Andrúmsloft mannorðsmorðs

Pistill í Mbl. 24. febrúar

Engum hefur dulist að útgáfufélag Morgunblaðsins hefur átt við mikla rekstrarerfiðleika að etja. Þessum erfiðleikum hefur þurft að mæta með ýmsu móti. Sársaukamest er að þurfa að sjá á eftir fjölda samstarfsmanna okkar. Allt hefur það verið gott og vandað fólk, sem átti auðvitað ekki skilið að missa vinnuna.

Nú hefur einn pistlahöfunda Lesbókarinnar, Guðni Elísson, tvívegis skrifað um uppsögn Þrastar Helgasonar umsjónarmanns Lesbókarinnar og í síðari pistlinum nefndi hann Höllu Gunnarsdóttur, fyrrverandi þingfréttaritara blaðsins, einnig til sögunnar. Guðni sér mikið samsæri í uppsögn þeirra og virðist ganga út frá að þau hafi misst vinnuna vegna þess að þau hafi ógnað „harðlínuöflunum í Sjálfstæðisflokknum.“ Og Guðni spyr í þessu sama Morgunblaði ritskoðendanna, hvort málfrelsið sé ekki lengur virkt á blaðinu. Hvort aðeins hafi verið hægt að umbera skoðanir Þrastar og Höllu á meðan Sjálfstæðisflokkurinn hafði öll völd í landinu. Svo dramatískur er málflutningur hans að pistillinn heitir „Andrúmsloft morðsins.“

Samstarfsfólk Þrastar og Höllu saknar þeirra sáran. Við söknum líka Jóhönnu, Guðrúnar, Hjartar, Hjálmars, Sigmundar, Steinþórs, Elínar, Örlygs, Láru og allra hinna blaðamannanna sem við höfum þurft að sjá á eftir undanfarna mánuði. Allt hið besta fólk, sumt hvert sammála ritstjóranum um margt ef ekki flest, hitt algjörlega á öndverðum meiði. Rétt eins og sá hópur sem eftir situr. Við söknum líka allra hinna sem misstu vinnuna í öðrum deildum, Þorsteins, Sigríðar, Sigfúsar, Ólafs, Andrésar, Jóns, Huldu, Þorvaldar, Birgis, Þuríðar og tuga til viðbótar.

Guðni sýnir starfsfólki Morgunblaðsins lítilsvirðingu með því að ganga út frá að hér sitji eftir dusilmenni og gungur, sem sætti sig við „andrúmsloft morðsins“. Og sé alveg sama um málfrelsið. Hann sýnir öllu fyrrverandi samstarfsfólki okkar mikla vanvirðingu, þeim tugum sem hafa þurft að kveðja á undanförnum mánuðum, án þess að hafa nokkuð til saka unnið, annað en að vera statt í efnahagshruninu miðju. Ekki sá Guðni ástæðu til að taka upp hanskann fyrir það fólk. En líklega mun hann enn á ný hefja skrif, í tilefni fregna af uppsögnum á Fréttablaðinu. Er ekki hægt að grafa upp höft á málfrelsi, andrúmsloft morðs og samsæriskenningar? Eða neyðist Fréttablaðið kannski til að draga saman seglin?

Í hroka sínum sér Guðni Elísson ekki nokkra mótsögn í skólablaðslegum yfirlýsingum sínum sem sjálfskipaður útvörður málfrelsis og þeirri staðreynd, að pistla sína fær hann birta í Morgunblaðinu. Rétt eins og Morgunblaðið birtir daglega fjölda aðsendra greina, án nokkurs tillits til þess hvort þær ganga gegn skoðunum einhverra „harðlínuafla í Sjálfstæðisflokknum.“ Svo hefur verið um langa hríð og verður áfram.


Kreppuleikrit

Um síðustu helgi buðu Þórdís og Kristján okkur til Stykkishólms. Þetta var þriggja fjölskyldna ferð, því Addý og Sjonni voru líka og alls 5 börn. Sú minnsta 5 ára, þrjú 7 ára og ein 10.

Börnin ákváðu að æfa leikrit fyrir foreldrana. Það tók drjúga stund, en loks vorum við kölluð upp á loft.

Leikritið var um kreppuna og sett upp svipað og Spaugstofan, þ.e. fréttamaður kom með stutt innslög og svo komu sketsar.

Einn sketsinn var svona:

Tvær manneskjur hittust á gangi. Önnur sagði: "Hvað er að frétta af ríkisstjórninni?"

"Hún minnkar bara og minnkar!" svaraði hin.

"En hvað er að frétta af kreppunni?" spurði þá sú fyrri.

"Hún stækkar bara og stækkar."

Svo kom fréttamaðurinn og tilkynnti að Geir Haarde væri kominn á sjúkrahús. Það var ljóst hvað plagaði hann, því hann stundi þungan og spurði sjálfan sig æ ofan í æ: "Er þessi kreppa virkilega mér að kenna?"

Ingibjörg Sólrún fór líka á sjúkrahús. Fréttamaðurinn spurði hana hvernig hún hefði það: "Bara ágætt," svaraði hún hin rólegasta. Þá spurði fréttamaðurinn hvað hún væri að gera. "Bara leggja mig og tjilla," svaraði hún pollróleg.

- - - 

Áhorfendur voru að veikjast úr hlátri og þótt leikendum þætti það í sjálfu sér ágætt, þá átti þetta nú ekki að vera neitt gamanleikrit. Margrét hvessti á okkur augun og sagði: "Svona eruð þið þegar þið eruð að tala um kreppuna!", en við héldum bara áfram að hlæja, gjörsamlega samviskulaus.

 


Bjargráð eða bráðræði?

Pistill í Mbl. 12/2

 

Stundum er freistandi að grípa til snöggsoðinna lausna til að leysa vanda. En ef vandinn er langtímavandi þarf eitthvað annað en skammtímalausnir, sem geta komið manni í koll svo um munar síðar meir.

Nú ætla menn að freistast til að aflétta þeirri helgi, sem hvílt hefur á séreignarsparnaði landsmanna. Þessu fé, sem margir hafa kosið að leggja til hliðar, til að tryggja hag sinn betur en hægt er að gera með greiðslum í hefðbundna sameignarsjóði.

Auðvitað hafa margir getað lagt fé í séreignarsjóði vegna þess að þeir hafa haft góð laun. En því fer fjarri að séreignarsparnaður sé aðeins leið vel stæðra til að tryggja hag sinn í ellinni. Fjölmargir hafa kosið að leggja eitthvað til hliðar á þennan hátt. Þessir peningar voru öruggir, þá var aðeins hægt að nálgast þegar ákveðnum aldri var náð, ef fólk lifði ekki svo lengi gekk inneignin í arf og ef fólk varð gjaldþrota stóð þetta fé þó alltaf eftir. Þannig voru reglurnar, þegar til sparnaðarins var stofnað.

Núna eru fjölmargir að lenda í greiðsluerfiðleikum, enda allar forsendur brostnar fyrir fjárfestingum síðustu ára. Og þá líta menn til séreignarsparnaðarins. Núna er freistandi að nota hann til að létta á tímabundnu erfiðleikunum. Ýmsar hugmyndir heyrast, t.d. að sparnaðinn mætti nota til að lækka höfuðstól skulda vegna íbúðarkaupa, sem í mörgum tilvikum myndi aðeins lækka greiðslubyrði lítillega og ekki gagnast þeim sem eiga í erfiðleikum vegna annarra skulda. Eða að allir ættu að geta tekið þetta út, óháð því af hverju erfiðleikarnir stafa.

En hvað verður um sjóðina? Hvað verður um sparnaðinn minn, ef margir taka út sína peninga og sjóðurinn stenst ekki álagið? Hvaða samningsstöðu verða þeir í, sem ákveða að þrauka og hafa þennan sparnað óhreyfðan, en reyna að semja við bankann sinn um aðrar skuldir? Er ekki líklegt að bankinn hvetji þá til að taka sparnaðinn út? Setji það jafnvel sem skilyrði fyrir skuldbreytingu? Núna er ekki hægt að hreyfa við þessum peningum, jafnvel við gjaldþrot, en þrýstingur frá lánardrottnum gæti jafngilt því að þessi inneign væri aðfararhæf.

Einhverjir gætu tekið þessa peninga út núna, en haft alla burði til að bæta sér þann missi upp á næstu árum. Hvað með þá sem ekki ná því?

Ég hef áhyggjur af þessu. Ég hef áhyggjur af að þingmenn einblíni á hver leggi fram hvaða frumvarp um séreignarsparnaðinn okkar og gleymi að gæta að raunverulegu innihaldi frumvarpanna. Ég hef áhyggjur af þeim, sem taka sparnaðinn út, en komast samt ekki hjá gjaldþroti og eru þá búnir að þurrausa þann sjóð, sem annars hefði létt undir með þeim í ellinni. Ég hef áhyggjur af þeim sem ekki taka sparnaðinn út, en sitja uppi með hann í ónýtum sjóðum, af því að margir aðrir tóku sína fjármuni út. En mestar áhyggjur hef ég þó af þeirri tilhneigingu að breyta reglunum eftir á.


Caine, Michael Caine

Þetta er á mbl.is:

Leikarinn Michael Caine, sem er 75 ára, segist aldrei hafa freistast til þess að halda framhjá eiginkonunni. Caine hefur leikið með mörgum fögrum leikkonun, svo sem Scarlett Johansson, Kate Winslet, Sigourney Weaver, Demi Moore og Sandra Bullock.

Við göngum að sjálfsögðu út frá því að þessar konur hefðu ólmar viljað sofa hjá Michael Caine, hefði það staðið til boða.

 


Skyr í sparifötum

Þegar ég kom heim úr vinnunni vildu systur og Tara ólmar prófa uppskrift að Skyri í sparifötunum, rétti sem Margrét og Tara höfðu lært að gera í skólanum. Elísabet var í heimilisfræði fyrir jól og mundi að þetta hafði verið ákaflega gott.

Ég skutlaði þeim út í búð, en þær fóru sjálfar inn. Það var afskaplega stór stund. Eftir allnokkra bið sá ég þær koma skoppandi út aftur, með 3 litlar skyrdósir og tvo banana í poka. Þær höfðu fundið þetta alveg sjálfar og borgað alveg sjálfar.

"Það var mjög góð kona í búðinni" sagði Elísabet. Sem hafði auðvitað ákveðið að segja konunni það. "Sko, ég sagði, Þú ert mjög góð kona. Svo breytti ég og sagði: Eða mjög góð stelpa, af því að hún var eiginlega ekki nógu gömul til að vera kona."

Konan eða stelpan hafði þá á orði að þær væru litlar og skemmtilegar. "Þá sagði ég að við værum nú ekkert SVO litlar, Tara væri orðin 8 ára og við værum 7," sagði Margrét.

Margrét var með 500 króna seðil, Tara með 300 í mynt og Elísabet með 300 í mynt. Auðvitað vissum við Kata að þetta var allt of mikið, en þær hreinlega urðu að fara allar með peninga á sér, annars hefði búðarferðin verið hálfgert svindl.

Við fórum heim og þær skáru niður epli og banana og blönduðu saman við skyrið, smá mjólk, dálítill púðursykur, hálf teskeið af vanilludropum og þá var skyrrétturinn þeirra tilbúinn. Og var borðaður upp til agna.

Jón Otti Törupabbi hringdi þegar þær voru enn að búa þetta til. Ég sagði honum að hann fengi Töruna ekki heim fyrr en undir háttatíma, hún væri upptekin við matseld. Hann skildi það mjög vel.


Býflugnabú

Systur sátu og spjölluðu á þriðjudagskvöldi. Þær voru aðallega að ræða samskipti í skólanum, hvort einhver væri einhvern tímann leiðinlegur við einhverja, hvað það þýddi að skilja útundan o.s.frv.

Margrét lýsti samskiptum við eina skólasystur sína, sem henni finnst helst til dramatísk.

"Ég sagði bara við hana og var pínulítið grimm í röddinni, að hún gerði bara býflugu úr úlfaldanum!"

Og hana nú!


Framboð?

 

Innlent | mbl.is | 2.2.2009 | 16:55

Hanna Katrín íhugar framboð í Reykjavík

Hanna Katrín Friðriksson íhugar að bjóða sig fram í eitt efstu sætanna
á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í komandi þingkosningum. Hanna Katrín staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið og sagðist taka ákvörðun á allra næstu dögum.

Hanna Katrín hefur verið aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, frá sumri 2007. Hún hefur starfað m.a. sem framkvæmdastjóri Háskólans í Reykjavík, sem framkvæmdastjóri stjórnunar- og samskiptasviðs Eimskips og var blaðamaður á Morgunblaðinu um árabil.

Hanna Katrín, sem er 44 ára gömul, er með BA próf í heimspeki og hagfræði frá Háskóla Íslands og MBA próf frá University of California, Davis. Hún hefur undanfarið leitt verkhóp Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins um lýðrétti og jafnrétti.

 - - - - - -

Áhugaverðir tímar Wink


Hnífar, skæri og eldfæri

Pistill í Mbl 28. janúar

Hnífar og skæri eru ekki barna meðfæri, sögðu foreldrar mínir gjarnan ef við systkinin ætluðum að fikta með slíka gripi, stórhættulega börnum. Þau gættu þess að lítil kríli næðu ekki í slík skaðræðistól. Það var á þeirra ábyrgð á meðan við vorum óvitar. Og við lærðum snemma að forðast að meiða okkur og aðra. Þannig voru reglurnar.

Og rétt eins og á flestum öðrum heimilum var brýnt fyrir okkur börnunum, að ekki mætti fikta með eld. Við vorum auðvitað enn á barnsaldri þegar við gerðum okkur grein fyrir, að fikt með eld gat þýtt að heimilið brynni til grunna. Við hlýddum þessum umvöndunum, enda kærðum við okkur ekkert um að heimilið okkar yrði rjúkandi rústir.

Hefðum við systkinin laumast í hnífa og skæri við hvert tækifæri, eða hnuplað eldspýtum og fiktað með þær inni í herbergi, þá hefði líklega farið illa. Og ég veit alveg hver viðbrögð foreldra okkar hefðu verið. Þau hefðu kennt sér um. Þau hefðu átt að gæta þessara hluta betur, þau hefðu átt að vanda um við okkur, þau brugðust eftirlitshlutverki sínu. Þau voru fullorðin og við vorum börn. Óvitar.

En við komumst á legg, stórslysalaust. Og um leið og við urðum fullorðin lauk eftirlitshlutverki foreldranna. Við fluttum að heiman og það var ekki lengur á þeirra ábyrgð hvernig við fórum með hnífa og skæri, eða hvort við fiktuðum með eld á eigin heimilum. Okkar hlutverk varð að bera ábyrgð á okkur sjálfum og barnabörnunum og kenna þeim þær reglur sem foreldrar okkar höfðu brýnt fyrir okkur.

Ef við, fullorðin systkinin, hefðum skaðað annað fólk viljandi með eggvopnum eða borið eld að húsum og þannig sýnt einbeittan brotavilja eins og lögreglan myndi kalla það, þá væru þau brot ekki á ábyrgð foreldranna.

Hið sama gildir um einbeittan brotavilja þeirra sem báru eld að undirstöðum samfélagsins og stungu út úr öllum sjóðum og helst þeim sem þeir áttu ekkert í sjálfir. Þeir eru brotlegir og þeirra er ábyrgðin.

Auðvitað veljum við stjórnmálamenn, af því að við viljum að þeir setji samfélaginu leikreglur og fylgi þeim eftir. Flestir eru sammála um, að eftirlitið brást. Löggjafinn setti reglur, en þeim virðist stundum hafa verið slælega framfylgt. Þá ábyrgð hljóta stjórnmálamenn að þurfa að axla.

En almenningur virðist hafa gleymt hvar ábyrgðin liggur fyrst og fremst. Hún liggur hjá sjálfráða einstaklingum, sem sýndu einbeittan brotavilja. Þeir þóttust fara eftir reglunum, en settu á svið svikamyllu, þar sem ekkert var eins og það sýndist. Viðskipti voru sýndarviðskipti, sjóðir landsmanna voru notaðir sem skiptimynt til að halda uppi gengi á hlutabréfum manna, sem lögðu ýmislegt á sig til að sýna fallega framhlið eignarhaldsfélaganna sinna. Þeirra er ábyrgðin fyrst og fremst. Það er þeim að kenna hve margir liggja sárir eftir og að heimilin eru rjúkandi rústir.


Framtíðarstarf

Systur eru í ágætu formi þessa dagana. Þær misnota sér aðstæður til hins ítrasta: Samkomulag um að vera ekki með neitt krepputal á heimilinu verður þeim sífellt tilefni til að hasta á okkur Kötu. Ef þeim finnst umræðuefnið óspennandi, þá tilkynna þær einfaldlega, að þetta sé krepputal og biðja okkur vinsamlegast að hætta. "En þetta er ekki krepputal, við erum bara að tala um fréttirnar og pólitík" reynum við að malda í móinn. "Það er krepputal" er svarið. Og auðvitað er það hárrétt.

Kreppan í pólitíkinni náði á heimilið í dag, því starf aðstoðarmanns heilbrigðisráðherra gufaði upp um hádegisbil. Systur höfðu áhyggjur af mömmu sinni, en voru undrafljótar að ná sér. Þær sjá nefnilega fram á að hún geti valið úr stórskemmtilegum störfum.

"Kannski getur hún unnið á McDonald's og þá getum við alltaf farið til hennar og fengið að borða," sagði Margrét og var dreymin á svip.

Elísabetu fannst ennþá stórkostlegra ef mamma hennar fengi vinnu í Húsdýragarðinum. Eða keyrði ísbíl. Eða færi að vinna í Fossvogsskóla.

Margréti datt allt í einu í hug að best af öllu væri að fá "sumarstarf". Ég spurði hana hvað hún ætti við með því. "Þú veist, sumarstarf, þá er alltaf sól. Hún getur kannski fengið vinnu í Disneyland og við verið með henni!"

Þessar systur hafa aldrei komið í Disneyland, en það skortir ekkert upp á ambisjónir fyrir hönd móðurinnar. Það er næsta víst að ekkert starf kemst í hálfkvisti við uppástungur systra.

Eftir töluvert spjall varð Elísabet óróleg. "Er þetta ekki krepputal?" spurði hún, en svaraði svo sjálfri sér, að maður yrði nú að tala um það þegar mamma manns missti vinnuna. 

Sjálf er mamman sallaróleg og hlustar áhugasöm á allar tillögur.


Lífrán

Elísabet heyrði upphaf kvöldfrétta. Frásagnir frá Palestínu gerðu hana að vonum óttaslegna. Og hún fór að spyrja út í hið vonda. Og spurði svo: "Eru lífþjófar á Íslandi?"

Ég vissi ekki hvað hún átti við, en þá útskýrði hún að hún hefði verið að meina fólk sem drepur annað fólk. Morðingja, sem sagt. Eða "lífræningja."

Mér fannst orðsmíðin brilljant og var enn að dást að þessu í huganum þegar Elísabet útskýrði málin nánar fyrir Kötu. Þá kom í ljós, að þótt hún hefði talað um fólk sem dræpi annað fólk, þá meinti hún "mannræningja."

"Lífþjófur" getur verið ágætis heiti á svoleiðis fólk líka.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Logalandið

Höfundur

Ragnhildur Sverrisdóttir
Ragnhildur Sverrisdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...5558_132_lg
  • M á Sigló
  • E á Sigló
  • sigur á 8 ára afmæli
  • systur í afmælisbrunch

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband