en það suðar enn fyrir eyrunum á mér.

Þær komu heim úr skólanum hinar kátustu og ekki dró úr gleðinni að Tara nágranni kom með. Harðstjórinn ég lét allt gengið lesa um leið og þær komu inn úr dyrunum. Elísabet sat í stofusófanum og las um Völu, Margrét var í eldhúsinu og las um kálf og Tara sat við matarborðið og las um Mábba. Svo var ég eins og þeytispjald á milli að hlusta, sem gekk ágætlega því ég skipaði þeim bara að lesa aftur það sem þær höfðu verið að enda við að lesa, svo ég gæti dáðst að frammistöðunni. Flottastar.

Fjörið byrjaði eftir lesturinn. Ég hef ekki tölu á grímubúningunum sem þær klæddu sig í, dúkkunum sem þær léku sér með, sverðunum sem þær sveifluðu og lögunum sem þær sungu. Svo hljóp Tara heim að ná í fimleikabolinn sinn og rúlluskóna og þær þeyttust allar þrjár um allt hús á skónum sínum. Nýbakaðir kanelsnúðar náðu að hægja á þeim örstutta stund, en svo byrjaði allt stuðið aftur.

Þær róuðust aðeins þegar ég las Gallsteina afa Gissa fyrir þær, enda skemmtileg bók. Svo birtist Marta María ásamt Stefáni litlabróður og þá kom ný adrenalíninnspýting á neðri hæðina, svona rétt á meðan ég og Dóra fengum okkur kaffisopa uppi. Dóra tók svo alla hersinguna í fimleika.

Í dag kom Margrét heim úr skólanum með hefti, sem hún hefur unnið í desember. Í því eru teikningar af jólasveinunum, sem hún hefur litað og svo hefur hún skrifað nöfn þeirra við.

Jólasveinarnir heita: Stkkjastaur, Giljagör, Stúfur, Potasgefill, Askaslleigir, Hurðasgelir, Sgirgámur, Bjúgnakrækjir, Glugagæjir, Gátaþefur, Kjötkrókur og Kjertasnígir. Af einhverjum ástæðum hefur Þvörusleikir ekki fengið að vera með, en þarna eru líka Gríla, Lepalúði og Jólaköturin.

Sætust.


Gleði, gleði

Eftir gítartíma á laugardegi fórum við fjórar niður í bæ, til að spóka okkur í góða veðrinu. Góða gluggaveðrinu, öllu heldur, því það var skelfilega kalt!

Þegar við komum heim fengu systur að fara í heita pottinn á númer tvö á meðan við Kata brugðum okkur aðeins af bæ. Svo kom Unnur uppáhaldsfrænka til að passa, en við Kata fórum út á djammið. Og þvílíkt stuð! Ég var ræðumaður á Góugleði hjá þeim ágæta félagsskap, KMK (Konur með konum). Reyndar þekkti ég ekkert til félagsins áður, ég er fjarri því að vera félagsmálatröll og hef þess vegna aldrei farið með þeim í útilegu, í vínsmökkun, sótt bókakvöldin, ljósmyndasýningarnar og allt hitt. Greinilega afskaplega aktívur félagsskapur.

Þessi Góugleði var haldin á Gauknum. Ég hafði velt því mikið fyrir mér hvernig ætti að koma ríflega 70 konum fyrir á Gauknum og hlaðborði með kræsingum þar að auki. Sem sýnir bara hvað það er svakalega langt síðan ég hef komið á Gaukinn. Húsið er meira en helmingi stærra en það var í den.

Þetta var rosalega skemmtilegt samkvæmi, mikið stuð á kellingum langt fram á nótt. Þegar ég vaknaði í morgun lá ég lengi kyrr og velti fyrir mér hvort ég væri virkilega heil heilsu. Ég hafði nú ekki miklar áhyggjur af timburmönnum eða slíkri óáran. Hins vegar hefði ekkert komið á óvart þótt ég væri lurkum lamin, tosuð og teygð, því ég hef ekki dansað svona mikið árum saman. Gaman, gaman.

Við fengum nágrannana á 2 í morgunkaffi, en Kata er núna að manna sig upp í að fara með Logalandsgengið, stelpurnar fjórar, á hundasýninguna. Ég hef ekki oft verið beinlínis þakklát fyrir hundaofnæmið mitt, en núna er ég sátt Smile


Sótarar og kvenhetjur

Bjarki bestivinur kom heim með systrum eftir skólann í gær. Allt, allt of langt síðan hann hefur komið, en það er bara ansi erfitt að finna tíma. Ef systur eru ekki í fimleikunum, fótbolta eða gítar er Bjarki í fótbolta eða píanótímum. Afskaplega upptekin börn Smile

Um leið og ég kom að sækja systur og sagði þeim að Bjarki mætti koma með okkur heim rak Margrét upp gleðióp: "Vei, þá fáum við kanelsnúða!" Sem var auðvitað hárrétt, það má alls ekki bregða út af þeirri reglu. Bjarki er eini gesturinn með svo ákveðna forskrift.  Bjarki kemur = kanelsnúðar.

Þau léku sér saman eins og englar. Svo fengu þau að horfa á myndina Ikingut, sem ég hafði sótt á bókasafnið fyrr um daginn. Þau höfðu aldrei séð myndina og sátu dolfallin og fylgdust með litla grænlenska stráknum og íslenska vini hans.

Margréti fannst best við myndina "þegar Ikingut bjó til snjóhús" enda var það sko mjög flott snjóhús.

Litli feministinn Elísabet velktist ekki í neinum vafa um hvað var best við myndina: "Það var best að það var líka stelpa sem var hugrökk og hjálpaði til í alvöru."

Systir hennar var sammála. Þær eru svo hundleiðar á öllum myndunum, þar sem strákar eru hetjurnar og ef einhverjar stelpur skjóta upp kollinum eru þær nánast bjargarlausar. Elísabet hefur alltaf dýrkað söguna um Bróður minn Ljónshjarta, en kvartar samt alltaf yfir stelpuskortinum. Í þeirri sögu er engin hugrökk stelpa nema konan Soffía og það finnst henni alls ekki nógu gott.

Bjarki kvaddi okkur upp úr hálf sjö og þá var ég búin að þrífa mesta sótið af honum. Hann þurfti auðvitað að rannsaka arininn og ræða fram og til baka við Elísabetu um hvort jólasveinninn kæmi þar niður. Ég var of sein að kveikja, sat bara frammi í eldhúsi og hlustaði á malið í þeim. Svo áttaði ég mig allt í einu og stökk fram, en þá hafði Bjarki þegar stungið höfði og hálfum búk inn í arininn, til að sjá alla leið upp. Þessi ómótstæðilegi sótari horfði bara á mig og skildi ekkert af hverju ég skipaði honum að fara beint inn á bað, án þess að snerta neitt á leiðinni LoL Hann var með derhúfu á höfðinu, sem stelpurnar eiga, svo ég slapp við að skola á honum kollinn, en hendurnar voru kolsvartar og auðvitað strauk hann sér um ennið, klóraði sér í nefinu og hélt hugsi um hökuna áður en ég náði til hans.

Það er erfitt að finna ljúfari gutta en hann Bjarka.

Systur voru í essinu sínu við matarborðið, töluðu og möluðu og höfðu frá ýmsu merkilegu að segja. Eftir matinn skriðu þær í fang, eins og þær gera svo gjarnan. Þá látum við matinn setjast og klárum að tala saman.

Margrét var í fanginu á mér, sneri fram, svo aftur, svo á hlið, setti annan fótinn upp, svo hinn, lagðist hálfpartinn út af svo ég var næstum búin að missa hana, settist upp aftur og byrjaði aftur að engjast svona til. Ég var að reyna að ræða við mömmu hennar og systur um eitt af þessum stórmerkilegu umræðuefnum sem alltaf skjóta upp kollinum (held að í þetta sinn hafi málið verið hvernig maður fer að því að búa til glös sem brotna ekki), en allt í einu missti ég þolinmæðina með þessu ótrúlega iði hennar og sagði: "Margrét, hvað í ósköpunum ertu að gera??!"

Hún leit á mig og svaraði í fyllstu einlægni: "Laga nærbuxurnar."

Og hló svo manna mest.

 


200 molar

Systur börðust eins og ljón á fótboltaæfingu í gær. Alltaf jafn gaman að fylgjast með því stuði.

Við vorum búnar að ákveða að hitta mömmu þeirra niðri í Ráðhúsi eftir fótboltann. Þar sat hún kynningarfund um nýtt sjúkrahús. Systur voru að vonum afar spenntar yfir fundarefninu, hlustuðu grannt á orð háttvirts heilbrigðisráðherra og sýndu allnokkra þolinmæði með upplýsandi ræðu Ingu Jónu Þórðardóttur, formanns nefndar um byggingu nýs háskólasjúkrahúss, .... æ, óttalegt bull er þetta í mér, auðvitað höfðu krúttin engan áhuga á þessu þótt þær færu vel með það. En ég hafði haft vit á að taka með iTouch-inn minn og tvenn heyrnartól, svo þær gátu setið á gólfinu, horft á teiknimyndir og beðið þess að fundurinn kláraðist.

Eftir fund stormuðum við allar á Hornið, enda löngu planað að fara út að borða. Systrum finnst sérstaklega gaman að fá pizzur á veitingastöðum, þar sem þær fá eina litla á mann, en þurfa ekki að deila stærri pizzu.

Margrét hafði töluverðar áhyggjur af því hvað hún ætti að drekka með pizzunni. Hún sagðist nefnilega vita að í risastórri (2ja lítra) flösku af kóki væru 200 sykurmolar! Í lítilli væru hins vegar bara 20 og þótt það væri slæmt þá væri það nú samt skárra. Við sögðum henni, að þar sem hún drykki svo sjaldan kók væri allt í lagi að fá sér glas með pizzunni. Þegar glasið kom horfði Margrét stíft á það og sagði svo: "Hvað ef þetta kók er úr risastórri flösku? Þá eru 200 sykurmolar í því." Það tók nokkurn tíma að útskýra fyrir henni, að jafnvel þótt kókið í glasinu hefði komið úr risastórri flösku þá þýddi það ekki að alla 200 molana væri að finna í þessu eina glasi. Hún varð afar fegin. Og kláraði kókið.

Þær voru þreyttar þegar við komum heim, en vildu samt auðvitað heyra sögu fyrir svefninn. Þessa dagana erum við að rifja upp ferð Fíusólar til Kaupmannahafnar og ævintýrin í Tívolí. Við erum nefnilega að plana stutta Köben-heimsókn í sumar. Við erum hins vegar allar orðnar leiðar á bókakostinum á heimilinu, þótt vissulega sé hægt að lesa Fíusól, Skúla skelfi og fleiri aftur og aftur,  og ætlum að skella okkur á bókamarkarkaðinn í Perlunni um helgina. Systur ætla líka á hundasýningu með mömmu sinni, en ég fæ blessunarlega að sitja heima með mitt ofnæmi.

 


Snjórinn

Systur áttu að skrifa sögu um snjóinn.

Elísabet byrjaði. Hún vill hafa þetta allt rétt og fer yfir stafsetningu mjög nákvæmlega. Svona var sagan hennar:

"Mér finnst gaman að leika mér í snjónum. Það er gaman að gera snjókarla og snjóengla og fara í snjkast. Samt kann ég ekki að gera snjóbolta. En þegar það er vindur og haglél vil ég ekki vera úti. Þá vil ég vera heima og hafa það gott."

Svo myndskreytti hún. Á fyrri myndinni eru þær systur í snjókasti og ég kíki á þær út um gluggann. Á síðari myndinni er hún sjálf, situr í sófanum og horfir á sjónvarpið, með fulla skál af nammi og heitt kakó. Svo eru hvorki fleiri né færri en sex hitapokar í hillu hjá henni, svo hún hafi það nú örugglega gott. Ekki veit ég hvaðan hún hefur þá hugmynd, hér eru engir hitapokar.

Þegar Elísabet var búin fór ég að huga að Margréti, sem ég hélt að sæti hin rólegasta og læsi Andrésblað, eins og hún hafði ætlað að gera. En Margrét hafði þá náð í Sögubókina sína og skrifað sögu, alein. Með eigin stafsetningu, að sjálfsögðu:

"Það er gaman að leika sér í snjónum. Einu sinni bjó ég til snjókarl í leiskólanum. Ég bí oft til snjóeingla með vinum mínum sem heita Elísabet, Marta og Tara. Svo er líka gaman að fara á sleða en það er líka gaman að hafa snjó út af því þá getur maður dotið eins og maður vill án þens að meiða sig og það er líka got að því maður hamast svo migið í snjónum. Því að þá er altilæi að maður stígi á blómin því að þau eru hvort sem er dáin."

Hún teiknaði fjórar myndir. Á fyrstu eru tveir krakkar að gera snjóengla. Á næstu eru tveir krakkar að renna sér á sleða niður brekku. Við brekkufótinn er ein stelpa, sem hefur dottið af sleðanum sínum og hlær: "hahaha".

Á þriðju myndinni hlær krakki líka "hahaha", af því að annar krakki er að hrinda honum afturábak og það er "altilæi" af því að það er snjór og maður getur dotið.

Og á síðustu myndinni stígur stelpa á blóm. Sem er auðvitað líka "altilæi" af því að "þau eru hvort sem er dáin."


Tækni

Þegar ég sótti systur í skólann í gær var Elísabet í einhverjum leik með nokkrum bekkjarsystrum, en Margrét sat í tölvustofunni. Hún slökkti á tölvunni þegar ég kom, en kvartaði svo yfir því að hún kynni ekki eins vel á tölvuna og hinir krakkarnir. Elísabet bætti þá við, að þær kynnu heldur ekki eins vel á sjónvarpið og DVD-spilarann og aðrir krakkar, sem gætu alveg notað slík tæki alein. Á næstu dögum verður því bæði tölvu- og sjónvarpskennsla á þessum bæ, það er ómögulegt að þær systur dragist svona aftur úr í almennri þekkingu Wink

Við Kata bættum nú aðeins fyrir vanræksluna með því að láta þær hafa tvo litla iPod Shuffle, sem hafa legið hér í skúffu mánuðum saman. Kata fann gripina í gærkvöldi, eftir að þær voru sofnaðar og ég hlóð inn á þá lögum úr Ávaxtakörfunni og Latabæ, auk Eurovision-lagsins hans Eika frá í fyrra og nokkrum Nylon-lögum. Þær voru ekki lítið sælar í morgun, þegar þær fengu að prófa dótið. Eitt prik til mæðra þar, fyrir að fylgjast með framþróun (O.K., tónlistarvalið lýsir kannski engri "framþróun" en iPodarnir gera það vissulega).

Eftir fótaboltaæfingu síðdegis í gær fórum við á Einimelinn til Afa Ís, sem átti 78 ára afmæli. Systur töluðu um það alla leiðina hvort ekki væri nú alveg öruggt að þær fengju súkkulaðiköku. Og auðvitað fengu þær súkkulaðiköku og meira að segja vöfflur. Afi Ís bar svo fram dísætan, þeyttan rjóma, eins og honum einum er lagið. Þær borðuðu sér nær til óbóta. Svo sælar voru þær, að Margrét gleymdi meira að segja að "biþja afa" um enn frekari fjárframlög til hrossakaupa. Sem var nú eins gott, á afmælisdaginn á maður að þiggja, en ekki gefa.


Confetti

Heimsóknin til tannlæknisins var í samræmi við þeirra villtustu drauma. Allt fullt af flottum tækjum, stóllinn lyftist upp og niður eins og venjulega, engar holur og svo máttu þær velja sér verðlaun á eftir.

Margrét valdi gúmmihendur, sem eru fastar saman og hægt að teygja ógurlega á. Elísabet valdi fínan hring.

Þær léku svo við Töru vinkonu fram að fimleikunum. Hérna var mikil hæfileikakeppni í gangi. Tara var dómari og Margrét söng og söng og söng, lög sem hún samdi jafnóðum. Elísabet skipti um föt á mínútu fresti. Hún var víst að keppa við systur sína, en kaus bara að syngja ekki, heldur sýna tískuföt. Töru var því skiljanlega mikill vandi á höndum. Loks ákvað Elísabet að fara í jólakjólinn og hefja upp raust sína. Hún söng "Vertu ekki að plata mig" á tvöföldun hraða og Töru dómara var allri lokið. Elísabet var lýst sigurvegari.

Dómarinn hafði dundað sér við að rífa blað niður í örsmáar agnir, sem kastað var yfir sigurvegarann í fagnaðarlátunum. Svo sópuðu Tara og Elísabet hverju snifi upp og hentu yfir Margréti, sem var þar með alveg sama þótt hún hefði lent í öðru sæti. Svo sópuðu þær hverju snifsi upp aftur, en það var nú bara af því að ég stóð á orgunum að fá þær til að taka til áður en þær fóru í fimleika Wink


Ferð eftir aldri

Systur lýsa því yfir að það sé gott að tala við Thelmu, mömmu Töru skólasystur og nágranna.

Það er nokkuð ljóst.

Þær hafa þegar upplýst Thelmu um ótrúlegustu hluti -eins gott að við burðumst ekki með mörg leyndarmálin á þessu heimili LoL

Þær upplýstu hana m.a. að við færum alltaf til Ísafjarðar á sumrin. Þegar þær voru 1 árs hefðum við verið í einn dag, ári síðar í tvo daga, þegar þær voru 3ja stóð ferðin í þrjá daga og í sumar myndum við stoppa heila 7 daga fyrir vestan.

Við höfum reyndar alltaf verið í u.þ.b. viku á hverju einasta ári, en svona upplifa þær þetta Wink


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband