Boltastelpur

Víkingssystur fóru á Pæjumótið á Siglufirði um síðustu helgi. Raunar fór öll fjölskyldan og tjaldaði innan um alla hina Víkingana inn við fótboltavellina á Siglufirði.

Fyrsti keppnisdagurinn var á föstudag. Þá vorum við Kata liðsstjórar og sáum um átta liðsmenn í 7. flokki, A-liði. Þær þurftu að hita upp fyrir leiki, fá vatnssopa þegar fór að hitna í kolunum, borða hollan bita af og til yfir daginn, fara í sund, fara á skemmtun í bænum o.s.frv. Það var afskaplega gaman, en annasamt. Um kvöldið lögðust þreyttir Víkingar til svefns í barnaskólanum, en mömmur skriðu inn í tjald.

Laugardagurinn var alveg jafn frábær og öllu léttari fyrir okkur Kötu, þar sem aðrir Víkingar sáu um stelpurnar. Okkar hlutverk var bara að mæta og hvetja. Stelpurnar vilja greinilega hvatningu. Einu sinni, þegar Margréti var skipt út af, fannst henni greinilega að foreldrar stæðu sig ekki sem skyldi og orgaði á okkur: "Hvetja! Hvetja!" Og við hvöttum.

Kata fékk það hlutverk að gista með stelpunum aðfararnótt sunnudagsins, á meðan ég sat með öðrum Víkingsforeldrum á tjaldstæðinu og hafði það huggulegt. Allir töluðu um fótbolta. Ég stóð sjálfa mig að því að hafa ógurlegt vit á öllu sem snertir þessa göfugu íþrótt. Öðruvísi mér áður brá.

Systur og liðsfélagar uppskáru silfur í sínum flokki og voru alsælar.

E á Sigló

Enn eitt markið! Þórunn (lengst til hægri) hlýtur að hafa skorað, Elísabet (lengst til vinstri) er lukkuleg með stöðuna.

M á Sigló

Margrét, Elísa og Tara eftir vel heppnaða sókn.


Bloggið blívur

Ég held ég verði bara að fara að blogga aftur. Ég hef engan húmor fyrir þessu Facebook dæmi. Hef reyndar aldrei gefið mér tíma til að skoða þetta vandlega, en finnst bara þægilegra að gera þetta upp á gamla mátann: Skrifa hitt og þetta og láta alveg eiga sig að setja oft á dag inn "status" og tékka á "status" annarra.

Ég er ekki á móti talsímanum, en Facebook er of moderne fyrir minn smekk.


Konur í Iðnó

Seinna í dag, eða klukkan fimm, verður skemmtilegur fundur í Iðnó. Þar ætla konur að fagna stórauknum hlut kvenna á þingi (43% núna, en var 31,2% síðast!).

Þetta verður skemmtilegt í góða veðrinu, hægt að hafa opið út á verönd, gott að fá sér svalandi drykk, halla sér aftur í sætinu, hlusta á áhugaverð erindi og hitta skemmtilegt fólk.

Koma svo, konur! Mæta í Iðnó á eftir!!


Ritverk Akureyrings

Um kvöldmatarleytið voru þær systur að læra. Margrét var frammi í eldhúsi hjá mér og las upp úr Fríðu framhleypnu. Elísabet var með Kötu og las sína bók.

Elísabet las setningu, stoppaði svo við og las aftur. Í setningunni kom fyrir orðið "líka."

Elísabet las orðið, með ákaflega sterkri áherslu á K-ið.

Leit svo á mömmu sína og sagði: "Heyrirðu? LíKa. Þessi bók er ábyggilega skrifuð á Akureyri."

 


"Lagið þitt er æðislegt"

Pistill í Mbl. 13. maí:

Á hverju ári berast sömu fréttir frá útlöndum. Erlendir fréttamenn eru yfir sig hrifnir af framlagi Íslands til Evróvisjón og í samtölum við spekinga, sem allir vita hvað þeir syngja, kemur fram að lagið okkar muni ná langt í samkeppni við öll hin lögin. Enda eru þau flest miklu síðri. Íslensku keppendurnir eiga ekki orð yfir alla þá athygli sem þeir fá. Þeir syngja á blaðamannafundum, í kokteilboðum sendiráða og jafnvel á næstu götuhornum, þar sem æstir aðdáendur safnast saman. Það er nánast formsatriði að bíða eftir úrslitunum.

Þegar Íslendingar tóku fyrst þátt í keppninni, árið 1986, var nánast bókað að við myndum alla vega ná þriðja sætinu. Viðtökurnar úti bentu svo sannarlega til þess. En Gleðibankinn lenti samt í 16. sætinu, eins og næstu lög sem fóru út. Einstaka sinnum tóku íslensk hjörtu kipp, Stjórnin stóð sig vel og Selma bætti um betur. Og svo kom nýtt ár og ný ofurbjartsýni.

Keppendur eyða mörgum dögum fyrir keppni í þeirri borg, þar sem úrslitin ráðast. Mér er algjörlega fyrirmunað að átta mig á hvers vegna sú langa og dýra dvöl er nauðsynleg. Ég veit að íslenski hópurinn fer einn daginn í partí hjá einu landi og næsta dag í partí hjá öðru og heldur svo partí sjálfur þriðja daginn og allt á þetta að vera voða fín kynning og auka líkur á að íslenska lagið nái langt.

Hvernig geta gagnkvæm kokteilboð í Moskvu aukið sigurlíkur íslenska lagsins? Eiga sjónvarpsáhorfendur í löndum Evrópu ekki úrslitaorðið um hvaða lag sigrar? Hafa þeir einhverja hugmynd um hvort Jóhanna Guðrún söng vel í gríska partíinu, eða norska eða sænska, eða öllum hinum partíunum?

Friðrik Ómar, Evróvisjónkeppandi í fyrra og bakrödd í ár, var hreinskilinn í viðtali við Morgunblaðið í síðustu viku. „Hér reyna allir að vera vinir og segja við aðra að þeim finnist lagið þeirra æðislegt,“ sagði hann. Og skýrði líka frá því í viðtalinu að allt væri svo dýrt, enda Moskva ein dýrasta borg í heimi. Sem hlýtur að fela í sér að reikningur Ríkisútvarpsins vegna dvalar hópsins verður stjarnfræðilega hár. Fyrir forkeppnina í gær fóru hvorki fleiri né færri en tíu dagar í bráðnauðsynlega kynningu, þ.e. gagnkvæm partí þar sem allir eru vinir og segja við aðra að þeim finnist lagið þeirra æðislegt.

Jóhanna Guðrún er prýðileg söngkona og Íslandi til sóma. Það er hins vegar kominn tími til að Íslendingar hætti að horfa með glýju í augum til Evróvisjónlands, hætti að trúa því að lagið sé æðislegast og hætti að trúa því að allir séu vinir. Það er alveg sjálfsagt að taka þátt í þessum létta leik, en óþarfi að eyða og spenna eins og utanríkisráðuneyti með öryggisráðsþrá. Hið opinbera hlutafélag, Ríkisútvarpið, er rekið með bullandi halla og ætti að vera ákaflega vandlátt á í hvað peningarnir fara, þótt enn sé mulið undir það með stórauknum framlögum í formi nefskatts.

(Athugasemd: Mér er ljúft og skylt að koma athugasemd Þórhalls Gunnarssonar á framfæri. Hann sagði mér í morgun að þau lönd, sem taka þátt í keppninni, verði að senda fulltrúa sína á vettvang með þessum mikla fyrirvara. Það er auðvitað mikilvægt innlegg í umræðuna um hvort við eigum yfirhöfuð að taka þátt.)


Bóndinn og búskapurinn

Pistill í Mbl. 5/5 2009

 

Ég var við sauðburð um helgina. Búið er reyndar ekki stórt í samanburði við stærstu fjárbýli, en nokkrar ær tómstundabóndans bera að vori, rétt eins og hinar fjölmörgu ær þeirra sem stórtækari eru í búskapnum.

Fyrst til að bera, eftir að ég renndi í hlað, var ær nokkur, sem hafði líka borið í fyrra. Þá gekk burðurinn hins vegar seint og illa og lambið lifði átökin ekki af.

Að þessu sinni gekk allt að óskum, að vísu með nokkrum stuðningi eigandans. Lambið kom fljótt og vel í heiminn og þótt ekkert lífsmark virtist með því í fyrstu fór það fljótlega að bæra á sér. Ærin virtist hins vegar ekki átta sig á hvað hafði gerst. Hún ætlaði bara að ganga í burtu og skilja lítið, skjálfandi lambið eftir í stíunni. Gaf sig ekkert að því, lét bara eins og ekkert hefði í skorist og reyndi að fela sig í fjárhópnum.

Þá tók sauðfjárbóndinn, sú röskleikakona, til sinna ráða. Hún veit sem er, að það dugar ekki að bíða endalaust og sjá til. Lömb spjara sig ekki, nýkomin í grimman heiminn, án aðstoðar. Það þýðir ekki að líta undan og vonast til að ástandið skáni af sjálfu sér. Og þarna var svo sannarlega tími aðgerða. Hún dró ána að lambinu og lét hana byrja að kara afkvæmið. Það gekk fljótt og vel, loksins þegar ærin kom sér að verki. Og lambið gat fljótlega staðið á eigin fótum.

Í þessari sömu stíu var gimbur, sem skar sig frá af því sem hún var lítil og rýr. Hún kom í heiminn síðasta haust, þvert á allar venjur og spár. Frænka sauðfjárbóndans fékk að velja nafnið og kaus að láta hana heita Kreppu. Kreppa litla hefur dafnað og stækkað í vetur, þótt enn eigi hún töluvert í land að ná hinum kindunum. Hún er búin að koma sér vel fyrir í hópnum og er ekkert á förum.

Þeir sem eignast afkvæmi vita flestir að þeim verður að sinna. Og þeir sem ráða yfir búi vita að þar eru mörg verkin, sem mega ekki bíða. Þessi regla gildir raunar um öll bú, manna sem dýra.

Þrátt fyrir þessi alþekktu sannindi eru þeir til í mannheimum, sem halda að málin reddist á meðan þeir sitja á spjalli og ræða hvernig heimurinn getur batnað. Einhvern tímann seinna. Þeir halda að þeir geti leyft sér að rabba um önnur og stærri fjárhús og velta vöngum yfir hvort ráðlegt sé að láta litla búið sitt undir væng þeirra stærri. Á meðan gleyma þeir að huga að öllum verkunum, sem þarf að vinna til að búið þeirra spjari sig. Þeir tala um hvað sé í burðarliðnum, en gera ekkert.

Lífið heldur áfram, hjá öllum öðrum en þeim sem sitja slímsetur á fundum og trúa því að ekkert liggi á. Ef aðgerðaleysið er gagnrýnt er svarað snúðugt, að gefið hafi verið á garðann fyrir löngu og undarlegt hljóti að teljast ef sú fæða dugi ekki dýrunum.

Kreppa litla heldur hins vegar áfram að vaxa og dafna, rétt eins og stóra systir hennar í mannheimum. Hún veit að bóndinn hlúir að henni.


Dol dil mikil

Systur eru með gemsana á hreinu. Þær taka þá oftast með í skólann og um leið og skólinn er úti kveikja þær á þeim.

Þá byrja sms-sendingarnar og símtölin. Elísabet er afskaplega rösk að senda sms, stundum á kostnað réttritunar. "Eruði enðá i jarðar föronum?" var spurning sem hún sendi mér þegar hún vissi að við Kata hefðum farið í jarðarför. Og þegar þær löbbuðu heim eftir skóla í gær skrifaði hún að það væri "Dol dil mikil" rigning.

Þær segja gjarnan 16 broskarla við hver skilaboð. Alla sem í boði eru.

Og svo byrja hringingarnar. Elísabet hringdi í gær, til að segja mér að þær ætluðu bráðum að ganga heim með Töru og hvenær ég væri væntanleg. Við spjölluðum smá stund og kvöddumst svo.

Mínútu síðar hringdi Margrét: "Er allt í lagi?" spurði hún.

Ég sagði henni að allt væri í himnalagi og spurði hvað hún vildi.

"Ég ætlaði bara aðeins að heyra í þér. Elísabet sagði að þú hefðir verið pínulítið dauf í röddinni áðan."

Svei mér þá! Hvor er mamman??


Í kristninni með Jesú

Fjölskyldan fór í skíðaferð til Akureyrar um páskana. Við fengum hið ágæta hús Blaðamannafélagsins til umráða og þar fór afskaplega vel um okkur.

Á skírdag, fyrsta daginn sem við fórum í Hlíðarfjall, hittum við hálfa Reykjavík. Pétur Blöndal og Anna Sigga voru þarna með krakkana sína og við fengum trakteringar hjá þeim um kvöldið. Og lærðum Texas hold'em. Ég mun ekki leggja póker fyrir mig, það er ljóst.

Systur fóru í skíðaskólann og tóku undraverðum framförum. Margrét fór beint í diskalyftuna þennan sama dag, en Elísabet fór sér aðeins hægar og var í barnabrekkunni þann daginn, en slóst í för með Margréti á föstudeginum. Áður en yfir lauk fóru báðar í stólalyftuna og skíðuðu niður eins og herforingjar.

Á heimleiðinni var mikið stuð í aftursætinu. Þær vildu fara í leikinn, sem við leikum alltaf á ferðalögum. Einhver hugsar sér manneskju og aðrir eiga að spyrja þar til ljóst er við hvern er átt.

Elísabet fer oft frumlegar leiðir, hugsar sér fjall eða sandkorn og leikurinn getur orðið svolítið snúinn.

Svo fékk Margrét brilljant hugmynd.

"Ég er búin að hugsa mér mann," sagði hún.

Við spurðum og spurðum og komumst að því að þessi maður væri löngu, löngu dáinn.

"En þekktum við hann?" spurðum við.

"Nei," svaraði Margrét, en fullyrti að hún vissi samt allt um hann.

"Átti hann konu?" spurðum við.

"Ég veit það ekki," svaraði Margrét, sem þóttist samt allt vita.

Hún sagði aðspurð að þetta hefði ekki verið góður maður.

Allt í einu spurði Elísabet: "Var hann kannski í kristninni með Jesú?"

"Já," svaraði Margrét.

"Og var hann svikari?" spurði Elísabet.

"Já," sagði Margrét og staðfesti að þessi löngu, löngu dáni og vondi maður hefði fengið 30 silfurpeninga.

"Ég veit, ég veit, þetta var Jósef," æpti Elísabet, en sá um leið að sér og sagði: "Nei, ég meinti Kaspían."

Mömmur héldu að svikarinn hefði kannski heitið Júdas.

"Ég vissi það!" sagði Margrét þá, afskaplega ánægð með sig.

 


Kúreki og karate-kappi

Í dag var lítið um nám í Fossvogsskóla. Á þessum síðasta degi fyrir páskafrí var furðufatadagur og Logalandsgengið var alveg að fara á límingunum við undirbúninginn.

Við mömmurnar reyndum mjög að stýra þeim í fataskápana heima og bentum á að þetta væri "furðufatadagur" en ekki "öskudagur". Þær hlustuðu ekkert á það.

Fyrst ætluðu þær að leggja Andabæ undir sig. Margrét ætlaði að vera Mikki mús, Elísabet Andrésína, Marta Mína Mús og Tara Andrés.

Eftir miklar bollaleggingar um stél, gogga, hvíta hanska og músareyru gáfu þær hugmyndina upp á bátinn. Gengið tvístraðist og hver vann að sínu.

Systurnar fóru í heimsókn til stóru frændsystkinanna, Ölmu og Daníels. Þar ákvað Elísabet að vera kúrekastelpa. Pils og köflótt skyrta, hattur og stígvél.

Margrét þurfti ekki að hugsa sig lengi um þegar hún sá rauða karate-búninginn. Hún lagðist svo yfir karatebókina sem systir hennar gaf henni í fyrra og æfði stellingar, spörk, högg og hrollvekjandi öskur.

Í morgun fóru þær alsælar í skólann með Thelmu Törumömmu. Með var prinsessan Marta María, ógurlega fín og Tara, sem var krúttlegasti karl á jarðríki í gömlu fermingarjakkafötunum af stóra bróður.

Rétt í þessu hringdi Elísabet. Þær systur eru í góðu yfirlæti hjá afa Torben og ömmu Möggu. Veðrið er svo frábært að þær eru úti í garði. "Það vantar bara blóm og ber, þá væri þetta fullkomið!" lýsti Elísabet yfir.


Systur, símar og turn

Systur langaði afskaplega mikið í gemsa í 8 ára afmælisgjöf. Við Kata sáum ýmis tormerki á því, en auðvitað tókst okkur að sannfæra okkur um að gemsar væru bráðnauðsynlegir í síðasta lagi næsta haust og því eins gott að þær byrjuðu að æfa sig.

Núna fæ ég stundum ótrúlega krúttlegar hringingar í vinnuna. Margrét hringir eftir skóla og spyr um eitthvað sem hún er alveg með á hreinu, bara svona til að vera viss. Og fá að nota gemsann.

Svo hringir Elísabet og spyr um sama hlut. Bara til að vera alveg viss og fá að nota gemsann.

Í afmælinu voru þær afskaplega uppteknar af símunum og tóku niður símanúmer allra í fjölskyldunni.

systur með síma

Tveimur dögum eftir afmælið fórum við í brunch á veitingastaðnum á 19. hæð í turninum við Smáratorg. Þetta var löngu, löngu ákveðið. Elísabet hefur alltaf verið smeyk í lyftum og vill helst ganga stiga. Hún er hins vegar mjög hrifin af brunch. Fyrir hálfu ári gerðum við samning um að hún myndi reyna að komast yfir lyftuóttann og fara svo alla leið upp á 19. hæðina í brunch á 8 ára afmælinu.

Guðmæðurnar fóru að sjálfsögðu með, annað kom aldrei til greina.

systur í afmælisbrunch

Addý, Bára, Ragnhildur, Elísabet, Margrét og Kata á 19. hæðinni.

Eftir brunchinn var Elísabet að vonum stolt af lyftuferðinni. Og Bára guðmóðir, sem á heiðurinn af öllum myndunum, tók eina af stelpunni fyrir framan stóra, stóra turninn.

sigur á 8 ára afmæli


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 785992

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband