Klaufi öryggi

Helgin var ljúf.

Systur fengu að fara til guðmæðra aðra helgina í röð, fóru undir kvöldmat á föstudag og gistu um nóttina. Mömmurnar fóru í góðu kompaníi á Food and Fun á Grillinu á Sögu. Þar voru bornir í okkur sex réttir og hver öðrum ljúffengari. Við vorum komnar heim fyrir miðnættið í tómlegt kotið.

Á laugardagsmorgun kom í ljós að guðmæðurnar áttu ekki hefðbundinn beikon og eggja skammt fyrir systurnar, svo við vorum ræstar út og allur hópurinn hittist á Vegamótum í brunch. Elísabet veit ekkert betra en að raða í sig beikoni, eggjum, kartöflubátum og pönnukökum með sírópi. Margrét fussar yfir slíku og pantar "heilsubrunch". Á laugardaginn fékk hún fullan disk af brauði, osti og alls konar grænmeti og lýsti mikilli ánægju sinni með það - en sníkti svo spælegg og pönnsur af öllum öðrum við borðið Wink 

Þær voru saddar og glaðar þegar þær fóru í gítartíma, en þaðan brunuðum við til Ásthildar systur, sem átti afmæli. Héldum áfram að troða okkur út af hollustufæði þar Blush Afi Ís, sem er fjórði "tekjumöguleiki" Margrétar samkvæmt lista hennar, dró upp hvorki meira né minna en þúsund króna seðil og sagði þeim systrum að skipta með sér. Þær eru enn að ræða þá ofurupphæð. Sama og tveir rauðir bréfpeningar, VÁ!! Og sama og tíu gullpeningar?! VÁÁÁ!! Þær vita hins vegar alveg í hvað peningunum verður varið: Þeir fara í sameiginlegan sjóð þeirra, Töru og Mörtu Maríu, til kaupa á stórum hesti sem ku fást í Toys'R'Us. Hesturinn er svo stór, að hann getur víst borið þær allar í einu. Þegar þær verða búnar að safna fyrir honum, með því að selja flöskur og dósir, halda tombólu, vinna heimilisstörf og "biþja afa" verður þetta eins konar farandhestur, einn daginn hér, þann næsta á númer 2 og þaðan fer hann á númer 5 og svo koll af kolli.

Þegar við komum heim fóru þær til Töru, en við Kata röltum í heimsókn til Tobbu og Halla. Fengum kaffi, meiri hollustu og meinhollt slúður um menn og málefni. Törumamma fór með stelpuhópinn á Pizza Hut, svo við gátum tekið því rólega.

Laugardagskvöldið fór að sjálfsögðu í Laugardagslögin. Ég var fegin að hafa ekkert fylgst með þeim þáttum fram að þessu, lögin voru nú flest þannig að ég hefði ekki þolað að heyra þau oft. Systur voru mjög spenntar og þurftu að spyrja margs. Margrét ákvað að kjósa Ragnheiði Gröndal áfram, henni fannst svo flott að sjá hana í grasinu, að syngja um drauma. Elísabet kaus að sjálfsögðu Birgittu prinsessu (þær systur eru enn á því að Birgitta sé raunveruleg prinsessa. Hvað annað gæti skýrt kjólana hennar og hárskrautið?)

Þær voru báðar sáttar við sigurlagið, enda þá orðnar svo örmagna að þær gátu ekki mótmælt.

Sunnudag byrjuðu þær systur á fótboltaæfingu hjá Víkingi. Æfingin, sem þær ætluðu á á fimmtudaginn, féll niður, svo þær fóru bara á sunnudag í staðinn. Þær eru á báðum áttum hvað þær ætla að gera. Margrét var alsæl eftir Víkingsæfinguna, en líklega réði þar mestu að hún náði að skora mark í æsispennandi leik. Elísabet diplómat taldi vænlegast að vera "eitt ár í Vali og svo eitt ár í Víkingi og svo eitt ár í Vali" en viðurkenndi að það gæti verið snúið að vera sífellt að keppa á móti fyrrverandi -og tilvonandi- liðsfélögum. Niðurstaðan varð að þær ætla að klára veturinn og sumarið hjá Val og sjá svo til.

Eftir æfinguna komu Tara og mamma hennar í stutta heimsókn, en svo gengum við fjórar upp í Elliðaárdal. Í Blesugrófinni vildi Elísabet ólm fara upp á hæsta hól og bað mig að koma með. Hún sagðist reyndar vita að ég væri klaufi og ég myndi örugglega renna í snjónum á bröttum hólnum. "Þú ert klaufi, en þú ert klaufi skemmtileg. Þú rennur kannski, en getur alveg stoppað samt. Þú ert sko klaufi öryggi."

"Klaufi öryggi", það er ég.

Við gengum alla leið heim til afa og ömmu í Gilsó. Á leiðinni var Elísabet að ræða um afa Torben, sem alltaf er til í að atast í þeim og lýsti því svo yfir að það væri "gott að eiga afa sem er stundum eins og krakki."

Þær voru orðnar ansi lúnar þegar við komum heim aftur, en það kom nú ekki í veg fyrir fjör í stuttu kaffiinnliti á númer 2. Svo skelltu þær sér í heimalærdóminn, reikning og lestur, borðuðu sunnudagssteikina og fyrir svefninn fórum við allar í heita pottinn.

Þær sofnuðu mjög fljótt. Spenntar og glaðar, af því að í dag fara þær til tannlæknis. Og það er sko gaman LoL

Shocking


Norn, púkastelpa og beinagrind

Systur buðu Töru nágranna heim eftir skóla. Þær fóru allar í búninga: Margrét er norn, Elísabet er púkastelpa og Tara er beinagrind.

Ég sat við tölvuna þegar undarleg hljóð fóru að berast úr herberginu þeirra. Þær systur eiga CDspilara með míkrófón og svo er hægt að setja mikið bergmál á röddina þegar hann er notaður. Nú bergmálaði mjög ógnvænleg (að vísu dálítið smámælt) rödd: "Ragnhildur Sverrisdóttir, þú munt sjá eftir þessu!!!! Gættu þín!!! Þú ert í mikilli hættu....!!" og fleira af þessu tagi glumdi úr herberginu.

Þær skemmtu sér greinilega konunglega, af og til kom ein fram og spurði hvort ég hefði nokkuð heyrt draugarödd, en ég þrætti. Þá fór hún aftur inn og öskrin margfölduðust, um leið og hótanirnar versnuðu.

Ég læddist að herbergishurðinni og stökk svo allt í einu inn á mitt gólf og orgaði af öllum kröftum, greip í þær og kitlaði hverja á fætur annarri.

Svo varð ég að forða mér út. Ég held að ég hafi misst heyrn á öðru eyra. Þvílík skerandi hátíðnihljóð sem koma úr þremur trylltum 6 ára stelpum Shocking

Heyrnarleysið varð áreiðanlega til þess að ég hafði ekki varann á mér þegar þær læddust upp, nöppuðu kexpakka og borðuðu hann upp til agna. Eins og þær hafi nú þurft sykur akkúrat núna!


H er mamma hrekkjusvín

Systur komu alsælar af McDonald's og skelltu sér beint í stafablaðið.

Það gekk nú ekki alveg þrautalaust að einbeita sér að verkefninu, því þær voru hátt uppi af gleði eftir að hafa farið "út að borða" með vinkonum sínum. Þær töluðu og töluðu, en Elísabet þó sýnu meira. Kata þurfti að biðja hana að hægja á sér, því hún var alveg á yfirsnúningi og skildist varla. Og umræðuefnin, Drottinn minn.

Dæmi: "Hafa ormar ömurlegt bragðskyn?"

Ég er ekki að grínast, þetta sagði barnið.

Kata svaraði að hún hreinlega vissi það ekki.

"Jú, þeir hafa það," fullyrti Elísabet þá sjálf.

"Eins og fullorðnir," bætti Margrét við.

"Já," sagði systir hennar, "fullorðnum finnst meira að segja gott að drekka kaffi og bjór!"

Mér var allri lokið og krafðist nánari skýringa á þessum orma- og bragðskynspælingum. Þá kom í ljós að þær voru að rifja upp speki úr einni bókinni sem þær fengu í jólagjöf, um Jón og Selmu. Fjör í fyrsta bekk, minnir mig hún heiti.

H er stafur vikunnar.

Elísabet er búin að dunda sér frá því á þriðjudag að teikna eina mynd á dag. Fyrst teiknaði hún stelpu, sem kemur gangandi og lyftir annarri hendi í kveðjuskyni. Halló.

Á miðvikudag teiknaði hún sæta, litla stelpu með gleraugu. Halldóra.

Hún tók fram að þetta væri ekki Halldóra bekkjarsystir hennar, enda væri hún ekki með gleraugu. Þetta væri bara Halldóra ímyndunarafl.

Í morgun, áður en hún fór í skólann, rak hún augun í stafablaðið sitt, greip blýant og teiknaði þriðju myndina. Á henni er einbeitt kona að kasta handbolta með vinstri hendi í mark. Markmaðurinn kemur engum vörnum við. Liðsfélagi handboltahetjunnar brosir út að eyrum. Undir myndinni stendur ekki "handbolti", þótt hún sýni þá íþrótt. Undir myndinni stendur nafn handboltahetjunnar örvhentu. Nafn mömmu hennar: Hanna Katrín.

Fjórðu myndina teiknaði hún í kvöld fyrir svefninn. Viðfangsefnið kom ekkert sérstaklega á óvart, þótt það sé óvenjulegt að sjá fyrirbærið með fætur og hendur. Hamborgari.

Margrét hafði ekki teiknað eina einustu mynd þegar hún settist við eftir McDonald's ferðina í kvöld. Hún var snögg að þessu.

Fyrsta myndin hennar er af lítilli stelpu, sem réttir glas upp til mömmu sinnar. Mamman, sem brosir, heldur á stórri könnu. Hún er að hella.

Á mynd númer tvö er lítil stúlka að fara inn um dyr á fallegu húsi. Heima.

Margrét var samt ekki alveg sátt við mynd númer tvö, hugsaði sig lengi, lengi um og breytti svo undirskriftinni. Núna stendur: Heima hjá mömmu.

Þegar hér var komið sögu var ég að tala við Elísabetu um myndirnar hennar, sem hún var að ljúka við að lita. Ég nefndi að hún hefði teiknað handbolta, en leiðrétti mig svo, enda var myndin hennar fyrst og fremst af mömmu hennar. Margrét greip þetta á lofti, teiknaði konu sem kastar bolta í mark og skrifaði undir: Handbolti.

Hún varð dálítið svekkt þegar hún áttaði sig á að hún hefði eiginlega teiknað sömu myndina og Elísabet, því það vill hún svo gjarnan forðast. Hún hafði ekki séð myndina hennar Elísabetar og hélt sig vera eina um að teikna handboltamynd, af því að ég hafði nefnt handbolta, en leiðrétt mig svo og nefnt mömmu hennar. Jafnaði sig nú fljótt á því.

Síðasta myndin hennar Margrétar er eiginlega frábærust. Í fjarska sést lítið hús, sólin skín og bara tvö lítil ský á himni. Í forgrunni er krakki, sem er heldur dapur á svipinn. Fyrir framan krakkann stendur annar stærri krakki og teygir sig í húfuna sem sá litli er með. Hrekkjusvín.

Á meðan systur kláruðu stafablöð var ég að hripa eitthvað niður á blað. Elísabet leit á hrafnasparkið mitt og spurði svo: "Eru þetta svona stafir sem allir geta lesið, eða getur bara þú lesið þetta?"

Kötu fannst þetta fyndið. Ég neyddist til að viðurkenna að líklega gæti enginn lesið þetta nema ég Blush

 

 


Boltastelpur

Systur eru úti að leika sér, en ættu að vera á fótboltaæfingu. Ekki Valsæfingu, heldur Víkings!

Tara nágranni æfir fótbolta með Víkingi. Pabbi hennar er svo harður Víkingur, að hann hikar ekki við að beita brögðum til að fjölga í liðinu. Jafnvel mútum!Smile Fyrr í vikunni komu þær systur heim með þau skilaboð, að þær ætluðu að prófa að fara á æfingu með Töru á fimmtudag og svo fengju þær allar að fara á McDonald's á eftir!

Þær voru spenntar í dag, áttu að fá að ganga á æfinguna úr skólanum. Ég fór niður í skóla, tók skólatöskurnar þeirra og lét þær hafa æfingatöskur, með fótboltaskónum, sokkum, stuttbuxum og bol. Það mátti alls ekki vera Vals-bolurinn þeirra, ég hafði fengið mjög ströng fyrirmæli um það. Þær ætluðu greinilega ekki að verða fyrir aðkasti á Víkingsæfingu.

Svo var æfingin felld niður! Merkilegt nokk, þá held ég að það hafi ekki fengið mjög á þær. Þær voru skoppandi úti í garði hjá Töru rétt áðan og virtust afar kátar. Þær fá nefnilega að fara á McDonald's á eftir þrátt fyrir allt LoL

Ég ætla að nýta tækifærið, elda eitthvað einfalt og gott fyrir mig og Kötu og svo er planið að við borðum og tölum saman á meðan systur eru fjarverandi. Það er fullorðins, svona til tilbreytingar Wink Ég hef ekki tölu á öllum máltíðunum við þetta borð sem hafa farið í að útskýra hvernig dagblöð eru búin til, af hverju fólk borðar með hnífi og gaffli, hvort sé nú betra, mjólk eða vatn með matnum, hvernig farið sé að því að búa til efni sem föt eru saumuð úr, hver fattaði fyrstur upp á osti o.s.frv.

Kata spyr voða lítið um svona hluti.


Glöð

"Ég er GLÖÐvöknuð," sagði Elísabet um leið og hún hoppaði framúr í morgun.

Mæður gera sér alveg grein fyrir að þær eiga að leiðbeina og leiðrétta. Sumt er bara of ljúft til að laga alveg strax.


Sumar

Ólafur nágranni sendi mér þessa mynd um daginn, af Borgarvefsjá. Lengst tiil hægri er garðurinn okkar og greinilegt að þetta er mesti sæludagur, alveg heiðskírt, borðið komið alveg yst á pallinn svo við missum nú ekki af einum geisla, heiti potturinn fullur af krílum og trampólinið því mannlaust þá mínútuna. Þetta jaðrar nú eiginlega við persónunjósnir!

Logaland2-8

Það er gaman að kíkja inn á Borgarvefsjá, www.borgarvefsja.is  Þar eru líka myndir teknar einu ári fyrr og gaman að bera þær saman. Þessi mynd var tekin 15. júlí á síðasta ári. Það var sunnudagur og  svona byrjaði bloggfærslan þann daginn:

"Morgunkaffi og blöðin úti á palli, enn einn daginn. Hvar endar þetta?

Gréta, Gísli og Greipur komu í brunch, Greipur hvarf í trampólín/kofa/pott heiminn en við fullorðna fólkið gátum slúðrað í ró og næði fram eftir degi.

Eva Berglind var næsti krakkagestur, hvarf inn í sama heim."

Þegar ég horfi núna út á pall, sem þunn snjóslæðan liggur yfir,  finnst mér alveg óralangt til sumarsins.

 


Fimar

Enn einn góður dagur að baki.

Systur fóru í fimleika eftir skólann og í þetta sinn kom í minn hlut að skutla Logalandsgenginu á æfingu. Það kostaði ótal marga skræki og hlátrasköll. Hjá þeim fjórum, altso.

Þær voru til friðs framan af ferðinni, en þegar þær sáu glitta í McDonald's upphófu þær allan mikinn söng. Kyrjuðu eiginlega, í einhverjum tilbeiðslutransi. Ég hefði nú verið stoltari ef þær hefðu sungið "Maður lifandi" eða "Grænn kostur", en það verður ekki á allt kosið.

Við komumst klakklaust framhjá McD og í fimleikana. Á leiðinni fór ég full glannalega yfir hraðahindranir og tók heldur skarpar beygjur, sem kallaði á aðra syrpu af aðdáunarskrækjum.

Æfingin gekk vel. Margrét fékk myndarlegan marblett á annað hnéð, sem hún er töluvert stolt af. Elísabet náði ekki að fara handahlaup á slá, eins og í síðasta tíma, en þá fékk hún að hringja sérstakri bjöllu í Ármannssalnum, eins og allir fá að gera sem ná fullkominni fettu, brettu eða stökki (o.k., ég veit ekkert hvað þetta heitir allt saman. Hef aldrei verið í fimleikum, merkilegt nokk!).

Þær voru þreyttar og sælar þegar þær komu heim, en náðu að æfa nýjan dans þær örfáu mínútur sem Tara á númer 5 staldraði við hjá þeim. Margrét hin ofurnákvæma teiknaði dansinn upp. Á þremur skýringarmyndum má sjá stelpur, merktar stöfunum E, M og T. Á fyrstu myndinni er T öftust og E og M fyrir framan. Á næstu mynd færa þær sig, eins og pílur á myndinni sýna og þá er M komin aftast. Lokamyndin sýnir svo splittið sem þær ætla að enda dansinn á.

Hamingjuhnappar.


Hálfsannleikur og lygin öll

Pistill í 24 stundum 19. febrúar.

Veit einhver hvað það þýðir þegar talað er um að trúnaður eigi að ríkja milli fólks? Að ekki sé æskilegt að fabúlera í fjölmiðlum um vangaveltur viðmælanda? Að stundum sé nauðsynlegt að geta sagt hug sinn, án þess að þau ummæli komi með stríðsletri í fyrirsögnum dagblaða?

„Opin stjórnsýsla“ felur það í sér að kjörnir fulltrúar og embættismenn eiga ekki að pukrast með málefni sem koma almenningi við. Hins vegar virðast margir misskilja hugtakið þannig, að aldrei megi ríkja trúnaður milli manna. Það er víst ekkert tiltökumál að senda sms út af lokuðum fundum þingflokka eða öðrum trúnaðarfundum. Hálfkaraðar skýrslur leka út úr borgarstjórn, aðrar úr ráðuneytum. Og af því að þær eru hálfkaraðar nýtast þær vel öllum þeim, sem vilja fá að stjórna umræðunni. Telja menn sig kannski halda trúnað, ef ekki er hægt að rekja lekann til þeirra?

Fjölmiðlar eiga alltaf að spyrja sig hver tilgangurinn sé með leka af þessu tagi og reyna að hindra að þeir séu notaðir í annarlegum tilgangi. Það skiptir engu að vera fyrstur með fréttina, ef fréttin er bull eða í mesta lagi hálfsannleikur. Gömul prinsip, að fara ekki með sögur frá nafnleysingjum, eru löngu rokin út í veður og vind. Nafnbirting gæti komið mönnum illa, segja þeir sem verja slík vinnubrögð, og líta framhjá því að nafnleysið er besta skálkaskjólið sem býðst. Fjölmiðlar eiga ekki að gleypa við slíku.


Tyggjó

Systur voru á fótboltaæfingu í gamla Valssalnum. Það hefur nú þurft að lappa upp á salinn í gegnum tíðina og allt í einu rak Margrét augun í afar áhugavert stöff. Neðarlega á einum vegg hafði greinilega verið spartlað upp í lítið gat. Margrét rak upp gleðióp, fálmaði á spartlinu og kallaði: "Vá, frosið tyggjó!"

Stígvél sem snarvirka

Þegar ég sótti systur í skólann kom Margrét æðandi á móti mér: "Nýju stígvélin SNARVIRKA! Ég hoppaði ofan í alla polla og þau láku sko ekki neitt. Þau SNAAAAR-VIRKA!"

Í öllu þessu pollahoppi hafði hún að vísu blotnað sjálf og hún missti líka töskuna með leikfimidótinu ofan í poll. En stígvélin snarvirkuðu og það var fyrir öllu.

Tara fékk að koma aðeins heim með systrum og Marta María bættist í hópinn nokkrum mínútum síðar. Logalandsgengið skemmti sér með tilþrifum, en núna eru þær allar farnar í fimleika. Hér er ró og friður. Næsta klukkutímann eða svo.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband